22. nóvember 2006


Hefði verið mikið til í að vera stödd á molasykurs-ammælistónleikunum á föstudaginn síðasta, en komst ekki vegna almennrar heimakærsku og barnaknússtands með smá dashi af skírnarundirbúningi, en get þó huggað mig við sekúndurnar og mínúturnar sem má finna hér og þar á youtube, í mismunandi slæmum gæðum að vísu. Þar ber þetta skemmtilega lag einna hæst. Alltaf þótt þetta með betri sykurkubbalögum ásamt reyndar þessu hér.
Hér er svo fyrra lagið í pínulítið öðruvísi búningi og í flutningi krúttlegu smjattpattahljómsveitarinnar Dimmu. Hvernig getur hljómsveit sem heitir eftir hefðarkettinum Dimmu verið annað en krúttaraleg?!? Þeir líta meira að segja svona dúllulega út. Með svart í hávegum eins og Dimma sjálf. Æ svo fínir!
Það er greinilegt að sumir tónleikagestir af erlendu bergi brotnir fylltust þögulli lotningu yfir þessu hvíta sem hrundi af himnum ofan um helgina til heiðurs honum Kára mínum Fannari. Svona rétt eins og ég fyllist lotningu yfir bláum himni, pálmatrjám og ljósum sandi á mínum ferðalögum.
Misjafn er smekkur Manna (ekki nóg með að Manni muni ekki neitt (sbr. síðustu færslu) heldur er hann líka með misjafnan smekk...).

adobt a sugarcube

20. nóvember 2006


Litli maðurinn hefur hlotið nafn og litli maðurinn heitir Kári Fannar. Nafnið Kári er útí loftið en með Fannars nafninu er verið að vísa í ömmu Fanneyju (ömmu Guðmundar), snilling neð meiru sem á eftir að lúberja okkur foreldrana með stafnum þegar hún hittir okkur næst, þar sem hún sá sér ekki fært að mæta til athafnarinnar.
Og hvað er meira við hæfi á skírnardaginn en að vakna upp við 20 cm jafnfallinn snjó og smá vind þegar barnið á að heita Kári Fannar! Það hefur varla sést snjór það sem af er vetrar en skírnardagurinn rennur upp með mesta fannfergi í Manna minnum (það er margsannað að Manni man ekki lengra aftur en ca. 4 mánuði). Við sem sagt skiptum um skoðun í snarhasti og í staðinn fyrir að láta hann heita Bjartur Sumarliði fékk hann nafnið Kári Fannar. Nei nei, reyndar varð veðrið bara til þess að sannfæra okkur um þetta ætti stráksi að heita og hananú!
Drengurinn er strax kominn með viðurnefni sem tengist nafninu hans og það varð til þannig að föðursystir Kára var að skíra út fyrir sínum enskumælandi manni er Jökull heitir nafngift þessa og sagði honum að Kári og Fannar þýddi vindur og snjór. Og með það sama fæddist viðurnefnið og það er: Skafrenningur! Þetta verður sennilega aðalbrandari fjölskyldunnar þangað til Kári litli fer að bíta frá sér, eða blása frá sér kannski frekar... Reyndar þýðir Kári víst hrokkinhærður maður og Fannar er annars vegar snjór og hins vegar þýðir -ar endingin hermaður. Hrokkinhærður snjóhermaður! Þar hafiði það. Hann hefur sem sagt alla burði í að verða allt sem pabba hans langar að verða: hárfögur fjallageit á upphækkuðum 43" Yaris er berst við náttúruöflin fyrir okkur öll!
Hjúkk, okkur er borgið.

16. nóvember 2006


Nú erum við komin með þessa líka fínu vefmyndavél þannig að nú er hægt að kíkja á okkur hvenær sem er og sjá hvað við erum að bralla:


12. nóvember 2006


Það er til merkis um að við lifum á tímum pólitískrar rétthugsunar þegar sonur minn spilar ekki gamla góða hangman heldur teiknar HÚS strik fyrir strik.
Vona að hann verði ekki skemmdur fyrir vikið að alast upp í svona ofureðlilegu og verndandi samfélagi.

10. nóvember 2006

9. nóvember 2006


A birthday is the date on which a person is born, marking the day a life outside the womb begins. (Wikipedia)

Aha.

Til gamans má geta þess að sú sem þetta skrifar og sá sem þetta skrifar og sá sem skrifað er um eigum öll afmæli í dag. Og er undirrituð áberandi yngst!
Svo fékk ég líka nýjan vísi í afmælisgjöf.

Simple pleasure for simple minds.

29 is the new 19!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats