31. maí 2005


Ef einhver hélt að Íslendingar væru friðsæl þjóð og laus við öll hernaðarafskipti þá er það hinn mesti misskilningur.
"Við Íslendingar" héldum nefnilega upp á Memorial Day í gær og svo er eitthvað um að fólk liggi flatt á sjúkrahúsum með hermannaveiki!
Svo hefur náttúrulega ríkt verðstríð í búðunum undanfarið... Sennilega að verða 100 daga stríð.
Hlutleysi hvað?



Keyrði nýjasta autobahnann í bænum í dag. Sérdeilis skemmtileg upplifun það. Að keyra allt í einu þvert yfir svæði sem maður hefur varla svo mikið sem labbað á áður, í og með af þeirri ástæðu að það þótti víst verra að styggja fuglana sem eiga heima þarna á svæðinu. En hey, það var á síðustu öld (sooooo last century); malbikum bara yfir þá og gerum göng undir veginn fyrir eftirlifendurna(r). Brilliant lausn! Langaði svo óneitanlega að halda nýbreytninni bara áfram og skvera beint yfir Klambratún en lét það vera. Af virðingu við blómabörnin í beðunum. Þau eru sennilega friðuð ennþá.

Búin að pakka í 9 kassa. Skohh allt að gerast!

29. maí 2005


Bakkus hefur tekið völdin á heimili mínu! Fór í ÁTVR í gær og fékk þar kassa til að maður geti nú farið að pakka sér og sínu ofan í kassa vegna yfirvofandi flutninga. Íbúðin er því full af mis óforskömmuðum áfengiskössum sem þýðir það að ég ætla ekkert mjög mikið að fá ung börn í heimsókn á næstunni þar sem ég vil vernda þeirra litlu augu frá bölinu og vil síður bera ábyrgð á því að þau falli í glötun áfengisólifnaðar (Litli píp er sterkur!!). Einn kassinn er meira að segja það ósvífinn að á honum stendur stórum stöfum BAKKUS en hinir eru nú flestir ekki nema 10-12%, Carlo Rossi (from the vineyards of California), Santa Christina (2003) og eitthvað í þá áttina.
Þannig að nú er allt að gerast á heimilinu. Eftir 2 vikur, ath. 15 daga, verðum við á leið til Kaliforníu og á þessum tíma þangað til ætlum við að vera búin að pakka sem mestu þannig að þegar við komum heim 12. júlí ættum við að geta unnið að sólarhringsafréttingum óáreitt þar til hinn 14. júlí þegar við munum fá íbúðina okkar afhenta og hefjum flutninga af fullum krafti. Eruð þið ekki öll búin að gera upp við ykkur hvernig við eigum að hafa eldhúsið á litinn? Hugmyndir vel þegnar...

---

Einhvern veginn hélt maður að ungmenni á Austurlandi væru aðallega með hugann við það að búa til CV og fylla út umsóknareyðublöð um vinnu í alumenium-faktorí eða við stíflugerð þessa dagana. En aldeilis sei sei nei! Heyrði í hinni frábæru hljómsveit VAX frá Egilsstöðum um daginn og þvílíkt fjör! Þeir eru greinilega ekki alveg á neinum bölsýnisbuxunum og eru meira að segja það hressir að þeir hljóta eiginlega að vera utanbæjar. Upprunalega vestfirðingar ábyggilega. Þetta er alveg hressandi lag!

19. maí 2005


Jesössss! Ég á DOLCE & GABBANA kjól....! Og ætla að vera í honum í brullaupi á laugardaginn! Brúðurin sú er eflaust hamingjusömust í heimi núna, ekki þó yfir þeim heiðri að fá að ganga í heilagt hjónaband með náfrænda mínum, sem er jú mikill heiðursmaður eins og öll sú ætt meira og minna - heldur vofir ekki sú hætta yfir lengur að hún gifti sig í skugga júróvisjon eins og allt stefndi í og henni leist ekkert á! Merkilegt með þetta júródót annars, eftir síðustu keppni lýsti ég því yfir af minni einskæru bjartsýni að við kæmumst aldrei framar í úrslit júróvisjonsongkontest því þegar við dettum einu sinni niðrí þetta undanúrslitadæmi komumst við aldrei upp úr því, þökk sé Austur-Evrópu-bestuviniríheimi-þjóðunum. Og hvað gerðist?!?!
Þær ættu bara að halda sér síns eigins keppni held ég, þær eru nefnilega farnar að slaga hátt í þriðja tuginn eða ekkva álíka, gott ef ekki þriðja hundraðið. Jæja, hvenær skyldu næstu smáþjóðaleikar vera...?

Hip hip...

Mér telst til að eftir 16 vinnudaga verði ég komin í sumarfrí og á þar af leiðandi aðeins eftir að bruna 32 sinnum í viðbót á milli Mos - Rvk á öðru hundraðinu til að komast í eða úr vinnu og passa upp á að sækja Litla Píp ekki of seint og svoleiðis hasar. Eftir sumarfrí get ég svo sótt hann fimm mínútur yfir fimm en ekki tuttugu og fimm mínútur yfir fimm! Mann munar svo sannarlega um þessar mínútur skal ég ykkur segja. Ég verð hrifnari og hrifnari af þessum búferla flutningum okkar með hverjum deginum....
Jæja Frú Steinunn Valdís, vinsamlegast komdu nú honum Litla Píp fljótt og örugglega inn á fyrirtaks leikskóla í henni Reykjavík. Með fyrirfram geggjaðri stuðkveðju og þökk, kiss kiss!

17. maí 2005

Þá er það orðið opinbert. Rvk - Sund verður næsta heimili family Píp. Nánar tiltekið Efstasund! Og það númer 93. Hröpum í frjálsu falli úr póstnúmeri 270 niður í 104. Sem er bara fínt hrap. Förum í kaupsamning í næstu viku og fáum svo afhent 14. júlí þannig að nú getur maður farið að einbeita sér að öðrum hlutum, svo sem eins og Kaliforníu-reisunni miklu. Munur að vita það að fjölskyldan kemur til með að eiga heimili þegar heim verður komið...
Nú þarf bara að tala litla píp inn á að nýji leikskólinn (hver svo sem hann verður) sé alveg jafn frábær og Reykjakot og nýja herbergið hans sé alveg geggjað. Þarf svo sem ekki mikið að sannfæra hann um það síðara. Svo getur maður farið að velta fyrir sér fyrir alvöru litavali og húsgagnauppröðun og fleira spennandi.

Þrátt fyrir fáar áskoranir ætla ég að láta fylgja með mynd af hinu forkunnarfagra eldhúsi sem í íbúðinni er... Munið - málning gerir kraftaverk!

13. maí 2005


Já maður ætti kannski að tjá sig aðeins hérna og láta æsispenntan lýðinn vita hvernig staðan er á íbúðamálum. Fórum á opin hús og svona á sunnudaginn og kíktum á hinar og þessar holur og þar á meðal eina risíbúð við Efstasund, sem við höfðum séð oft á netinu en ekki dottið í hug að fara að skoða af því að myndirnar voru svo, hvernig á ég að orða það... afkáralega fáránlegar.

En við rúlluðum þarna við bara að ganni á sunnudaginn (stutt frá ísbúðinni nefnilega) og leist svona bara aldeilis prýðilega á hana. Hún er greinilega ein af þeim íbúðum sem myndast bara ekki vel!
Eldhúsið er að vísu örlítið geislavirkt, veggir og loft eru svona gul og skápahurðirnar rauðar. Baðherbergið er með frjálsri aðferð líka en þetta býður þá bara allt upp á að maður láti hendur standa fram úr ermum og breyti öllu saman eftir eigin höfði. Hún er að vísu bara 3 herbergja, en við ættum að geta verið þarna í svona 3-5 ár og svo vonandi selt hana fína og uppgerða án þess að tapa á henni allavega… Fórum sem sagt á mánudeginum og gerðum tilboð og fengum gagntilboð og niðurstaðan er sú að við fáum hana á 17 millur þannig að nú er maður bara í öllu lána og greiðslumatsferlinu og vonar bara að allt gangi upp. Mundum fá hana afhenta 14. júlí þannig að við verðum ekki heimilislaus ef guð og bankarnir lofa. Á þriðjudaginn ræðst hvort hún verður okkar eða eigi þar sem þá lætur bankinn okkur vita hvort við erum honum þóknanleg.

Sem betur fer eru gaurarnir á fasteignasölunni búnir að taka íbúðina af netinu þannig að þið getið ekki grátið af hlátri yfir litagleði og fegurð eldhússins.

Tilkynningaskyldu fullnægt!
Takk fyrir.

6. maí 2005


Tók einhver upp Little Britain á miðvikudaginn??? Fyrir einskæra heimsku tókst mér að "gleyma" þættinum. Minnið er þannig núna að ég man ekki einu sinni hvað ég var að gera sem varð til þess að ég gleymdi þættinum. Kominn tími á að skipta um kubb held ég. Spurning hvað hin gullfallega Vicky Pollard sem sjá má hér að neðan hafi gert af sér í þessum þætti...


"Yea but no but yea but no but yea but no but yea but no but...."

Það hefur eflaust verið einhver snilld!

---

Þessi fimmtudagsfrí eru bara dásamleg! Ef það á að færa þau á mánudaga eða föstudaga til að lengja helgarnar frekar, eins og verið er að ræða um, missir maður alveg af þessum mánudagsföstudögum! Það er nefnilega undursamlegt að mæta í vinnuna í týpísku mánudagsþunglyndi en uppgötva sér til einlægrar og barnslegrar gleði að það er faktiskt föstudagur! Maður getur sagt við sjálfan sig "það er mánudagur... :( - nei það er föstudagur... :)" allan liðlangann daginn og haft gaman af. Simple pleasure for simple minds eins og afi sagði.

---

Íbúðaleitin gengur ekkert sérstaklega vel, erum búin að skoða allskonar íbúðir en engin sem tekur á móti okkur með nöfnunum okkar á dyramottunni eins og maður segir... sem sagt engin sem er að grípa okkur - nema hugsanlega og ef til vill ein sem við ætlum að skoða síðar í dag og er staðsett í Kópavoginum. Það er gott að búa í Kópavogi segir Gunnarinn með dverginn í hálsinum og því hlýtur maður að geta treyst. Tala nú ekki um hinn Gunnarinn með Krossinn á bakinu - hann valdi sér Kópavog sem miðdepil útbreiðslustarfsemi fagnaðarerindisins ehf. Maður þarf þá ekki að hafa áhyggjur af því að það valhoppi latexklæddir hommar framhjá glugganum manns í tíma og ótíma, hann er nottla búinn að afhomma bæinn eins og hann leggur sig. Kann samt ekki alveg við bæjarfélög sem eru ekki með neinn miðbæ! En það er ekki eins og Mosó sé heldur með neinn miðbæ þannig lagað. Læt ykkur vita kæru velunnarar til sjávar og sveita hvernig leitin gengur....
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats