23. desember 2005


Jæja, jólin að bresta á og desember búinn að vera annasamur sem endra nær. Litli píp orðinn hálfs áratugs gamall og búið að úrskurða hann eðlilegan, heilbrigðan nokkuð vel gefinn og vel sjáandi fimmáring í þar til gerðri úttekt.

Jólalag Baggalúts: Föndurstund! Frámunalega skemmtilegt hjá þeim lagið í ár. Hér er líka aðventulagið í fyrra, sem er jú á góðri leið með að verða klassískt.

Talandi um jólalög...

"Það var aðfangadagskvöld,
fyrsta aðfangadagskvöld
að jólahátíðinni.
Þetta aðfangadagskvöld,
fyrsta aðfangadagskvöld er eldvarnahátíðin mest, la la la la,
varnahátíðin best..."

Held ég hafi verið orðin um það bil 18 vetra þegar ég fattaði að "eldvarnarhátíðin mest" átti ekki að hljóma þannig heldur er það víst "enn barnahátíðin mest". Hitt fannst mér alla tíð passa mjög vel þar sem það fer jú mikið púður í það fyrir hver jól að brýna fyrir fólki að passa nú vel upp á jólaskreytingarnar sínar þannig að áramótabrennan það árið verði ekki hús viðkomandi. Þess vegna syng ég þetta enn með mínu nefi.

Farin í skötu á Skólabrú með vinnufélögunum. Skál fyrir úldnum ámignum fiski og hnoðmör! Jólaandinn í sinni fögrustu mynd.

Gleðileg jól allir saman það eru að koma jólin jólin allsstaðar og ég kemst í hátíðarskap. Yfir og út!

1. desember 2005


Það bar til um þessar mundir að Baggalútur gaf út aðventulag sem endra nær.
Upp hefur sprottið eitt best heppnaða nýyrði seinni ára:
Ipod er í Mogganum í dag kallaður spilastokkur! Og til aðgreiningar frá eldri merkingu orðsins er hann kallaður stafrænn spilastokkur.

Næ ekki upp í það hvað þetta er þýtt og staðfært á snilldarlegan hátt.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats