24. september 2008


Lokað vegna bilunar!

Nettengingin á tölvunni minni er látin. Ég get nú ekki sagt að hún hafi verið bráðkvödd því síðan í lok júlí hefur hún legið lasin og mikill dagamunur verið á henni. Suma daga var hún það hress að mér tókst að setja jafnvel heilar 5 myndir á heilu kvöldi inn á síðuna hans Kára og stundum var hún það slöpp að hún gafst upp á því krefjandi verkefni að fletta eins og einni Morgunblaðssíðu. Þegar hún var orðin svona mikið máttfarin grunaði okkur að endalokin nálguðust.

Píp hringdi í sérfræðinga um daginn sem framkvæmdu einhversskonar ip-mergskipti eða hvað það nú var og þá endanlega gafst hún upp og hefur legið örend síðan.
Þar af leiðandi verður fátt um fín skrif því í vinnunni er maður jú að vinna svona að mestu leyti. Aldrei að vita nema maður nái þó endrum og eins að setja inn vísidóm ef hann dettur fyrir fæturnar á manni. Vísidómurinn það er.

Fyrir þá sem eru ekki búnir að kíkja á síðuna hans Kára nýlega eru þó komnar myndir frá sumrinu þangað inn, Tenerife t.d. Það tók mig ekki nema eins og einn ágúst-mánuð að setja þær inn með lösnu tengingunni. Enda hefur maður jú ekkert þarfara að gera…. Ekki!

Kári talar að vísu ekkert á síðunni frekar en fyrri daginn enda talar barnið ekki enn. Hann smellir í góm. Og er kallaður Smellur á leikskólanum fyrir vikið. Þögli einræðisherrann er hann kallaður af mömmu sinni.

Bloggfærsla á síðunni hans gæti hljómað einhvern veginn svona: Click Click…. *Bank!!!* (ber viðkomandi bylmingshöggi til að ná athygli) Click *bendir* Click HAAAAAAÆÆÆÆÆÆ!!! Click Click *kinkar kollli*.
Svo gæti kauði líka sungið fyrir mann lagstúf á táknmáli sem er svona: Stingur vísifingrum í eyru og snýr fram og til baka, leggur saman lófa og vaggar þeim til og frá, baðar út öngum og KLAPP!!! Þetta lag ku vera apalagið; 5 litlir apar…. O.s.frv. Þó heyrist ekki múkk frá barninu meðan á þessum hreyfingum stendur.

Jæja, meðan maður á ónothæfa tölvuómynd getur maður leyft sér að dreyma um nýja. Ætla sko að fá mér Apple-lappara þegar ég hef efni á (vonandi fyrir árslok 2011). Og svo ætla ég líka að láta mig dreyma um chromatic-nanóinn sem er svooo fínn: (gettu hvaða lit ég mundi fá mér!?!?)


Og svo dreymir mig líka iPhoninn. Svona er þetta þegar maður vinnur hjá grænmetisfyrirtæki; mann dreymir bara epli!

10. september 2008




Meðfylgjandi drengur er orðinn 2 ára! Hann telst því ekki til lögformlegs ungabarns lengur en vill þakka öllum sem hafa stutt hann og hvatt á þessum erfiðu tímamótum...

Hér eftir flokkast fjölskyldan samkvæmt eftirfarandi skilgreiningu: 2 fullorðnir með 2 börn (2-11).

Hann hélt farsællega upp á afmælið sitt um daginn og naut þess í fyrsta skipti á ævinni að rífa upp pakka af miklum móð. Óli bró fékk ekki að sjá um það eins og í fyrra. Það verður miiiiikið gaman á jólunum á þessu heimili.

Með barninu á myndinni er uppskera dagsins hjá mömmunni sem er byrjuð að vinna hjá grænmetisfyrirtæki. Ægilega fínt! Og búin að bæta kakóbaunum á innkaupalistann hjá innkaupadeildinni.

P.s. Óli fékk að skreyta afmælisköku bróður síns og hún er/var hreint listaverk eins og við var að búast:



ATH. Þessi síða er knúin af öreindahraðli í Sviss ®
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats