30. júní 2007


Voðalega virðist fólki finnast þessi kolefnisjöfnunar- og kolviðarumræða bara alveg eðlileg og ekkert furðuleg.
Sko þú kaupir bíl og borgar einhverja þúsundkalla í þar til gerðan sjóð til þess að bæta fyrir mengunina af bílnum, það er þú "kolefnisjafnar þig" í eitt ár! Já alveg heilt ár bara! Frábært, þú tætir og tryllir um allt alveg eins og áður af því að þú borgaðir í sjóðinn og mátt það, vei vei... En að breyta hegðuninni og bensíneyðslunni, kaupa kannski metanbíl eða eitthvað; nei kemur ekki til greina!
Þessi sjóður á svo að sjá um að planta birkihríslum víðs vegar og þar með þarftu ekki að leiða hugann meira að mengun næsta árið eða þangað til greiðsluseðillinn fyrir næsta kolefnisjöfnunarárgjaldi dettur inn um lúguna.
Og samviskan orðin svona ægilega fín bara. Og bílaumboðið voða lukkulegt með að bæta ímyndina svona ægilega fínt enda ekkert að missa sig í umhyggju fyrir náttúrunni. Því þá mundu þeir láta hluta sjóðsins renna til skylds átaks, sem væri að borga skógargróðursetjandi skólakrökkum fyrir að strjúka tjöruna, útblástursagnirnar og sorann af laufblöðunum á fínu trjánum sem þeir gróðursettu í fyrra.

Þessi umræða minnir mig á einhvern hátt á aflátsbréfin hans Snorra, syndaaflausn kaþólikkana og fleiri vitleysinga verk.

Og af hverju er ég að skrifa svona leiðinlegan pistil??
Þessi færsla er bara alveg óborganleg!

22. júní 2007

21. júní 2007


Æææææææ.... Honum Eyþóri er ekki meðhjálpandi!

Það sem menn gera ekki til að bæta hriplekt, gott ef ekki ónýtt almenningsálit. Í Jesú nafni...

20. júní 2007


Air voru fínir og settlegir í gærkvöldi. Átti alveg eins von á því að í einn og hálfan tíma mundi maður standa og virða fyrir sér tvo kalla uppi á sviði dunda sér af miklum móð við tölvur, hljóðgervla, míkrafóna með eighties-rafsándi (Kraftwerk-stæl) og fleira en þannig var það nú aldeilis ekki. Þeir mættu með nánast heila hljómsveit, meðal annars trommara, senegalskan á að giska, sem sýndi manni að það er aldeilis meira mál að spila á trommur undir chillaðri raftónlist en maður hefði haldið að forhugsuðu máli.

Air-hausarnir tveir spiluðu líka af fullum krafti, annar hamaðist listilega á ýmis konar bassa og gítara og hinn á orgelum og alls konar græjum sem ég kann ekki að nefna. Prýðistónleikar alveg hreint og metalhausinn hann herra Píp var sáttur þannig að þá voru þeir að standa sig þeir frönsku. Doktor Gunnar Hjálmarsson mætti á staðinn með upptökustaut og hér má heyra snilldarlagsmíðina "La Femme D'argent" sem var lokalokalag, eftir tvö uppklöpp það er. Þetta er ekstra teygð versjón af laginu þar sem einhverrar bilunar varð vart að manni sýndist, ekki það að maður heyrði, heldur virtist eitt orgelið ekki svara pikkinu þegar til var ætlast þannig að lopinn var teygður lítið eitt á meðan orgelið fann sig. Ég veit að doktorinn fyrirgefur mér stuldinn enda er maður ekki að stela þegar maður fær lánað...
Ef hann hins vegar náði upptekinni hinni undursamlegu nútímasinfónísku tónsmíð "Talisman" má hann alveg leyfa mér að fá hana líka.... lánaða það er.

Kynnti til sögunnar hérna um árið æskuheimili Píps í Þykkvabænum. Nú er heimili æsku minnar til sölu. Talsvert breytt þannig að mig langar pínu að skoða. Held maður megi gerast hobbý-skoðari í svona tilfellum.

16. júní 2007


Og hvað gerist þegar hávær pípari fer til Akureyrar?
Nú, það verða læti á Akureyri!

15. júní 2007


Píp farinn til Akureyris yfir helgina og á meðan fyllist borgin af dátum...

Hentugt?

8. júní 2007


Hver er að segja að við getum ekki neitt í fótbolta??? Hér erum við í 1. sæti, 4. sæti og 9. sæti!

7. júní 2007


Tveggja barna faðir í Reykjavík að nafni Dr. Gunni skrifaði færslu á vefsetrið sitt, sem er svo eins og töluð útúr mínum munni að ég tók mér það bessaleyfi að fá hana lánaða með hurðum og gluggum, og áskil mér rétt til þess að birta hana hér. Endurtek; Dr. Gunni® á hana og samdi hana og fær stef-gjöld af henni.

Tilvitnun hefst:

"Eitt hið drephlægilegasta í nútímanum er ofuráhersla og ofuráhugi karla af léttasta skeiði á fótbolta, sérstaklega enskum. Menn kenna sig við lið, og eru fyrst og fremst Liverpool-maður, Chelsea-maður, eða hvað sem það er, frekar en Íslendingur eða faðir. Svo þusa menn um að "við áttum leikinn í gær" eða "þið skituð í ykkur á Anfield". Þetta er bara fallegt finnst mér og ég er löngu hættur að ergja mig að menn hafi svona leiðinleg áhugamál. Svo sem alveg eins gott að menn velkist í þessu þar til þeir hrökkva upp af og er holað niður í kistum í fánalitum Arsenal."

Tilvitnun lokið.

Æ við erum alltaf svo sammála við doktorinn.

6. júní 2007


Eftir katastrófu síðustu aðventu fæ ég lafskás í kvöld!

Eins og þeim er ekki kunnugt um sem ekki þekkja til, er Lafskás matur sem ávallt skal (endursýnt hægt ÁVALLT SKAL) snæddur á aðventunni í beinu framhaldi af laufabrauðs-útskurði. Nánar má lesa um þennan sið í þessari færslu hér.
Sú regla lá eftir mölbrotin á síðustu aðventu þegar fjölskyldan ákvað að skera út laufabrauð helgi eina í sumarbústað í stað tengdóhúss og eins og allir vita er engin hökkuð og soðin lömb að hafa í sveitinni.

En úr því skal bætt í kvöld.

Vegna órjúfanlegra tengsla er mér skapi næst að spyrja, lumar ekki einhver á óútskorinni laufabrauðsköku í frystinum handa mér?

5. júní 2007


Íslenska þjóðin er yndisleg. Í öðru orðinu erum við svo stór og merkileg og best í heimi nottla og áttum að sjálfsögðu að rústa "dvergríkinu" Liechtenstein í fótbolta - og mikið drama í gangi hjá fótboltakverúlöntum þessa lands og uppi háværar kröfur um að þjálfarinn láti sig hverfa hið snarasta, en í hinu þá eigum við fullkomlega erindi á hið merkilega fyrirbæri "Smáþjóðaleikana" til að peppa upp sjálfstraustið með því að vinna voða voða mörg verðlaun og þá þykir allt í einu sjálfsagt að miða okkur við minnstu þjóðirnar.
Stórveldis-dvergríkið Ísland virðist eiga í tilvistarkreppu og í vandræðum með að skilgreina sjálft sig...

Einhvern veginn hélt ég að Ísland væri fjölmennasta þjóðin á þessu blessaða móti, en svona veit maður lítið, enda á heimurinn það til að snúast í kringum manns eigins rass. Við skulum bara útkljá þá umræðu hér og nú og hér má sjá íbúatölur þjóðanna:

Kýpur 766,400( gríski hlutinn) 256,644 (tyrkneski hlutinn),
Svartfjallaland 620,145,
Lúxemborg 455,000,
Malta 404,039,
Ísland 307,261,
Andorra 78,549,
Liechtenstein 35,010,
Mónakó 32,020,
San Maríno 30,368

En ef við sálgreinum þjóðina hérna sem snöggvast held ég að málið sé að innst inni huggnist okkur ekki að vera kölluð dvergríki þar sem við gefum okkur jú út fyrir að vera álfríki!

Uppfært kl. 09.30 þann 06.06.
Svartfjallaland varð aðili að litlulandaíþróttabandalaginu þegar landið öðlaðist sjálfstæði árið 2006 en sendir þrátt fyrir það enga keppendur á mótið í ár. Vefsetrið Hvarsemer biðst afsökunar á þeim leiðu mistökum sem urðu, að hafa bendlað þjóðina við þátttöku á mótinu.

4. júní 2007


Má til að deila með ykkur mjög dónalegri síðu sem ég les gjarnan.
Þessari síðu er haldið úti af lækni í Reykjavík sem af skrifum hans að dæma er lífsnautnamaður hinn mesti, þá sérstaklega hvað varðar mat, þó ég efist ekki um að hann aðhyllist fleiri nautnir þó hann tali ekki um þær hér.
Þetta er síða sem fær hjartað til að slá hraðar, sjáöldrin til þess að þenjast út, munnvatnsframleiðsluna til að ofvirkjast, ásamt fleiri myndrænum frösum úr Freschetta-auglýsingum. Ég á það til að laumast inn í tölvuherbergi eftir miðnætti þegar allir eru sofnaðir og kíkja á hvað læknirinn knái hefur upp á að bjóða það kvöldið og verð öll rjóð og másandi í kjölfarið. Hvernig maðurinn talar um mat og matreiðslu af frámunalegri ástríðu og virðingu fyrir viðfangsefninu er alveg með ólíkindum.

Nýjasta færslan hans slær öllu út! Hélt ég yrði bráðkvödd við lesturinn. Í þessari færslu koma öll eftirfarandi orð fyrir:

Matarorgía, (Hallelúja.... bara kjaftshögg í fyrstu setningu)
350g 70% súkkulaði (það er sagt að myndir jafnist á við 1000 orð en hver þarf myndir þegar þessi orð og tákn eru saman komin)
Béarnaise,
Græðgi,
Toscana,
Chocolate Nemesis,
Súkkulaðidjöfullinn,
Nautainnralæri,
Maldon salt,
Rare,
Súkkulaðikökudeig,
Þeyttur rjómi,
Vanilluís,
Gran Fuedo og Castillo di Diablo rauðvín

og einnig koma við sögu þessir dásamlegu frasar:

"...nema hvað ég tvöfaldaði uppskriftina."
"...og ég er ekkert að grínast með magnið af súkkulaði eða smjöri."

Úff, maður að mínu skapi. Verst að hann er giftur gamalli skólasystur minni. Og ég er í sambandi. Ojæja, það má girnast mat náungans fyrir því.
10 Maríubænir og ég er laus allra mála.

Einhver leiðinda orð eru líka inn á milli, svo sem eins og:

Kaloríur,
Rifsber,
Læknaeiður,
Samviska,
Heilkenni...

...enda væri síðan stranglega bönnuð og stórvarasöm fyrir virka fíkla ef hann hefði ekki ámóta og þvíumlík orð inn á milli!

Nú skil ég hvað hann Steingrímurjoð átti við þegar hann talaði um netlögreglu, svona skrif ættu nefnilega að vera undir eftirliti til að fólk illa haldið af mataræði fari ekki og rústi eldhúsum landsins og örkumli sjálft sig og aðra með óábyrgum og pervertískum matarvenjum!

Nei í alvöru, þetta er náttúrulega bara rugl.

Guð gefi mér æðruleysi.....
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats