19. apríl 2009

Kosningar smosningar...


Þetta eru allt kjánar...


Auður fær mitt atkvæði, vona að hún verði flokkuð sér en ekki með ógildum þannig að mark verði á henni tekið - því fjöldi auðra á eftir að sprengja skala.

12. apríl 2009

Gleðilega páska!

Kræææææst kraftaverk á páskum. Ég get látið texta blikka!

20. mars 2009

Játning!

Ég er að rækta gras!

Það virðist vera mikil tískubylgja í gangi núna og bókstaflega allir eru að rækta gras! Mitt heitir að vísu ekki Kannabis heldur Koriander. Að sjálfsögðu er ég líka að rækta sólblóm því ég stenst jú aldrei sólblómafræin þegar ég fer að skoða fræ á annað borð, samanber síðustu tilraun.

Svo er ég líka með graslauk - og að gera tilraun með Avocadostein og ætla mér að fá út úr honum eitt stykki tré, þó svo að ólíklegt sé að það gefi nokkuð af sér. Það sem er svo sprettharðast er svokallað kattagras (já ég sagði að ég væri að rækta gras!), en nú þegar sléttir 7 sólarhringar eru síðan ég sáði fræjunum er sprottið upp gras sem mælist heilir 8 cm. Maður bókstaflega sér það vaxa, það er ef maður hefði ekkert annað að gera en að horfa á það. Hið svokallaða Kattagras er altso ætlað kettinum og mun vera vítamínríkt og fínt og sérlega hentugt fyrir inniketti að kjamsa á. Það yrði nú sérdeilis skemmtilegt að hafa skakkan og hressan kött af grasi á heimilinu, þó mig gruni frekar að grasið eigi bara eftir að stingast upp í nefið á honum og gera hann þar með afhuga því strax.


Mest hlakka ég til þegar ég get farið að nýta Korianderið því stórkostlegri kryddjurt hef ég ekki vitað, hún er gjörsamlega guðdómleg á bragðið (mestmegnis notuð í matargerð austurlanda nær og suður-Evrópu) og það hrifin er ég af henni að Píp bíður bara eftir að henni verði hrært saman við skyrið, allt annað hefur borðið korianderkeim undanfarið.

Þegar öllu er á botninn hvolft veit ég ekki hvort ég eigi að hafa meiri áhyggjur af því að löggan banki upp á hjá mér með dóphund og geri Korianderið upptækt eða að ofvirka kattagrasið verði búið að éta okkur eina nóttina (eftir svona tvær vikur kannski) miðað við hvurslags ógurleg spretta er á því.

19. mars 2009

Píp hefur ráð undir rifi hverju og ef svo furðulega skyldi nú fara að fólk mundi ekki ná snilli hans sem tónlistarmanns eins og skot, þá er hann kominn á fullt í kynningarstarfsemi á sjálfum sér sem pípara!

Mogginn í gær (smella fyrir læsilega grein):


Hann er einnig kominn í samningaviðræður við Víkurfréttir og Bæjarins besta um opnuviðtal á næstunni.

17. mars 2009

Hvað gerir pípari sem vinnur nú orðið bara til svona 5 eða 6 á daginn. Nú, ekki þýðir að leggjast í aumingjaskap og volæði heldur er kauði farinn á fullt í kynningarstarfsemi á nýja/gamla disknum sínum sem kemur út von bráðar. Hann ákvað að blása rykið af fullbúna disknum sem hann var tilbúinn með um árið og hér má sjá kátan vinningshafa í bingólottói í Öskjuhlíðarskóla sem vann fyrsta eintakið - varla kólnað úr verksmiðjunni.


Mæli með að fólk fylgist með af öllum sínum mætti næstu dagana - t.d. hefur sú fiskisaga flogið að Píparinn og Geir Ólafs séu bókaðir til að taka lagið saman á ÍNN í nánustu fortíð... Ekki ólíklegt að þeir taki slagarann "Neysluvatnsforhitarinn" sem verður einmitt fyrsta smáskífan af plötunni.

Ekki láta þennan viðbjóðburð fram hjá þér fara!

16. mars 2009

Minn skilningur á þessari frétt er sá að í borginni Antananarivo á Madagaskar sitji Ravalomanana og gali Nanabúbú á Rajoelina og syngi hástöfum í tíma og ótíma þjóðsöng Madagaskar sem eins og öllum er kunnugt heitir Manamana (dúdúdúrúrú)*.
Gott ef hann borðar ekki Banana og Ananas á meðan verandi þarna í suðurhöfum einhversstaðar.


*- Þjóðsöngur Madagaskar er ekki "I like to move it" eins og ranghermt var í epískri stórteiknimynd samnefndri eyjunni frá árinu 2005.

15. mars 2009

Réttur þessa sunnudags er Beikon í hinum ýmsu útgáfum.

Hér má sjá beikonvafða bloggsíðu,
landlækni veitir ekki af stórum skammti af beikoni,
fátt á betur saman en egg og beikon,
fésbók með beikonbragði,
hér má sjá að hjartað hefur ekkert nema gott af beikoni,
meiking beikon,
í beikon er þetta helst,
með beikoni skal land byggja,
vefsetrið bacon.is,
og svo reglulega uppfærðar fréttir af beikoni.

Góðar stundir.

9. mars 2009

Fésbókarnotendur geta smellt hér til að sjá hið dramatíska steinflísabrot sem ég talaði um fyrir viku síðan sem varð til þess að Ólinn minn fékk beltið sitt.

4. mars 2009

Í vinnunni:

Sögusviðið er opið skrifstofurými við sundin blá með útsýni til að stela fyrir. Síminn hringir í 94. skipti þann daginn og ekki komið hádegi. Karlmannsrödd spyr varfærnislega; "Já er þetta í apple-búðinni?"
Stúlka svarar glaðhlakkalega og af ákafri þjónustulund; "Neeei en ég get selt þér EPLI - allskonar tegundir, jonagold, gala, braeburn, pink lady, gul, græn, rauð......!!!".

Svona lagað gerist þegar munurinn á símanúmeri apple-búðarinnar og epla-sölunnar er einn tölustafur.

Ætla að stinga upp á að innflutningur verði hafinn á kínverskum nano eplum!

3. mars 2009

BROSTU!!!


Kári Fannar er búinn að setja inn nýjar myndir á síðuna sína - duglegur sem hann er!

Það er svo af Óla Bjarka að frétta að hann er kominn með appelsínugula beltið í Taekwondo. Hann fór að vísu Sandkluftavatnsleiðina að því, því svo öruggur var drengurinn með sig að honum mistókst fyrir tóman klaufaskap að brjóta spýtu sem er jú skilyrði fyrir því að standast prófið.
Foreldrarnir voru orðin úrkula vonar um að drengnum yrði afhent beltið án inngrips æfra foreldra og sátu á áhorfendabekkjunum nagandi á sér neglurnar þegar óvænt tvist kom upp. Einn af bestu mönnum félagsins sem var í prófi upp á það að fá sína þriðju svörtu rönd á sitt rauða belti (næsta belti á undan svarta beltinu) gerði smá samning við kennarana. Hann fór fram á að í sínu broti mundi hann brjóta 4 steinflísar gegn því að Óli fengi að reyna aftur.
Viðkomandi hefði komist upp með að brjóta 2 flísar og verið öruggur með sitt belti en nei, hann ákvað upp á sitt eindæmi að fórna sér fyrir Ólann. Mamman fékk rykkorn í augað, svo ánægð var hún með þetta óvænta atriði.

Það er skemmst frá því að segja að flísarnar fjórar molnuðu og skildu brjótandann eftir blóði drifinn frá eyra og niðrúr og Óli fékk annað tækifæri.

Sem hann og nýtti með glæsibrag enda hafði hann staðið sig eins og hetja á æfingum áður og brotið og bramlað hægri vinstri, þannig að þjálfarar og foreldrarnir kröfuhörðu vissu alveg hvað hann gat - og stóðst þar með prófið snillingurinn sem hann er.

Foreldrunum var mjög létt.


Af brjótandanum er það að frétta að hann mun næstu örfáu mánuði eða ár tína flísabrot úr eyranu á sér og óvíst er hvort heyrnin batni frá því sem áður var.

16. febrúar 2009

Maður er nefndur Ólafur Ólafsson landlæknir. Fyrrverandi mun hann reyndar teljast núna og orðinn að almennum ellilífeyrisþega - síðast þegar við vissum...
Oftar en ekki sá maður hann í fréttum á yngri árum og ekki er laust við að eftir hafi verið tekið hve fastheldinn maðurinn er á svipi. Altso notar helst ekki nema einn svip. Álíka pókerfés hefur vart þekkst hér á landi, að því leyti að ómögulegt er að lesa úr andliti hans hvort hann sé yfirmáta hamingjusamur þá stundina eða frámunalega niðurdreginn því alltaf er hann nokkurn veginn svona:


Þó má ekki gleyma að eitt sinn fyrir röð mistaka náðist af honum mynd þar sem segja má að jaðri við að hann sé sposkur á svip:


Víkur þá sögunni vestur um haf í borg hvar kvikmyndaiðnaður er stundaður af miklu kappi. Þekki ekki hvernig það atvikaðist en svo virðist vera að Herra Ólafur hafi aldeilis ekki sest í helgan stein er hann hætti að lækna landið heldur hefur hann unnið hörðum höndum að því að byggja upp leikaraferil enda orðin vöntun að álíka karakterleikurum eftir að Arnold snéri sér að öðru. Pixar mun sem sagt vera við það að sleppa lausri sinni nýjustu afurð er nefnist "Up" og skartar áðurnefndum Ólafi í aðallhlutverki.

Sú mynd ku fjalla um ellilífeyrisþega sem fær þá snilldarhugmynd að festa við húsið sitt þúsundir blaðra til að geta ferðast á þægilegan hátt til Suður-Ameríku því þangað habbði kauða ávallt langað til að ferðast áður en hann golunni geispaði.


Þarna þykir mér áðurnefndum Ólafi hafa tekist snilldarlega upp í hlutverkavali því nokkuð er ég viss um að landlæknirinn sé með þessu að benda okkur öllum hérna uppi á fúla Íslandi að þetta sé í rauninni ekkert vandamál. Hann er að senda okkur þau skilaboð að þó við sitjum hérna upp á ísköldu skeri með alltof marga heimska pólitíkusa sem ná ekki höfðinu útúr hvors annars rassi þá þurfum við í raun ekki að gera annað en að binda nokkur þúsund blöðrur á húsin okkar til að komast burt! Amen - bara moka húsið upp - panta fullt af helíumi strax áður en allir hinir klára það og pant lenda svo í Kaliforníu... Takk fyrir.

Einu sinni læknir ávallt læknir.

26. janúar 2009

Frá örófi alda hefur íslenska þjóðin þráð heitar en allt annað - að verða fræg! Útlendingar hafa ekki mátt segja ice og land í sömu setningunni án þessa að þjóðin gangi af göflunum og eflist í þeirri trú að Ísland sé best og merkilegast! Þess vegna er pínu skondið að nú er þjóðin orðin fræg; af endemum. Þegar slúðurbloggarinn Perez Hilton sér ástæðu til að skrifa um stjórnmálaástandið á Íslandi erum við einhverskonar fræg, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Einn sem commentar á þessa færslu hans Perezar kemur reyndar með hugmynd sem ég er alvarlega að hugsa um að leggja fyrir forseta vorn alráðan; það er sú hugmynd að sennilega erum við best sett ef svanakjóllinn hennar Bjarkar tekur völdin!
Já, hann er svo sem ekki verri en hver annar...

25. janúar 2009

Þrátt fyrir ógnarástand í þjóðfélaginu er ekki hægt að segja annað en að lífið gangi sinn vanagang í Efstasundinu; eldri drengurinn teiknar hugljúfar myndir af því sem honum dettur í hug og kötturinn hress sem vant er og etur hvað sem að tungu kemur. Sjá mynddæmi hér að neðan (mæli með að myndin hans Óla sé stækkuð upp til að sjáist sem best steinar er svífa í loftinu og egg sem splundrast á Alþingishúsinu):


Svangur kreppuköttur:


Nema honum finnist bara vanta upp á hreinlætið hjá húsbóndanum...


Spurt er hvort nýja talvan sé of góð fyrir BLOGG og svarið er já! Hún er nefnilega svo agalega hæf til að setja inn MYNDIR að ég hef aðallega verið að henda myndum inn á síðuna hans Kára og Flickr-ið (sjá tengla til hægri). Eins og ég tók skýrt fram í síðustu færslu bætir nýjan græjan nefnilega engu við hugmyndaflugið til bloggskrifa þannig að bloggara með ritstíflu gerir hún lítinn greiða. En að hanga á facebook, það er það sem hún getur! Þegar ég verð spurð eftir á að giska 30 ár af skuldsettum barnabörnunum hvar ég hafi verið í appelsínugulu búsáhaldabyltingunni 2009 verður svarið "ha, ég var nú bara á facebook.... en ég gekk í foreldrafélag IceSlave-barna-grúppuna! Það var mitt framlag!"

10. janúar 2009

Rússneska lýsingin í svefnherberginu okkar er allt í einu orðin að rússneskukeisarahallar lýsingu! Ó svo fín nýja peran mín sem býr til svona ægilega huggulega skugga á loftið:

 

Já ég veit, þetta er hámark andleysis að blogga um ljósaperu!
Best að geta þess þá til gamans að þessi færsla er skrifuð á nýju fínu Toshiba fartölvuna sem við skötuhjúin fjárfestum í í vikunni. Sú gamla hefur sýnt það að hún á álíka mörg líf og meðal köttur en miðað við það hlýtur hún að vera á síðasta lífinu sínu þessa dagana.

Ég lofa ekki að færslurnar verði fleiri eða betri því betri og flottari græjur bæta víst ekkert heilabúið í undirritaðri, til þess þyrfti áður nefndur heili að fá uppfærslu, fara allavega upp í hugmyndaauðgi úfgáfu 2.0 eða ritsnilld 3.0.

Hei, ég er ekki búin að blogga ennþá um eða í gegnum nýja fínafínafínasætafrákína APPLE IPHONE-inn minn, jú ég get nefnilega bloggað í gegnum hann, ég get sett myndirnar mínar inn á hann, geymt fullt af lögum í honum og svo get ég að mér skilst líka hringt úr honum og móttekið símtöl og jafnvel sent SMS.
Svo get ég hlaðið inn á hann alls konar viðbótum svo sem eins og leikjum, hljóðfærum sem ég spilað á, keypt mér tónlist, hangið á facebook og gert nánast hvað sem mér dettur í hug þó ég hafi ekki enn fundið viðbót til að úthluta Ísraelsríki skika á plánetunni Mars eða bjarga börnunum í Gaza. Því er nú verr.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats