31. desember 2004


Já árinu að ljúka og nýtt að hefjast. Af því tilefni langar mig að leggja til að dagsetning áramóta verði í framtíðinni miðuð við sumardaginn fyrsta! Þá eru einhvern veginn miklu meiri tímamót og bjartari tíð með blóm í haga framundan :) Svo er líka ómögulegt að ætla að setja sér einhver heilsuvænleg áramótaheit þegar myrkrið og stormarnir ráða ríkjum. Þá vill maður bara setja sér það heit að kúra inni hjá sér og borða mikið af góðum og óhollum mat og eyða kvöldunum með köllunum sínum. Amen.
Mosfellskt fjölskylduvænt áramótateiti í kvöld og það kemur til með að líta nokkurn veginn svona út samkvæmt partíhaldaranum:

Dagskrá

18:30 - Fólk mætir - Fordrykkur
19:00 20:00- Borðhald hefst
20:00-22:25 - Annálar, partýleikir og annað sem fólki dettur í hug. Guðmundur Páll Ólafsson hefur tækifæri á að æfa eins og eitt lag á nýja gítarinn fyrir kvöldið og tekur kannski lagið af nýju sólóplötunni sinni, Pípandi ást.
22:25-23:19 - Áramótaskaupið
23:19-23:55 Upphitun og uppröðun flugelda. Aðeins tekið í Singstar - Kariókí og partýleiki, Ljóðalestur úr bókinni Lendur Elskhugans eftir Vigdísi Grímsdóttur
00:00 Flugeldaveisla
Eftirpartý


Þetta ætti að geta orðið alveg sérdeilis ágætur mannfagnaður og svei mér þá ef maður leggur ekki til Popppunkts-spilið í skemmtiatriðaflokkinn. Það er jú með eindæmum hressandi spil og um að gera að nýta tækifærið og fá einhvern til að spila við sig þar sem Píp er jú eitthvað tregur til þess eftir að ég hringaði hann hérna um daginn. Eða svo gott sem.

Góða skemmtun í kvöld fólk og gangið hægt um gleðinnar dyr.


30. desember 2004


Hví skyldi maður brenna peninga þegar þörfin fyrir þá er þetta mikil annarsstaðar? Valið er ekki erfitt af minni hálfu.

27. desember 2004

26. desember 2004


Er þetta nýja Birgittu dúkkan???



Nibbs, þetta er Viddi Toystorzky.

25. desember 2004


Gleðileg jól kæru ættingjar, vinir, nærsveitungar og allir lesendur nær og fjær. Aðfangadagskvöld var dásamlegt sem endra nær og maturinn frábær og gjafirnar líka. Litli píp hefur eignast bróður sem hann skilur ekki við sig eina mínútu og það mun vera Viddi úr Toy Story, upptrekkt tuskudýr sem spjallar við hann og leikur. Hinn Píp fékk Fender frá okkur hér á Hvarsemer og verður örugglega farinn að gaula "ÓlafíahvarerVigga" af fullum krafti á nýja árinu. Nánar um jólagjafir og jólaát síðar.

Okkur var að berast rétt í þessu glæný gervihnattamynd tekin úr gervihnettinum Jónas sem staddur er yfir Kanada, nánar tiltekið yfir Klettafjöllunum og Jasper þar sem einmitt Tobba og Gaui eru að renna sér þessa stundina og ef vel er að gáð má sjá að þetta eru þau á fleygiferð niður brekkurnar.



Jæja borða meira... Blóðsykurinn að falla!

P.s. Píp gaf mér Mugison en engan Popppunkt. Sem er vísindaleg sönnun þess að hann heyrir ekki nema helminginn af því sem ég segi...

21. desember 2004


Jólin stefna í að verða á áætlun þetta árið, þ.e. þau skunda í garð klukkan 18.00 á föstudaginn næsta (24. des). Seinkun telst ólíkleg en þó alltaf möguleg. Allt of mikið að gera í höfuðstöðvum hvarsemer þessa dagana til að sitja við tölvuna og pikka eitthvað bull á lyklaborðið en hvarsemer er semsé á góðu lífi og enn meira hvarsemer en nokkru sinni. Litli píp farsællega orðinn fjögurra ára og jólagjöf hins píp komin í hús. Kortin á sveimi um allt land og pakkarnir að skríða saman. Líka búið að koma út í vinnunni á fimmta hundrað jólakorta og á þriðja tug jólagjafa.

Er þá nokkuð annað að gera en að hlusta á BAGGALÚTS-JÓLALAGIÐ sem er loksins komið og fá sér jólaöl og vonast til að Trölli skili jólasnjónum?

17. desember 2004


Hjálmatónleikar á laugardaginn var, hjálmatónleikar í gær, hjálmar í bílnum, hjálmar í sturtunni, hjálmar oná brauð. Fæ ekki nóg!
Fyrir forvitna og þá sem ekki muna, sjá einnig færslu 22.09.2004.

13. desember 2004


Er ekki alveg kominn tími á að Birgitta, Mugison, Jónsi, Helgi Pé, Eivör, Mínus, Kalli Bjarni, Robertínó og fleiri hressir endurgeri "Hjálpum þeim"?

11. desember 2004


nonsense

You're Mr. Nonsense! :P

Það er yfirþyrmandi ánægja að fá að vera hver þeirra sem manni hlotnast sá heiður að vera!

Hver öðrum meira af snillingum kominn!



Mér langaði að vera þessi og mér hlakkar til jólanna! Amen! Þér varðar ekkert um hvað mér finnst, ég er greindur þágufallssýkissjúklingur! Barrrbarabúss...gorrrbatsjof...

Svo var ég líka á jólaglöggi...

5. desember 2004


Jólahefðir réðu ríkjum í dag þar sem pípfamilían - sá hluti sem ekki hefur flúið land - hittist og skar út laufabrauð og tróð sig út af lafskás! Já þjóðþekktur jólasiður það, þó laufabrauð kunni að hljóma framandi. Lapskas þekkja allir, skárra væri það nú. Nei nei, nú er einhver farinn að hvá... hvað er þetta laf...? Jú góð spurning... lafskás eða lapskaus eða lapschkaus eða lapzkaz eða hvernig sem þetta ágæta orð er skrifað, er að upplagi fyrirtaks fangelsiskjötkássa með kartöflustöppu. Já finnið þið hvernig bragðkirtlarnir taka kipp? Veit minnst um hvaðan þessi réttur er upprunnin en hann gæti þó verið suðurlands-undirlenskur af stórbýlinu Litla-Hrauni eða jafnvel ef við förum út fyrir landssteinana, kominn frá Borgundarhólmi.
Allavega er þetta mjög merkilegur réttur sem alla fjölskylduna dreymir um í heila 12 mánuði og snæðir svo, eða treður í andlitið á sér réttara sagt, í desember ár hvert þegar hún hefur lokið við að skera út laufabrauðskökur í tugatali. Sló réttinum upp á netinu áðan til að í fyrsta lagi finna út hvað hann heitir rétturinn og þegar ég sló inn lapskas fékk ég upp þetta nafn "söxuð kjötstappa". Merkilegt nafn þar sem ég mundi halda að það sem er annars vegar saxað og hins vegar stappað hljóti hreinlega að teljast til mauks. Kjötmauk einhverskonar. Eða bara kássa! Fann meira að segja uppskrift þannig að áhugasamir geta farið að prófa sig áfram, en ég skal lofa ykkur því að það tekur heila mannsævi að ná samanlagðri snilld þeirra píp-formæðra, Eybu og Steinunnar.

2. desember 2004


Vissi að von væri á ammælispakka frá Toggu hinni Ammrísku til Lil'pip með hraðflugpóstimeðvængiogallt, en svo óheppilega vildi til að ég var ekki heima þegar FedEx kallarnir komu skransandi á ljóshraða að heimili mínu. Þeir skildu eftir háfleygan miða í póstkassanum mínum með skilaboðum um að hafa samband í hvelli við FedEx - strax! og þeir mundu koma pakkanum til mín í einum logandi grænum. Hringdi að sjálfsögðu á slaginu 9 í morgun og bað um að fá pakkann til mín í vinnuna! Ekki málið sendum hann þangað á stundinni og ekki mínútu síðar! Klukkutíma síðar opnast hurðin í vinnunni hjá mér og inn koma tveir menn með kassa á stærð við meðal baðherbergi á milli sín. Man að ég hugsaði - er Togga alveg búin að tapa sér?!?!?! Svo þegar ég ranka við mér aftur úr rotinu frétti ég að þetta var alls ekki Toggu pakki sem fyllti upp í móttökuna á L182 heldur nýr sófi á vinnustaðinn. Hjúkk... Togga er ennþá með fullu viti... (alls ekki sjálfgefið sko)

P.s. Rétti pakkinn kom svo nokkrum mínútum síðar og vá hvað sá og innihald hans eiga eftir að vekja mikla kátínu hjá ungum manni :)

1. desember 2004


Samkvæmt þessu er póstþjónustan í Kanada alls ekki að standa sig í stykkinu og tekur víst ógnartíma í að koma sendingum til skila og ekki þykir póstapparatið í BNA standa sig skár, en pósturinn í Þýskalandi hlýtur að eiga vinninginn. Hann stendur sig hreint út sagt afleitlega!! :/

29. nóvember 2004


Yfirþyrmandi spenna ríkir nú í höfuðstöðvum hvarsemer þar sem von er á í þessari viku "Jólalagi Baggalúts 2004"! Yfir angurværum tónsmíðum Baggalúts ríkir einhver æðri himnesk og friðsæl ró eins og (jóla)glögglega má heyra á meistaraverki síðasta árs. Vonandi er að þeir haldi líka úti jóladagatali eins og í fyrra og þess utan sitja væntanlega höfuðpaurar Baggalúts núna sveittir og rýna inn í framtíðina og útbúa eitt stykki völuspá fyrir árið 2005 en eins og allir hafa tekið eftir hefur spáin fyrir árið 2004 fyllilega gengið eftir fyrir utan að Kristján Jóhannsson hefur ekki ennþá sprungið í loft upp - en við skulum hafa það í huga að það er bara nóvember ennþá... engin ástæða til að örvænta.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að þetta kvikindi á ekkert skylt við þennan snilling nema ef vera skyldi krúttleg eyrun!

27. nóvember 2004


Tvíburaveislan var alveg konungleg eins og við var að búast. Hógvær loforð þeirra um skemmtiatriði og veitingar á heimsmælikvarða stóðust fyllilega og meðal annars tróðu þeir sjálfir upp og fluttu nokkra tvíburaslagara, svo sem "I'm Gonna Be (500 Miles)" upprunalega flutt af tvíbbunum í The Proclaimers og "Tragidy" eftir Bee gees (Robin og Maurice voru tvíburar). Svo að sjálfsögðu fluttu þeir nokkra tvíburaslagara eftir hljómsveitina Suð (sem þeir eru jú meðlimir í).



Varð margs vísari í veislunni, veit núna til dæmis hvað manneskjan heitir sem tekur á móti mér á viðeigandi stofnun þegar ég fer yfir um af fyrirhátíðarspennu! Mjög mikilvægar og gagnlegar upplýsingar þar á ferð. Einnig þótti mér stórmerkilegt að það eru ekki bara tvíburar sem hugsa eins og eru oft eins og skugginn af hvorum öðrum, heldur makar tvíbura líka! Þetta er verðugt rannsóknarefni - að kvenmenn sem hafa átt samrýmda tvíbura fyrir maka í nokkuð langan tíma mæti í eins kjól í afmælið þeirra! Algjörlega óafvitandi. Athyglisvert...

25. nóvember 2004


Þar sem nú er tæpur mánuður til jóla hef ég ákveðið að fara formlega í jólaskap (og hættessari afneitun)! Rökin fyrir því eru:
Fyrir það fyrsta - dimmt úti 17 tíma á sólarhring - veitir ekki af birtu og yl í tilveruna!
Í annan stað - ef maður ætti að fara í jólaskap 3 vikum fyrir jól væri maður bara að auðvelda stressinu að grípa sig heljartökum!
Maður þarf að senda pakka til útlanda og skrifa á fjórða tug jólakorta og kaupa jólagjafir og halda svo þar að auki upp á afmæli einkasonarins korteri fyrir jól. Það er einhver sá best heppnaði grikkur sem sonurinn hefur gert móður sinni að hafa komið í heiminn á þessum tíma þar sem móðirin á tiltölulega auðvelt með framleiða og byggja upp stress í sjálfri sér. Hún átti alveg nóg með bara jólin áður sko...
Þannig að nú ætla ég að fara að huga alvarlega að jólunum og reyna að njóta aðventunnar sem hefst jú á sunnudaginn. Er búin að velja jólakortamyndina og kíkti aðeins í Blómaval í dag til að skoða jóladótið og kertin og fjölæru plönturnar og vínviðinn og páfagaukana....
Jæja nenni ekki að skrifa meira stressblaður upp úr sjálfri mér þannig að hér koma nokkrar tillögur að streituminni jólum fyrir hvarsemer:

- Sonurinn átti samkvæmt nútímatæknimaskínu að fæðast 9. des og við skulum bara halda okkur við þá dagsetningu! Maskínan fór að vísu með fleipur en á tæknina á samt að vera hægt að treysta og hananú!

- Ættingjar og vinir vestanhafs ættu að taka sig til og flytja austanhafs, nánar tiltekið til Rússlands þar sem Rússneska orþódox eða rétttrúnaðarkirkjan heldur ekki jól fyrr en 6. janúar! Enginn að stressa sig á þeim bænum og þá væri maður ekkert undir neinni pressu að senda pakkana fyrr en.... ja á annan í jólum eða eitthvað!

- Geyma það í eitt ár í viðbót að kaupa nýjan ofn til að viðgetumbaraekkibakaðneinarsmákökuríessumofniokkar-þulan eigi enn við rök að styðjast. Framboðið í verksmiðjubökuðum jólasmákökum eykst stöðugt! En gæðin samt kannski ekki í sama hlutfalli :/

Bubbi - jólaboðinn sjálfur - hélt útgáfutónleika í gær eins hann hefur gert fyrir hver jól síðan ég var þriggja ára eða um það bil. Sem væri svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir það að gestasöngvari hjá honum var krumpudýrið Bó Hall! Detta mér allar dauðar... Geri fastlega ráð fyrir að þeir hafi trallað saman "ég er löggiltur hálfviti, hlusta á HLH og Brimkló"!

20. nóvember 2004


Eitthvað hefur borið á því í tónlistarútgáfunni fyrir þessi jólin að myndirnar á albúmunum beinlínis valdi velgju og ónotum, svo sem sjá má hér:



Manni beinlínis sundlar og verkjar þegar sum þeirra ber fyrir augun og maður fer að undrast hvað liggi að baki þessari hönnun eiginlega. Hvort fólk sé að spara sér aurana og fá Jóa félaga (sem á svona nýmóðins stafræna myndavél!!!) til að taka af sér mynd og skella á albúmin:



Þvílíkt er andleysið og ósmekklegheitin á sumum geisladiskum þessa árs og nota bene; þetta eru aðeins 3 dæmi og þau eru sko mörg miklu verri og miklu ljótari skal ég segja ykkur (þó það sé erfitt að slá Helga Pé út, sem sjá má hér að ofan). Og það sorglega er að í öllum tilfellum er tónlistin álíka eða jafnvel meira pínleg en albúmin segja til um.



Skilst að DV hafi gert einhverja úttekt á bestu og verstu albúmunum í blaðinu í gær en einhverra hluta vegna fór það blað alveg framhjá mér, eins og það hefði nú verið feyki fjörug lesning.
Skemmtilegt að segja frá því í þessu samhengi að Píp er orðinn frekar leiður á sinni vinnu og þeirri kvöld- og helgarvinnu sem henni fylgir að hann hefur ákveðið að söðla um og hefja nýjan feril sem tónlistarmaður, enda hefur það ekki farið fram hjá neinum sem í hafa heyrt að þar fer fyrirtaks frábær söngvari! Hann hefur verið að dunda sér við að taka upp nokkur lög og ætlar á næstu vikum að leggjast í ferðalög og halda nokkra tónleika- svokölluð Píp-show - vítt og breitt um landið. Ætlaði nú ekki að uppljóstra leyndarmálinu alveg strax, enda fá allir vinir og ættingjar hljómdiskinn í jólagjöf, en gat svo ekki haldið aftur af mér lengur. Þetta er komið það langt að búið er að hanna fólskulega fallegt plötuhulstur og svona mun það líta út:

Smellið fyrir FLENNISTÓRA og prentvæna mynd :)

Já svona á að gera þetta! Þið getið smellt á myndina til að sjá stóra útgáfu og takið eftir einlægninni í augunum, hún er þvílík! (klökn). Lögin koma úr ýmsum áttum, bæði gömul og ný, og þar má nefna:

"Plummer's lonely heart",
"Neysluvatnsforhitarinn",
"Allt á floti alls staðar",
"Mitt hjarta kremst (þegar þú ferð)"
og slagarinn
"Water in my shoes".

Skiljanlegt er að fólk verði spennt núna, og ekkert annað að gera en að hafa augun og eyrun opin þegar nær dregur útgáfu (áætluð í lok des.)

16. nóvember 2004


GGAAARRRGGG! Er á HOLD hjá ágætu ógeðisfyrirtæki útí bæ og lagið sem spilað er mér til skemmtunar, eða á að vera mér skemmtun er "Jólahjól"! Þar að auki er jólasnjór dauðans að hrapa neðan úr loftinu fyrir utan gluggann! Veit fólk (og almættið) ekki að það er bara nóvember núna? Eða á ég að hætta þessari afneitun og sætta mig við að jólin verða komin og farin áður en maður veit af!

15. nóvember 2004


Við höfum öll heyrt um barnaland.is ekki satt? Þar er fullt af krílum sem maður þekkir með síðu, nærtækasta dæmið er Hr. Óli Bjarki sjálfur. Allt krúttlegt með það en alveg skellti ég uppúr þegar á rambi mínu um rangala alnetsins gekk ég fram á síðu með nákvæmlega sömu uppbyggingu og allt, sem heitir dýraland.is! Og þar eru öll helstu hefðardýr landsins með heimasíðu.
Nú finn ég fyrir geigvænlegri pressu þar sem mér finnst ég vera knúin til að halda úti síðu fyrir einhverfa, einmana, afskiptalausa og sísvanga varðköttinn hann Bjart sem maður hefur varla tekið eftir síðan 19. desember 2000. Áður fyrr voru öll myndaalbúm full af myndum af Bjarti: Bjartur í sófanum, Bjartur að borða pasta, Bjartur að kúra sig... o.s.frv. En eftir áðurnefndan desamberdag finnst varla nokkur mynd af kattarræksninu í albúminu og gott ef maður á ekki árið 2030 eftir að hugsa til baka... "já alveg rétt, við áttum kött þarna áður en ÓBG fæddist.. en hann hvarf sennilega á vit feðranna stuttu eftir að ÓBG fæddist... var það ekki annars... hvernig var hann aftur á litinn??..hmmmm". Æji ég held ég eyði samt tímanum sem færi í að föndra síðu fyrir hann í að leita að blessuðum kettinum og sjá hvort hann vanti ekki smá klapp og svona eitthvað. KISAKIS...
Hversu langt kemst hann?

Ég kom honum langleiðina heim til sín - alveg 56 metra - enda alvön því að halda jafnvægi á ójafnvægu og ósymmetrísku fólki í allskyns ástandi.

12. nóvember 2004




Smellið á borðann. Heyrði óvart (á stöðvaflakki) jólalag á einhverri útvarpsstöðinni í gær og á ekki eftir að bíða þess bætur og heimta bætur! Veit ekki hvað stöðin heitir en hún er á tíðninni FM 94,3! Útvarpsstöð djöf... eee... Grýlu!
Jammmjammmjammm... hvað á maður að gera þegar maður er í vinnunni, úti í bæ í sendiferð og það skellur á fruktansvert haglél einmitt þegar maður ætlar að hlaupa út úr bílnum og inn í eitthvert stofnanaapparatið? Nú, maður bíður bara eftir að haglinu sloti, teygir sig í nýja símann sinn og smellir af eins og einni mynd!

Mér þarf aldrei að leiðast framar! Aldrei dauður tími!


11. nóvember 2004


Veit ekki hversu lengi þetta verður aðgengilegt en hérna má kíkja á "lifandi" tónleika með Eivöru Pálsdóttur. Mæli með þeim.

9. nóvember 2004




Píp gaf mér nýjan gemsa! Nú er ég ekki lengur 4. eigandinn að afdönkuðum píparasímum heldur fékk ég mín eigins beint úr kassanum með myndavél og öllu. Þessi mynd hér að ofan er einmitt tekin á nýja símann. Erfiðleikum bundið að taka mynd af símanum sjálfum þannig að þá lá beinast við að taka mynd af því sem var fest á pakkann. Lítill álfur með köngul á hausnum.... betra að vera köngulhaus en þöngulhaus! HAHAHAHAHAHA Allir hlæja af því að ég á ammæli... ihihi

P.s. Fyrir ykkur sem viljið vita heitir síminn Nokia 6610i eða eins og píp orðaði það; sexhundruðsextíuogeinn-núll-i. Hann lítur svona út.
Finn það á mér að þetta verður sögulegur dagur, eins og níundu nóvemberar vilja oft vera. Skemmst er að minnast þegar Berlínarmúrinn féll þann 9. nóvember 1989 og eins munum við öll eftir Gúttóslagnum 9. nóvember 1932! Það voru nú meiri lætin! Hefði ekki haft hugmynd um atburðinn sem slíkan ef ekki hefði á mínum æskuárum verið til bók á heimilinu sem einmitt bar nafnið "Gúttóslagurinn 9. nóvember 1932"! Ekkert vera að spyrja mig samt nánar út í þann atburð... Talandi um Berlínarmúrsfallið, var stödd í Berlín 5 árum seinna - sumarið 1994 og varð að sjálfsögðu að kaupa brot úr múrnum þó ekki væri nema vegna tengingar og tilfinningabanda okkar múrsins, man nákvæmlega hvar ég var á 12 ára afmælisdaginn þegar ég heyrði að múrinn væri fallinn og ber sterkar taugar til hans síðan þó full seint sé. Allavega, ég keypti þetta brot í plastboxi á nokkur mörk og utan á því stóð "9. nóvember 1989" og mynd af múrnum í boxinu með brotið sjálft í forgrunni. Alveg er ég nú samt viss um að ef öll brotin yrðu sett saman sem hafa verið seld sem brot úr Berlínarmúrnum mundi sá múr, eða öllu heldur veggur, hlykkjast í nokkra hringi í kringum hnöttinn og Kínamúrinn mundi blikkna í samanburðinum. Já heir á endemi!

Nú er ég komin allverulega út fyrir það sem ég byrjaði að tala um í upphafi, þ.e.a.s. að níundi nóvemberinn í dag yrði sögulegur! Jæja, best að setja sig í spámannsstellingarnar og hefja ræðuna:

Fyrir það fyrsta: Borgarstjóra Reykjavíkur verður sagt upp störfum - örugglega í fyrsta skipti í sögunni. Þekki samt sögu borgarinnar ekki það vel að ég þori að hengja mig upp á það. Ætli Siggi G. taki ekki við og verði "svalur borgarstjóri í svalri borg"...!

Í öðru lagi: Arafat á eftir að gefa upp öndina, saddur lífdaga. Búinn að lifa af einhverjar 13 morðtilraunir - bara frá Ísraelum! Gæti haldið að þeim væri illa við hann. Í kjölfarið á eftir að hefjast langt og strembið tímabil í Palestínu og örugglega ekki ró á þeim bænum fyrr en.... aldrei eða þar um bil.

Í þriðja lagi: Dópkallar sem flökkuðu með útlending austur á firði og misstu hann í höfnina og voru svo óheppnir að vera búnir að stinga á hann göt þannig að hann flaut ekki upp aftur verða dæmdir í dag fyrir einhvern fjárann og verða á forsíðu DV í nokkra daga í framhaldinu.

Veit ekkert hvað af þessu gerist eða í hvaða formi en afskaplega sögulegur dagur þetta engu að síður. Ekki á hverjum degi sem maður nær 27 ára aldrinum! Eins gott að ég er ekki rokkstjarna, þá væri þetta kannski síðasti afmælisdagurinn! Morrison, Joplin, Hendrix og Cobain voru öll 27 ára þegar þau kvöddu þennan heim! Eða kannski frekar, eins gott að mér hefur tekist að láta dópið vera... rokkið drepur svo sem engan.

Fyrsta mailið sem beið mín í vinnunni í morgun var frá dining.is og supjectið var: Nýr afmælismatseðill á Argentínu! Ef þetta er ekki hint þá veit ég ekki hvað. Ha píp! Ef maður má einhvern tímann gera vel við sig þá er það á ammælisdaginn sinn! Ekki satt?
Nú er runninn upp hinn eini sanni næn-íleven, sem útleggst einnig níundi ellefti eða bara 9/11. Og þá á aðalritari, stjórnarformaður og yfirræstingastjóri hvarsemer afmæli! Eins og sjá má á ammælisdagateljaranum hér fyrir neðan hægra megin er hann um það bil að fara á límingunum af kátínu en því miður er hann búinn að fagna í nokkra klukkutíma nú þegar, sem er nú alveg til að eyðileggja fyrir manni síðasta daginn sem 26 ára, því eins og máltækið segir: maður er ekki 27 fyrr en maður er 27 og ekki mínútunni fyrr! En nóg um það, ég ætla í minni sjálfhverfu að óska sjálfri mér til hamingju með afmælið og njóti ég vel! Ætla að múta samstarfsfólki mínu með ostum, kexi og vínberjum til að vera gott við mig og ykkur netverjum með hamingjusömu lyklaborði!

Afmælisbarn dagsins: Veraldlegar nautnir höfða svo sannarlega til þín. Það er í góðu lagi. Þú kannt að njóta augnabliksins og fólk laðast stundum sterklega að þér fyrir vikið. Þú veist hvernig maður á að lyfta sér upp og vilt gjarnan vera úti á ystu nöf og uppgötva eitthvað nýtt.

Mogginn lýgur aldrei!

3. nóvember 2004




einmitt......
Þetta er svindl! Einhverjir suð-skandinavar verða meira varir við þetta blessaða eldgos heldur en ég búandi upp á Íslandi í næsta húsi við gosið svona í alheimslegum skilningi. Það væri nú ekki amalegt að sitja hérna í glerhöllinni sinni og kíkja upp annað slagið og fylgjast með gosinu í allri sinni dýrð og velta því aðeins fyrir sér hvernig gosið hegðar sér þá og þá stundina... vindáttin eitthvað að breytast já já sei sei.., og rugga sér spekingslega í stólnum... En nei sitja þá ekki bara einhverjir mölbúar á Skáni í góðum fíling og fá gosið beint í æð. Allavega meira en ég virðist fá af því...

Þetta er samt meira svindl!

Skulum bara bíða og sjá...

2. nóvember 2004


Hvaða húmoristar eru þetta sem eru að skipuleggja kosningavökur frá forsetakosningunum í B.N.A í sjónvarpinu í nótt. Veit þetta fólk ekki að síðast tók fjórar vikur að fá úr því skorið hvor þeirra Gög eða Gokke hefði unnið kosningarnar! Og þó að Gög hafi unnið varð Gokke forseti! Og í þetta skiptið á eftir að taka minnst átta vikur að fá niðurstöðu, strax búið að týna atkvæðaseðlum í tugþúsundatali (óútfylltum að vísu) auk þess sem sem allir lögfræðingar í Ameríku virðast vera í startholunum og reiðubúnir til að kæra allt sem kosningunum viðkemur, allt frá hönnun kjörklefa til veðurspár á kjördag. Það er nú svolítil hætta á að þeir sem ætla sér að horfa á "kosningavökuna" verði orðnir eitthvað vansvefta þegar líða tekur á desember...
Pabbi hvarsemer, einnig þekktur sem faðir allsherjar á afmæli í dag! Karlinn er 48 ára í dag og við hjá hvarsemer viljum óska honum innilega til hamingju með daginn. Án hans værum við ekki hvarsemer heldur bara sumsstaðar!

31. október 2004

30. október 2004


Þetta er maðurinn sem var ábyrgur - eða allavega gerður ábyrgur - fyrir bungunni aftan á jakka Bússa presidenta um daginn. Það er ekki furða að þessi bunga hafi farið fram hjá honum þar sem bungan var fyrir það fyrsta staðsett langt fyrir ofan hans sjónsvæði. Við höfum ekki fengið spurnir af því hvort Bússi hafi skipt um klæðskera svona á síðustu metrunum, en ef svo er þá þarf klæðskerinn ekki að hafa nokkrar áhyggjur af atvinnuleysi á næstunni þar sem nú fer einmitt í hönd háannatími fyrir aðstoðarmenn Jólasveinsins! Svo sem ekki mikill munur á að vera klæðskeri #%&lvaðs jólasveins eða að vera aðstoðarmaður Jólasveinsins. Mun meiri virðingarstaða þó að vinna með þessum á Norðurpólnum.

29. október 2004


SimmiogJói voru fyndnir í kvöld! Ja og þó, skulum ekki alveg missa okkur í lofi... Það kom þarna eitt atriði sem var hreinlega drep! Þeir voru ótrúlega lítið pínlegir í þessu ákveðna atriði og hvarsemer átti í mestu erfiðleikum með að hemja sig. Þetta var atriðið þar sem þeir létu sem hljóð og mynd pössuðu ekki saman og á endanum brast ek í hlátr. Hefði ekki trúað því að óreyndu að maður ætti eftir að hlæja hjartanlega og innilega að þeim, en þetta gátu þeir. Húrra fyrir því! NAAAMIIBÍÍAA
Þeir sem voru með missed call frá mér í símanum sínum í gær misstu af frírri bíóferð í félagsskap undirritaðrar! Myndin sem var í boði heitir Ladder 49 og var alfarið skrifuð, leikstýrð, styrkt og framleidd af slökkviliðsmálaráðuneyti Bandaríkja Norður-Ameríku. Við skulum bara segja að poppið stendur alltaf fyrir sínu...

26. október 2004


Mikið væri gaman ef fólk færi nú að heimsækja gestabókina mína í umvörpum og og rita jafnvel lítilræði eða heilræði í hana ef því sýndist sem svo. Ekki sniðugt að á hennar hálfs árs líftíma hafi einungis fimm hræður tjáð sig á rúðustrikuðum síðum hennar. Ef þér eigið í vandkvæðum með að finna gestabókina, þá er hún fyrir neðan bloggaratenglalistann og þér smellið á mynd af lítilli ákveðinni bók með álfaeyru hvar hjá stendur ritað: "Párið í gestabók vora og yður mun verða langra lífdaga auðið"!

Frétt daxins: Einn álitlegasti, eftirsóttasti og best klæddi piparsveinn Breiðholthverfis vestra er genginn út. Siggeir sjálfur er búinn að hrekja eða hnekkja - segjum bara hneggja - eigin kenningum um að kvenfólk sé skaðræðisdýr upp til hópa og hefur sem sagt tekið upp á því að ná sér sjálfur í eitt slíkt skaðræðisdýr til eignar. Í það minnsta láns. Styttist þá væntanlega í að ófæddur Siggeirsson verði ekki lengur ófæddur og geti farið að njóta virkilega fríðindanna sem fylgja því að vera í Krakkaklúbbnum (þeir skilja þetta sem skilja það). Þó viljum við hjá hvarsemer alls ekki setja pressu á unga parið varðandi barneignir, skárra væri það nú að fólkið hefði þekkst í á að giska tvo mánuði áður farið væri út í slík stórræði.

23. október 2004


Píp kominn heim mörgum dögum á eftir áætlun. Yfirheyrslur bíða betri tíma.

Ekki fyrr búin að skipta út passamynd í öllu kerfinu (debetkort, visa, ökuskírteini o.fl.) að ég fæ flugu í höfuðið sem skilur mig eftir með kastaníubrúnt hár! Var farin að fá athugasemdir með gömlu myndina á kortunum, sem var tekin '99 rétt fyrir Kenya-ferð, um að ég ætti kannski að fara að huga að því að fá mér nýja mynd þar sem ég sé nú ekki lengur dökkhærð, stutthærð og búlduleit. Brást skjótt við og vippaði mér inn í myndasjálfsala og skilaði inn nýrri mynd samviskusamlega - en viti menn, núna 5 dögum seinna bara hreinlega varð ég að gera eitthvað við hárið á mér og keypti mér skol í Hagkaup og bara skellti því í hausinn á mér, nokk sama um áhættuna sem því fylgir - hefði getað endað uppi með fjólublátt hár með appelsínugulum strípum en er bara nokkuð fín verð ég að segja, þó sjálf sé ég nú vart dómbær á það!
Held nú samt að þetta sé ekki það stórvægileg breyting að ég þurfi að skipta um mynd aftur, eina breytingin er liturinn, er ennþá með sömu sídd og jafn heimskuleg í framan.

21. október 2004


My very British name is Amelia Garside.

Take The Very British Name Generator today!


Það þurfa allir að eiga eitt útlenskt nafn hið minnsta. Þetta er mitt brezka nafn - eða "my terribly british name" eins og þeir orða það! Það vill svo skemmtilega til að ég á einmitt litla frænku sem heitir Amelía sem þýðir að barnið er auðsjáanlega skírt í höfuðið á mér! Heiðurinn er yfirþyrmandi!

19. október 2004


chocosjókósúkkulade

You're chocolate. You're the old soul type, people feel that they have known you their entire life. Many often open up to you for they view you as thoughtful and trustworthy. Although people trust you, you have a hard time trusting them. You prefer to keep your feelings bottled up inside, or display them very quietly. It is alright to open up every once in a while.

Which kind of candy are you?

Nú er ég svo aldeilis... Tek það fram að það var ekkert í spurningunum sem beinlínis leiddi til þess að útkoman yrði súkkulaði þannig að þessi niðurstaða er ekki á nokkurn hátt skálduð.

Can't help it, it's in my nature!

18. október 2004


Er í svo miklum vafa með þessa nýju vinnudragt (eða er það drakt?) að ég verð að koma með smá skoðanakönnun. Litli píp segir bara jájá, Bjartur bara mjámjá og enginn Píp til að dæma (hann mundi reyndar bara segja jájá) þannig að ég verð að fá hjálp ykkar, Togga, Tobba, Tóta, Sigga og allar og allir... Hvað finnst ykkur? Á ég að skipta henni eður ei?
Smella til að stækka:

Ef þér sjáið ekki myndina þjáist þér sennilega af járnskorti í augnhimnu þar sem augun ná auðsjáanlega ekki að greina myndina sem slíka. Út í apótek með þig að kaupa vítamín. Í hvelli!
Það er ekki seinna vænna að hafa eitt almennilegt sumarhret svona í lokin. Fyrsti vetrardagur eftir 5 daga.

Er loksins orðin húsum hæf á Laugaveginum og fer örugglega svakalega vel við innréttingarnar núna. Vinnuveitendunum ofbauð hreinlega útgangurinn á okkur kvenkyns starfskröftunum og sendi okkur í verslunarleiðangur. Svart og tweed er greinilega inn núna og er einmitt mátulega hlutlaust og klassískt. Þarf samt að skipta gráu tweed-pils-dragtinni, ekki frá því að hún sé helst til of...


Gaman að sjá að RÚV er búið að taka hina klassísku og sískemmtilegu - en þó ekki síbreytilegu - stillimynd upp aftur. Hún er miklu meira spennandi heldur en nokkurntíma skjáleiksómyndin sem einhverju gáfumenninu datt í hug að setja á skjáinn svona rétt til að mergsjúga öryrkja og eldriborgara þessa lands. Vona að Línan verði svo næst tekin upp og í framhaldinu hinir dásamlegu tékknesku Klaufabárðar!

Talandi um þá...

17. október 2004


Píp er á Egilsstöðum og er búinn að vera þar í einhverja 2 sólarhringa og verður eflaust í 3 sólarhringa í viðbót. Við litli píp erum nokkuð sátt við það bara, höfum það gott og leikum okkur og breiðum úr okkur í king size rúminu (aðallega litli píp samt) og vitum ekki betur en að Píp sé að vinna á Egilsstöðum til að við getum átt góð jól og borgað vísareikninga og greiðsluþjónustur og sent litla píp í háskóla... en hvað les maður svo á netinu! Þá er hann að viðhafast þetta!

Tapað - fundið


Hvar er Togga??? Spurðist til hennar síðast á weraldarwefnum 5. október! Orðin dularfull þögn. Baulaðu nú Búkolla mín...

deo..

15. október 2004


Alveg er ég búin að fá nóg af þessum móðursjúku fótboltaáhugamönnum/íþróttafréttamönnum/alvitru borgurum sem geta ekki hætt að gnísta tönnum og gráta útaf þessum blessaða fólboltaleik og jú öllum hinum töpuðu leikjunum líka. Nenni ekki að hlusta á þetta röfl lengur, sérstaklega þar sem ég hélt að Baggalútur hefði opnað augu okkar fyrir óbærilegum léttleika íþróttarinnar með þessu lagi! En nei við skulum taka þessu grafalvarlega og vera í fýlu næstu 2 vikur. Eigum við kannski ekki bara að hafa þjóðarsorg og einnar mínútu þögn á mánudaginn? Jú gerum það! Ætla að redda mér svörtu fyrirliðabandi - sorgarbandi! Og skera lauk allan daginn, þá verður maður ógurlega sorgmæddur og rauðeygður eins og hæfir tilefninu!

[Viðauki] Ansvítans linkurinn með laginu hérna að ofan virkar ekki alveg þannig að þið getið bara smellt hér í staðinn. [Viðauka lýkur]

14. október 2004


Það ku vera hafið gos í St. Helenu. Og það jafnvel sprengigos. Var einu sinni að vinna með einni nöfnu hennar sem maður gat ekki annað en tiplað á tánum í kringum þar sem sífellt var hætta á sprengingu... og gosi jafnvel. Enda var hún engin St.

Nýji bílinn minn er yndislegur. Það er svo gaman að keyra hann, að á morgnana er ég alveg: "jibbí best að keyra í vinnuna á yndislega bílnum mínum… og njóta þess meðan það varir" og svo er ég nokkrum tímum seinna farin að huxa: "ooo hvað það verður gaman þegar vinnan er búin…" ekki af gömlu ástæðunni sem var að það er svo gaman að eyða kvöldinu með fjölskyldunni minni heldur: "ooo hvað það verður gaman að keyra heim á nýja bílnum mínum…".

Er alveg búin að sjá það að þessi bíll er Spa-meðferð á hjólum! Áður fyrr fór ég út í bíl eftir streitumikinn dag í vinnunni og hélt áfram að vera stressuð þar sem ég var jú keyrandi um á streituvaldandi traktor; hávaðinn, óttinn við að löggann stoppaði mig vegna brotsins að vera á óskoðuðum bíl, druslulegt útlitið og ónýta púströrið. En nú sest ég inn í hljóðlátan mjúkan bíl sem meira segja gaman er að gefa stefnuljós á, hljóðið er svo pent... ekki TTIIKK TTIIKK TTIIKK heldur tik tik tik. Maður gjörsamlega róast niður og það besta er að það er örugglega allt önnur mamma sem kemur að sækja litla píp þessa dagana heldur en fyrir viku síðan. Svakalega afslöppuð alveg, reyndar er bíllinn það afslappandi að píp litli sem áður sofnaði á 5 mínútum í bíl, sofnar jafnvel núna á einni og hálfri!

Svo spilar þessi bíll á eina geðveiluna í mér sem er keppninsandinn eða hvað ég á að kalla það. Mælaborðið sýnir nefnilega einhverja meðaltalstölu á hversu miklu bíllinn er að eyða á hundraðið og nú er ég brjálæðislega upptekin alltaf við að lækka þá tölu! Sem þýðir það væntanlega að ég er á góðri leið með að verða fáránlega vistvænn og meðvitaður bílstjóri. Síðan ég fékk bílinn í hendurnar hefur bensíneyðslan á hundraðið minnkað um 3,3 lítra og er enn á niðurleið. Nú skiljið þið hvað ég meina með geðveila…

Píp er nú samt sennilega ánægður með þessa nýju aksturstækni þar sem hann var sífellt að skamma mig fyrir að hægja ekki á mér í hringtorgum eða hvað hann var alltaf að tuða…

12. október 2004


Smella fyrir stærri mynd!

Nú getur hvarsemer sko heldur betur farið hvertsemer á nýja bílnum sínum! Jeppabíllinn var settur upp í nýja eðalkerru enda orðinn hálf krambúleraður allur, það er að segja þarfnaðist mikillar alúðar og velvildar einhvers góðhjartaðs aðila sem hefði nægan tíma til að sinna honum. Nýji bílinn býr yfir miklu carisma rétt eins og eigandinn (píp er skráður fyrir honum) og heitir orðrétt MITSUBISHI CARISMA GDI 1.8. Þið getið smellt á myndina hér fyrir ofan til að sjá stærri mynd af drossíunni, þessi er að vísu blá en okkar eintak er grænt. Hann er sjálfskiptur með öllum helstu nútímaþægindum svo sem vatnssalerni, loftræstingu og vírusvörn... eða hvað þetta heitir allt saman sem er í þessum bílum, hefur eitthvað með stafrófið að gera allavega; ABS, SRS, AT og fleiri skemmtilegar bókstafaraðanir.

Við skötuhjú höfum aldrei átt þetta nýlegan bíl og með þessu áframhaldi verðum við komin á bíl framleiddan á þessari öld eftir ca. 5 ár! Vonandi verðum við áþreifanlega vör við lægri bensínkostnað á okkar nýja fjölskyldubíl enda heldur Aftonbladet sænska því fram að þessi eðal bifreið eyði tiltölulega litlu: "Mitsubishi Carisma 1.8 GDI - familjebil som drar bara 6,7 liter/100 km". Þar hafiði það! Nú þurfa semsagt bensínkóngar þessa lands eitthvað að halda að sér höndum og samdráttur fyrirsjáanlegur þegar family-píp er kominn á þennan eyðslugranna bíl! Að keyra bílinn er svo alveg yndislegt, ekkert hökt, engin aukahljóð og ekkert skalla-loftið-yfir-hraðahindranir vesen. Bara eins og þetta á að vera! Hamingjuóskir mótteknar hér að neðan!

11. október 2004


Rainy days and Mondays always get me down...

Af hverju þarf að vera bæði í dag??

Bara mánudagur væri fínt!
Bara rigning væri allt í lagi...

En jæja, þetta er svosem ágætis dagur. Í fyrsta skipti síðan fyrir sumarfrí er rólegt að gera í vinnunni! Sem er ánægjulegt! Það meira að segja jaðrar við að undirritaðri leiðist, allavega er eitthvað eirðarleysi í gangi. Helgin flokkaðist undir algjöra slökun! Mæðginin tóku því rólega og lögðu sitt af mörkum til þess að fríhafnarnammið mundi nú ekki skemmast. Þetta með að undirrituð hafi farið tvisvar með stuttu millibili í fríhöfnina, algjörlega tilneydd að sjálfsögðu, er svipað og að henda alkóhólista inn á Kaffi Austurstræti og læsa hurðinni á eftir honum og henda lyklinum... Eða svoleiðis. Keypti náttúrulega ógrynni af súkkulaði og allskyns ósóma og eiturbrasi og er svo í fullri aukavinnu við að gera mitt besta til að ná að vinna á þessum birgðum... Ef einhver hafði núna hugsað sér að gerast miskunnsami samverjinn og bjóðast til að ættleiða eitthvað af þessu nammi er það nánast of seint þar sem flestar umbúðir eru opnaðar og helmingur búinn... sveiattan og svei mér þá! Alveg ljóst að sumar komast ekki í kjólinn fyrir jólin!

Talandi um jólaeitthvað - þið sem hafið andstyggð á fyrirburajólum, vinsamlegast forðist Rúmfatalagerinn. Álpaðist þangað inn í síðustu viku og þar var starfsfólkið í óða önn við að taka jólavörur upp úr kössum. Eins og Mikki refur orðaði það þá er þetta - mesta bull sem ég hef nokkurntíman heyrt (tilvitnun lýkur)! Held ég haldi mig bara frá öllum búðum fram yfir afmælið mitt, sem nálgast jú eins og óð fluga eins og sjá má hér að neðan hægra megin... Eða kannski fram yfir afmæli litla píp! Þá má maður allavega pottþétt jólast sem mest maður má, enda kominn 19. desember þá!

P.s. Ég veit það Togga mín að nú ert þú öll útötuð í jólunum en þú ert jú líka í Ameríku! Þetta á bara ekki að vera svona á skerinu finnst mér allavega...

9. október 2004


When I'm 64...




John Lennon hefði orðið 64 ára í dag en hann var sem kunnugt er skotinn í New York 8. desember 1980. Það stóð jafnvel til í síðustu viku að láta morðingja hans lausan en hann fær að dúsa inni eitthvað lengur enda murkaði hann lífið úr einhverjum mesta hugsjónamanni síðustu aldar. Segi það og skrifa! Hugsjónar/draumóra Lennons er sárt saknað á þessum síðustu og verstu þar sem "barnalegar" friðarpælingar eru einmitt það sem fólk þarf að heyra...! John var einstaklega orðheppinn og var líka mjög beittur í hverskyns gagnrýni. Klassískt er þegar Bítlarnir, sællar minningar, komu fram í upphafi ferils síns á konunglegum tónleikum að Betu drollu og mömmu hennar viðstöddum og John bað um aðstoð áhorfenda í síðasta laginu. Hann bað áhorfendurna í ódýru sætunum um að klappa saman höndunum en hinir áttu að að láta hringla í skartgripunum sínum! - og uppskar mikið fliss og klapp fyrir.... og hringl.

Eftirlifandi spúsan hún Yoko Ono var einmitt í fréttunum í síðustu viku og vildi fá að koma fyrir friðarsúlu "on the top of the world" - í Reykjavík. Þóró tók vel í það og vildi koma henni fyrir þar sem hún hefði nóg pláss...!?! Ætli það sé ekki verið að finna góðan punkt á Kjalarnesi eða jafnvel í nágrenni Nesjavalla. Erfitt er að geta sér til um hvað John væri að gera í dag en eitt er víst að það væri ekkert í líkingu við það sem sýndarfígúran hann McCartney er að gera. Ætli hann væri ekki einhversstaðar búinn að finna sannleikann í tilverunni og léti í sér heyra reglulega og lifði á Bítlaauðnum, sem hann væri að vísu búinn að gefa frá sér að mestu leyti til góðgerðarmála, og vinningsfénu sem fylgdi Nóbelsverðlaununum í friði...

8. október 2004


Hei, gleymdi að segja frá merkilegri staðreynd varðandi burtlandaferðir mínar. Í flugvélinni á heimleið frá Alicante sat ég í sæti númer 33F! Þegar ég svo flaug til Copenhagen sólarhring síðar sat ég í sæti 33F! Ég hefði sem sagt alls ekki þurft að hafa fyrir því að fara heim til mín á milli fluga og því síður inn í flugstöðina og hefði satt best að segja bara átt að sitja sem fastast í mínu sæti í þennan sólarhring! Hva mismunandi flugvélar og mismunandi flugfélög... hver spáir í því... Hefði endað á skemmtilegum stað hvort sem er.

7. október 2004


Íslendingar kærir nær og fjær! Okkur hjá hvarsemer þykir ekki annað hæft en að óska þjóðinni til hamingju með fyrsta lestarslys Íslandssögunnar. Við skulum samt byrja á að taka það fram að enginn er alvarlega slasaður og þessir aðilar sem í þessu lentu verða örugglega sem nýjir innan nokkurra daga og koma vonandi ekki til með að bera nokkurn skaða af. "Verst" er að um borð í lestinni var enginn íslendingur sem hefði þá orðið þessa heiðurs aðnjótandi - að lenda í fysta lestarslysi Íslendinga - og hefði verið í blöðunum á 3 ára fresti að tjá sig um eftirköst og afleiðingar lestarslyssins og yrði þekktur sem "þessi sem lenti í lestaslysinu"! Þetta voru Kínverjar og Portúgali sem lentu í ósköpunum og eru örugglega bara nokkuð góðir og telja sig eflaust ekki hafa lent í neinu lestarslysi heldur lítilsháttar-pínusporvagns-óhappi.

4. október 2004


Köben var æði eins og alltaf. Þetta er ekki í lagi hvað manni líður alltaf eins og heima hjá sér þegar maður er í Köben. Kannski er það af því að maður heyrir íslensku allsstaðar og kippir sér ekkert upp við það. Íslenskan bergmálaði um allt Strik og í H&M og í Magasíninu. Sennilega eru Íslendingarnir bara svona fyrirsjáanlegir, gera örugglega allir nákvæmlega þessa sömu hluti. Og fara á Hvids vinstue og í Nýhöfn, sem undirrituð hafði því miður engan tíma til að kíkja á. Þetta var alltof stuttur tími til að gera eitthvað af viti í borginni en maður kippir því bara í liðinn seinna og fer með pípin í ferðalag til þessarar guðdómlegu borgar þar sem hvert einasta hús er Bygging! Með stóru B-i.

Talandi um arkitektúr, hótelið sem við gistum á var ekki af verri endanum - sjálft Radison SAS Royal hótelið sem var opnað árið 1960 og hannað af Arne Jacobsen að öllu leyti, að utan sem innan, frá ljósakrónum niðrí öskubakka og allt þar á milli og allt hitt líka. Hótelið var fyrsti skýjakljúfurinn í Skandinavíu með sínar 22 hæðir. Arne Jacobsen er sennilega best þekktur fyrir stólana sína, eggið, maurinn, svaninn og sjöuna. Að vísu hefur hótelið ekki fengið að halda sér alveg óbreytt í þessi rúm 40 ár sem það hefur verið opið þar sem einhverjar smávægilegar breytingar hafa verið gerðar en eitt herbergi er þó algjörlega óbreytt og það er númer 606 og aðeins þeir sem eru fyrirmenni eða sérvitringar eða bæði fá það til leigu. Eða kannski er nóg að eiga bara nóg af pening.

Við fengum öll eins manns herbergi sem var mjög einmannalegt en tveir lögfræðingarnir, sem hljóta þá að uppfylla það að vera fyrirmenni og sérvitringar, fengu sér svítu. Hún var samansett af 3 baðherbergjum, 1 saunu, litlu fundarherbergi, setustofu, stórri stofu, stóru svefnherbergi, flottustu Bang & Olfsen græjum og ég veit ekki hvað og hvað, en það merkilega var að þessi svíta innihélt bara 1 rúm! Hihihihihihihi... Í þessari svítu var að sjálfsögðu haldið partí og stofan lítur svona út.

Fórum út að borða bæði kvöldin á ægilega hipp og kúl staði og maður þurfti varla að draga upp veskið alla ferðina þannig að þetta var pínu ævintýralegt allt saman. Var það ekki í Pretty Woman sem JuRo var dregin af götunni inn á ægilega fínt hótel og kunni náttúrulega ekkert að haga sér? Maður upplifði sig pínulítið þannig. Vinnufundurinn sem haldinn var á laugardeginum var bara fínn þar sem hann var brotinn upp með miðdegisverði sem samanstóð af andalifrarpatè og nautasteik! Og að sjálfsögðu einum Carlsberg. Fínt að halda fundi með þessu fyrirkomulagi. Déskoti er nú annars andalifrarpatè vont! Þarf að fara á flottræfla-námskeið áður en ég fer í næstu svona ferð til að kunna "gott" að meta!
Á ferðum mínum um heiminn undanfarið hef ég tekið eftir því að flugið FRÁ Íslandi virðist alltaf taka styttri tíma en flugið TIL Íslands. Samanber flug til Spánar: 4 klst. og 15 mín. Flug frá Spáni: 4 klst og 45 mínútur. Skyldi þetta hafa eitthvað með það að gera að þegar maður flýgur til Íslands flýgur maður upp í móti?

30. september 2004

Fyrir sólarhring síðan var ég að spranga um á Spáni og eftir sólarhring spranga ég um allt í Köben. Ljótt að segja það en ekkert hefði ég nú á móti því að eyða frekar helginni með honum syni mínum eftir þessa fjarveru en maður lætur sig hafa þetta og skellir sér með vinnunni til Köben á morgun.

Óþolandi alveg hvað maður er oft ókátur með að vera kominn heim. Á ekki lengri tíma en viku er maður orðinn að algjörri hitakærri örveru og finnst að rétt eins og dýr eru send í einangrun við komuna til landsins, eigi að senda okkur mannfólkið í hitakassa í smá tíma til að aðlaga mann að þessu skítaveðri og kulda sem oft(ast) tekur á móti manni á Sandgerðisflugvelli. Já takið eftir: Sandgerðisflugvelli! Inga vinkona mín sem var úti á Spáni með okkur er Sandgerðingur og fullvissaði okkur hin um að flugvöllurinn væri á Sandgerðislandinu og ætti þar með að kallast Sandgerðisflugvöllur. Hún uppskar lítið annað en háðsglósur en af virðingu við hana og hina 4 Sandgerðisbúana, sem eru jú náfrændur hennar, skal hann hér eftir nefndur sínu rétta nafni á þessari síðu!

Já aftur að hitakassanum; þetta er ekki nokkur hemja að manni sé fleygt úr 30° hita í 8° bara sísvona... vanalega með innifalinni vindkælingu og vökvun þar að auki. Í kassanum yrði maður bara trappaður niður smátt og smátt og meðferðinni mundi meira að segja ljúka þannig að maður væri í norðaustan 19 m/s og 20° frosti því þá yrði maður bara sérdeilis ánægður og hamingjusamur með 8 stigin og slagviðrið sem tæki á móti manni. Þetta mundi líka svínvirka alveg á útlendingana held ég. Það væri meira að segja hægt að nýta húsnæði og aðstöðu hersins undir þessa starfsemi þar sem til stendur jú að hann hverfi af landi brott. Væri hægt að skipta meðferðinni niður í fyrstu, aðrar og þriðju búðir eins og hjá fjallgöngumönnunum til að trappa fólk niður og fullt af suðurnesjamönnum og konum gætu haft atvinnu af þessu! Fyrirséð atvinnukrísa á Suðurnesjum afgreidd hér og nú!

Enduðum Spánarferðina á Duomo, veitingastað sem við tókum ástfóstri við síðast þegar við fórum alveg óvart til Benidorm. Þvílíkur unaðsstaður, enda erum við alveg búin að sjá það að Spánverjar kunna ekkert að elda almennilegan mat! Að vísu held ég að þessi ferðamannaiðnaðarmaskína sem Benidorm er gefi ekki alveg rétta mynd af matargerð Spánverja, en samt mega þeir aðeins vanda sig þarna og kannski krydda matinn með pínulítilli þjónstulund svona inn á milli! Annars var þessi ferð alveg frábær og félagsskapurinn enn betri þannig að nú er maður bara hálf meyr yfir að þessi ferð sem maður beið svo lengi eftir sé bara búin! *snökt* Hún varð allavega eins góð og hún hefði getað orðið þannig að við setjum hana bara í jákvæðuminningabankann og hættum að vera svona dramatísk.
Hei já, nú er ég aldeilis byrjuð að leggja grunninn að léttvínssafni mínu. Maður má kaupa 3 léttvín inn til landsins og við skötuhjúin fullnýttum það (6 flöskur: 3 hvít og 3 rauð) og getum nú tekið tómu flöskurnar úr vínrekkanum og sett innhaldsríkar flöskur í staðinn. Og svo skulu alltaf keyptar tvær nýjar fyrir hverja eina sem opnuð er! Jæja farin að pakka fyrir Köben, hef aldrei vantað að eiga þurrkara fyrr en akkúrat núna! Fötin ná varla að þorna á milli flugferða. Heyrumst síðar!

28. september 2004


Póstkort frá Benidorm


¡Hola!

¡Hér sé stud og stemmiñg! Erum búin ad gera margt skemmtilegt, svo sem ad fara í Terra Mitica, sóla okkur, eta á okkur gat og fara á tvaer kvoldvokur med íslendingunum tar sem sungnir voru íslenskir útilegusongvar og fleira gefandi og skemmtilegt. Aetti ad vera bannad ad gaula "ÓlavíahvarerVigga" og "Stínavarlítilstúlkaísveit" utan íslenskrar landhelgi. Tad sem madur laetur hafa sig útí... Vantadi bara ad fólk kaemi med húsbíl og prímus med sér. Ekki búin ad finna Kúbu-barinn minn aftur og hef svo sem ekki gert neinar stórvaegilegar tilraunir til tess heldur. Hofum verid mjog rafmognud og í studi á dvol okkar hérna tar sem hopurinn sem vid hongum adallega med samanstendur mestmegnis af rafvirkjum og teirra frúm. Vedrid hefur leikid vid okkur og hitinn á kvoldinn er gódur herbergishiti sem er mjog ljúft, enda hélt madur ad á tessum árstíma vaeri eitthvad farid ad kólna undir midnaettid. Sei sei nei aldeilis ekki. Svona á lífid ad vera. ¿Hvad getur madur bedid um meira? Jú lítinn Óla Bjarka kannski. Í kvold er tad svo árshátíd og húllumhae en fyrst er tad strondin! Heyrumst sídar og bidjum ad heilsa.

Bless bless,
PerGulammi

22. september 2004


Í allt sumar hef ég verið gjörsamlega andsetin af lagi sem ég heyrði í útvarpinu í byrjun sumars. Eitthvað við þetta lag heltók mig strax við fyrstu hlustun en því miður vissi ég engin frekari deili á því mestanpart sumars þar sem ég hlusta frekar sjaldan á Rás 2, sem er um það bil eina stöðin með lagið á sínum lagalista. Komst á endanum að því hver hljómsveitin er og nú á haustdögum heyrði ég að þessi tiltekna hljómsveit hyggi á að gefa út disk hvað á hverju, og viti menn; er búin að ná mér í eintak og gjörsamlega er að spila hann í hengla.

Hljómsveitin heitir Hjálmar og kemur frá Keflavík... og er íslensk reggíhljómsveit! Já hljómar kannski ekki ýkja vel en þetta er þessi líka frábæra hljómsveit! Hljóðfæraleikararnir hver öðrum betri, söngvarinn með algjörlega einstaka og sérstaka rödd, lögin frábær og textarnir eru meira að segja líka snilld! Langt síðan allir þessir þættir hafa smollið saman hjá íslenskri hljómsveit, með fullri virðingu STEF, FÍH, FTT og aðrir hagsmunaaðilar. Lagið sem ég er að tala um heitir sem sagt “Bréfið” og til að stytta ykkur stundirnar meðan hvarsemer fer í sólina læt ég textann fylgja hér á eftir þannig að þið getið nú aðeins pælt í honum. Er ekki svo fær að ég geti deilt laginu sjálfu með ykkur í gegnum símaleiðslurnar þannig að textinn verður að duga í bili.
Heyrið svo kannski frá mér ef ég virkilega nenni að sitja inni á hóteli eða á netkaffi á Spáni og pikka á lyklaborð. Ekki búast við því!

Af tilefni kennaraverkfalls eru engir stórir stafir, kommur eða punktar í textanum.

bréfið

ég skrifa bréf þótt skaki vindar hreysi
og skrifta fyrir þér
ég tíunda mitt eigið auðnuleysi
og allt sem miður fer

því hafin yfir hversdagsleikann gráa
ert þú hjartans vina mín
ég ljósið slekk og langt í fjarskann bláa
leitar hugurinn til þín

svo ber ég eld að bréfkorninu mínu
þá batnar vistin hér
því fölur loginn fyllist brosi þínu
sem að fyrirgefur mér

og þannig brúar þessi litla skíma
þagnarinnar hyl
þú huldumey sem handan rúms og tíma
hefðir getað verið til

Einar Georg Einarsson

Spánn, sól, sandur, sangria, sandalar, slökun, skemmtun, stuttbuxur, sundsprettir, strandverðir, stuð, stemming! Svona verður næsta vikan hjá mér - pínulítið fyrirsjáanleg eða hvað...!

Já einu er ég að gleyma, hver haldið þið að komi til með að halda uppi stemmingunni á kvölvökum Íslendinganna? Enginn annar en Eyjólfur Kristjánsson! Vona að hann verði ekki valdur að of mikilli iðrakveisu, uppköstum, hjartaveilu og sólstingi með gauli sínu og skemmtilegheitum. Óttast það samt! Veit sem betur fer um kúbanskan bar á Benidorm og ætla að skrá lögheimilið mitt þar!

21. september 2004


Jæja, nú er rúmur einn og hálfur sólarhringur í að við hjá hvarsemer höldum í vísinda- og menningarferð til Spánar. Alveg er spenningurinn að fara með ritstjórnina þar sem nú eru jú liðin 4 ár síðan síðast var farið út fyrir landssteinana, sem er ekki á nokkra flökkukind leggjandi. Merkilegt að þá fórum við einmitt á sama stað, Benidorm á Spáni. Sorgleg staðreynd að vissu leyti, Kúba var snilldarhugmynd sem hefði mátt fylgja eftir, minn kæri Mótás kostunaraðili! Litli píp kemur að vísu ekki með, hann verður hjá ömmu og afa píp og bróðir hans, kattarræksnið, fer til hinna ömmu og afa.

Lendum aftur á Íslandi 30. september og sólarhring síðar verður undirrituð kominn aftur út á flugvöll og þá skal haldið til Köben! Já svona er þetta, annað hvort fer maður bara ekki neitt til útlanda eða nokkrum sinnum í sömu vikunni! Vinnan ætlar sem sagt að skella sér eina helgi til Köben til að “lesa lög”! Það á að fara yfir ný lög í starfsgreininni og hygge sig eitthvað líka. Vá hvað næstu tólf dagar verða nú yfirmáta hressandi.

Eitt sorglegt fylgir þessu reyndar og það er að með Köben-förinni missi ég af aldarfjórðungsafmæli snillingsins Siggeirs sem er búinn að leigja sumarbústaði undir fagnaðarlætin vegna afmælisins sem eiga að standa í sólarhring. Fy Fan!!! Var farin að hlakka mikið til en maður getur víst ekki fengið allt, því miður, en ég vona að hann finni stað í hjarta sínu til að fyrirgefa mér.... plís... *snökt*

16. september 2004


Tvífarar

Hefur einhver spáð í það hvað Andrea Róberts og Díanna Omel eru líkar? Eða lík... Eða líkir... Eða eitthvað! Hvað veit ég?!?!?



14. september 2004


Á morgun rennur upp bjartur og fagur dagur með nýjum væntingum, nýjum forsætisráðherra og nýrri Ruth Reginalds! Eiginlega erum við að fara úr öskunni í eldinn með þessum nýja forsætisráðherra. Ef DO var kjáni þá er HÁ bjáni! Maðurinn er með álíka mikið fylgi á bak við sig og gáfumannasnillipésinn hann Ástþór Magnússon, gott ef hann (HÁ) fékk ekki 5% eða eitthvað í kjördæminu sínu í síðustu kosningum. Anarkistaflokkurinn eða kristilegi flokkurinn hefði alveg eins getað fengið forsætisráðherrastólinn fyrst það þarf ekki meira fylgi en raun ber vitni. Svo er maðurinn svo freðinn (í kuldalegum skilningi) og leiðinlegur (í venjulegum skilningi þess orðs) að Golf-straumurinn fer sennilega að finna sér einhvern annan farveg heldur en hingað norður eftir. Loksins ber landið nafn með rentu með svona freðýsu við stjórnartaumana.

(Hvarsemer hf. ber enga ábyrgð á þessum skrifum þar sem þau er alfarið skoðun og hugarfóstur aðalritara dótturfélagsins Bull ehf. Allar ásakanir um ærumæðingar eru úr lausi lofti gripnar og verður vísað frá með skömm.)

Og að öðru; oftast drattast undirrituð ekki fram úr rúminu sínu fyrr en klukkan er langt gengin í átta en á morgun skal sko skutlast fram úr mun fyrr til að sjá togaða og teygða, saumaða og samansetta afdankaða söngkonu á fertugsaldri með verri gerðina af sjálfsáliti sýna sitt nýja útlit í sjónvarpinu. Já svona lágt getur maður lagst að fylgjast með þessu en hey... hver er ekki forvitinn? Spennandi að sjá hvernig furðuverkið lítur út eftir breytinguna eða er kannski algjör vitleysa að kveikja?!?!

13. september 2004


Ofsalega er þetta nú hugljúft... að fólk kunni ennþá að vekja athygli á málstaðnum á friðsælan hátt! Og haft pínulítið gaman að öllu saman í leiðinni...

11. september 2004


Svona leit google.com út á sínum sokkabandsárum í byrjun sjöunda áratugarins.

10. september 2004


Þetta er einum of týpískt! Einhvern rámar kannski í mikið harmakvein í undirritaðri í mars síðastliðinn að mig minnir, þegar ég komst ekki á Damien Rice tónleika fyrir einhvern kjánaskap. Málið er að nú hefur hann boðað komu sína aftur og ætlar að taka hana Lisu Hannigan með sér (sem syngur með honum á plötunni) þannig að þessir tónleikar gætu jafnvel orðið betri en hinir! Og hvað haldiði... tónleikarnir verða 23. september! Og hvað með það kann einhver að spyrja sig... jú, þá verðum við hjá hvarsemer tiltölulega nýlent á Spáni!!

Já já ég ætla ekki að vera vanþakklát, það er unaðslegt að vera á leiðinni til Spánar í sólina og ljúfa lífið en það er nottla bara átakanlegt að þetta skuli hitta svona á! Jæja þýðir ekki að svekkja sig á því, þetta er ekki jafn slæmt og hjá pípinu; hann grætur sig í svefn þessa dagana, því vegna Spánarfararinnar missir hann af úrslitaleiknum í utandeildinni og þar að auki missir hann af skúter-tónleikum! Nei nei þetta var illa sagt, hann grætur skúter ekkert voðalega hátt - er bara svolítið niðurdreginn og viðkvæmur. Aðgát skal höfð...

Jæja bíó á eftir og það íslensk mynd: "Dís". Bókin var góð en við skulum alveg róa okkur í væntingunum til íslenskrar kvikmyndagerðar... Kemur bara í ljós!

9. september 2004


Alveg er nú hreint merkilegt hvað sumu fólki leyfist í klæðaburði sem annað fólk gæti ekki á nokkurn hátt borið! Ykkur rámar kannski í færsluna hérna fyrir neðan þar sem ég var að tala um skærbleikar nælonsokkabuxur…?!?! Muniði? Og það var þá í þeirri merkingu að maður ætti nú að klæða sig eins og trúður annað slagið til að hafa pínulítið gaman af hlutunum, en viti menn; á minni daglegu sendiför í dag rakst ég á kvenmann á mínum aldri sem var klædd sem hér segir: Snjóþveginn gallakjóll, bundinn fyrir aftan háls og náði rétt tæplega niður að hnjám, NEONBLEIKAR NÆLONSOKKABUXUR!, ljósbleikt sjal yfir axlir og ljósbleik flatbotna stígvél úr rúskinni eða einhverju álíka.
Jamm gott og vel, fór bara að spá ef ég sjálf væri klædd á þennan hátt yrði nú örugglega hringt á einhverja viðeigandi stofnun og málið meðhöndlað við hæfi, en staðreyndin er sú að manneskjan tók sig bara ekkert illa út í þessari múnderingu en einhver allt önnur manneskja hefði hins vegar eflaust litið út eins og bjáni, með fullri virðingu. Það er kannski þetta sem er verið að tala um þegar verið er að tala um að “skapa sinn eigin stíl”. En það verður að segjast alveg eins og er að hún lífgaði nú annars nokkuð upp á grámygluna hjá Sýslumannsskriffinnskustofnuninni í Reykjavík!

8. september 2004


Kæra dagbók!


Er fyrst núna að komast til lífsins eftir algjöra slúbbertalífsnautna helgi! Byrjuðum laugardaginn hjá Bakarameistaranum og kræsingum þar (aspas-stykki og hrískaka... slef..) og um kvöldið fórum við fjölskyldan á Rossopomodoro og hámuðum í okkur afbragðs góðar pizzur á viðráðanlegu verði og drukkum tiltölulega ódýrt hvítvín með. Þeir eru svolítið sniðugir að selja vín hússins í nokkrum stærðum og ódýrar en gengur og gerist þannig að maður getur til dæmis keypt lítra karöflu (nei ekki kartöflu) á rúman 2.000 kall í staðinn fyrir að borga hátt í 4.000 kall fyrir flöskuna eins og viðgengst á sumum stöðum. Og vín hússins er alls ekkert heimabrugg, það heitir Cato Blanco fyrir ykkur sem þekkið til. Pizzurnar voru eins og áður segir góðar en reyndar urðum við fyrir vonbrigðum í lokin þegar við fengum okkur eftirrétt sem stelpan mælti svo mikið með; heit súkkulaðikaka með blautum kjarna, ís og sósu! Hljómar guðdómlega en kakan var á stærð við meðalpúðurdós með einni ískúlu og kostaði 850 kall! Þar misstu þeir nokkur prik. Svo kíktum við skötuhjú í bíó á Bourne superememememedí sem var alveg allt í lagi bara verst að maður er búin að sjá hana svona cirka 20 sinnum áður. Synd þar sem það eru svo margar myndir í bíó sem mig langar að sjá en þarna fékk pípið að ráða...

Fór svo sjálf og hitti tvær vinkonur og sötraði með þeim vín og bruddi osta og komst að því að önnur þeirra er á góðri leið með að fjölga mannkyninu eins og um það bil, jú önnur hver manneskja í kringum mig. Þær fregnir komu alveg dásamlega skemmtilega á óvart þar sem ég átti svo innilega ekki von á því frá henni þessari! Var til dæmis ekki að ná hintunum sem hún var búin að vera með allt kvöldið þannig að hún þurfti á endanum að stafa það oní mig! Ó-L-É-T-T! Hún heimshornaflakkarinn ólétt! Neeeei datt það ekki í hug!

Hamborgarabúllan hans Tomma sá svo um að matreiða ofan í okkur á sunnudagskvöldið og það er frrrábær staður! Hrá búlla í pínkulitlu húsi rétt hjá slippnum, veggirnir gylltir og angurværir tónar Cesariu Evoru hljómuðu á fullum styrk þannig að hinir guðdómlegu borgarar runnu ljúft ofan í mann. Himnaríki er örugglega nokkurn veginn svona; gylltir veggir, suðræn tónlist og kræsingar! Ekki satt!?! Eða er ég að rugla saman við Rómverjana forðum daga? Gæti verið... Og ekki var þjónustan af verri endanum, höfum vanalega beðið lengur eftir borgaranum á McDonalds heldur en þarna. Svei mér þá ef Vitabars-borgararnir hafi ekki fallið niðrí annað sætið þarna. Með skelli! Svo var það ísbúðin á Hagamel sem setti lokapunktinn aftan við þessa helgi. Fyrir þá sem ekki vita, bezta ízbúðin í bænum! mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm.........

Þar hafiði það! Svona var 15.000 kaloríu helgin mín! Og ég á leiðinni til Spánar... O well... Get huggað mig við að spikið kemur bara til af góðu! Það var alveg þess virði.

1. september 2004


Kæru ættingjar og vinir nær og fjær! Ég vil óska ykkur gleðilegs árs og takk fyrir þau gömlu með von um að hið nýja verði jafn gæfuríkt og afladrjúgt. Nýtt fiskveiðiár er hafið!

Nýji Mbl finnst mér ljótur! Nú nota þeir 23% af skjánum á hægri kantinum undir auglýsingar að ógleymdum öllum hinum auglýsingunum vítt og breitt um allan skjá. Munur annars að vera með adsl-ið okkar kæra, nú horfir maður bara á fréttirnar í tölvunni þegar manni sýnist ef svo óheppilega vill til að maður hafi misst af blóðsúthellingum dagsins.
Á því sviði er samkeppnisaðilinn Vísir orðinn sterkari, en þeir hjá Mbl fundu sig einmitt knúna til að koma með svar við breytingunum á Vísi og breyttu breytinganna vegna og sendu fréttasvæðið í megrun og blésu auglýsingarnar upp! Góður díll. Annars þurfa svona fréttafíklar eins og ég að fara í meðferð held ég. Alveg viss um að þessar ógeðishryllingsljótufréttir sem dynja sífellt á manni séu alveg jafn óhollar sálinni og reykingar og ljósaböð líkamanum.

Mikið er þetta nú sorglegt að hafa ekkert annað að tala um annars, væri munur að geta talað um alla spennandi og skemmtilegu hlutina sem eru að gerast hjá manni eins og hjá sumum, en jú svona er nú bara manns bitri raunveruleiki og Ólympíuleikarnir búnir og Snæland hætt að selja súkkulaðiísinn úr vél og haustið nálgast og allt í volli...

(Andvarp og dæs)

Spurning með að fara bara og kaupa sér skærbleikar nælonsokkabuxur og jafnvel labba afturábak um vinnustaðinn á morgun! Brjóta munstrið aðeins upp!

27. ágúst 2004


Jæja, nú fer grasekkjutímabili mínu að ljúka hvað á hverju, það er að segja gervigrasekkjutímabilinu! Líf og yndi pípsins hefur í sumar verið fótboltinn og hefur hann staðið stoltur í markinu fyrir FC Hómer og varið eins og Hvítserkur berserkur. Hef nokkrum sinnum orðið vitni að leikjum og alltaf stendur maður sig að því að glápa í forundran á þennan markvörð sem ryður allt í einu og upp úr þurru út úr sér Tourettes-skotnum frösum sem eru víst ætlaðir til hópeflis og hvatningar! Gaman að hann skuli einmitt standa í marki þar sem danskur eldri tvíburabróðir hans er jú einmitt merkilegt nokk þó nokkuð þekktur markvörður sem á að baki frækinn feril! Mig hefur nefnilega lengi grunað að pípið heiti upprunalega Píp Schmeichel! Því til sönnunar má einmitt sjá þá bræðurna Píp og Peter Schmeichel í einkennisbúningnum sem þeir kunna svo vel við sig í:





Brødrene Pip og Peter Schmeichel!
Er búin að skipta einum tengli út fyrir annan hérna hægra megin. Eftir u.þ.b. 7 klukkustundir verða nefnilega Tobba pípsystir og Gaui pípmágur flutt til Kanada og af því tilefni hefur Tobba hætt með einyrkjablogg sitt og nú eru þau saman með eina Kanadadvalarsíðu sem lofar góðu þó þau séu ekki einu sinni farin út, með ægilega fínni myndasíðu sem verður gaman að skoða og svona. Raunar þurftum við píp hálfpartinn áfallahjálp fyrir 2 vikum síðan þegar við gerðum okkur grein fyrir því að þau eru að fara út í 2 ÁR! Og koma kannski ekkert til landsins á þeim tíma!
Svona sáum við þessa dvöl þeirra fyrir okkur: fara í lok ágúst - úti í tæpa 4 mánuði og koma heim í desember yfir jól og áramót - fara svo út í svona 5 mánuði og koma heim í maí og námið búið! Nei nei þá er okkur bara tilkynnt að námið hans Gauja taki þessi tvö ár og að þau ætli sér ekkert að koma heim á þeim tíma. Sem þýðir það að nú verðum við píp að fara að safna okkur fyrir ferð westur um haf og kíkja til Edmonton, Kanada annars vegar og Los Angeles, BNA hins vegar til að heimsækja þessar útlensku pípsystur. Allir styrkir eru vel þegnir.

25. ágúst 2004




Þessa dagana er að hefjast kvikmyndahátíð í henni Reykjavík og aðalnúmerið er þessi mynd sem vísað er til hér að ofan. Þetta er heimildamynd sem fjallar um mann að nafni Morgan Spurlock (frábært nafn: "This is Captain Morgan Spurlock speaking") sem ákvað að lifa á McDonalds í 30 daga og sjá hvernig það mundi leggjast í skrokkinn og andann. Það er ekki að spyrja að því að hann var nær dauða en lífi eftir 3 vikur; blóðþrýstingurinn fór úr böndunum, blóðsykurinn og blóðfitan snarhækkuðu, og lifrin varð eins og í róna með 75 ára reynslu og þunglyndi og þrálátur höfuðverkur tók að herja á hann fyrir utan fyrstu klukkustundina eftir að hann borðaði, þá leið honum fáránlega vel enda uppfullur af sykri, koffíni og öðrum hressandi efnum úr matnum. Hann prófaði allt af matseðlinum þannig að ekki væri hægt að segja að hann hefði bara lifað á beikonborgurum allan tímann. Salatið var sem sagt borðað líka en það reyndar fannst honum viðbjóður!

Væri nú til í að kíkja á þessa mynd, eflaust mjög áhugaverð og maður er nú mest hissa á að McGolíat hafi ekki hakkað hann Davíð í sig fyrir þennan rógburð og aðdróttanir eins og þeir hljóta að skilgreina þessa mynd sem. Morgan sagði nú reyndar sjálfur að hann ætti alveg eins von á ljóta einkennistrúðnum bankandi á dyrnar hjá sér einn góðan veðurdag með heimskulegt glott og tikkandi hamborgara...

Hann bætti á sig 13 kílóum á þessum 30 dögum sem verður að teljast nokkuð góð frammistaða. Skemmtilegt frá því að segja að nú erum við hjá hvarsemer einmitt í aðhaldi vegna fyrirhugaðrar Spánarferðar og kannski væri fínn liður í átakinu að skella sér á þessa mynd, kannski maður missi lyst á skyndibitafæði og óhollustu í smá tíma. Átakið felst aðallega í því að nú er það besta úr öllum kúrum tekið, á laugardaginn var það Atkins-kúrinn (egg og beikon) og í gær var það Grænmetiskúrinn og hver veit nema maður hafi Próteinkúrinn í dag og hámi í sig fisk og svona. Þessi hérna kúr hljómar nú líka ægilega huggulega verð ég að segja. Allt fyrir málsstaðinn!

24. ágúst 2004


Þú ert ekki drukkinn ef þú getur legið á gólfinu án þess að halda þér í.

Dean Martin

19. ágúst 2004


Við kláruðum spaggettíið í gær! Rop! Barf!

Prýðisskemmtun á leiknum þó við hefðum misst af Nælon og Lovgúrú vegna langdregins pizzuáts... áfall! Útsýni framar björtustu vonum og sá allan völlinn prýðilega að frátöldu neðrahorninuvinstrameginnær en þar gerðust engir stóratburðir þannig að þetta var hið besta mál. Eftir leik varð náttúrulega að fagna og enduðum með að fara á Ölver með Ingu og Bjarka og Þorbjörgu og Wolfgang ítala sem þóttist vera finnskur eftir úrslitin og þar hittum við fyrir Agnar BB í sinni lopapeysu blásandi í þokulúður sem hann náði útúr Ellingsen á þeim forsendum að hann væri jú sem hann er; trillukall!

Já eins og hún Tobba mágkona mín minnti mig á er ég að fara í kveðjupartí til hennar annað kvöld þannig að nú er nýtt vandamál fyrir höndum! Að koma þessum blessuðu Lou Reed miðum út. Með þeim fylgja sérstakir Skonrokk passar í stúkuna og miðar í eftirpartý svona ef einhver hefur áhuga á að eiga sér Perfect day og kíkja eftir tónleikana og walka pínulítið on the wild side og svona ekkva...

18. ágúst 2004


pípskríp(i)


Pípinu mínu finnst rosalega gaman að láta æsa sig upp í einhvern hópæsing og múgsefjun, og oft og iðulega dregur hann mig með sér í svoleiðis athæfi og það nýjasta er að við skötuhjú erum á leiðinni á Ísland-Ítalía á eftir, hvar einmitt hefur verið yfirlýst markmið fótboltayfirvalda að reyna að troða eins mörgum og mögulega er hægt á völlinn til að slá eitthvað met frá þeim tíma er olíuluktir voru og hétu. Gamla metið er 18.000 hræður eða eitthvað og nú skal það met slegið! Jæja, allt í lagi með það en ég held að manni eigi eftir að líða eins og lítilli sardínu í dós og sennilega kemur maður ekki til með að sjá mikið meira en flösuna á áhorfandanum fyrir framan sig. Allur er varinn þó góður og ætla ég að hafa með mér lítinn kíki til að geta horft á ítölsk læri sprikla. Já heyr heyr, píp vill að ég taki þátt í þessu og þá ætla ég takk fyrir að vera stolt í stæði með minn kíki.



Del Piero vinur minn var ekki valinn í liðið, strákskrattinn, sem er áfall sem ég er rétt að ná mér af... en það hljóta að vera einhverjir aðrir álitlegir til að góna á! Þetta verður örugglega alveg agaleg stemming, þó gæti píp orðið mér til minnkunnar þar sem hann er með í höndunum söngbók með stuðningslögum og á hann örugglega ekki eftir að láta sitt eftir liggja í hópsöng og öðrum skrípalátum, eins og honum einum er lagið...

Svo lét hann í dag æsa sig upp í að hringja inn á útvarpsstöð og fá gefins miða á tónleika með Lou Reed á föstudaginn! Hann átti að nefna lag með kappanum en stóð á gati og sagði bara "Áfram AC Milan" og út á það fékk hann miða! Verst hvað okkur langar ekkert voðalega á þessa blessuðu tónleika... Persónulega þekki ég 3 lög með Lou og svo var hann náttúrulega í Velvet Underground en og hvað....? Kall á sjötugsaldri að gaula eitthvað... Á ég að fara eða ekki? Þið segja mér...

15. ágúst 2004


Smelltu fyrir stærri mynd

Stórmerkileg mynd þetta. Manneskjan með byssóþolið, ég sjálf, var beitt hópþrýstingi í veiðiferð helgarinnar og var látin skjóta á dósir. Það er svosem allt í lagi þar sem bjórdósir eiga almennt ekki fjölskyldur sem koma til með að sakna þeirra og það fossar ekki blóð og fleira óaðlaðandi úr þeim. Ég á að hafa hitt dósina nokkrum sinnum alveg efst, segir pípið, en kannski sagði hann það bara til að láta mér líka betur við byssuna og vera ógissla stolt af sjálfri mér. Getur sem sagt meira en vel verið að þetta hafi verið uppspuni í pípinu en allavega, þetta var bara nokkuð gaman...

Keypti mér þann flottasta jakka sem ek hefi nokkrusinni eignast á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hef átt hann núna í 15 daga og hef ákveðið, frá og með nóttinni í nótt, að hætta að sofa í honum. Hann mundi hvort sem er aldrei rata til Akureyrar aftur!

Svo ætla ég að opna búð á Akureyri fyrir næstu verslunarmannahelgi! Álpaðist einmitt inn í þessa ágætu fatabúð (guðisélof) á laugardeginum og fann þennan jakka minn en það tók mig smá tíma að fá að borga hann þar sem í búðinni voru í löngum bunum drukkin ungmenni að eyða sumarhýrunni sinni í föt sem þau nota örugglega svona einu sinni en kveikja svo í þeim í bræði sinni yfir því að hafa í ölæði eytt skólapeningunum sínum í þessa larfa. En verslunareigandinn er núna í þessum töluðu í Karíbahafinu að spóka sig fyrir ágóðann af þessari helgi! Og þess vegna ætla ég að opna búð á Akureyri um næstu versló; af því að það er hægt að hafa inn milljónir á ofurölvi ungmennum. Þær munu að sjálfsögðu renna beint til góðar málefna, svo sem SÁÁ og KFUM & K....

Jæja, nú er hitabylgjan búin og þá er bara að telja niður í næstu hitabylgu sem gæti orðið eftir svona um það bil 65 ár! Jahérna hér! Sumarið 1939 var allavega það besta hingað til þannig að þá hlýtur sumarið 2069 að verða alveg ægilega huggulegt og kósý. Plúsinn við það er að þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að vera innilokuð á vinnustað mínum allan daginn í hitanum þar sem árið 2069 verð ég einmitt 92 ára og sennilega nýhætt að vinna! Allavega komin niður í svona 60% vinnu! Á vínbúgarðinum mínum það er að segja! Á Ítalíu! Og þá varðar mig ekkert um hitabylgjur á Íslandi!

Málleysi mitt á síðum þessa bloggs er að mestu leyti annríki í vinnunni að kenna, eins og ég fór út í hérna tveim færslum á undan. Nú er þó búið að ráða inn nýja manneskju fyrir hina og byrjar hún um mánaðarmótin og hún er, merkilegt nokk, ekki ólétt! Það hlýtur að teljast plús. Annars eru allir aðrir í kringum mig óléttir og það ótrúlegasta fólk. Frétti á einum degi af þremur óléttum og ein fregn bættist við núna um helgina. Almáttugur, hefur fólk ekkert annað að gera í þessum hitum? Maður spyr sig.

Var að fatta það að ég er ekki ennþá búin að setja hana Tobbu kanadaflýjandipípsystur inn á bloggaralistann hérna hægra megin og ætla að kippa því í liðinn núna. Að henni forspurðri að sjálfsögðu. Ef þú hefur einhverja athugasemdir við þetta Tobba mín skaltu bara fylla út eyðublað númer E-8549 og koma því til okkar hjá hvarsemer og við fundum um málið og tökum afstöðu fyrir júlílok 2005.

12. ágúst 2004




Talan í miðjunni er hitastigið í gærkvöldi (10.08) rétt fyrir miðnætti! Fæ fyrr loftstein í hausinn og eldingu í tánna á sömu sekúndunni áður en maður upplifir rúmlega 20 stiga hita á miðnætti á Íslandi aftur! Vil koma á framfæri þökkum til Landsbankans fyrir að hafa gefið mér þessa frábæru hitarakatímatunglgangsgræju þannig að ég geti nú hagað mér eins og gamalmenni sem er með hitastigið og rakann á heilanum.... "hmmm hvað skyldi nú vera mikill raki úti núna...". Þessi græja hefur líka lifað af 3 mínútur í Varmánni en svínvirkar engu að síður! Alvöru apparat! Þetta fer annars að líta út eins og skipulögð þolraun fyrir hitt og þetta að detta út um gluggann og rúlla útí á; kötturinn lifði það af og þessi græja líka! Survival of the fittest!

P.s. ÉG ER KOMIN MEÐ ADSL!!!! happyhappyjoyjoy

9. ágúst 2004


Það er slæmt að rembast við að vera bloggari og hafa svo ekki tíma til að blogga í vinnunni og vera þar að auki nettengingarlaus heima hjá sér! Engir ljóðabálkar né merkispistlar koma út úr því er ég hrædd um. Þetta ætti þó að breytast síðar í vikunni þegar ADSL-ið verður tengt hjá okkur og þá get ég hafið skriftir á ný ótrauð. Er einmitt að vonast til að með þessu ADSL-tilboði fylgi fleiri klukkutímar í sólarhringinn og þá skal ég gaspra eins og ég veit ekki hvað!

4. ágúst 2004


Veit einhver hvar eyjan Hvar er?

Akureyringar eru veruleikafyrrtir bullukollar! Eyddum verslunarmannahelginni í Hrafnagili rétt utan við Akureyri og fengum að kynnast því á eigin skinni hvað þeir eru skrýtnir. Maður hlustaði stundum á útvarpið um helgina til þess að fylgjast með því hvað væri í gangi og alltaf tönglaðist Ak-fólkið á því að sólin væri að gera útaf við þá og malbikið á góðri leið með að rúllast upp í hitanum og að í bænum væru hið minnsta15.000 aðkomumanns, gott ef ekki 40.000! Og þetta hlustuðum við á þegar við sátum í skúraleiðingum og með vindstrenginn upp í nefið og nýkomin úr miðbænum þar sem mannfjöldinn jafnaðist á við meðal mótmælafund í borginni! Jæja, kannski aðeins fleiri, að heimamönnum meðtöldum... engu að síður; Akureyringar eru ýkjumeistarar landsins án nokkurs vafa! Annað en Dalvíkingar, annálaðir heiðursmenn þar á ferð og raunsæir í þokkabót.

Í fríinu mínu er ég búin að....


- lifa af aðra hestaferðina í sumar!
- missa mig á útsölum!
- smakka ostapizzu með rifsberjahlaupi... súpergott!
- flakka norðurland eystra frá Öskju í suðri til Ásbyrgis í norðri og frá Dalvík í vestri til Möðrudals í austri!
- Eyða alltof miklum peningum!
- snoða barnið mitt!
- lesa Da Vinci lykilinn, kláraði hana í fyrrakvöld - tók mig akkúrat fríið að lesa hana!
- Brenna nokkrum sinnum á bringunni!
- flagna á bringunni!
- keyra í heilan dag með lykt af salmonellusjúkum kjúklingi í nefinu!
- fá kökk í hálsinn þegar sonur minn missti gasblöðruna sína og horfði á eftir henni uppí himinhvolfin algjörlega miður sín og frávita af sorg. En það reddaðist þar sem blaðran er að sjálfsögðu á leiðinni til Toggu frænku í Ameríku og ætti að fara að skila sér hvað á hverju!
- kaupa 9 karmellustykki í bakaríinu á Dalvík á 3 dögum!
- klúðra öllum myndunum mínum úr ferðalaginu!
- læra á myndavélina mína!
- fara í jólahús og ótrúlegt en satt - það var skemmtilegt!
- missa vinkonu til Danmerkur í klær ástarinnar!
- hafa það ógeðslega gott!

23. júlí 2004


Jæja, sumarfríið er að sjálfsögðu ljúft og þessa stundina er píp-familían stödd á Dalvík í góðu yfirlæti og höfum verið hér í tvo daga en stefnum á meira flakk á morgun.  Hér er sól og blíða og bringan á manni vel grilluð, spurning með að skella bara smá Dijon-sinnepi á hana og hunangi ef í harðbakkann slær.  Á morgun verður haldið austur á bóginn, í Ásbyrgi eða Vesturdal sem ku vera paradís mikil.  Eigum svo eftir að dúlla okkur á austanverðu landinu næstu dagana þar sem vökvun stendur yfir á vesturhlutanum um þessar mundir.

Færslur mínar hafa verið fáar í fríinu en það er ekki vegna yfirgengilegrar leti heldur er heimili mitt netsambandslaust vegna þess að módemið gafst upp og orkar ekki meir.  ADSL er í vinnslu.  Hver nennir svosem að sitja inni í fríinu sínu og tuða eitthvað á netinu?  Mér er spurn.
Svo á líka Da Vinci lykillinn huga minn um þessar mundir.  Þetta er málið með vel heppnað sumarfrí; að ná sér í góða bók þannig að ef svo óheppilega vill til að dropar komi úr lofti kúrir maður sig bara og les!  Engin vonbrigði og tóm ánægja.

Jæja þetta er komið gott og rauðvínið bíður.  Adios!

9. júlí 2004




Sumarfrí eftir 30 mínútur! 3 vinnuvikur í frí; alls 24 dagar (helgarnar meðtaldar)! Hvílík gleði. Eins og sést á bloggfærslum þessarar viku er hausinn löngu farinn í sumarfrí þar sem undirrituð hefur verið algjörlega andlaus og mállaus á síðunni sinni. Kannski ég sé bara smátt og smátt núna að endurheimta heilann og heyrnina eftir læti sunnudagskvöldsins. Veit ekkert hversu virk við hjá hvarsemer verðum í fríinu, þar sem jú merkilegt nokk hvarsemer ætlar sér einmitt að vera hvarsemer í fríinu sínu! Ætli ég byrji ekki fríið á morgun á því að láta einhverja endemis ótemju lærbrjóta mig með einhverjum óforskömmuðum kúnstum, þar sem öll tengdafjölskyldan ætlar að bregða sér með útlendinginn hana Toggu á hestbak. Þar sem þetta er tengdafjölskyldan verðum við tengdabörnin eflaust látin sitja einhverjar truntur til að standast enn ein inngönguskilyrði fjölskyldunnar. Eilífar prófraunir alltaf hreint. Jæja, adios í bili. Gleðilegt sumarfrí Tobba...

5. júlí 2004


Marriage changes passion...
suddenly you're in bed with a relative!

Jahá, þetta grunaði mig...
Togga er ekki lengur í útlegð. Hún fer huldu höfði í Breiðholtinu.
Voveiflegir og válegir atburðir áttu sér stað í Portúgal í gærkvöldi. Grautfúlt lið lagði mína menn að velli á velli ljóssins í úrslitaleiknum. Afskaplega áferðarljótur og leiðinlegur fótbolti sem þessir grísir spila, já segir manneskja sem veit sko hvað hún syngur... Skemmtilegt frá því að segja að orðatiltækið að eitthvað sé "grís" (slembilukka, heppni) er einmitt frá þessum blessuðu Grikkjum komið; grís = Greece (Orðabók götunnar, 18. útgáfa 1982, bls. 368). Skelfilegt að þetta lið hafi unnið keppnina. Sorgardagur í knattspyrnusögunni!

Þórsmörk var fín um helgina, votviðrasöm þó en afbragðsgönguveður á laugardeginum þannig að við löbbuðum þvers og kruss um allt, um Bása, Langadal og Húsadal.

Mættum svo í Egilshöllina í gær ásamt 17.996 öðrum til að horfa á Metallicu og það var nú meiri stemmingin. Hitinn og svitinn var svo mikill að ekki var þurr þráður á fólki og puttarnir soðnuðu eins og í finnsku gufubaði. Pípið gjörsamlega tapaði sér meðan undirrituð hélt cool-inu enda var það ekki fyrr en á 5. lagi sem mín fór að kannast við lög og svo komu meira að segja nokkur lög sem mín gat sungið með! Kalla það gott bara. Misstum af Brainpolice en sáum Mínus sem voru alveg fjári góðir!



P.s. Það besta sem komið hefur fyrir karlkynið í langan tíma er það að James Hetfield hafi verið sendur í klippingu. Allt annað að sjá manninn!

1. júlí 2004


Loksins kemst ég í Mörkina mína um helgina! Gleðifélagið Hrókurinn ætlar að kíkja í Bása og hafa það náðugt ásamt afkvæmum. Æ hvað það er ljúft og langþráð...


Mínir kæru Portúgalir eru hreinræktaðir öðlingar! Þeir unnu að sjálfsögðu eins og ég var búin að ljóstra upp í gær, en þegar þeir voru komnir í 2-0 sáu þeir aumur á Hollendingunum, sem mega muna sinn fífil fegri, og gáfu þeim eitt mark. Jorge Andrade var svo elskulegur að skora sjálfsmark af því að hann sárvorkenndi Hollurunum að vera svona mikið undir, litlu kútarnir. Þetta er hinn sanni íþróttaandi og góðirviðminnimáttar-gæska.

30. júní 2004


Það hlýtur að vera ódýrara að kaupa opnanleg fög á alla gluggana í glerhúsinu mínu heldur en að kaupa 16.000.000 kr. loftræstikerfi sem framleiðir bara þungt loft!

Ótrúlegt fyrirbæri þetta kerfi, maður má ekki opna þessa fáu opnanlegu glugga sem eru á bakhliðinni og fá inn ferskt og gott sumarloftið af því að þá ruglast loftræstikerfið í ríminu og fer í klessu bara. Sniðugt!

Þetta með að vilja kaupa loft er örugglega sama element og fær fólk til að kaupa vatn á Íslandi eða deyja úr þorsta upp á fjöllum við fagran fjallalæk...
Tvíhöfðinn, þeir Jón Kjartansson og Sigurjón Gnarr ætla að lýsa úrslitaleik EM í beinni á Skonrokki á sunnudaginn. Því væri verra að missa af og svei mér þá, ef þetta er ekki ástæða til að íhuga að sleppa tónleikum Litháísku kósakkahljómsveitarinnar, Metallicu, þá veit ég ekki hvað... Og þó, kannski ekki. Veit ekkert hvenær þessir blessuðu tónleikar byrja annars, getur vel verið að maður nái hluta af lýsingunni. Við Tvíhöfði erum sennilega jafn ástríðufullir fótboltaunnendur og miklar vitsmunabrekkur í þeim efnum.

Hef öruggar heimildir fyrir því að Portúgal fari með glæstan sigur af hólmi í einvígi kvöldins gegn Niðurlendingum.



Og vinni svo Tékkana á sunnudaginn en það er önnur saga!
Fyrirgefiði, það var ekki meiningin að eyðileggja fyrir ykkur spennuna...

29. júní 2004


Játning!


Fór ekki að kjósa á laugardaginn! Handónýtur þjóðfélagsþegn sem maður getur verið! Nennti því ekki og dreif mig bara vestur! Slagviðri og viðbjóður gekk yfir landið sem meðal annars lýsti sér í því að einungis 63% landsmanna kusu. Þá einmitt fer maður að spögglera; aldrei hafa jafn fáir kosið í sögu lýðveldisins! Hmmm... Engu að síður er þessi tala ca. 15% hærri en tala þeirra sem gengu til kosninga í USA þegar Bush jr. var kosinn yfir USA og restina af heiminum í kosningunum 2000. Sem er athyglisvert útaf fyrir sig. Tæpur helmingur USA-búa kaus og tæplega helmingur þeirra kaus Bush (kunna ekki að telja í Flórída eða eitthvað) og því sitja þjóðir heimsins uppi með síkópatískt kristilegt alvald sem er einungis með 25% atkvæða landsmanna sinna á bak við sig! Athyglisvert! Held að við séum bara í góðum málum á klakanum þegar á annað borð þessi fjöldi nennir að fara og kjósa sér skreytingu á kökuna.

Ekkert samviskubit núna að hafa ekki farið að kjósa, lofa að fara næst þegar verður kosið um eitthvað sem skiptir máli!
Ekki nema 8 vinnudagar eftir fram að sommerferie, hversu frábært er það..? Helgin var æði eins og við var að búast. Brúðkaupið og veislan algjörlega meiriháttar en senuþjófurinn var sundlaugin í Reykjanesi. Þvílík og önnur eins snilld! Hún er takk fyrir kærlega 50 m og vatnið í henni er í kringum 40 gráðurnar þannig að hún er meira svona heitur pottur! 50 m heitur pottur! Hversu frábært getur það orðið? Og að sjálfsögðu varð maður að kíkja í hana um nóttina þegar brúðhjónin voru farin úr veislunni og allt að leysast upp. Íslenskara gerist það heldur ekki, að fara í 40 gráðu laug um hábjarta sumarnótt vestur á fjörðum! Geðveikt! Það er ekkert betra en íslenska sumarið! Verður bara að segjast eins og er.

Allir gistu semsagt í heimavistarskólanum að Reykjanesi og upp um alla veggi gat að líta fróma ættinga, svo sem eins og afa Jenna, Beggu föðursystur, Didda og Helgu afasystkin og fleiri mæta einstaklinga.
Svolítið skondið að það að vera þarna var pínu eins og að vera staddur í miðri bók eftir Agöthu Christie: afskekkt hótel, fullt af fólki samankomið af sama tilefni, einn og einn týnir tölunni (Sökudólgur: Bakkus!) og fleira skemmtilegt.

Helginni lauk svo með sólarhring í Úthlíð í alveg splunkunýjum píparabústað, agalega huggulegt allt saman.

25. júní 2004


Kjósa forseta já segiði, þyrfti eiginlega að gera það í fyrramálið ef ég verð ekki lögð af stað það er að segja. En hvern skal kjósa spyr maður sig?? Ok veltum aðeins fyrir okkur kostum og göllum frambjóðendanna. Í stafróðsröð að sjálfsögðu! Ítrasta hlutleysis gætt í hvívetna.

Kostir:

Ástþór hefur sýnt vott af geðveilu en ólíkt öðrum geðveilum þjóðhöfðingjum er hann með frið á heilanum en ekki stríð.

Baldur er bumbulíus og pínulítið eins og jólasveinn sem kemur sér vel í baráttunni við Finna og Norðurpólinn um eignarhald á jólasveininum.

Óli er búinn að búa á Bessastöðum í 8 ár og er farinn að rata um allt þar alveg sjálfur og er kominn með yfirgripsmikla reynslu í embættinu.

Gallar:

Ástþór hefur þannig augnaráð að lítil börn fara að skæla og gamlar konur signa sig.

Baldur gæti átt erfitt með að rúmast í þröngum sætum Þjóðleikhússins á hátíðarfrumsýningum.

Ólafur var ekkert voðalega ánægður með mig þegar ég ætlaði að selja honum 54 tannkremstúpur í Hagkaupum árið 1997. Hann var að kaupa 5 túpur (til hvers í ósköpunum???) og fingur mínur runnu mjúklega af 5 yfir á 4 líka þannig að 54 túpur voru slegnar inn í kassann og hann var ekkert voðalega þjóðlegur eða hátíðlegur þá.

Ofan á allt eru þeir allir giftir útlenskum konum! Voru þetta samantekin ráð hjá þeim að reyna brjóta okkur íslensku konurnar niður með því að allir þrír snéru við okkur baki?? Hmpf, það þarf nú meira til... Farið hefur fé betra segi ég nú bara...

Jæja, ég er engu nær svosem en mín lýðræðislega samfélagslega innri rödd segir mér að maður skuli nýta atkvæðisrétt sinn og kjósa þannig að við skulum nú reyna að komast á kjörstað. Er það ekki...?

ÁFRAM VIGDÍS!!!
Frábær helgi framundan. Bruna á ókristilegum tíma í fyrramálið vestur á firði í brúðkaup og húllumhæ sem því fylgir, gistum eina nótt, ryðjumst svo í bústað til tengdó og pottumst og grillumst og lúllumst þar ef við megumst og á frí á mánudaginn þannig að þetta er draumahelgi algjör! *Sælukurr, mal og hrollur*

Óska vinum og velunnurum nær og fjær góðrar helgar.

Hip hip!



24. júní 2004


Litli píp fór í þriggja og hálfs árs skoðun í morgun, eitthvað sem mann hefur kviðið fyrir lengi miðað við sögurnar sem maður hefur heyrt um þá skoðun. Einhver sagði að börnin þyrftu að kunna að telja afturábak og fara með ljóðabálka og allt í þeim dúr en hvað haldiði? Sonur minn er algjör snillingur samkvæmt því sem hjúkkan sagði. Klár á öllu sem hún spurði hann útí og teiknaði geggjaða mynd af mömmu sinni með augabrúnum og alles. Hann var líka settur í sjónpróf og látinn labba eftir línu sem ég veit ekki alveg hvaða tilgangi á að gegna, sonur minn er enginn róni! Allavega hann sér vel og jafnvægisskynið í fínu lagi. Hefði eiginlega átt að nota tækifærið og fá vottorð frá hjúkkunni um það að sonur minn sé löggiltur snillingur, og láta þinglýsa því, þannig að ég þurfi ekkert að rökstyðja það neitt frekar í framtíðinni! Eða kannski er nær að fá vottorð frá henni um að ég sé illa haldin af mömmufasisma á háu stigi. Læknisfræðilega heitið er Hverjumþykirsinnfuglfagur-syndrome...

Fótboltapistill alvitrar



Jæja í kvöld er alvöru leikur á EM: Portúgal-England. Nú skulu mínir menn sko rúlla yfir þessa bretakjána og hana nú. Skil ekki alveg af hverju í ósköpunum annar hver maður heldur með þessum leiðinda Englendingum... fólk er einhvernvegin gegnumsýrt held ég af markaðsdeild Sýnar sem hefur haldið ensku deildinni að fólki sem ægilega merkilegri eða eitthvað álíka, sem gerir það að verkum að sjálft enska liðið er stórlega ofmetið! Við skulum bara hafa í huga að nota bene alvöru leikmennirnir í deildinni eru útlenskir! Maður sér bara til þessara ensku í slúðurblöðunum, þar standa þeir sig alveg konunglega og eru allt í öllu (Rooney er svo ungur að það eru ennþá svona 2 ár í að hann verði slúðurblaðamatur, getur enn einbeitt sér að boltanum). En þar sem allir halda með tjöllunum held ég að ég skreppi bara upp á Kárahnjúka á eftir til að geta samglaðst með einhverjum þegar sigurinn er í höfn!

Skondið annars hvað fólk heldur aðallega með einhverjum gömlum goðsögnum sem eru svo dettandi út hver á fætur annarri, samanber Ítalina (búningarnir hefðu nú alveg mátt vera lengur inni) og Þjóðverjana (almáttugur þvílíkt leiðindalið). Hollendingarnir rétt náðu svo að tolla inni. Málið er bara það að þessi lið voru alveg svaka góð og best í heimi fyrir 20 árum síðan OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ? Talandi um að lifa á fornri frægð.
Ætla núna að láta þessum fólboltapistli mínum lokið áður en ég segi eitthvað verulega vitlaust.

Amen.

23. júní 2004



Frétt í dag:
"Í bréfi Bush forseta til Bandaríkjaþings segir að Bandaríkjastjórn hafi verulegar áhyggjur af hvalveiðum Íslendinga og að hún ætli að beita fortölum til þess að fá þá til að hætta hvalveiðum í vísindaskyni."

Svar Heimsmálaráðuneytis Íslendinga sem var sett í póst áðan:

"Hr. Bush jr.
Um leið og þú hættir að drepa fólk í skemmtanaskyni skulum við kannski íhuga að endurskoða málið."
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats