5. desember 2004


Jólahefðir réðu ríkjum í dag þar sem pípfamilían - sá hluti sem ekki hefur flúið land - hittist og skar út laufabrauð og tróð sig út af lafskás! Já þjóðþekktur jólasiður það, þó laufabrauð kunni að hljóma framandi. Lapskas þekkja allir, skárra væri það nú. Nei nei, nú er einhver farinn að hvá... hvað er þetta laf...? Jú góð spurning... lafskás eða lapskaus eða lapschkaus eða lapzkaz eða hvernig sem þetta ágæta orð er skrifað, er að upplagi fyrirtaks fangelsiskjötkássa með kartöflustöppu. Já finnið þið hvernig bragðkirtlarnir taka kipp? Veit minnst um hvaðan þessi réttur er upprunnin en hann gæti þó verið suðurlands-undirlenskur af stórbýlinu Litla-Hrauni eða jafnvel ef við förum út fyrir landssteinana, kominn frá Borgundarhólmi.
Allavega er þetta mjög merkilegur réttur sem alla fjölskylduna dreymir um í heila 12 mánuði og snæðir svo, eða treður í andlitið á sér réttara sagt, í desember ár hvert þegar hún hefur lokið við að skera út laufabrauðskökur í tugatali. Sló réttinum upp á netinu áðan til að í fyrsta lagi finna út hvað hann heitir rétturinn og þegar ég sló inn lapskas fékk ég upp þetta nafn "söxuð kjötstappa". Merkilegt nafn þar sem ég mundi halda að það sem er annars vegar saxað og hins vegar stappað hljóti hreinlega að teljast til mauks. Kjötmauk einhverskonar. Eða bara kássa! Fann meira að segja uppskrift þannig að áhugasamir geta farið að prófa sig áfram, en ég skal lofa ykkur því að það tekur heila mannsævi að ná samanlagðri snilld þeirra píp-formæðra, Eybu og Steinunnar.

Engin ummæli:

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats