23. júlí 2004


Jæja, sumarfríið er að sjálfsögðu ljúft og þessa stundina er píp-familían stödd á Dalvík í góðu yfirlæti og höfum verið hér í tvo daga en stefnum á meira flakk á morgun.  Hér er sól og blíða og bringan á manni vel grilluð, spurning með að skella bara smá Dijon-sinnepi á hana og hunangi ef í harðbakkann slær.  Á morgun verður haldið austur á bóginn, í Ásbyrgi eða Vesturdal sem ku vera paradís mikil.  Eigum svo eftir að dúlla okkur á austanverðu landinu næstu dagana þar sem vökvun stendur yfir á vesturhlutanum um þessar mundir.

Færslur mínar hafa verið fáar í fríinu en það er ekki vegna yfirgengilegrar leti heldur er heimili mitt netsambandslaust vegna þess að módemið gafst upp og orkar ekki meir.  ADSL er í vinnslu.  Hver nennir svosem að sitja inni í fríinu sínu og tuða eitthvað á netinu?  Mér er spurn.
Svo á líka Da Vinci lykillinn huga minn um þessar mundir.  Þetta er málið með vel heppnað sumarfrí; að ná sér í góða bók þannig að ef svo óheppilega vill til að dropar komi úr lofti kúrir maður sig bara og les!  Engin vonbrigði og tóm ánægja.

Jæja þetta er komið gott og rauðvínið bíður.  Adios!

9. júlí 2004




Sumarfrí eftir 30 mínútur! 3 vinnuvikur í frí; alls 24 dagar (helgarnar meðtaldar)! Hvílík gleði. Eins og sést á bloggfærslum þessarar viku er hausinn löngu farinn í sumarfrí þar sem undirrituð hefur verið algjörlega andlaus og mállaus á síðunni sinni. Kannski ég sé bara smátt og smátt núna að endurheimta heilann og heyrnina eftir læti sunnudagskvöldsins. Veit ekkert hversu virk við hjá hvarsemer verðum í fríinu, þar sem jú merkilegt nokk hvarsemer ætlar sér einmitt að vera hvarsemer í fríinu sínu! Ætli ég byrji ekki fríið á morgun á því að láta einhverja endemis ótemju lærbrjóta mig með einhverjum óforskömmuðum kúnstum, þar sem öll tengdafjölskyldan ætlar að bregða sér með útlendinginn hana Toggu á hestbak. Þar sem þetta er tengdafjölskyldan verðum við tengdabörnin eflaust látin sitja einhverjar truntur til að standast enn ein inngönguskilyrði fjölskyldunnar. Eilífar prófraunir alltaf hreint. Jæja, adios í bili. Gleðilegt sumarfrí Tobba...

5. júlí 2004


Marriage changes passion...
suddenly you're in bed with a relative!

Jahá, þetta grunaði mig...
Togga er ekki lengur í útlegð. Hún fer huldu höfði í Breiðholtinu.
Voveiflegir og válegir atburðir áttu sér stað í Portúgal í gærkvöldi. Grautfúlt lið lagði mína menn að velli á velli ljóssins í úrslitaleiknum. Afskaplega áferðarljótur og leiðinlegur fótbolti sem þessir grísir spila, já segir manneskja sem veit sko hvað hún syngur... Skemmtilegt frá því að segja að orðatiltækið að eitthvað sé "grís" (slembilukka, heppni) er einmitt frá þessum blessuðu Grikkjum komið; grís = Greece (Orðabók götunnar, 18. útgáfa 1982, bls. 368). Skelfilegt að þetta lið hafi unnið keppnina. Sorgardagur í knattspyrnusögunni!

Þórsmörk var fín um helgina, votviðrasöm þó en afbragðsgönguveður á laugardeginum þannig að við löbbuðum þvers og kruss um allt, um Bása, Langadal og Húsadal.

Mættum svo í Egilshöllina í gær ásamt 17.996 öðrum til að horfa á Metallicu og það var nú meiri stemmingin. Hitinn og svitinn var svo mikill að ekki var þurr þráður á fólki og puttarnir soðnuðu eins og í finnsku gufubaði. Pípið gjörsamlega tapaði sér meðan undirrituð hélt cool-inu enda var það ekki fyrr en á 5. lagi sem mín fór að kannast við lög og svo komu meira að segja nokkur lög sem mín gat sungið með! Kalla það gott bara. Misstum af Brainpolice en sáum Mínus sem voru alveg fjári góðir!



P.s. Það besta sem komið hefur fyrir karlkynið í langan tíma er það að James Hetfield hafi verið sendur í klippingu. Allt annað að sjá manninn!

1. júlí 2004


Loksins kemst ég í Mörkina mína um helgina! Gleðifélagið Hrókurinn ætlar að kíkja í Bása og hafa það náðugt ásamt afkvæmum. Æ hvað það er ljúft og langþráð...


Mínir kæru Portúgalir eru hreinræktaðir öðlingar! Þeir unnu að sjálfsögðu eins og ég var búin að ljóstra upp í gær, en þegar þeir voru komnir í 2-0 sáu þeir aumur á Hollendingunum, sem mega muna sinn fífil fegri, og gáfu þeim eitt mark. Jorge Andrade var svo elskulegur að skora sjálfsmark af því að hann sárvorkenndi Hollurunum að vera svona mikið undir, litlu kútarnir. Þetta er hinn sanni íþróttaandi og góðirviðminnimáttar-gæska.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats