27. júní 2005


Og áfram heldur flakkið! Við erum ekki lengur 12 eins og þegar mest lét heldur hefur okkur fækkað niður í 9 einstaklinga. Byrjuðum á að fleygja Eybs&Pips-senior fyrir borð þann 22. Þau lentu sennilega í San Francisco og nokkrum dögum seinna á Íslandi eftir að hafa gert öllum kínverjum, mexíkóum, pakistönum og írönum í nálægum hverfisbúðunum fyllilega grein fyrir fyrirbærinu POKASJÓÐUR! “…Then we have you know the pokasjóður…!”
Sennilega ”had to be there moment”.

Næst til að vera fórnað var Tobba, also known as the örverp. Hún flaug til Íslands með viðkomu í hinum og þessum bandarísku borgum sér til ánægju og yndisauka og var komin til Íslands tæpum sólarhring síðar. Geri aðrir betur.

Allavega, skruppum í Sea-World í San Diego á fimmtudaginn og eyddum deginum þar og gistum svo um nóttina á Hilton í Del Mar, sem er nokkrum vegavinnutöfum frá San Diego. Sea-World tók alveg daginn enda hægt að láta höfrunga og háhyrninga hoppa og stökkva á hina ýmsu vegu, sem mann hefði ekki grunað, og var þessi heimsókn hin mesta prýðisskemmtun. Komum aftur heim í Redondo Beach um miðjan dag á föstudeginum og fólk gerði það sem það vildi. Píp fór á Boogie-bretti og skemmti sér á ströndinni meðan svili Píps fór í bókabúð. Það er á svona atriðum sem maður sér aldursmun þeirra félaganna. Undirrituð náði sér bara í stóran skammt af brúnku með dash af bruna úti á svölum á meðan.

Kíktum á sumarhátíð Redondo á laugardaginn og á ströndina á eftir. Í dag (sunnudag) var svo farin pílagrímsferð á Venice Beach, þar sem Jim Morrison og félagar héngu 'i denn, og Santa Monica og svo náttúrulega Beverly Hills og Hollywood! Venice Beach var mikið skemmtileg enda margt um furðulega karaktera. Trítluðum um á verslunargötunni í Santa Monica og skoðuðum okkur um í Beverly Hills en kíktum samt ekki það hátt upp í hæðirnar að við sæjum verulega ríkmannlegar villur en sáum eitthvað samt. Löbbuðum svo eftir Hollywood Boulevard og kíktum á stjörnurnar í götunni (Walk of fame) og líka handarförin og fótaförin sem stjörnurnar sáu ástæðu til að skilja eftir sig í götunni. Sáum svo Hollywood skiltið í nokkrar míkrósekúndur, samt ekki það lengi að maður næði almennilegri mynd af því.
Og svo Barbeque um kvöldið…

Ætlum í Disney-land á morgun og á þriðjudaginn höldum við svo af stað upp í fjöllin og er ferðinni heitið að Yosemite-þjóðgarðinum og að Lake Tahoe. Komum sennilega líka við í Mono Lake og Fresno. Ekkert víst að maður nái að blogga mikið á næstunni en engu að síður, meira blaður síðar þó seint verði!

22. júní 2005


Jæja, erum enn í LA á Hotel Toggu og ásamt því að vera búin að drekka í okkur sólina og reyna hvað mest við megum að hraða öldrun húðarinnar og ná okkur í sólsting (ekki tekist enn) - erum við búin að fara í dýragarð í 30 stiga hita - í skugga notabene! Hitinn þar var það mikill að flestum dýrunum hafði sennilega verið gefið frí, allavega voru flest búrin tóm eða þá að í sumum búrunum sá maður glitta í eitthvað slytti sem kallast má/mátti dýr í einu horninu. Í dag fórum við svo í Vísindasafn (já, kennarar með í för) og á ströndina það sem eftir lifði dags.

Píp má aldrei leiðast eins og flestir vita og þetta er meðal annars það sem hann fann upp á að gera sjálfum sér og öðrum til skemmtunnar. Einnig má sjá systur hans hana Toggu taka fagnaðardans yfir komu fjölskyldunnar í þessu myndbroti. Æskilegt er að hafa öfluga tengingu til að sjá þetta og ekki væri verra að kveikja á hljóðinu.
Erum svo að sjálfsögðu, eins og lög gera ráð fyrir, búin að ofbjóða maganum, bragðkirtlunum og fleiri hagsmunaaðilum með gegndarlausu áti þannig að það er eins gott að við ætlum að versla á morgun, annars þyrfti maður að kaupa verulega stór föt til að passa utan um verulega stóra hamborgararassa. Best að kaupa núna og keppa svo að því þegar maður kemur heim að passa í fötin...

To be continued...

20. júní 2005


Halló hola hellllloooo! Jæja, nú erum við búin að vera í henni Americu í 6 daga og það er búið að vera heldur betur fjör! Eða eins og við segjum fönn fönn fönn fönn íslensk fönn! Lentum í San Francisco ca. 7 tímum á eftir áætlun. Áttum að fljúga kl. 16.45 en hófum okkur á loft kl. 23.15 sirkabát-umþaðbil. Lentum þá í SF um 1-leytið (að nóttu til) að staðartíma og vorum komin á sérdeilis prýðilegt mótel/hótel/bótelorwhatever klukkutíma seinna eftir að hafa sagt satt og rétt til um blóðlit, ofbeldishneigð og fleira á vandlega útfylltu spjaldi þar til gerðu samkvæmt einhverri skrambans ólátabelgjalöggjöf. Að vísu vorum við einni kerru fátækari enda var hún sennilega grunuð um drykkjulæti og óskapnað sem og ofstopa eins og kerrur eiga til, en við allavega lögðumst til hvílu með það sama en vöknuðum engu að síður um 7-leytið enda búin að ná okkur í nokkrar hænur um borð í FI-671!
Trítluðum niður á Fisherman´s Warf, sem er bryggjusvæði með meiru þar sem undirrituð átti reyndar von á að sjá eitthvað meira en túristabúðir og túristaveitingastaði en því skyldi maður kvarta þegar maður er í ca 62 stiga hita á farenheit sem mundi reyndar bara útleggjast á 17 íslenskar gráður en hver fer svo sem eftir því þegar maður er í útlöndum!!!? Þá látum við þessar útlensku ráða! And hana nowww!

Dagurinn fór í trítl og borðuðum svo á Litle Joe´s sem er svona týpískur mafíósafjölskylduítalskur veitingastaður. Farið í háttinn snemma og dagurinn tekinn snemma til að labba yfir holt og hæðir og skoða borgina. Löbbuðum sennilega í kínverska hverfið og fleira án þess að gera okkur grein fyrir því vegna þess að við vorum ennþá að tala um þverhnípin sem við höfðum gengið niður rétt áðan! Náðum okkur svo í bílana okkar sem fluttu okkur níu manneskjurnar niður eftir ströndinni í gegnum Santa Cruz og niður til Monterey þar sem við gistum á Cypress Tree Inn nema Tóta og fjölskylda sem völdu frekar Bed Bugs Inn! Og klóruðu sér svo það sem eftir var dags.

Fórum svo og skoðuðum sædýrasafnið í Monterey, einnig þekkt sem Monterey Bay Aquarium þar sem hin ýmsustu slím- og skriðkvikindi léku lausum hala okkur mannfólkinu til skemmtunar. Brunuðum svo sem leið lá niður að Big Sur sem okkur fannst ekki alveg jafnast á við Hvalfjörðinn en komast þó nokkuð nálægt sunnanverðum vestfjörðunum! Að öllu bulli slepptu var þetta ofsalega falleg leið þó sólin hefði verið frekar upptekin við að undirbúa að ráðast á Íslendinga með 17. júní brjálæði með það í huga að láta þá falla hvern um annan þveran af undrun yfir því að yfirleitt skuli sjást til sólar... (skáti fallinn... lögreglumaður fallinn... gamalmenni fallið...(segir mikið um íslenska lögregluþjónustu))... En lögðumst svo til hvílu ekki svo fjarri Hearst Castle eftir að hafa verið meinuð gisting í kastalanum á þeim forsendum að við værum ekki nógu Stinkin' Rich þannig að við fórum niður að San Simeon og fundum okkar einhverja þá Bestu Vestrænu gistingu sem um getur.
Réttara sagt var það þannig að við ákváðum að fara í Hears Castle í bítið morguninn eftir og bruna til Santa Barbara í framhaldinu til að hitta hin T-in í fjölskylduna, það er að segja Toggu og Tobbu (Tóta var jú að ferðast með okkur hinum þannig að nú skyldu T-in sameinuð, það er að segja Tóta, Togga, Tobba og Tarzan eins og við köllum Pípið stundum! Hearst Castle stóðst okkar væntingar að nánast öllu leyti og við gætum jafnvel hugsað okkur að eiga það sem óðalssetur fjölskyldunnar þegar fram í sækir, það er að segja þegar fólk hættir að skoða Hearst Castle og fer að skoða Neverland Mikka Jacksons í staðinn... jú þá skulum við taka Kastalann að okkur!

Jæja, brunuðum eins og fjandinn væri á eftir okkur niður til Santa Barbara í gegnum vínekrur og huggulegheit til að hitta týndu sauðina og þar urðu fagnaðarfundir enda langt síðan hinir sauðirnir höfðu hitt aðra eins sauði! Chilluðum á ströndinni í Santa Barbara og borðuðum nesti áður en haldið var rakleiðis til LA; Los Angeles; City of Angels! Og hvað er meira við hæfi á 17. júní en að lenda á alíslensku heimili með Þingvelli á öðrum veggnum og Vestmannaeyjar á hinum og íslenska fána útum allt. Ja ekki neitt held ég. Þvílíkar höfðingjamóttökur sem við fengum og höfum sjaldnast séð. Vorum og erum enn meðhöndluð sem kóngafólk og nánast stappaður ofan í okkur maturinn. Keyrðum um hluta LA í gær og skoðuðum alls konar ríkra manna hverfi og í dag var það ströndin og almenn slökun. Að sjálfsögðu þurfti Píp að prófa að setja sig í spor Sánkti Pamelu Anderson og hins björgunarfólksins og spranga um ströndina tilbúinn til að bjarga samborgurunum....

To be continued...

10. júní 2005


Nú eru Álafossbændur alveg að tapa sér og endanlega gengnir af heygöfflum. Þeir (Píp and I) hafa tekið þá ákvörðun að afsala sér titlinum næstkomandi mánudag, það er að segja við ætlum að afhenda íbúðina okkar á mánudaginn áður en við förum í flugið til USA því þegar við komum heim verður það um það bil okkar fyrsta verk að fá afhenta lyklana að nýju höllinni okkar. Við sjáum því enga ástæðu til að hafa íbúðina tóma í mánuð og láta einhvern hlú að henni þennan mánuð þegar okkar fyrsta verk yrði hvort sem er að sópa öllu út og afhenda kaupandanum lyklana. Því þá ekki að sópa út núna og koma svo bara heim í júlí og hreiðra um sig strax í nýju íbúðinni??? Já maður spyr sig ekki lengur heldur framkvæmir bara!

Þannig að nú er hasar á hóli og bílskúrar og geymslur hér og þar nýttar til hins ýtrasta til að koma búslóðinni fyrir... Sunnudagurinn næstkomandi fer sem sagt í það að tæma og þrífa nema kannski tekur maður sér smá pásu og tekur þátt í Álafosshlaupinu, eða eel-fall-jelly eins og það kallast á málinu sem maður á eftir að notast við með vonandi glæstum árangri næsta mánuðinn.

Held ég eigi ekki eftir að tjá mig neitt að ráði fram að ferð sökum anna, þannig að við hjá hvarsemer óskum okkur sjálfum og hinum lesendunum góðrar ferðar (held nebbla að 80% lesenda hvarsemer verði einmitt samfó í USA-trippinu). Læt samt vonandi eitthvað í mér heyra fyrir hin 20% meðan á ferð stendur og leyfi ykkur að fylgjast með ævintýrum í landi óttans.
Jú takk fyrir - yfir og út!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats