30. ágúst 2007


Nýr IKEA-bæklingur kominn í hús og í fljótu bragði sýnist mér hann vera ögn siðsamari en í fyrra...

Samanber blaðsíðu 5 í hefti síðasta árs:

Enlarge for penis

25. ágúst 2007


Það er ekki oft sem sjónvarpið nær að dáleiða undirritaða en það gerðist í fyrrakvöld í nokkrar mínútur. Þetta hérna eru einhver sú mesta snilld sem ég hef séð og heyrt lengi og ber eiginlega að hlusta og horfa á í myrkvuðu herbergi, með heyrnartól á eyrum og stækka upp í Fullscreen! Þarna er Daníel Ágúst og Hljómsveit illa á sig kominna lifra og brostinna hjartna að flytja "Earth Died Screaming" eftir Meistara Tom Waits! Nema hvað að þarna kemur Daníel Ágúst manni gjörsamlega í opna skjöldu og sannar það að hann er einhver sá albesti söngvari sem þessi þjóð hefur alið, ef þú spyrð mig! Hann nær þarna í orðsins fyllstu að bregða sér í allra kvikinda líki og rúllar upp lagi sem maður hefði haldið að enginn gæti tekið betur en höfundurinn sjálfur. Já, segi það og skrifa; hann tekur það nánast betur en Herra Waits sjálfur.
Þetta atriði var sýnt í Kastljósinu í fyrrakvöld til að kynna tribute (lotningar, virðingar)-tónleika sem voru haldnir það sama kvöld og ég segi bara and%&$inn sjálfur að hafa ekki lufsast til að kaupa sér miða og drífa sig í staðinn fyrir að röfla heima: "...issss það nær enginn Tom Waits nema hugsanlega mögulega kannski Tom Waits sjálfur...".

Ef Kastljósið hefði nú líka séð sóma sinn í því að sýna þetta atriði daginn fyrir tónleikana en ekki 20 mínútum áður en þeir hófust hefði maður farið og ekki orð um það meir. Ég meina maður er með börn og svona sem maður hleypur bara ekkert út frá! Ha! Tónleikahaldarar* vinsamlegast athugið: í guðanna bænum kynnið tónleikana ykkar voða mikið dagana áður en þeir eru haldnir en ekki sama kvöld. Takk fyrir.

*Á ekki við um Einar Bárðarson. Hann má vinsamlegast hætta að auglýsa sinn horbjóð og hann mætti náðasamlegast snúa sér að annars konar markaðsmálum en að koma á framfæri slæmum og hæfileikalausum tónlistarmönnum og halda með þeim verulega vonda tónleika. Ef sammála, smelltu hér.

Ég var nýbúin að hella upp á kaffi í morgun þegar rafmagnið fór af. Mitt fyrsta verk var að kíkja í rafmagnstöfluna okkar til að athuga hvort rafmagnið væri nokkuð bara farið hjá mér. Ekki gat ég séð að það væri neitt að í minni töflu, verandi rafmagnsséníið sem ég er. Sem betur fer kom rafmagnið svo fljótlega á aftur og þá gat ég lesið á mbl að rafmagnið fór ekki bara af hjá mér. Það virðist hafa farið af öllum heiminum! Víðtækt rafmagnsleysi í meira lagi.

23. ágúst 2007


Ef þú horfir á þetta vídeo verðurðu sennilega ekki hissa á því að búið er að ákveða að planta olíuhreinsunarstöð á þennan stað þar sem þessi akstur átti sér stað.



Það hlýtur að þurfa minnst eina olíuhreinsunarstöð til þess að hreinsa upp mengunina eftir Píp og Broncoinn hans.

Þetta myndband er sem sagt tekið nú í sumar í Hvestu í Arnarfirði þar sem verður að öllum líkindum reist olíuhreinsunarstöð, sem er þá væntanlega Píp að þakka/kenna (helv... píparinn).
Þangað til í sumar fannst mér það hræðilegt að fólki skyldi svo mikið sem detta í hug að setja upp svoleiðis stöð á Íslandi, hvað þá á Vestfjörðum. Sá nefnilega eitt svona skrímsli í Santa Cruz á Tenerife í mars og það var pent orðað viðbjóðsleg sjón með ógeðslegri lykt og svo ljótt og óhuggulegt fyrirbæri að maður andaði léttar yfir því að fólki hefði þó ekki dottið í hug að reisa svoleiðis fyrirbæri á Íslandi ennþá heldur héldi sig bara við minkabú nútímans, álverin.
En í aðdraganda kosninganna í vor fór þessi hugmynd á loft og þá rak mín upp ramakvein... "fyrirgef þeim, þeir vita ei hvað þeir gjöra"...

Svo fórum við vestur í sumar, hrokagikkir að sunnan vön okkar borgarlífstíl og að hafa allt til alls og komast hvert sem er hvenær sem er og allt eins og blómið eina. Þar settumst við niður með vinum okkar þeim Árnýju og Súna og þá duttum við svolítið inn í raunveruleikann og fengum ástand og horfur beint í æð og allt í einu fór maður að hugsa tvisvar. Og af því að mér þykir svo vænt um Vestfirðinga og Vestfirði er ég næstum því (endurtek næstum því) orðin meðmælt þessari verksmiðju.

Fann meira að segja voða sæta og krúttlega mynd af svona hreinsistöð í ægilega huggulegu sólarlagi og engar eldtungur standandi upp úr súlunum eins og á Tenerife og maður finnur enga lykt heldur:


Á samt mjög erfitt með að viðurkenna að ég sé hlynnt þessu því ég vil trúa að við þurfum ekki svona skrímsli til að halda lífi á landsbyggðinni og ættum eins og fleiri siðmenntaðar þjóðir að geta fókuserað meira á menntun og hátækni og ferðamannaiðnað en það er bara svo einfalt fyrir vitleysing að sunnan að segja það og það er orðið að svo brjálæðislegri klisju. Gott dæmi um ástandið á Vestfjörðum er til dæmis Bíldudalur, þar sem býr fólk sem hefur ekkert að gera meirihlutann af árinu og ástandið er svolítið svoleiðis að karlmenn bæjarins eru annars staðar að vinna en konurnar og börnin eru eftir. Svo á að fara að loka einu búðinni í bænum og líka búðinni í Tálknafirði sem er næsti kaupstaður. Þá þarf fólk að fara á Patró að versla og vá hvað það hlýtur að vera hressandi um hávetur að skjótast þangað yfir heiðarnar eftir tómatsósu og mjólk.

Held það væri annars einfaldast til að leysa vandamálin að afhausa þessa kvótkónga út um allt og láta vestfirðingana fá kvótann sinn aftur þannig að þeir megi alla vega bjarga sér sjálfir en ekki bara horfa á fiskinn svamlandi í sjónum. Já og Vestfirðingar mega líka opna augun aðeins fyrir ferðamannastraumnum sem liggur þangað því þar liggur ónýtt auðlind. Fórum einmitt í Selárdal og að Uppsölum í sumar og þar var hellingur af ferðamönnum en enginn hefur hugsað fyrir því að virkja þann straum, til dæmis með því að koma upp einhvers konar þjónustu, rukka vægan aðgangseyri, gera Uppsalabæinn eins og hann var þegar Gísli var og hét og hafa þar safn og svo framvegis.

Það sem mér huggnast samt verst er að þegar maður fer útí Selárdal eða að Uppsölum kemur maður til með að þurfa að keyra fram hjá þessari olíuhreinsistöð ef af verður. Sem er eiginlega hræðileg tilhugsun :/

Fleiri myndir frá Hvestu.

22. ágúst 2007



Þetta byrjaði allt með því að ég ætlaði að kaupa skáp.....

21. ágúst 2007


Á þessari mynd má finna forkunnarfagran karlmann sem fékk okkur til að detta í gamla gelgjugírinn á menningarnótt. Nei aldrei þessu vant er ég ekki að tala um Píp og ekki heldur svilbróðurinn hann Kristján og ekki heldur mágsoninn hann Tómas sem snýr hnakkanum í myndavélina og heldur ekki soninn ÓBG sem snýr líka hnakkanum að okkur.
Nei, þessi varð þess valdandi að við tókum andköf, rifum upp myndavélina, skipuðum Píp að stilla sér upp þannig að ekki mundu vakna grunsemdir. Þarna náði ég á mynd sjálfum Gael García Bernal sem gerði garðinn frægann í Diarios de motocicleta eða Mótorhjóladagbækurnar og lék í Babel og fleiri ræmum. Þarna stendur hann með rauðan hring um sig miðjan og ekki mikið hávaxnari en meðal hobbiti. (smella til að stækka)

En hann má nú eiga það að hann er ægilega sætur...

17. ágúst 2007


Það var tvennt sem vakti hjá mér kátínu við lestur Fréttablaðsins í morgun.
Annars vegar þessi klausa hérna fyrir neðan um nýjustu lausnina á vandamálum sem fylgja skemmtanahaldi í miðbænum eftir miðnætti um helgar. Þessi hugmynd sem hann BIngi fékk er nottla alger snilld og þessi klausa súmmerara hana eitthvað svo skemmtilega upp:

(smella á myndina fyrir stækkun)


það er rétt, ég þarf minnst kassa af bjór til að kaupa þessa hugmynd.

Og svo er það þessi hér:


Hver þarf óvini þegar maður á svona vini?

13. ágúst 2007


Má ég kynna.....


Mr. Pip Simpson

Móðurbróðurafasysturdótturson Hómers í föðurætt.

9. ágúst 2007


Ég er komin aftur... til að segja ykkur að ég er farin aftur! Í detox í Póllandi eftir sukk og svínarí síðustu 2 vikna. Heyrumst eftir helgi.

En eins og ávallt vil ég ekki að ykkur leiðist á meðan kæru lesendur og ætla að deila með ykkur besta tónlistarmyndbandi sem gert hefur verið norðan Alpafjalla. Það má vel vera að allir hafi séð það áður en þetta myndband er hreinlega þess eðlis að það er ekki hægt að horfa of oft á það, alltaf einhverjir skemmtilegir díteilar sem maður rekur augun í við hvert áhorf.

Það er hrein unun á að horfa hvar sem á er litið; vel útfærðir og þaulæfðir dansar fluttir af færustu dönsum sem völ var á og hvergi feilspor að sjá, tæknibrellur sem hafa slegið allt út á sínum tíma, leikmynd sem hefði hæft flóknustu kvikmyndaafrekum þess tíma, lýsingin óaðfinnanleg og að ég tali nú ekki um örugga sviðsframkomu söngvaranna tveggja og listilega saminn lúnkinn texta í limruformi. Þetta er hreint meistaraverk!

Gjörið svo vel og gerið yður þann greiða að horfa á myndbandið allt til enda. Það er þess virði!



Hver segir svo að það sé leiðinlegt að vinna á leigubílastöð þegar maður fær svona símtöl:



Svo vil ég líka bara láta ykkur vita að það eru komnar nýjar myndir frá sumarferð Rembings inn á Flickrið og myndir úr bústaðnum inn á síðuna hans Kára. Tengla á hvort tveggja má finna ef þér hvarflið augunum eilítið til hægri og ef til vill örlítið upp eftir skjánum.
Já ég er haldin einhverri lotugræðgi á Flickrið núna eftir að ég hófst handa við það aftur, enda búin að kolefnisjafna það; borgaði nokkra peninga og má henda inn eins mörgum myndum og mér sýnist! Vei vei.

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats