24. ágúst 2008


Ég óttast að yngri sonur minn verði aldrei handboltastjarna!















Held hann verði körfuboltakappi!
Hann er búinn að vera með þennan bolta í fanginu í um það bil 27 klukkutíma +/- ½.

23. ágúst 2008


Hvað er Obama að spá? Að velja sér gamlan hvítan frethólk (white old fart) sem varaforsetaefni. Hann gæti verið afabróðir McCains!
Slagorðið "Obama/Biden" á líka alveg eftir að kveða niður múslima-orðróminn um Obama eða þannig; að framboðið hans hljómi eins og nafnið á óvini Bush numero uno, næst á eftir ljóta kallinum undir rúminu hans. Hann Barack minn sem kom sem ferskur fyrirboði breytinga inn í umræðuna fyrir kannski rúmlega ári síðan er á góðri leið með að verða sami klumpurinn og hinir og verður sennilega bara til þess að WWIII byrjar bara pínu seinna en ef McCain vinnur.

Spái því að McCain velji sér konu eða hörunsdökkan einstakling sem varaforsetaefni og rúlli þessu svo upp í nóvember.

Segi svona, hvað veit ég...

---

Maður þarf að passa sig fyrst gæsaveiðitímabilið er byrjað því gæsahúðin hefur ekki farið síðan í hádeginu í gær. Þvílíkur leikur.
Vona að Alexander færi þjóðinni gullverðlaunin á silfurfati í fyrramálið... Svona klæddur!


ÁÁÁÁÁFFFFFRRRRAAAAAMMMMÍÍÍÍÍÍÍSSSLLLAAAAAAAAAAAAANNNNNDDDD!!!!!!!

20. ágúst 2008


Voruð þið búin að átta ykkur á að í dag er 20/08/2008 eða 20082008! Og það sem meira er, klukkan er líka 20:08.

20082008 kl. 2008!

Reyndar er þetta með klukkuna bara lygi því hún er núna 17.27 hjá mér en það er bara svo miklu flottara að hún sé líka 2008 þar sem bloggerinn býður upp á alls konar stillingar og tímasetningar fram í tímann... Sem segir okkur aftur að allt sem þú lest á internetinu er lygi.

Talandi um tölur, heppni mín á sér engin takmörk - ég var með þrjá rétta í lottóinu á laugardaginn! Ásamt 7.690 manns öðrum þannig að þegar ég var búin að deila heildarvinningnum með hinum 7.690 var minn hlutur 880 Kr. Sem gerir alveg -120 kall í gróða þar sem ég eyddi þúsund kalli í snepilinn.

Og enn talandi um tölur, af öllum 7 stafa talnarunum í heiminum - hverjar ætli líkurnar séu á að fá akkúrat þessa runu upp á auðkennislyklinum sínum?


Sennilega jafn líklegt og að fá hverja aðra runu...

15. ágúst 2008


Hér má sjá mitt verðandi hús; Laxamýri á Dalvík! Hvort sem það verður mitt fyrr eða síðar skal ég eignast það einn góðan veðurdag enda allir veðurdagar góðir á Dalvík. Hef girnst það síðan ég man eftir mér og alveg til að trylla óstöðuga, kom í ljós um síðustu helgi að Laxamýri er föl:


Ægilega huggulegt og fallegt hús í miðbæ Dalvíkur.

Það sem meira er: í gær ákvað tengdafjölskyldan að kaupa húsið með mér þannig að það yrði þá eitt allsherjar ættarafdrep við minni Svarfaðardals, náttúruperlan sem hann nú er.

Viðstaddir á fjölskyldufundinum þar sem þetta var ákveðið var mikill meirihluti fjölskyldunnar, þ.e. Eyba og Óli sem hafa þrefaldan atkvæðisrétt vegna virðuleika, Tobba og Halldór sem hafa atkvæðisrétt fyrir sig og sín ófæddu 3 börn, Ég sjálf og drengirnir mínir tveir og ég með umboð frá Guðmundi, þannig að mér telst til að þessi kaup hafi verið samþykkt með miklum meirihluta, alls með 15 atkvæðum gegn 7 atkvæðum fjarstaddra (já Togga - Tóta hundur er líka með atkvæðisrétt) sem eiga án efa eftir að samþykkja kaupin um leið og þau sjá ofangreindar myndir.
Biðst afsökunar á slökum gæðum myndanna en þar sem tölvan mín er gengin í barndóm og þykist ekki komast hraðar en á mesta lagi 56k hraða, þurfti ég að smækka myndirnar helling til að það tækist nú að koma þeim inn yfirleitt.

Húsið er á tveim hæðum eins og sjá má, með stórri stofu, eldhúsi, baðherbergi og einu herbergi niðri, og 3 herbergjum auk hols uppi. Bakvið húsið er pallur sem hreinlega bíður eftir að á hann verði settur pottur, og á suð-vestur hliðinni er kominn sökkull fyrir ja hverju sem manni dettur í hug, garðhýsi eða einhverju svoleiðis. Húsið fæst fyrir litlar 24 millur sem er foxdýrt en þessi fjölskylda verður ekki lengi að skrapa saman fyrir því, sei sei nei.

Bakvið húsið er risastór leikvöllur fyrir börnin, við hliðina apótek, ská á móti aðal barinn á Dalvík (þó það mikið á ská að ónæði yrði ekkert), kaupfélagið 2 mínútur í burtu, banki og menningarhúsið enn styttra, Halla amma er svo á númer 17 (Laxamýri er númer 6) og skólinn bara út götuna, Sundlaugin og Viggi frændi þar fyrir ofan og svona gæti ég haldið endalaust áfram. Og ekki má gleyma veitingastaðnum Tommunni, þar sem maður fær bestu pizzur norðan Fagurhólsmýrar.
Svo trítlar maður sér bara upp í fjall á vetrum og breggður sér um stundarsakir á skíði, endalausar gönguleiðir og berjamóar og ég veit ekki hvað og hvað. Mitt fyrsta verk yrði reyndar að loka lúgunni útí Ólafsfjörð, þaðan sleppur stundum einhver óþjóðalýður sem ætti frekar að sitja heima hjá sér. Ef eitthvað neikvætt gerist á Dalvík er nefnilega í 104% tilvika Ólafsfirðingi um að kenna.

Fjölskyldan mundi svo fara á Dalvízku-námskeið til að komast inn í málfar heimamanna sem er um margt merkilegt. Þessi færsla mundi hljóma nokkurn veginn svona á Dalvísku:

Róólega húsið sem sææti kallinn ætlar að selja fyrir litlu peningana! Litl slaka pizzan.
Fína ruglið!

13. ágúst 2008


Þessi hugmynd er nokkuð skemmtileg:


Maður missir alltaf af hommsuhátíðinni miklu af því að maður er einhversstaðar að éta fisk. Skella saman í eitt partí næst takk! Þá þarf Frómas heldur ekki að engjast inní sér lengur þar sem hann er jú Dalvíkingur og hommsa... (Yfirleitt floginn suður á hádegi eftir að hafa sungið Fiskidagslagið, til að fagna með hinum hommsunum).

Ekki grunaði mig það þegar ég gleypti í mig 3 skálar af kjötsúpu á Brú fyrir 3 sólarhringum síðan að sjoppunni yrði lokað í kjölfarið. Nú veit ég ekki alveg hvar ég á að stoppa á leiðinni norður fyrst kjötsúpan mín er búið spil. Borgarnesbændur kunna ekki lengur að gera kjötsúpu eins og hún á að vera heldur bjóða manni upp á eitthvað grænmetisseyðissull og frekar snæði ég gras út í haga með hinum rollunum en að stoppa á þeirri ógeðisbúllu sem Staðarskáli er!

12. ágúst 2008


Enn einu sinni eru börn þessa heims í nauðum stödd. Ég hreinlega orka ekki meira af ógeðis stríðsrekstri og barnaníð! Skítt með krónuhrun, kvótastuld, olíuverð, heimsendaspár, fótboltaúrslit eða slúður af ómerkilegum sorplýð en hörmungum sem ganga yfir börn án þess að þau fái nokkru um ráðið og geta ekki með nokkru móti flúið eða komið sér undan - er ég bara búin að fá nóg af.

Fer bráðum að frábiðja mér fréttaflutning af nokkru tagi þar sem ég orka engan veginn fleiri fréttir af skelfingum heimsins.

Held ég þufi bara að finna mér eitthvað áhugmál, fara í kór eða eitthvað þannig að ég hætti að glápa á þessar fréttir endalaust! Hef ekki taugarnar í þetta.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats