28. nóvember 2008


Já ég átti víst afmæli um daginn. Ómerkilegt afmæli að vísu en með snilldarplotti sem heppnaðist fullkomlega áskotnuðust mér margar góðar gjafir að milljónavirði - á núverandi gengi hvenær svo sem núið er eða hvert sem gengið er hverju sinni eða eitthvað. Þar sem allir voru svona góðir við mig og sérstaklega þeir sem afhentu mér óútfylltan tékka eða svo gott sem, ber mér skylda til að upplýsa í hvað andvirðið fór! Enda gerði maður sitt besta í því að spandera því STRAX áður en gjaldmiðill yrði krullaður $ eða tvístrikaður € eða mjólkurpotturinn færi upp í milljónogfimmtíu.

Altso, kulsækna afmælisbarnið vantaði hlýja og staðgóða úlpu ríka af fiðurfénaði (dúnn 95% fjaðrir 5%) og eldfimum pólíestri (100%) og fyrir valinu varð 200% Cintamani dúnúlpa að nafninu Eygló og sjá má hér í litnum Moss Khaki (sú aftasta). Já ekki amaleg gjöf frá tengdafjölskyldunni það og kann ég þeim margar þakkir fyrir hlýhug (í orðsins fyllstu) í minn garð. Já það má vel vera að lánadrottnar hrifsi hús fólks á næstunni en þá hjúfra ég mig bara í Eyglóinni minni með Lalla J. og hinum vinum mínum í Hljómskálagarðinum og enginn kuldaboli bítur mig.

Svo var það þessi í ameríkunni hún Togga sem þarf að skera sig úr og gefa manni upp á sitt einsdæmi skrilljónir til þess að maður geti misst sig í Egg og Blómaval og Húsó. Þar sem það ævintýri er að verða úti eins og hin íslensku ævintýrin (að undanteknum Íslendingasögunum (sögur og ævintýri er tvennt ólíkt) sem voru jú hverju orði sannara; innyflin úti og allt það) þá leyfði ég mér þann munað að kaupa sett sem mig hefur dreymt um en dytti ekki í hug að spandera í sjálf - en þegar manni er nota bene afhent kort til að kaupa eitthvað sem maður mundi annars ekki kaupa sér, þá keypti ég mér þetta undurfagra sett hér. Svo þegar allt fer á versta veg má finna mig á Austurvelli í Eygló úlpunni minn rótandi í blómabeði með fallega Eva Solo sleifasettinu mínu :) og það sem meira er, ég á ennþá rúma hálfa skrilljón af þessu korti til að spandera í eitthvað sem mér dettur í hug, húsbúnað, jólatré eða gullfisk ef út í það færi!

Og ekki má gleyma jarðinum (Yard = 3 fet = 0,9144 m) af súkkulaði sem mér áskotnaðist og ætla að spara mér í svona eins og smástund í viðbót.


Eins og segir á umbúðunum ; Seven days without chocolate makes one weak! Mikill sannleikur þar.
Á umbúðunum er líka sagt; Why was choco-late? Because he missed the bus!
Einnig er fullyrt að inn í umbúðunum leynist 36" (91,44 cm) af himnaríki og einnig bent á að 1,760 lengjur lagðar saman geri eina mílu af súkkulaði og bætt við "Þvílík sóun!".

Svo má ekki gleyma að ég fékk bókina Herra Pip sem gefin er út af Bjarti! Þó ekki um minn Herra Píp og ekki heldur gefin út af kettinum Bjarti. Sem minnir mig óneitanlega á sjálfhverfa daginn, sjá hér.

Allavega, til að gera langa sögu styttri; TAKK FYRIR MIG!

19. nóvember 2008


Rosalega er nú skemmtilegt þegar bjána stjórnmálaflokkar sjá bara alveg um það sjálfir að útrýma sér. Frammararnir týna tölunni einn af öðrum og er vel. Ekki það að ég vilji fara út í það hversu óþarfir, óhæfir og ekki geðslegir stjórnmálamenn eru svona almennt nú sem endranær. Manni finnst þeir reyndar alveg extra ónýtir þessa dagana en staðreyndin er sú að þeir hafa alltaf verið það, þess vegna erum við jú stödd þar sem við erum í dag - í norðanverðu atlantshafi útifyrir Svalbarða. Núna þegar þeir þurfa að vinna ("oooohhhhh.... vúhú jólafrí eftir viku" heyrt á salerni Alþingis í vikunni) kristallast bara svo fyrir augum okkar hve óhæfir þeir eru og hafa verið.

En aftur að flokknum sem mér finnst svo sérstaklega skemmtilegt að leggja í einelti (sjá hér og hér og hér og hér og hér og hér og hér) Fremmmmbleblebleflokknum. Við lestur á ákveðinni grein á mbl sá ég að auðveldlega má koma í veg fyrir að framsóbleblemenn fæðist framar eða í það minnsta má fækka þeim um 75%! Og hver skyldi töfralausnin vera???

Nú, við lestur ofantengdrar greinar eru taldar upp 6 manneskjur. 4 af þeim manneskjum eru börn Harðar. Þá gef ég mér það að ef, með stjórnarskrárbreytingu eða álíka skipun, nafnið Hörður verði bannað megi koma í veg fyrir frekari vitleysingavæðingu í þjóðfélaginu um ókomna tíð. Að Nýja Ísland verði laust við þessa þess háttar trúða er kenna sig við framsókbleble. Svo mega hinir flokkarnir farga sér líka hver af öðrum, sjónvarpið mitt gæti nú kennt þeim eitt og annað um sjálfsíkveikju sem dæmi. Vá hvað það verður ljúft að búa á Nýja Íslandi.

5. nóvember 2008


Vei, heimur bestnandi fer!


Það kom til allrar lukku ekki til þess að túberuð kvensnift yrði næsthæstráðandi í júessoffei enda hringdi sjötti áratugurinn í hana og skipaði henni að koma heim til sín og vera ekki með þetta vesen!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats