27. ágúst 2004


Jæja, nú fer grasekkjutímabili mínu að ljúka hvað á hverju, það er að segja gervigrasekkjutímabilinu! Líf og yndi pípsins hefur í sumar verið fótboltinn og hefur hann staðið stoltur í markinu fyrir FC Hómer og varið eins og Hvítserkur berserkur. Hef nokkrum sinnum orðið vitni að leikjum og alltaf stendur maður sig að því að glápa í forundran á þennan markvörð sem ryður allt í einu og upp úr þurru út úr sér Tourettes-skotnum frösum sem eru víst ætlaðir til hópeflis og hvatningar! Gaman að hann skuli einmitt standa í marki þar sem danskur eldri tvíburabróðir hans er jú einmitt merkilegt nokk þó nokkuð þekktur markvörður sem á að baki frækinn feril! Mig hefur nefnilega lengi grunað að pípið heiti upprunalega Píp Schmeichel! Því til sönnunar má einmitt sjá þá bræðurna Píp og Peter Schmeichel í einkennisbúningnum sem þeir kunna svo vel við sig í:





Brødrene Pip og Peter Schmeichel!
Er búin að skipta einum tengli út fyrir annan hérna hægra megin. Eftir u.þ.b. 7 klukkustundir verða nefnilega Tobba pípsystir og Gaui pípmágur flutt til Kanada og af því tilefni hefur Tobba hætt með einyrkjablogg sitt og nú eru þau saman með eina Kanadadvalarsíðu sem lofar góðu þó þau séu ekki einu sinni farin út, með ægilega fínni myndasíðu sem verður gaman að skoða og svona. Raunar þurftum við píp hálfpartinn áfallahjálp fyrir 2 vikum síðan þegar við gerðum okkur grein fyrir því að þau eru að fara út í 2 ÁR! Og koma kannski ekkert til landsins á þeim tíma!
Svona sáum við þessa dvöl þeirra fyrir okkur: fara í lok ágúst - úti í tæpa 4 mánuði og koma heim í desember yfir jól og áramót - fara svo út í svona 5 mánuði og koma heim í maí og námið búið! Nei nei þá er okkur bara tilkynnt að námið hans Gauja taki þessi tvö ár og að þau ætli sér ekkert að koma heim á þeim tíma. Sem þýðir það að nú verðum við píp að fara að safna okkur fyrir ferð westur um haf og kíkja til Edmonton, Kanada annars vegar og Los Angeles, BNA hins vegar til að heimsækja þessar útlensku pípsystur. Allir styrkir eru vel þegnir.

25. ágúst 2004




Þessa dagana er að hefjast kvikmyndahátíð í henni Reykjavík og aðalnúmerið er þessi mynd sem vísað er til hér að ofan. Þetta er heimildamynd sem fjallar um mann að nafni Morgan Spurlock (frábært nafn: "This is Captain Morgan Spurlock speaking") sem ákvað að lifa á McDonalds í 30 daga og sjá hvernig það mundi leggjast í skrokkinn og andann. Það er ekki að spyrja að því að hann var nær dauða en lífi eftir 3 vikur; blóðþrýstingurinn fór úr böndunum, blóðsykurinn og blóðfitan snarhækkuðu, og lifrin varð eins og í róna með 75 ára reynslu og þunglyndi og þrálátur höfuðverkur tók að herja á hann fyrir utan fyrstu klukkustundina eftir að hann borðaði, þá leið honum fáránlega vel enda uppfullur af sykri, koffíni og öðrum hressandi efnum úr matnum. Hann prófaði allt af matseðlinum þannig að ekki væri hægt að segja að hann hefði bara lifað á beikonborgurum allan tímann. Salatið var sem sagt borðað líka en það reyndar fannst honum viðbjóður!

Væri nú til í að kíkja á þessa mynd, eflaust mjög áhugaverð og maður er nú mest hissa á að McGolíat hafi ekki hakkað hann Davíð í sig fyrir þennan rógburð og aðdróttanir eins og þeir hljóta að skilgreina þessa mynd sem. Morgan sagði nú reyndar sjálfur að hann ætti alveg eins von á ljóta einkennistrúðnum bankandi á dyrnar hjá sér einn góðan veðurdag með heimskulegt glott og tikkandi hamborgara...

Hann bætti á sig 13 kílóum á þessum 30 dögum sem verður að teljast nokkuð góð frammistaða. Skemmtilegt frá því að segja að nú erum við hjá hvarsemer einmitt í aðhaldi vegna fyrirhugaðrar Spánarferðar og kannski væri fínn liður í átakinu að skella sér á þessa mynd, kannski maður missi lyst á skyndibitafæði og óhollustu í smá tíma. Átakið felst aðallega í því að nú er það besta úr öllum kúrum tekið, á laugardaginn var það Atkins-kúrinn (egg og beikon) og í gær var það Grænmetiskúrinn og hver veit nema maður hafi Próteinkúrinn í dag og hámi í sig fisk og svona. Þessi hérna kúr hljómar nú líka ægilega huggulega verð ég að segja. Allt fyrir málsstaðinn!

24. ágúst 2004


Þú ert ekki drukkinn ef þú getur legið á gólfinu án þess að halda þér í.

Dean Martin

19. ágúst 2004


Við kláruðum spaggettíið í gær! Rop! Barf!

Prýðisskemmtun á leiknum þó við hefðum misst af Nælon og Lovgúrú vegna langdregins pizzuáts... áfall! Útsýni framar björtustu vonum og sá allan völlinn prýðilega að frátöldu neðrahorninuvinstrameginnær en þar gerðust engir stóratburðir þannig að þetta var hið besta mál. Eftir leik varð náttúrulega að fagna og enduðum með að fara á Ölver með Ingu og Bjarka og Þorbjörgu og Wolfgang ítala sem þóttist vera finnskur eftir úrslitin og þar hittum við fyrir Agnar BB í sinni lopapeysu blásandi í þokulúður sem hann náði útúr Ellingsen á þeim forsendum að hann væri jú sem hann er; trillukall!

Já eins og hún Tobba mágkona mín minnti mig á er ég að fara í kveðjupartí til hennar annað kvöld þannig að nú er nýtt vandamál fyrir höndum! Að koma þessum blessuðu Lou Reed miðum út. Með þeim fylgja sérstakir Skonrokk passar í stúkuna og miðar í eftirpartý svona ef einhver hefur áhuga á að eiga sér Perfect day og kíkja eftir tónleikana og walka pínulítið on the wild side og svona ekkva...

18. ágúst 2004


pípskríp(i)


Pípinu mínu finnst rosalega gaman að láta æsa sig upp í einhvern hópæsing og múgsefjun, og oft og iðulega dregur hann mig með sér í svoleiðis athæfi og það nýjasta er að við skötuhjú erum á leiðinni á Ísland-Ítalía á eftir, hvar einmitt hefur verið yfirlýst markmið fótboltayfirvalda að reyna að troða eins mörgum og mögulega er hægt á völlinn til að slá eitthvað met frá þeim tíma er olíuluktir voru og hétu. Gamla metið er 18.000 hræður eða eitthvað og nú skal það met slegið! Jæja, allt í lagi með það en ég held að manni eigi eftir að líða eins og lítilli sardínu í dós og sennilega kemur maður ekki til með að sjá mikið meira en flösuna á áhorfandanum fyrir framan sig. Allur er varinn þó góður og ætla ég að hafa með mér lítinn kíki til að geta horft á ítölsk læri sprikla. Já heyr heyr, píp vill að ég taki þátt í þessu og þá ætla ég takk fyrir að vera stolt í stæði með minn kíki.



Del Piero vinur minn var ekki valinn í liðið, strákskrattinn, sem er áfall sem ég er rétt að ná mér af... en það hljóta að vera einhverjir aðrir álitlegir til að góna á! Þetta verður örugglega alveg agaleg stemming, þó gæti píp orðið mér til minnkunnar þar sem hann er með í höndunum söngbók með stuðningslögum og á hann örugglega ekki eftir að láta sitt eftir liggja í hópsöng og öðrum skrípalátum, eins og honum einum er lagið...

Svo lét hann í dag æsa sig upp í að hringja inn á útvarpsstöð og fá gefins miða á tónleika með Lou Reed á föstudaginn! Hann átti að nefna lag með kappanum en stóð á gati og sagði bara "Áfram AC Milan" og út á það fékk hann miða! Verst hvað okkur langar ekkert voðalega á þessa blessuðu tónleika... Persónulega þekki ég 3 lög með Lou og svo var hann náttúrulega í Velvet Underground en og hvað....? Kall á sjötugsaldri að gaula eitthvað... Á ég að fara eða ekki? Þið segja mér...

15. ágúst 2004


Smelltu fyrir stærri mynd

Stórmerkileg mynd þetta. Manneskjan með byssóþolið, ég sjálf, var beitt hópþrýstingi í veiðiferð helgarinnar og var látin skjóta á dósir. Það er svosem allt í lagi þar sem bjórdósir eiga almennt ekki fjölskyldur sem koma til með að sakna þeirra og það fossar ekki blóð og fleira óaðlaðandi úr þeim. Ég á að hafa hitt dósina nokkrum sinnum alveg efst, segir pípið, en kannski sagði hann það bara til að láta mér líka betur við byssuna og vera ógissla stolt af sjálfri mér. Getur sem sagt meira en vel verið að þetta hafi verið uppspuni í pípinu en allavega, þetta var bara nokkuð gaman...

Keypti mér þann flottasta jakka sem ek hefi nokkrusinni eignast á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hef átt hann núna í 15 daga og hef ákveðið, frá og með nóttinni í nótt, að hætta að sofa í honum. Hann mundi hvort sem er aldrei rata til Akureyrar aftur!

Svo ætla ég að opna búð á Akureyri fyrir næstu verslunarmannahelgi! Álpaðist einmitt inn í þessa ágætu fatabúð (guðisélof) á laugardeginum og fann þennan jakka minn en það tók mig smá tíma að fá að borga hann þar sem í búðinni voru í löngum bunum drukkin ungmenni að eyða sumarhýrunni sinni í föt sem þau nota örugglega svona einu sinni en kveikja svo í þeim í bræði sinni yfir því að hafa í ölæði eytt skólapeningunum sínum í þessa larfa. En verslunareigandinn er núna í þessum töluðu í Karíbahafinu að spóka sig fyrir ágóðann af þessari helgi! Og þess vegna ætla ég að opna búð á Akureyri um næstu versló; af því að það er hægt að hafa inn milljónir á ofurölvi ungmennum. Þær munu að sjálfsögðu renna beint til góðar málefna, svo sem SÁÁ og KFUM & K....

Jæja, nú er hitabylgjan búin og þá er bara að telja niður í næstu hitabylgu sem gæti orðið eftir svona um það bil 65 ár! Jahérna hér! Sumarið 1939 var allavega það besta hingað til þannig að þá hlýtur sumarið 2069 að verða alveg ægilega huggulegt og kósý. Plúsinn við það er að þá þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því að vera innilokuð á vinnustað mínum allan daginn í hitanum þar sem árið 2069 verð ég einmitt 92 ára og sennilega nýhætt að vinna! Allavega komin niður í svona 60% vinnu! Á vínbúgarðinum mínum það er að segja! Á Ítalíu! Og þá varðar mig ekkert um hitabylgjur á Íslandi!

Málleysi mitt á síðum þessa bloggs er að mestu leyti annríki í vinnunni að kenna, eins og ég fór út í hérna tveim færslum á undan. Nú er þó búið að ráða inn nýja manneskju fyrir hina og byrjar hún um mánaðarmótin og hún er, merkilegt nokk, ekki ólétt! Það hlýtur að teljast plús. Annars eru allir aðrir í kringum mig óléttir og það ótrúlegasta fólk. Frétti á einum degi af þremur óléttum og ein fregn bættist við núna um helgina. Almáttugur, hefur fólk ekkert annað að gera í þessum hitum? Maður spyr sig.

Var að fatta það að ég er ekki ennþá búin að setja hana Tobbu kanadaflýjandipípsystur inn á bloggaralistann hérna hægra megin og ætla að kippa því í liðinn núna. Að henni forspurðri að sjálfsögðu. Ef þú hefur einhverja athugasemdir við þetta Tobba mín skaltu bara fylla út eyðublað númer E-8549 og koma því til okkar hjá hvarsemer og við fundum um málið og tökum afstöðu fyrir júlílok 2005.

12. ágúst 2004




Talan í miðjunni er hitastigið í gærkvöldi (10.08) rétt fyrir miðnætti! Fæ fyrr loftstein í hausinn og eldingu í tánna á sömu sekúndunni áður en maður upplifir rúmlega 20 stiga hita á miðnætti á Íslandi aftur! Vil koma á framfæri þökkum til Landsbankans fyrir að hafa gefið mér þessa frábæru hitarakatímatunglgangsgræju þannig að ég geti nú hagað mér eins og gamalmenni sem er með hitastigið og rakann á heilanum.... "hmmm hvað skyldi nú vera mikill raki úti núna...". Þessi græja hefur líka lifað af 3 mínútur í Varmánni en svínvirkar engu að síður! Alvöru apparat! Þetta fer annars að líta út eins og skipulögð þolraun fyrir hitt og þetta að detta út um gluggann og rúlla útí á; kötturinn lifði það af og þessi græja líka! Survival of the fittest!

P.s. ÉG ER KOMIN MEÐ ADSL!!!! happyhappyjoyjoy

9. ágúst 2004


Það er slæmt að rembast við að vera bloggari og hafa svo ekki tíma til að blogga í vinnunni og vera þar að auki nettengingarlaus heima hjá sér! Engir ljóðabálkar né merkispistlar koma út úr því er ég hrædd um. Þetta ætti þó að breytast síðar í vikunni þegar ADSL-ið verður tengt hjá okkur og þá get ég hafið skriftir á ný ótrauð. Er einmitt að vonast til að með þessu ADSL-tilboði fylgi fleiri klukkutímar í sólarhringinn og þá skal ég gaspra eins og ég veit ekki hvað!

4. ágúst 2004


Veit einhver hvar eyjan Hvar er?

Akureyringar eru veruleikafyrrtir bullukollar! Eyddum verslunarmannahelginni í Hrafnagili rétt utan við Akureyri og fengum að kynnast því á eigin skinni hvað þeir eru skrýtnir. Maður hlustaði stundum á útvarpið um helgina til þess að fylgjast með því hvað væri í gangi og alltaf tönglaðist Ak-fólkið á því að sólin væri að gera útaf við þá og malbikið á góðri leið með að rúllast upp í hitanum og að í bænum væru hið minnsta15.000 aðkomumanns, gott ef ekki 40.000! Og þetta hlustuðum við á þegar við sátum í skúraleiðingum og með vindstrenginn upp í nefið og nýkomin úr miðbænum þar sem mannfjöldinn jafnaðist á við meðal mótmælafund í borginni! Jæja, kannski aðeins fleiri, að heimamönnum meðtöldum... engu að síður; Akureyringar eru ýkjumeistarar landsins án nokkurs vafa! Annað en Dalvíkingar, annálaðir heiðursmenn þar á ferð og raunsæir í þokkabót.

Í fríinu mínu er ég búin að....


- lifa af aðra hestaferðina í sumar!
- missa mig á útsölum!
- smakka ostapizzu með rifsberjahlaupi... súpergott!
- flakka norðurland eystra frá Öskju í suðri til Ásbyrgis í norðri og frá Dalvík í vestri til Möðrudals í austri!
- Eyða alltof miklum peningum!
- snoða barnið mitt!
- lesa Da Vinci lykilinn, kláraði hana í fyrrakvöld - tók mig akkúrat fríið að lesa hana!
- Brenna nokkrum sinnum á bringunni!
- flagna á bringunni!
- keyra í heilan dag með lykt af salmonellusjúkum kjúklingi í nefinu!
- fá kökk í hálsinn þegar sonur minn missti gasblöðruna sína og horfði á eftir henni uppí himinhvolfin algjörlega miður sín og frávita af sorg. En það reddaðist þar sem blaðran er að sjálfsögðu á leiðinni til Toggu frænku í Ameríku og ætti að fara að skila sér hvað á hverju!
- kaupa 9 karmellustykki í bakaríinu á Dalvík á 3 dögum!
- klúðra öllum myndunum mínum úr ferðalaginu!
- læra á myndavélina mína!
- fara í jólahús og ótrúlegt en satt - það var skemmtilegt!
- missa vinkonu til Danmerkur í klær ástarinnar!
- hafa það ógeðslega gott!

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats