31. mars 2005


Mig vantar sárlega eina svona!


Svo Píp geti hlaupið á eftir kvikindinu um alla íbúð meðan ég svo mikið sem rumska ekki... :/

30. mars 2005


Og jú hún Sigríður Ragna er töttöguogfemm ára í dag. Geri aðrir betur og kærlega til hamingju með það, frú Sigríður!

Það verður fátt um fjálglegar yfirlýsingar og stóryrði á næstu dögum á síðum hvarsemer þar sem skriffærið (DELL-an mín) á við sjúkdóm að stríða. Hún hefur verið greind með fuglaflensu á háu stigi. Batahorfur eru óljósar og viljum við biðja alla um að krossa fingur og vona það besta. Hef lítinn sem engan tíma til að pára í vinnunni þannig að þið verðið að afsaka hléið ef eitthvað verður.



Opinbera skýringin á þögn minni er að sjálfsögðu sú að ég sé að skrifa bók!

23. mars 2005


Jæja, þá nálgast páskafríið óðfluga sem þýðir að við hjá hvarsemer skundum í bústað til hans Björns bónda í Úthlíð. Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði og fara með allri familíunni í bústað. Sé ég tár á hvarmi? Ó seiseinei. Að öllum líkindum verður lítið blaðrað hér á meðan þannig að ég legg allt mitt traust á að allir hafi það gott um páskana! Og munið nú um hvað páskarnir snúast mestmegnis, sama hvað hver segir:



Súkkulaðireglur

I. Ef þú ert með bráðnað súkkulaði á öllum fingrum þá ertu að borða það of hægt.

II. Súkkulaðihúðaðar rúsínur, jarðarber og kirsuber telst allt til ávaxta þannig að þú getur borðað eins mikið af því og þú vilt.

III. Þegar þú kaupir þér súkkulaði í verslun í góðu verðri getur það mögulega bráðnað meðan keyrt er. Þú verður að borða það á bílastæðinu.

IV. Borðaðu súkkulaði fyrir hverja máltíð. Þannig minnkar matarlystin og þú borðar minna.

V. Meðalstór skammtur af súkkulaði sér þér fyrir kaloríuskammti fyrir allan daginn. En sniðugt!

VI. Ef þú getur ekki borðað allt súkkulaðið sem þú átt þá geymist það vel í frystinum. En hvað er eiginlega að þér þegar þú getur ekki borðað allt súkkulaðið sem þú átt?

VII. Ef þú ert smeyk/ur við kaloríurnar settu þá súkkulaðið ofan á ísskápinn. Kaloríur eru lofthræddar og hoppa úr súkkulaðinu til að forða sér.

VIII. Ef þú borðar jafn mikið af hvítu súkkulaði og dökku súkkulaði þá jafnast það út og þú fitnar ekki neitt.

IX. Það er mikið af rotvarnarefni í súkkulaði en rotvarnarefni láta þig líta unglega út.

X. Af hverju eru ekki til nein samtök fyrir fólk sem vill hætta að borða súkkulaði? Tja, það vill enginn hætta!

XI. Ef súkkulaði væri ekki til þá væru ekki til neinar aðhaldssokkabuxur. Við getum ekki hætt að borða súkkulaði því þá eyðileggjum við heilan fataiðnað.

XII. Settu “Borða súkkulaði” efst á listann yfir hluti sem þú þarft að gera yfir daginn. Þannig kemur þú altént einum hlut í verk.

22. mars 2005


Lóan er komin og það viku fyrr en í fyrra. Eitthvað tjáði ég mig nefnilega um það þann 29. mars 2004 að Lóan væri komin. Hef ekki séð hana ennþá samt en treysti fullkomlega nærsýnum úfnum köllum með hýjung og í köflóttri skyrtu með kíki sem segja að Lóan sé komin. Þeir gera jú lítið annað en að litast um eftir Lóum, Fálkum og Geirfuglum. Þá hafa báðir vorboðarnir gert vart við sig: ég búin að lýsa á mér hárið og Lóan komin. Boðar gott sumar!

17. mars 2005


Er að hugsa að skipta út léttmjólk fyrir undanrennu í heimilisinnkaupunum! Alveg viss um að þessar einkar upplífgandi umbúðir í ísskápnum manns hafi svipuð áhrif og prósak í lyfjaskápnum manns...
Ef ég væri ekki á leiðinni í velmegunar-legusárahvetjandi-sundfitamyndandi-átraskandi-bústað um páskana norðaustur í Úthlíð mundi ég svei mér þá skella mér með mína fjölskyldu og mitt hafurtask norðvestur, næstum hánorður á Ísafjörð á þessa sérdeilis hressandi rokkhátíð sótsvarts almúgans!



Maður hefði til dæmis getað heimtað gistingu hjá Árnýju, Súna og Jóni Darra litla spökk að því gefnu að hún léti það vera að skella hurðinni á nefið á okkur eins og síðast þegar við birtumst, reyndar öllum að óvörum. Þá þótti henni nefnilega rökrétt að álykta sem svo að við værum jú svo mikið sem Vottar Jehóva! Segir nokkuð um það hvernig er að búa úti á landi; ef þú bankar eða hringir bjöllu ertu Votti Jehóva eða þásjaldanþaðgerist utanbæjarmaður, en ef þú veður bara inn á skítugum skónum án þess að gera grein fyrir þér áður á nokkurn hátt ertu sannkallaður heimamaður og margfaldlega velkominn! Látum hana baaaaara bíða aðeins eftir þeim heiðri að fá okkur í heimsókn aftur... og þá skulum við passa okkur á því að vaða bara inn! Hjálmar skemmta þá í slorinu og Árný ruggar sér í reggíinu meðan við Píp-fjölskyldan látum fara vel um okkur í Píp-bústaðnum!

16. mars 2005


Það er ekki að spyrja að greindarfari þessarar ágætu fjölskyldu...

14. mars 2005


Ætlar þessi sápuópera engan endi að taka???
Það besta er að fréttamönnunum stekkur aldrei bros þegar þeir flytja graffyndnar og drepalvarlegar fréttir af málinu. Ef þetta væri heimsins mesta eymd væri heimurinn ljúfur staður!

Hins vegar er þessari sápuóp... eemmm.. sápukarókí lokið og það farsællega! Finnst mér allavega... En hvað á maður nú að gera á föstudagskvöldum? Bingó í Vinabæ...!?!?! Eða skrá sig á fluguhnýtinga- og/eða bútasaumsnámskeið.

Hmmmm.... eða fjárfesta í playstation 2 + sing star á fermingartilboði = konungleg skemmtun, hvenær sem er, hvar sem er!

Talandi um hvarsemer, trítlaði mér upp í Kauphöll í dag (18 tröppur) og skráði hvarsemer til leiks. Hvarsemer skal hér eftir nefnast hvarsemer Group ehf. (HSE Group) og annast félagið margvísleg tilfallandi ritstörf á netinu, þar sem leitast verður við að tryggja fagleg vinnubrögð í hvívetna, ná stjórn á meinsemd sem hefur sótt að hvarsemer og kallast innihaldslaust bull, draga úr misbeitingu íslenskrar tungu sem og að fækka stafsetningarvillum svo eftir verði tekið, auk reglulegrar uppfærslu og viðhalds dótturfélagsins (sonarfélagsins) olibjarki.tk Group. Við sama tilefni var nýtt og betrumbætt "logo" hvarsemer kynnt og mun það líta svona út:



Megi þetta verða gæfuspor hið mesta og fyrirbyggir vonandi ritstíflu og hugmyndaskort auk þess sem þetta veitir aukið tilfinningalegt svigrúm á þessum ört harðnandi markaði sem vef-röfl-heimurinn er orðinn og gerir hvarsemer samkeppnishæfari hvarsemer á litið.

Jæja farin að sofa.......

7. mars 2005


Dvaldist í paradís um helgina. Er að hugsa um að fytja lögheimilið mitt þangað. Jafnvel biðja um pólitískt hæli og fá útbúið vegabréf og hugsanlega fá sendinefnd til að aðstoða mig við þetta.

Á þeim forsendum að ég sé margfaldur Trivial Pursuit-vinningshafi....

Talandi um spil, skíttapaði ásamt mínum ektamaka fyrir öðrum pörum í Mr. & Mrs. Held það sé bara góðs viti, er það ekki annars? Er það ekki alveg eðlilegt og jákvætt að vita ekkert of mikið um salernissiði makans eða hvaða líkamshluti frægrar manneskju höfðar til makans.
Skiptir engu, ef þetta þýðir að sambandið sé dauðadæmt erum við jú á leið til USA og þar er alltaf hægt að finna eliddsjibúl baddsjelor og giftast honum í bílalúgu.

4. mars 2005


Hið háæruverðuga Suzuki-drasl hans Píps er úr sögunni!

yyyyYEEEEESSSSSSSSS!

Hér má sjá hvernig það atvikaðist:




Endilega smellið á myndina fyrir stærra eintak af þessari tjónaskýrslusnilld.

3. mars 2005


Halló, er alveg sprellalive þó ekki hafi verið mikið um að vera hér í nokkra daga. Vegna mikilla anna í höfuðstöðvum hvarsemer hefur ekki alveg gefist tími til að tjá sig enda ársuppgjör hvarsemer í vinnslu og fyrstu tölur sýna að gríðarlegt tap er á rekstrinum, hið minnsta 3,5 tonn. Enginn kaupauki í ár.

Samkvæmt Þorgerði Pípsystur eru Velvet Revolver á leið til Íslands! Ekki er það nú enn farið að spyrjast út á klakanum enda virðist fólk aðallega vera í því að missa sig yfir þeim sögusögnum að Iron Maiden, AC/DC og Black Sabath og álíka leðurblökupoppsveitir frá áttunda og níunda áratugnum séu að hópast til landsins. Held að Iron Maiden sé eina staðfesta samt. Jibbí.... eða eitthvað.
Söngvarinn í Iron Maiden hann Bruce Dickinson er í dag orðinn settlegur þotuflugmaður og hann ku einmitt ætla að fljúga með æsta aðdáendur á fimmtugsaldri yfir hafið og á tónleikana í Reykjavík. Alveg hissa á að Iceland Express sé ekki farið að bjóða ginkeyptum Íslendingum upp á "hringpakkaferð", þ.e.a.s. að láta fólk fljúga með Iceland Express á Stanstead og hanga þar í nokkra tíma til að geta svo flogið með Bruce sjálfum heim (að sjálfsögðu er innifalin eiginhandaráritun frá Brúsa og skoðunarferð í flugstjórnunarklefann) og svo beint á tónleikana. Það má selja Íslendingum allt...

Já við vorum að tala um Velvet Revolver á Íslandi... Tékkaði á síðunni þeirra og engin er enn dagsetningin komin þar á fyrirhugaða Íslandstónleika en fróðlegt verður að sjá hvað verður. Það var þá kominn tími til að Slash kíkti á landann og tæki nokkur sóló og sýndi af sér kæti. Skemmtileg staðreynd um Slash: Hann á konu sem heitir Perla! Já þeir píp eiga greinilega fleira sameiginlegt en bara hárgreiðsluna og gítarkunnáttuna.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats