16. febrúar 2009

Maður er nefndur Ólafur Ólafsson landlæknir. Fyrrverandi mun hann reyndar teljast núna og orðinn að almennum ellilífeyrisþega - síðast þegar við vissum...
Oftar en ekki sá maður hann í fréttum á yngri árum og ekki er laust við að eftir hafi verið tekið hve fastheldinn maðurinn er á svipi. Altso notar helst ekki nema einn svip. Álíka pókerfés hefur vart þekkst hér á landi, að því leyti að ómögulegt er að lesa úr andliti hans hvort hann sé yfirmáta hamingjusamur þá stundina eða frámunalega niðurdreginn því alltaf er hann nokkurn veginn svona:


Þó má ekki gleyma að eitt sinn fyrir röð mistaka náðist af honum mynd þar sem segja má að jaðri við að hann sé sposkur á svip:


Víkur þá sögunni vestur um haf í borg hvar kvikmyndaiðnaður er stundaður af miklu kappi. Þekki ekki hvernig það atvikaðist en svo virðist vera að Herra Ólafur hafi aldeilis ekki sest í helgan stein er hann hætti að lækna landið heldur hefur hann unnið hörðum höndum að því að byggja upp leikaraferil enda orðin vöntun að álíka karakterleikurum eftir að Arnold snéri sér að öðru. Pixar mun sem sagt vera við það að sleppa lausri sinni nýjustu afurð er nefnist "Up" og skartar áðurnefndum Ólafi í aðallhlutverki.

Sú mynd ku fjalla um ellilífeyrisþega sem fær þá snilldarhugmynd að festa við húsið sitt þúsundir blaðra til að geta ferðast á þægilegan hátt til Suður-Ameríku því þangað habbði kauða ávallt langað til að ferðast áður en hann golunni geispaði.


Þarna þykir mér áðurnefndum Ólafi hafa tekist snilldarlega upp í hlutverkavali því nokkuð er ég viss um að landlæknirinn sé með þessu að benda okkur öllum hérna uppi á fúla Íslandi að þetta sé í rauninni ekkert vandamál. Hann er að senda okkur þau skilaboð að þó við sitjum hérna upp á ísköldu skeri með alltof marga heimska pólitíkusa sem ná ekki höfðinu útúr hvors annars rassi þá þurfum við í raun ekki að gera annað en að binda nokkur þúsund blöðrur á húsin okkar til að komast burt! Amen - bara moka húsið upp - panta fullt af helíumi strax áður en allir hinir klára það og pant lenda svo í Kaliforníu... Takk fyrir.

Einu sinni læknir ávallt læknir.

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats