23. desember 2005


Jæja, jólin að bresta á og desember búinn að vera annasamur sem endra nær. Litli píp orðinn hálfs áratugs gamall og búið að úrskurða hann eðlilegan, heilbrigðan nokkuð vel gefinn og vel sjáandi fimmáring í þar til gerðri úttekt.

Jólalag Baggalúts: Föndurstund! Frámunalega skemmtilegt hjá þeim lagið í ár. Hér er líka aðventulagið í fyrra, sem er jú á góðri leið með að verða klassískt.

Talandi um jólalög...

"Það var aðfangadagskvöld,
fyrsta aðfangadagskvöld
að jólahátíðinni.
Þetta aðfangadagskvöld,
fyrsta aðfangadagskvöld er eldvarnahátíðin mest, la la la la,
varnahátíðin best..."

Held ég hafi verið orðin um það bil 18 vetra þegar ég fattaði að "eldvarnarhátíðin mest" átti ekki að hljóma þannig heldur er það víst "enn barnahátíðin mest". Hitt fannst mér alla tíð passa mjög vel þar sem það fer jú mikið púður í það fyrir hver jól að brýna fyrir fólki að passa nú vel upp á jólaskreytingarnar sínar þannig að áramótabrennan það árið verði ekki hús viðkomandi. Þess vegna syng ég þetta enn með mínu nefi.

Farin í skötu á Skólabrú með vinnufélögunum. Skál fyrir úldnum ámignum fiski og hnoðmör! Jólaandinn í sinni fögrustu mynd.

Gleðileg jól allir saman það eru að koma jólin jólin allsstaðar og ég kemst í hátíðarskap. Yfir og út!

1. desember 2005


Það bar til um þessar mundir að Baggalútur gaf út aðventulag sem endra nær.
Upp hefur sprottið eitt best heppnaða nýyrði seinni ára:
Ipod er í Mogganum í dag kallaður spilastokkur! Og til aðgreiningar frá eldri merkingu orðsins er hann kallaður stafrænn spilastokkur.

Næ ekki upp í það hvað þetta er þýtt og staðfært á snilldarlegan hátt.

25. nóvember 2005


My cup of coffee...


Samkvæmt kaffiprófinu er ég
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?


Vá, svona netpróf eru stjörnuspá nútímans! Hvernig getur tölvan eiginlega vitað þetta um mig?? Verandi dagdrykkjumanneskja drekkandi tvo latte á dag, nema þegar ég drekk þrjá! Það er einmitt þá dagana sem löggan mundi taka mig fyrir akstur undir áhrifum, ef hún yrði á vegi mínum það er að segja! Augasteinarnir dragast saman, hjartslátturinn verður örari og allt það......

Talandi um kaffi!
Í hvert sinn sem ég sé strætó eða strætóskýli eða önnur auglýsingaskilti með þessu logo-i:



verður mér alltaf hugsað til þessa logo-s:



Fyrir utan að starbökks-logoið er vanalega grænt minnir hitt mig alltaf á það og ég verð öll hálf meyr og stend mig að hugljúfum hugsunum og rifja upp hið stutta ástarævintýri sem við starbökks áttum í sumar. Spurning um að sækja um innflytjendaleyfi eða atvinnuleyfi nema bæði þurfi til að geta fengið Starbucks heim. Koma af stað átaki kannski, landssöfnun og styrktartónleikum, til að maður geti skroppið út á næsta götuhorn og fengið sér kaffi á Starbucks endrum og eins, eða svona þrisvar á dag. Oftar telst nú varla hollt.

Þá hins vegar mundi útkoman verða einhver önnur í kaffiprófinu hér að ofan. Ég mundi sennilega koma út sem Frappuccino!

23. nóvember 2005


Jiii hvað það hlýtur að vera skemmtilegt að vinna hjá Actavis. Gaman að vinna á vinnustað þar sem alltaf er nóg um vera, fyrst þetta í gær og svo þetta í dag.

Tóm stemming.

21. nóvember 2005




Jessös hvað tónleikarnir voru hressandi og skemmtilegir í gær... Það fór vel á því að halda þá í íþróttahöll þar sem hljómsveitin telur aðeins tvö þannig að meðlimir þurfa að hafa keppnisskap og snerpu til að komast í gegnum prógrammið almennilega. 4 manna hljómsveitir eru augljóslega tímaskekkja hvað þá 5 manna! Þessi tvö jöfnuðust alveg á við 4 manna band. Alveg var magnað að horfa á Jack White skipta á milli allavega 4 gítara og píanós og hjómborðs og allskonar en keyra samt hvert lagið á fætur öðru án þess að draga andann á milli.
Gaman að fylgjast með honum taka upp einn gítarinn og svo bara "nei tek þennan frekar og spila bara eitthvað allt annað lag!" (gítararnir höfðu jú svona sitt sérsvið hver, blúsgítar, rafmagns, banjówannabe og soleis). Hann þurfti ekki einu sinni að ráðfæra sig við restina af bandinu því Meg var klár í hvað sem er missandi sig á trommunum og öðru slagverki.

EN HVERNIG ER HÆGT AÐ TAKA EKKI FELL IN LOVE WITH A GIRL???
Er ennþá í schjocki satt best að segja!!!
Ekki gátu þau afsakað sig með tímaskorti þar sem lagið er jú aðeins um það bil 110 sekúndur!
Jég á bara ekki til orð!
En þau tóku þó Jolene þannig að það bætir fyrir glappaskotið að einhverjum hluta!

4,5 strípur af 5 strípum mögulegum!

17. nóvember 2005


Við hjá hvarsemer áttum alltaf eftir að óska Toggunni til hamingju með nýja starfið! Nú er hún sennilega á síðustu metrunum í "gömlu" vinnunni, sem sagt að þjösnast um búðina í einhverjum Grinch-ham bölvandi jólakúlum og músastigum og teljandi niður dagana þar til Barbie-heimurinn tekur við. Loksins getur manneskjan farið að halda jól aftur án þess að fá kvíðakast eða lenda í andnauð bara við tilhugsunina.
Eins langar okkur að leggja til (..krefjast...!), að hún spreiji Cadillac-inn bleikan! Verandi ljóshærð, eigandi Cadillac, vinnandi í höfuðstöðvum Barbie, búandi í LA! Annað er nú bara ekki hægt! Svo mætti líka líma bómullarhnoðra á hana Tótu litlu, búa til smá kraga úr hnoðrum og skella nokkrum líka framan í hana og setja jafnvel einn hnoðra á dindilinn á henni þannig að hún verði ekta svona ja hvað skal segja frægafólkssmáhundsfylgihlutur... nema tsíváva séu heitustu smáhundarnir um þessar mundir?!? Skilst að Hilton-sorplýðurinn sé reyndar búinn að fá sér apa! Sækjast sér um líkir! Kannski eru hundar so last century í LA í dag.
Allavega! Bleikur Cadillac er alveg málið í nýju vinnunni!

TIL HAMINGJU TOGGA!

9. nóvember 2005


Afmælisbarn dagsins:
Áhrif tunglsins eru þannig þessa dagana að sérhver ákvörðun er vegin og metin fram og tilbaka áður en nokkuð er aðhafst. Það er hægt að hugsa of mikið. Reyndar áttum við okkur betur á því hverju við erum upptekin af, fyrir vikið, og í sumum tilvikum er það eitthvað allt annað en við myndum vilja dvelja við.

Er ég svona vitlaus eða er þetta innihaldslaust bull og leikur að uppröðun orða í leit að vitsmunalegri merkingu sem dettur í það að verða yfirborðskennd og mistekst þar af leiðandi allhrapalega?
Er það furða að maður hreinlega spyrji sig!

Þetta er hins vegar fyndið:

SPORÐDREKI og VATNSBERI
Vatnsberinn á bágt með að skilja tilfinningar, ástríðuhita og skapsmuni Sporðdrekans og Drekanum finnst hann vera að skoða sig eins og skordýr í smásjá. Hann á ekki síður bágt með að þola fjarræna framkomu Vatnsberans og yfirlætislega framkomu, einkum gagnvart leikrænum uppákomum Sporðdrekans. Þeir eru svo ólíkir, að það er vafasamt að þeir eigi nokkurn tímann í sambandi.

Það hefði kannski mátt segja manni þetta fyrir 9 árum síðan!

8. nóvember 2005


Það er gott að vera 27 ára!

Heldur þykir mér þessi hugmynd stolin... Vísa þá í færslu frá 13. dicembre á síðasta ári (svoooo gömul hugmynd, u slow thinkers!). Ætti ég ekki að fá ja...hmmm.. svona sirkabát 5% af gróðanum?
Já já okei... og láta hann að sjálfsögðu renna áfram til PakIndlands og geta með því móti lagt míns eigins af mörkum fyrst vestræn ríki eru of upptekin við undirbúa yfirvofandi fiðurfénaðspestir eða eitthvað álíka.
Heimta hér með hlut!
Ekki hugsa mér samt þegjandi þörfina þegar ósóminn fer að hljóma á öldum ljósvakans! Hafði ekkert með sjálfa framkvæmdina að gera!

P.s. Er komin með nýtt netfang.



Múhahahahihihi! Á meira að segja 2 eintök! With my name on it!

27. október 2005


Þættinum hafa borist kvartanir vegna áberandi leti við að ibba blogg gogg undanfarið. Nú af því tilefni settist mín niður og skrifaði og skrifaði hverja snilldina á fætur annarri en fór svo aðeins að hugleiða bág kjör þriðja heimsins og hvað haldiði að hafi skeð á meðan??? Haldiði að hundurinn hafi ekki bara étið færsluna! Átti að halda mig við köttinn bara...

Jú fólk spyr hvort litlum pípulagningasveini eigi ekki eftir að sárna er foreldrar fara og vagga sér við tóna White Stripes (VERÐ AÐ FÁ MIÐA!!! í ammilisgjöf jafnvel :) - taktu það til þín sem átt það) en til að róa ykkur niður áhyggjufullu sálir þá á litli sveinninn nýtt uppáhald um þessar mundir. Tom Waits er nefnilega alveg að heilla stubb sem er svosem ekki skrýtið og þar ber hæst lagið Underground. Þetta þykir okkar bera merki þess að barnið sé að þroskast og þróast í sínum tónlistarskilningi og er það vel. Gott ef drengurinn er ekki eilítið á undan sinni samtíð hvað það varðar.

Við vorum frelsuð upp úr klukkan sex í kvöld... Eftir að hafa agnúast lengi vel út í það indæla ógeðisfyrirtæki sem síminn er ákváðum við að snúa við þeim baki og leyfa Hive að frelsa okkur. Áttum von á engli með vængi til að setja upp allt dæmið en fengum guðfræðing. Næsti bær við. Eitthvað atvinnuleysi greinilega meðal guðs manna en þeir geta þá frelsað fólk á öðrum vígstöðum á meðan þar til þeim verður úthlutað brauði.

Góðar stundir

22. október 2005


Þar með hefur áður umræddur atburður fengist staðfestur! (sjá eldri færslu)


Er við það að missa stjórn á mér af gleði!

11. október 2005


Tapað - fundið


Guðmundur, a.k.a. Pip, er týndur. Því hefur verið samið lag í þeim tilgangi að opna augu fólks fyrir þeim bitra sannleika sem við blasir; að hann sé horfinn! Syngjum nú öll með í þeirri von að hann skili sér heim aftur.

28. september 2005


Siggeir flugkappi er væntanlegur til landsins á lördag eftir langa útlegð (að mér finnst allavega). Til að hafa eitt á hreinu Siggeir minn; hér á ég heima:



Hann ratar sennilega best um borgina úr lofti séð.

26. september 2005


Hélt í tvo daga að enn eitt endalausa hver-sagði-hvað-við-hvern-hvenær-og-hvar-og-hverjir-voru-vitni-að-því-og-hver-sveik-hvern-hvernig-og-hví-mál væri í uppsiglingu og var um það bil að taka meðvitaða ákvörðun um að ég ætlaði að hætta að fylgja því eftir því það væri hvort sem er klukkutímaspursmál hvenær maður væri hættur að skilja og hvenær maður væri kominn útí það að hreinlega hugsa í hringi af öllu saman.
Þá sá ég DV í morgun! Ahaa! Þá var þetta líka orðin spurning um hver svaf hjá hverjum eða kannski hver svaf ekki hjá hverjum og áhuginn lifnaði á ný. Nú er þetta orðið að þannig máli að Bold and the Beautiful bliknar í samanburðinum. Þvílíkt tilfinningalegt og viðskiptalegt drama! Nú er það popp og kók á línuna yfir hverjum fréttatíma... útvarpsfréttatímum líka. Svakalegt uppgjör í vændum væntanlega. Skyldi vera búið að selja kvikmyndaréttinn? Er ekki gráupplagt að John Grisham og Danielle Steele leiði saman hesta sína og útkoman verði hinn hrikalegasti reyfari með erótískum undirtón?? Ég bara spyr!

25. september 2005


Píp er hættur í gömlu vinnunni sinni! Alveg satt!
Hann ákvað að segja skilið við J(ónas(jesús))K(ristján(kristur)) lagnir, sennilega af því að það var ekkert G(uðmundur(guð)) í því.
Píp fékk nefnilega í vor sem leið vilyrði fyrir hugsanlegu aukahlutverki í Hollywoodískri hryllingsmynd af gamla skólanum (þ.e.a.s. ef óskað yrði eftir leikara af arískum uppruna), tækifæri sem hann gat ekki sleppt og sagði af því tilefni skilið við frekari landvinninga í pípulagningabranzanum í bili og brá sér í framhaldinu til Bandaríkjanna í sumar. Þar lét hann loksins verða af því, eftir stífar samningaviðræður við bíómógúla sem lofuðu verulega góðu, að kaupa sér sundlaugina í forngrískaefekkirómverska stílnum sem hann langaði alltaf svo í, verandi kominn með hugsanleg tilboð hist og her (að hans sögn). Þó hafði honum á því stigi málsins verið neitað um rullu í Klístvúd dramanu í Krýsuvíkinni; Flögg vorra feðra.
Hér að neðan má sjá mynd sem birt var með viðtali við tilvonandivilyrðis leikarann í nýjasta tölublaði Rising Stars of Hollywood þar sem hann einmitt fer mikinn í að lýsa leikarahæfileikum sínum og útliti. "You haven't seen such an Icelandic actor since Fjolli was and named" (var og hét).




Pip Plummer, a rising star in Hollywood!
Here photographed as an proud owner by his small oldfashion swimming pool!

(RSOH, tbl 9, 2005)

Svo kom reyndar babb í bátinn!

Vatnavextir og flóð ásamt umtalsverðum vindstreng fóru á haustmánuðum að gera verulegan óskunda í Bandaríkjunum sunnanverðum og þar sem Píp er frekar vatnshræddur að upplagi eftir að hafa lent í nærridauðalífsreynslu í Sundlauginni á Hellu árið 1984 gat hann ekki hugsað sér að búa á þessum viðsjárverða stað og ákvað í snatri að flytja aftur heim í öryggið til Íslands og halda áfram þar sem frá var horfið við að hemja vatnsaflið hjá fyrirtæki í gusubransanum sem heitir Presslagnir ehf.

Píp er semsagt búinn að skipta um vinnu!

Leiter...

23. september 2005


Í einskærum leiðindum og djúpri sjálfhverfu gúgglaði ég sjálfa mig áðan! Haldiði að það hafi ekki bara komið upp 2 myndir af undirritaðri... En gaman, og það einstaklega vondar myndir! Jæja, það er svosem sjaldan sem myndavélafóbískt fólk myndast almennilega. Gaman að þessu...


Hví þá ekki það!




Vesalings föðurlausa greyið.

22. september 2005


DÍSESS HVAÐ BOLTON VAR GEGGJAÐSLEGA GÓÐUR!!!

21. september 2005


Eru ekki allir í góðum fíling og tilbúnir fyrir veturinn bara?? Esjan komin með grátt í vanga og bíllinn skafaður í morgun og stemming... Ógnvænleg þróun í gangi þessa dagana. En við hjá hvarsemer eigum ráð undir rifi hverju; til að dagarnir verði ekki of dimmir og drungalegir og til að skammdegisdepurð nái ekki yfirhöndinni í hugarfylgsnum okkar og ykkar lesenda skulu dagar og mánaðarheiti á hvarsemer.blaðurskjóða.kom héðan í frá vera á ítalskri tungu! Með von um að allir haldist suðrænir og hressir í vetur.
Ciao í bili.

7. september 2005


Menn ætla augljóslega að fara að snúa sér að skriftum!
Hefði verið nær að planta frekar Ragga Bjaddna í þessa seðlastjórabankastöðu, Það starf er víst eitthvað sem vinnst með hangandi hendi.

6. september 2005


Bróðir minn var í sjónvarpinu í morgun og var kynntur inn sem fimmtán ára og fallegur! Geri aðrir betur! Sennilega var hann samt bara kynntur þannig af því að það rímaði... Ekki gátu þau sagt að hann væri feitur eða fjólublár því rauðbirkni sláninn er hvorugt.

Og af þróun þessa vef"seturs" eða stórbýlis öllu heldur kannski. Hvarsemer leggur sig að sjálfsögðu fram um að fylgjast með straumum og stefnum því ekki vill hvarsemer staðna! Starfsemin hefur nú vaxið og er orðin viðameiri því jú, getiði hvað?!? Hér hefur verið opnað lítið myndagallerí. Komnar eru inn myndir frá Kaliforníurúntinum (89 myndir af tjahvaðskalnúsegjamundiskjótaásvonaumþaðbil 1500 myndum) og fleiri myndaalbúm verða eflaust búin til ef eitthvað hressandi er í gangi í lífi Píp-familíu! Kannski maður smíði svona extreme makeover home edition albúm með þróun mála í Efstasundi eða eitthvað annað mis sniðugt... Kemur í ljós!

Jeminn eini hvað þetta er dásamlega unaðslega frábær græja. Okkur kom ekkert sérstaklega vel saman í fyrstu enda vorum við ekki alveg að skilja hvor aðra, en svo fórum við að skilja og PÚFF... Slitnar ekki á milli okkar snúran! Ef eitthvað réttlæti er í þessum heimi verður Mr. Apple sæmdur Nóbel-prísi fyrir þessa einstaklega þörfu, notadrjúgu og hagkvæmu uppfinningu! Tær Znilld!

3. september 2005


Eftir einangrun síðustu mánaða erum við litla fjölskyldan aftur komin í samband við umheiminn í gegnum rangala internetsins. Við höfðum það bara ágætt enda höfðum við nóg af vistum og vatni til að þrauka einangrunina og svosem búin að hafa ýmislegt fyrir stafni líka sem betur fer.

Meðal annars þetta:





Magnað hvað má gera í PhotoShop!
Nei já alveg rétt... Það var víst aðallega málning og sandpappír í þessu tilfelli!!!

2. september 2005


Geri fastlega ráð fyrir því að Bolton kolfelli þessa tillögu! Enda þykir honum aðstoð og hjálp af öllu tagi óþörf fjárútlát að manni skilst. Það þyrfti örugglega að endurskíra útgjaldaliðinn "Varnir gegn hryuðjuverkum náttúrunnar á Bandaríska ríkisborgara" eða eitthvað álíka...

Borgarstjórinn í New Orleans líkti þessum hamförum við Hiroshima! Þá hætti ég skyndilega að vorkenna blessuðu fólkinu enda ekki saman að jafna hreinrætuðum grimmdarógeðishryðjuverkum og náttúruhamförum. Munurinn á Bandaríkjamönnum (.org-hlutanum) og náttúrunni er nebbla sá að maður ber virðingu fyrir náttúrunni! Það antivorkunnar ástand varði þó bara næstu 5 sekúndurnar því sannarlega er ástandið í uppáhalds borginni minni seméghefaldreikomiðtil vægast sagt skelfilegt og ömurlegt upp á að horfa. Líklegra sennilega að maður ferðist til Atlantis í bráð heldur en New Orleans. Svo er Fats víst týndur ofan á allt annað.

30. ágúst 2005


Enn ein ástæða þess að maður ætti að varpa sjónvarpstækinu útum gluggann! Tímaþjófur og sorphaugur hinn mesti sem þetta tæki er orðið.

28. júlí 2005


Furðulegt að þessir framtakssömu aðilar skuli ekki líka hafa látið prenta á dúnúlpur, kraftgalla, alpahúfur og eyrnaskjól, svona rétt til að hinir ágætu mótmælendur fari nú ekki að verða úti þarna fyrir austan... svona um hásumarið.

Einhverjir leggja sitt að mörkum til að stuðla að friði in dis wicked world we live in. Heimur bestnandi fer... vonandi, sennilega ekki samt...

Hef staðgóðar heimildir fyrir því að White Stripes komi til Íslands í nóvember! Hvílík fölskvalaus gleði. Vona bara að það verði ekkert aldurstakamark því að sjálfsögðu verður maður maður að taka li'l pip með sér, enda er hann jú einhver sá mesti White Stripes aðdáandi sem sögur fara af í öllum 2000-árgangnum á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hann getur horft á "Fell in love with a girl"- myndbandið korterunum saman, enda eru Lego-kubbar megin uppistaðan í því, og dansað með og sönglar svo aðallínuna úr "Seven Nation Army" sí og æ, fyrir utan það að hann hefur sérstakt dálæti á "Jolene" í flutningi Hvítu Randanna. Ef við hjúin förum á tónleikana án hans verðum við allavega að fara með fleipur við barnið og segja honum að við séum að fara á Michael Bolton tónleikana eða eitthvað til að hann fatti ekki neitt. Afsakið rétt á meðan mér varð bumbult...

Nú virðist þessi brakandi þerrir sem geysað hefur í nokkra daga vera liðinn hjá. Vonandi að það viðri þá loksins vel til innimálunar!

Síðar...

26. júlí 2005


Já við erum komin heim!
Já við erum búin að fá íbúðina okkar afhenta!
Já ég er byrjuð aftur að vinna eftir fríið!

Þar hafiði það! Hef hvorki haft tölvu né tíma til að skrifa undanfarið en við skulum bara vona að það lagist á næstu dögum. Stöndum á haus við að koma íbúðinni í stand um þessar mundir þannig að nú líta dagarnir ca. svona út: vinna frá kl. 9.00-17.00, málað og vesenast í íbúð frá kl. 17.04-1.30! Fengum kalla til að slípa upp gólfið þannig að það fór frá því að vera vel lifuð drungaleg og sjúskuð fura í að vera náttúruleg og frámunalega fögur fura! Erum búin að mála hjónaálmuna og stofan var kláruð um helgina. Þær álmur orðnar alveg geysilega fagrar á að líta. Næsta verkefni verður svo stórt og krefjandi.... björgunaraðgerðir á eldhúsinu, athuga hvort það eigi sér viðreisnar von, hvort einhver leið sé að bjarga því frá þessu litaslysi sem átti sér stað fyrr á árum, senda það í endurhæfingu og sjá hvort hægt sé að bæta sjálfstraustið hjá því eftir niðurlægingartímabilið mikla!

Best að klára Ameríkuferðina, ferðasaga á hraðferð! Allir koma bara í heimsókn og skoða myndir fyrir nánari upplýsingar. Brunuðum frá LA í beinustu átt að Sequoia þjóðgarðinum með stoppi í Bakersfield, heimabæ þeirra Korn-meðlima. Engin furða að þeir sé reiðir og pirraðir ungir menn með allt á hornum sér komandi frá þessum rauðhálsabæ í miðri auðn þar sem hitastigið fer sennilega sjaldnast niður fyrir 40 gráður. Menn hljóta bara að semja tónlist "fyrir djöfulinn" (vitnað í Heilagan Amenson á Omega 24. september 2004) verandi frá næsta bæ við helvíti. Snæddum þar og brunuðum upp í Visilia, lítinn bæ rétt við Sequoia þar sem við eyddum nóttinni og héldum svo áleiðis að skoða voða stór tré og fullt af laufblöðum. General Sherman stóð sína vakt eins og hann hefur gert í mörgmörgmörg ár. Næsti ákvörðunarstaður var Oakhurst, hvar við höfðum afdrep í tvær nætur. Sá bær er nefnilega rétt við Yosemite National Park, sem við eyddum næstu tveimur dögum í að skoða. Náttúrufegurðin þar er svo gjörsamlega yfirþyrmandi að það eina sem maður getur gert er að flissa og glápa. Ásbyrgi lítur út eins og hvert annað lambasparð í samanburðinum. Með fullri virðingu...

Brunuðum þaðan á stað sem heitir Mammoth Lake, skíðabæ með meiru. Lögðum af stað daginn eftir í átt að Lake Tahoe með viðkomu hjá Mono Lake, sem er svona mini Dimmuborgir í vatni. Fórum svo yfir "landa"mærin inn í Nevada og að sjálfsögðu beið eitt stykki Casino þar eftir okkur 53 metra frá fylkjamörkunum. Létum þó alveg vera að kasta teningum en fengum okkur hins vegar að snæða þar. Karlmennirnir í hópnum, sem nota bene valhopppuðu og leiddust mest alla ferðina ásamt því að vera ávallt klæddir í stíl, fengu sér 12 oz. steik og egg í morgunmat/hádegismat enda ekkert seríos á boðstólnum.

Þá heldur sagan áfram og nú erum við komin til Lake Tahoe, sem er eins og stór leikvöllur allt árið. Á veturna er hægt að leika sér í ýmiskonar vetraríþróttum og svo á sumrin verður svæðið strandparadís með ýmis konar vatnasporti! Og hvenær sem er ársins getur maður klárað daginn í Casínói. Hversu áhugavert sem það nú er. Leigðum hús þar og gistum þar í tvær nætur, strönduðumst og nutum lífsins.

Þá var kominn 4. júlí og af því tilefni brunuðum við niður í Napa Valley, vínhérað með meiru. Sáum um kvöldið flugeldasýningu sem Íslendingar hefðu skammast sín fyrir undir drynjandi þjóðernisvælssorpmúsik einhverri. Ljómandi hressandi. Daginn eftir urðum við svo að sjálfsögðu að kynna okkur víngerð og víniðnaðinn sem slíkan og aðstoðuðum bændurna við að smakka til vínin þeirra þó okkur hafi ekki boðist í þetta skiptið að trampa á táslunum í tunnu á berjum. Ætli maður þurfi ekki að koma í október til þess. Fórum á 3 búgarða, þar af einn sem var lítið krúttlegt fjölskyldufyrirtæki og 2 "verksmiðjur" í samanburði við hitt, Beringer og Stags Leap.

Jæja, þá var heldur betur farið að styttast í þessari ágætu ferð okkar og þann 6. brunuðum við til San Francisco og skiluðum af okkur bílnum sem hafði svo hratt og örugglega flutt okkur á milli staða, þó ekki höfum við verið svo heppin að fá bílinn sem við pöntuðum tveim mánuðum fyrir ferð. Það er greinilega ekki nægur fyrirvari fyrir kjánana hjá Avis. Skohhh ókeypis auglýsing. Dögunum í SF var svo eitt í helst til mikið verslunarráp ásamt hinum og þessum skoðunarferðum. Löbbuðum fram og til baka yfir Golden Gate og svona allskonar. Þokan ásótti okkur aðeins þessa daga sem við eyddum í SF enda er svo mikið af henni þarna að þeir tappa henni á dósir og selja ferðamönnum sem minjagripi. Að sjálfsögðu fengu foreldrar mínir eina slíka enda er það orðinn siður hjá undirritaðri að finna hallærislegasta minjagrip á svæðinu og færa þeim. Þoka í dós var það í þetta skiptið. Já og þá var þessari frábærlega meiriháttar geggjuðu stuðferð lokið og þessi mánuður sem hún tók leið eins og tvær vikur eða eitthvað, svo mikið var fjörið. Vorum allt of löt við að kaupa í búið þarna úti vegna hræðslu við yfirvigt sem kom svo í ljós að var engin nema á okkur sjálfum, búin að borða á okkur ófá kílóin... úpps.
Hér er kort af Kaliforníu og þeir sem vilja geta dundað sér við að finna þessa staði sem ég er búin að telja upp á þessu flakki okkar. Einnig mæli ég með að fólk prenti kortið út og tengi á milli punktanna og geri sér þannig greinargóða mynd af þessu ferðalagi okkar. Þetta á aðallega við um þá sem eru í sumarfríi og leiðist eða eru í vinnunni og leiðist.

Hvað var svo það fyrsta sem við gerðum þegar við lentum á íslenskri grundu? Jú hringdum í fólkið sem seldi okkur íbúðina og fengum afhenta lyklana. Þar með var okkar heimilislausa flækingstímabili lokið. Meira seinna....

P.s. Hér má sjá myndirnar hennar Toggu úr ferðinni, þeim hluta sem hún var viðstödd, 17. júní - 4. júlí.

27. júní 2005


Og áfram heldur flakkið! Við erum ekki lengur 12 eins og þegar mest lét heldur hefur okkur fækkað niður í 9 einstaklinga. Byrjuðum á að fleygja Eybs&Pips-senior fyrir borð þann 22. Þau lentu sennilega í San Francisco og nokkrum dögum seinna á Íslandi eftir að hafa gert öllum kínverjum, mexíkóum, pakistönum og írönum í nálægum hverfisbúðunum fyllilega grein fyrir fyrirbærinu POKASJÓÐUR! “…Then we have you know the pokasjóður…!”
Sennilega ”had to be there moment”.

Næst til að vera fórnað var Tobba, also known as the örverp. Hún flaug til Íslands með viðkomu í hinum og þessum bandarísku borgum sér til ánægju og yndisauka og var komin til Íslands tæpum sólarhring síðar. Geri aðrir betur.

Allavega, skruppum í Sea-World í San Diego á fimmtudaginn og eyddum deginum þar og gistum svo um nóttina á Hilton í Del Mar, sem er nokkrum vegavinnutöfum frá San Diego. Sea-World tók alveg daginn enda hægt að láta höfrunga og háhyrninga hoppa og stökkva á hina ýmsu vegu, sem mann hefði ekki grunað, og var þessi heimsókn hin mesta prýðisskemmtun. Komum aftur heim í Redondo Beach um miðjan dag á föstudeginum og fólk gerði það sem það vildi. Píp fór á Boogie-bretti og skemmti sér á ströndinni meðan svili Píps fór í bókabúð. Það er á svona atriðum sem maður sér aldursmun þeirra félaganna. Undirrituð náði sér bara í stóran skammt af brúnku með dash af bruna úti á svölum á meðan.

Kíktum á sumarhátíð Redondo á laugardaginn og á ströndina á eftir. Í dag (sunnudag) var svo farin pílagrímsferð á Venice Beach, þar sem Jim Morrison og félagar héngu 'i denn, og Santa Monica og svo náttúrulega Beverly Hills og Hollywood! Venice Beach var mikið skemmtileg enda margt um furðulega karaktera. Trítluðum um á verslunargötunni í Santa Monica og skoðuðum okkur um í Beverly Hills en kíktum samt ekki það hátt upp í hæðirnar að við sæjum verulega ríkmannlegar villur en sáum eitthvað samt. Löbbuðum svo eftir Hollywood Boulevard og kíktum á stjörnurnar í götunni (Walk of fame) og líka handarförin og fótaförin sem stjörnurnar sáu ástæðu til að skilja eftir sig í götunni. Sáum svo Hollywood skiltið í nokkrar míkrósekúndur, samt ekki það lengi að maður næði almennilegri mynd af því.
Og svo Barbeque um kvöldið…

Ætlum í Disney-land á morgun og á þriðjudaginn höldum við svo af stað upp í fjöllin og er ferðinni heitið að Yosemite-þjóðgarðinum og að Lake Tahoe. Komum sennilega líka við í Mono Lake og Fresno. Ekkert víst að maður nái að blogga mikið á næstunni en engu að síður, meira blaður síðar þó seint verði!

22. júní 2005


Jæja, erum enn í LA á Hotel Toggu og ásamt því að vera búin að drekka í okkur sólina og reyna hvað mest við megum að hraða öldrun húðarinnar og ná okkur í sólsting (ekki tekist enn) - erum við búin að fara í dýragarð í 30 stiga hita - í skugga notabene! Hitinn þar var það mikill að flestum dýrunum hafði sennilega verið gefið frí, allavega voru flest búrin tóm eða þá að í sumum búrunum sá maður glitta í eitthvað slytti sem kallast má/mátti dýr í einu horninu. Í dag fórum við svo í Vísindasafn (já, kennarar með í för) og á ströndina það sem eftir lifði dags.

Píp má aldrei leiðast eins og flestir vita og þetta er meðal annars það sem hann fann upp á að gera sjálfum sér og öðrum til skemmtunnar. Einnig má sjá systur hans hana Toggu taka fagnaðardans yfir komu fjölskyldunnar í þessu myndbroti. Æskilegt er að hafa öfluga tengingu til að sjá þetta og ekki væri verra að kveikja á hljóðinu.
Erum svo að sjálfsögðu, eins og lög gera ráð fyrir, búin að ofbjóða maganum, bragðkirtlunum og fleiri hagsmunaaðilum með gegndarlausu áti þannig að það er eins gott að við ætlum að versla á morgun, annars þyrfti maður að kaupa verulega stór föt til að passa utan um verulega stóra hamborgararassa. Best að kaupa núna og keppa svo að því þegar maður kemur heim að passa í fötin...

To be continued...

20. júní 2005


Halló hola hellllloooo! Jæja, nú erum við búin að vera í henni Americu í 6 daga og það er búið að vera heldur betur fjör! Eða eins og við segjum fönn fönn fönn fönn íslensk fönn! Lentum í San Francisco ca. 7 tímum á eftir áætlun. Áttum að fljúga kl. 16.45 en hófum okkur á loft kl. 23.15 sirkabát-umþaðbil. Lentum þá í SF um 1-leytið (að nóttu til) að staðartíma og vorum komin á sérdeilis prýðilegt mótel/hótel/bótelorwhatever klukkutíma seinna eftir að hafa sagt satt og rétt til um blóðlit, ofbeldishneigð og fleira á vandlega útfylltu spjaldi þar til gerðu samkvæmt einhverri skrambans ólátabelgjalöggjöf. Að vísu vorum við einni kerru fátækari enda var hún sennilega grunuð um drykkjulæti og óskapnað sem og ofstopa eins og kerrur eiga til, en við allavega lögðumst til hvílu með það sama en vöknuðum engu að síður um 7-leytið enda búin að ná okkur í nokkrar hænur um borð í FI-671!
Trítluðum niður á Fisherman´s Warf, sem er bryggjusvæði með meiru þar sem undirrituð átti reyndar von á að sjá eitthvað meira en túristabúðir og túristaveitingastaði en því skyldi maður kvarta þegar maður er í ca 62 stiga hita á farenheit sem mundi reyndar bara útleggjast á 17 íslenskar gráður en hver fer svo sem eftir því þegar maður er í útlöndum!!!? Þá látum við þessar útlensku ráða! And hana nowww!

Dagurinn fór í trítl og borðuðum svo á Litle Joe´s sem er svona týpískur mafíósafjölskylduítalskur veitingastaður. Farið í háttinn snemma og dagurinn tekinn snemma til að labba yfir holt og hæðir og skoða borgina. Löbbuðum sennilega í kínverska hverfið og fleira án þess að gera okkur grein fyrir því vegna þess að við vorum ennþá að tala um þverhnípin sem við höfðum gengið niður rétt áðan! Náðum okkur svo í bílana okkar sem fluttu okkur níu manneskjurnar niður eftir ströndinni í gegnum Santa Cruz og niður til Monterey þar sem við gistum á Cypress Tree Inn nema Tóta og fjölskylda sem völdu frekar Bed Bugs Inn! Og klóruðu sér svo það sem eftir var dags.

Fórum svo og skoðuðum sædýrasafnið í Monterey, einnig þekkt sem Monterey Bay Aquarium þar sem hin ýmsustu slím- og skriðkvikindi léku lausum hala okkur mannfólkinu til skemmtunar. Brunuðum svo sem leið lá niður að Big Sur sem okkur fannst ekki alveg jafnast á við Hvalfjörðinn en komast þó nokkuð nálægt sunnanverðum vestfjörðunum! Að öllu bulli slepptu var þetta ofsalega falleg leið þó sólin hefði verið frekar upptekin við að undirbúa að ráðast á Íslendinga með 17. júní brjálæði með það í huga að láta þá falla hvern um annan þveran af undrun yfir því að yfirleitt skuli sjást til sólar... (skáti fallinn... lögreglumaður fallinn... gamalmenni fallið...(segir mikið um íslenska lögregluþjónustu))... En lögðumst svo til hvílu ekki svo fjarri Hearst Castle eftir að hafa verið meinuð gisting í kastalanum á þeim forsendum að við værum ekki nógu Stinkin' Rich þannig að við fórum niður að San Simeon og fundum okkar einhverja þá Bestu Vestrænu gistingu sem um getur.
Réttara sagt var það þannig að við ákváðum að fara í Hears Castle í bítið morguninn eftir og bruna til Santa Barbara í framhaldinu til að hitta hin T-in í fjölskylduna, það er að segja Toggu og Tobbu (Tóta var jú að ferðast með okkur hinum þannig að nú skyldu T-in sameinuð, það er að segja Tóta, Togga, Tobba og Tarzan eins og við köllum Pípið stundum! Hearst Castle stóðst okkar væntingar að nánast öllu leyti og við gætum jafnvel hugsað okkur að eiga það sem óðalssetur fjölskyldunnar þegar fram í sækir, það er að segja þegar fólk hættir að skoða Hearst Castle og fer að skoða Neverland Mikka Jacksons í staðinn... jú þá skulum við taka Kastalann að okkur!

Jæja, brunuðum eins og fjandinn væri á eftir okkur niður til Santa Barbara í gegnum vínekrur og huggulegheit til að hitta týndu sauðina og þar urðu fagnaðarfundir enda langt síðan hinir sauðirnir höfðu hitt aðra eins sauði! Chilluðum á ströndinni í Santa Barbara og borðuðum nesti áður en haldið var rakleiðis til LA; Los Angeles; City of Angels! Og hvað er meira við hæfi á 17. júní en að lenda á alíslensku heimili með Þingvelli á öðrum veggnum og Vestmannaeyjar á hinum og íslenska fána útum allt. Ja ekki neitt held ég. Þvílíkar höfðingjamóttökur sem við fengum og höfum sjaldnast séð. Vorum og erum enn meðhöndluð sem kóngafólk og nánast stappaður ofan í okkur maturinn. Keyrðum um hluta LA í gær og skoðuðum alls konar ríkra manna hverfi og í dag var það ströndin og almenn slökun. Að sjálfsögðu þurfti Píp að prófa að setja sig í spor Sánkti Pamelu Anderson og hins björgunarfólksins og spranga um ströndina tilbúinn til að bjarga samborgurunum....

To be continued...

10. júní 2005


Nú eru Álafossbændur alveg að tapa sér og endanlega gengnir af heygöfflum. Þeir (Píp and I) hafa tekið þá ákvörðun að afsala sér titlinum næstkomandi mánudag, það er að segja við ætlum að afhenda íbúðina okkar á mánudaginn áður en við förum í flugið til USA því þegar við komum heim verður það um það bil okkar fyrsta verk að fá afhenta lyklana að nýju höllinni okkar. Við sjáum því enga ástæðu til að hafa íbúðina tóma í mánuð og láta einhvern hlú að henni þennan mánuð þegar okkar fyrsta verk yrði hvort sem er að sópa öllu út og afhenda kaupandanum lyklana. Því þá ekki að sópa út núna og koma svo bara heim í júlí og hreiðra um sig strax í nýju íbúðinni??? Já maður spyr sig ekki lengur heldur framkvæmir bara!

Þannig að nú er hasar á hóli og bílskúrar og geymslur hér og þar nýttar til hins ýtrasta til að koma búslóðinni fyrir... Sunnudagurinn næstkomandi fer sem sagt í það að tæma og þrífa nema kannski tekur maður sér smá pásu og tekur þátt í Álafosshlaupinu, eða eel-fall-jelly eins og það kallast á málinu sem maður á eftir að notast við með vonandi glæstum árangri næsta mánuðinn.

Held ég eigi ekki eftir að tjá mig neitt að ráði fram að ferð sökum anna, þannig að við hjá hvarsemer óskum okkur sjálfum og hinum lesendunum góðrar ferðar (held nebbla að 80% lesenda hvarsemer verði einmitt samfó í USA-trippinu). Læt samt vonandi eitthvað í mér heyra fyrir hin 20% meðan á ferð stendur og leyfi ykkur að fylgjast með ævintýrum í landi óttans.
Jú takk fyrir - yfir og út!

31. maí 2005


Ef einhver hélt að Íslendingar væru friðsæl þjóð og laus við öll hernaðarafskipti þá er það hinn mesti misskilningur.
"Við Íslendingar" héldum nefnilega upp á Memorial Day í gær og svo er eitthvað um að fólk liggi flatt á sjúkrahúsum með hermannaveiki!
Svo hefur náttúrulega ríkt verðstríð í búðunum undanfarið... Sennilega að verða 100 daga stríð.
Hlutleysi hvað?



Keyrði nýjasta autobahnann í bænum í dag. Sérdeilis skemmtileg upplifun það. Að keyra allt í einu þvert yfir svæði sem maður hefur varla svo mikið sem labbað á áður, í og með af þeirri ástæðu að það þótti víst verra að styggja fuglana sem eiga heima þarna á svæðinu. En hey, það var á síðustu öld (sooooo last century); malbikum bara yfir þá og gerum göng undir veginn fyrir eftirlifendurna(r). Brilliant lausn! Langaði svo óneitanlega að halda nýbreytninni bara áfram og skvera beint yfir Klambratún en lét það vera. Af virðingu við blómabörnin í beðunum. Þau eru sennilega friðuð ennþá.

Búin að pakka í 9 kassa. Skohh allt að gerast!

29. maí 2005


Bakkus hefur tekið völdin á heimili mínu! Fór í ÁTVR í gær og fékk þar kassa til að maður geti nú farið að pakka sér og sínu ofan í kassa vegna yfirvofandi flutninga. Íbúðin er því full af mis óforskömmuðum áfengiskössum sem þýðir það að ég ætla ekkert mjög mikið að fá ung börn í heimsókn á næstunni þar sem ég vil vernda þeirra litlu augu frá bölinu og vil síður bera ábyrgð á því að þau falli í glötun áfengisólifnaðar (Litli píp er sterkur!!). Einn kassinn er meira að segja það ósvífinn að á honum stendur stórum stöfum BAKKUS en hinir eru nú flestir ekki nema 10-12%, Carlo Rossi (from the vineyards of California), Santa Christina (2003) og eitthvað í þá áttina.
Þannig að nú er allt að gerast á heimilinu. Eftir 2 vikur, ath. 15 daga, verðum við á leið til Kaliforníu og á þessum tíma þangað til ætlum við að vera búin að pakka sem mestu þannig að þegar við komum heim 12. júlí ættum við að geta unnið að sólarhringsafréttingum óáreitt þar til hinn 14. júlí þegar við munum fá íbúðina okkar afhenta og hefjum flutninga af fullum krafti. Eruð þið ekki öll búin að gera upp við ykkur hvernig við eigum að hafa eldhúsið á litinn? Hugmyndir vel þegnar...

---

Einhvern veginn hélt maður að ungmenni á Austurlandi væru aðallega með hugann við það að búa til CV og fylla út umsóknareyðublöð um vinnu í alumenium-faktorí eða við stíflugerð þessa dagana. En aldeilis sei sei nei! Heyrði í hinni frábæru hljómsveit VAX frá Egilsstöðum um daginn og þvílíkt fjör! Þeir eru greinilega ekki alveg á neinum bölsýnisbuxunum og eru meira að segja það hressir að þeir hljóta eiginlega að vera utanbæjar. Upprunalega vestfirðingar ábyggilega. Þetta er alveg hressandi lag!

19. maí 2005


Jesössss! Ég á DOLCE & GABBANA kjól....! Og ætla að vera í honum í brullaupi á laugardaginn! Brúðurin sú er eflaust hamingjusömust í heimi núna, ekki þó yfir þeim heiðri að fá að ganga í heilagt hjónaband með náfrænda mínum, sem er jú mikill heiðursmaður eins og öll sú ætt meira og minna - heldur vofir ekki sú hætta yfir lengur að hún gifti sig í skugga júróvisjon eins og allt stefndi í og henni leist ekkert á! Merkilegt með þetta júródót annars, eftir síðustu keppni lýsti ég því yfir af minni einskæru bjartsýni að við kæmumst aldrei framar í úrslit júróvisjonsongkontest því þegar við dettum einu sinni niðrí þetta undanúrslitadæmi komumst við aldrei upp úr því, þökk sé Austur-Evrópu-bestuviniríheimi-þjóðunum. Og hvað gerðist?!?!
Þær ættu bara að halda sér síns eigins keppni held ég, þær eru nefnilega farnar að slaga hátt í þriðja tuginn eða ekkva álíka, gott ef ekki þriðja hundraðið. Jæja, hvenær skyldu næstu smáþjóðaleikar vera...?

Hip hip...

Mér telst til að eftir 16 vinnudaga verði ég komin í sumarfrí og á þar af leiðandi aðeins eftir að bruna 32 sinnum í viðbót á milli Mos - Rvk á öðru hundraðinu til að komast í eða úr vinnu og passa upp á að sækja Litla Píp ekki of seint og svoleiðis hasar. Eftir sumarfrí get ég svo sótt hann fimm mínútur yfir fimm en ekki tuttugu og fimm mínútur yfir fimm! Mann munar svo sannarlega um þessar mínútur skal ég ykkur segja. Ég verð hrifnari og hrifnari af þessum búferla flutningum okkar með hverjum deginum....
Jæja Frú Steinunn Valdís, vinsamlegast komdu nú honum Litla Píp fljótt og örugglega inn á fyrirtaks leikskóla í henni Reykjavík. Með fyrirfram geggjaðri stuðkveðju og þökk, kiss kiss!

17. maí 2005

Þá er það orðið opinbert. Rvk - Sund verður næsta heimili family Píp. Nánar tiltekið Efstasund! Og það númer 93. Hröpum í frjálsu falli úr póstnúmeri 270 niður í 104. Sem er bara fínt hrap. Förum í kaupsamning í næstu viku og fáum svo afhent 14. júlí þannig að nú getur maður farið að einbeita sér að öðrum hlutum, svo sem eins og Kaliforníu-reisunni miklu. Munur að vita það að fjölskyldan kemur til með að eiga heimili þegar heim verður komið...
Nú þarf bara að tala litla píp inn á að nýji leikskólinn (hver svo sem hann verður) sé alveg jafn frábær og Reykjakot og nýja herbergið hans sé alveg geggjað. Þarf svo sem ekki mikið að sannfæra hann um það síðara. Svo getur maður farið að velta fyrir sér fyrir alvöru litavali og húsgagnauppröðun og fleira spennandi.

Þrátt fyrir fáar áskoranir ætla ég að láta fylgja með mynd af hinu forkunnarfagra eldhúsi sem í íbúðinni er... Munið - málning gerir kraftaverk!

13. maí 2005


Já maður ætti kannski að tjá sig aðeins hérna og láta æsispenntan lýðinn vita hvernig staðan er á íbúðamálum. Fórum á opin hús og svona á sunnudaginn og kíktum á hinar og þessar holur og þar á meðal eina risíbúð við Efstasund, sem við höfðum séð oft á netinu en ekki dottið í hug að fara að skoða af því að myndirnar voru svo, hvernig á ég að orða það... afkáralega fáránlegar.

En við rúlluðum þarna við bara að ganni á sunnudaginn (stutt frá ísbúðinni nefnilega) og leist svona bara aldeilis prýðilega á hana. Hún er greinilega ein af þeim íbúðum sem myndast bara ekki vel!
Eldhúsið er að vísu örlítið geislavirkt, veggir og loft eru svona gul og skápahurðirnar rauðar. Baðherbergið er með frjálsri aðferð líka en þetta býður þá bara allt upp á að maður láti hendur standa fram úr ermum og breyti öllu saman eftir eigin höfði. Hún er að vísu bara 3 herbergja, en við ættum að geta verið þarna í svona 3-5 ár og svo vonandi selt hana fína og uppgerða án þess að tapa á henni allavega… Fórum sem sagt á mánudeginum og gerðum tilboð og fengum gagntilboð og niðurstaðan er sú að við fáum hana á 17 millur þannig að nú er maður bara í öllu lána og greiðslumatsferlinu og vonar bara að allt gangi upp. Mundum fá hana afhenta 14. júlí þannig að við verðum ekki heimilislaus ef guð og bankarnir lofa. Á þriðjudaginn ræðst hvort hún verður okkar eða eigi þar sem þá lætur bankinn okkur vita hvort við erum honum þóknanleg.

Sem betur fer eru gaurarnir á fasteignasölunni búnir að taka íbúðina af netinu þannig að þið getið ekki grátið af hlátri yfir litagleði og fegurð eldhússins.

Tilkynningaskyldu fullnægt!
Takk fyrir.

6. maí 2005


Tók einhver upp Little Britain á miðvikudaginn??? Fyrir einskæra heimsku tókst mér að "gleyma" þættinum. Minnið er þannig núna að ég man ekki einu sinni hvað ég var að gera sem varð til þess að ég gleymdi þættinum. Kominn tími á að skipta um kubb held ég. Spurning hvað hin gullfallega Vicky Pollard sem sjá má hér að neðan hafi gert af sér í þessum þætti...


"Yea but no but yea but no but yea but no but yea but no but...."

Það hefur eflaust verið einhver snilld!

---

Þessi fimmtudagsfrí eru bara dásamleg! Ef það á að færa þau á mánudaga eða föstudaga til að lengja helgarnar frekar, eins og verið er að ræða um, missir maður alveg af þessum mánudagsföstudögum! Það er nefnilega undursamlegt að mæta í vinnuna í týpísku mánudagsþunglyndi en uppgötva sér til einlægrar og barnslegrar gleði að það er faktiskt föstudagur! Maður getur sagt við sjálfan sig "það er mánudagur... :( - nei það er föstudagur... :)" allan liðlangann daginn og haft gaman af. Simple pleasure for simple minds eins og afi sagði.

---

Íbúðaleitin gengur ekkert sérstaklega vel, erum búin að skoða allskonar íbúðir en engin sem tekur á móti okkur með nöfnunum okkar á dyramottunni eins og maður segir... sem sagt engin sem er að grípa okkur - nema hugsanlega og ef til vill ein sem við ætlum að skoða síðar í dag og er staðsett í Kópavoginum. Það er gott að búa í Kópavogi segir Gunnarinn með dverginn í hálsinum og því hlýtur maður að geta treyst. Tala nú ekki um hinn Gunnarinn með Krossinn á bakinu - hann valdi sér Kópavog sem miðdepil útbreiðslustarfsemi fagnaðarerindisins ehf. Maður þarf þá ekki að hafa áhyggjur af því að það valhoppi latexklæddir hommar framhjá glugganum manns í tíma og ótíma, hann er nottla búinn að afhomma bæinn eins og hann leggur sig. Kann samt ekki alveg við bæjarfélög sem eru ekki með neinn miðbæ! En það er ekki eins og Mosó sé heldur með neinn miðbæ þannig lagað. Læt ykkur vita kæru velunnarar til sjávar og sveita hvernig leitin gengur....

25. apríl 2005


Það er ekki seinna vænna að segja frá því hér að íbúðin okkar sé á sölu. Við erum nebbla búin að selja....

22. apríl 2005


Ræð mér vart fyrir kæti! Inn um bréfalúguna í gær datt kynningarrit í dagblaðsformi sem kallaðist: FRÉTTApíp! Hreinlega frábært nafn á blaði! Þvílík snilld! Ég hefði getað fundið það upp! Þetta mun vera kynningarblað pípulagningasýningar sem haldin er þessa helgina og um leið blað Norðurlandamóts í pípulögnum!! Held ég að það sé framtakssemi í píp-samfélaginu um þessar mundir. Hvar skyldi maður fá miða??? Þið sem eigið ekki heimangengt þessa helgina getið smellt hér (sjóndaprir geta smellt hér) og fylgst með dýrðinni. Þá er sko engin afsökun fyrir að missa af öllu saman. Jibbíjei...
Píp og Perla fara semsagt á píp-show í Perlunni um helgina. Alveg á hreinu!

15. apríl 2005


Bakaði upp á míns einsdæmis súkkulaði-souffle um síðustu helgi sem fékk mannskapinn til að steinþegja í korter og ekkert heyrðist nema einstaka stuna og dæs. Frámunalega ljúffengt og gómsætt.
Eftir svoleiðs át er ekkert annað að gera en að tjútta af sér rassinn sem var og gert á 22, við ræflarokk í hæsta gæðaflokki. Þar labbaði ég beint í flasið á þessum! Kannaðist eitthvað við þetta ófríða smetti og eftir 2 sekúndna umhugsum uppgötvaði ég að hann heitir Ron Perlman og ku vera staddur á landinu til að leika í einhverri hryllingsmynd. Man ekki eftir að hafa séð neina af hans myndum en hann leikur sennilega mestmegnis vonda kalla eða hryllingsmyndakaraktera - hann er einhvernvegin þannig, svona rétt eins og sumir eru fæddir til að leika í Star Trek án þess að þurfa nokkurrar förðunar við. Var næstum því búin að segja við hann: "You Perlman - Me Perlwoman...!" ...en sleppti því. Hefði kannski gert það hefði hann búið yfir örlitlum fríðleika.

11. apríl 2005


Þarna kemur skýringin á þreytunni í manni alltaf hreint! Vá hvað mér líður betur núna að vita hvað veldur.

7. apríl 2005


Kæra dagbók.

Fyrirgefðu hvað ég er löt að skrifa þessa dagana en jú svona getur maður orðið latur annað slagið. Allt gott að frétta þó að veturinn hafa lufsast í heimsókn aftur. Ég sem var búin að segja honum að snáfa og láta ekki sjá sig aftur í bráð. Föstudagurinn síðasti var hressandi vinnulega séð þar sem kvenmaður bættist við starfsliðið, hafandi fjölgað mannkyninu um einn og sæmilega búin að koma fóstrinu til barns. Hlutföll kynjana á vinnustaðnum aðeins að jafnast. Vídeókvöld heima um kvöldið og þar sem húsbóndinn var slasaður og algjörlega varnarlaus fór ég út á vídeóleigu og tók mynd sem mig langaði að sjá. Before sunset varð fyrir valinu sem gerði mann álíka ástsjúkan og snilldarforverinn Before sunrise! Höfðum áður misst okkur fyrir framan imbann horfandi á frámunalega hressandi og gamaldags hallæris söngþátt í umsjá Hemma Gunn! Af öllum! Villi naglbítur hefði að sjálfsögðu átt að sjá um þann þátt til að hann hefði orðið jafn sýrður og hann hefur alla burði til að verða, en það er svosem önnur saga.
Brönsj í Kringlunni á laugardaginn og matarklúbbur um kvöldið þar sem eftir-eftirrétturinn var Hjálma-tónleikar á Nasa þar sem svitinn lak af veggjunum og maður gat vart hreyft litlaputta fyrir mannmergðinni. Yngstu kynslóðinni var svo gert til hæfis á sunnudeginum og litla familían skellti sér í bíó á Vémennin. Er svo búin að vinna fyrir heimilinu þessa vikuna meðan Píp sinnir tilfallandi léttum heimilisstörfum og sér um börn og buru og gefur kettinum endrum og eins höfuðbeina- og spjaldhryggsnudd þannig að þessa vikuna hefur heimilið rekist sem aldrei fyrr. Mæli eindregið með svona sixtís-þema í heimilishaldi, annar aðilinn heima og þrífur og eldar og stjanar svo við vinnandi makann! Hiphip húrra!

Jæja kæra dagbók, lofa að skrifa fljótt aftur.
Þangað til næst... hejdå!

1. apríl 2005


Hinn sögufrægi og margumtalaði Píp sá ástæðu til þess í gær að rista sig á hné! Það skal tekið fram að atvikið átti sér stað í gær en ekki í dag 1. apríl. Þannig að þetta er ekkert gabb, eins og þeir sem þekkja til Píps eru kannski ekkert hissa á - það er jú þannig að á hverju ári koma jól, páskar, skattaframtal og Píp fer á slysó! Fastir liðir. Það væri hægt að skrifa langa sögu um um það sem hefur á skrokk Píps drifið og satt best að segja væri hægt að skrifa Hrakfalla-bálk um hrakfallabálkinn. Hann skar á sig u.þ.b. 5 cm skurð með slípurokki og fékk saumuð í nokkur spor og situr nú heima með beina löpp og teiknar landslagsmyndir á sárabindin og getur ekki unnið sér til hnífs og skeiðar næstu vikuna.

Eiður og Ólöf eignuðust dóttur í nótt... Það var svosem eftir bullaranum sjálfum sem bullar bara daginn út og inn þannig að enginn tekur mark á honum - að eignast barn 1. apríl. Trúi því þegar ég sé það (hana)!

31. mars 2005


Mig vantar sárlega eina svona!


Svo Píp geti hlaupið á eftir kvikindinu um alla íbúð meðan ég svo mikið sem rumska ekki... :/

30. mars 2005


Og jú hún Sigríður Ragna er töttöguogfemm ára í dag. Geri aðrir betur og kærlega til hamingju með það, frú Sigríður!

Það verður fátt um fjálglegar yfirlýsingar og stóryrði á næstu dögum á síðum hvarsemer þar sem skriffærið (DELL-an mín) á við sjúkdóm að stríða. Hún hefur verið greind með fuglaflensu á háu stigi. Batahorfur eru óljósar og viljum við biðja alla um að krossa fingur og vona það besta. Hef lítinn sem engan tíma til að pára í vinnunni þannig að þið verðið að afsaka hléið ef eitthvað verður.



Opinbera skýringin á þögn minni er að sjálfsögðu sú að ég sé að skrifa bók!

23. mars 2005


Jæja, þá nálgast páskafríið óðfluga sem þýðir að við hjá hvarsemer skundum í bústað til hans Björns bónda í Úthlíð. Eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði og fara með allri familíunni í bústað. Sé ég tár á hvarmi? Ó seiseinei. Að öllum líkindum verður lítið blaðrað hér á meðan þannig að ég legg allt mitt traust á að allir hafi það gott um páskana! Og munið nú um hvað páskarnir snúast mestmegnis, sama hvað hver segir:



Súkkulaðireglur

I. Ef þú ert með bráðnað súkkulaði á öllum fingrum þá ertu að borða það of hægt.

II. Súkkulaðihúðaðar rúsínur, jarðarber og kirsuber telst allt til ávaxta þannig að þú getur borðað eins mikið af því og þú vilt.

III. Þegar þú kaupir þér súkkulaði í verslun í góðu verðri getur það mögulega bráðnað meðan keyrt er. Þú verður að borða það á bílastæðinu.

IV. Borðaðu súkkulaði fyrir hverja máltíð. Þannig minnkar matarlystin og þú borðar minna.

V. Meðalstór skammtur af súkkulaði sér þér fyrir kaloríuskammti fyrir allan daginn. En sniðugt!

VI. Ef þú getur ekki borðað allt súkkulaðið sem þú átt þá geymist það vel í frystinum. En hvað er eiginlega að þér þegar þú getur ekki borðað allt súkkulaðið sem þú átt?

VII. Ef þú ert smeyk/ur við kaloríurnar settu þá súkkulaðið ofan á ísskápinn. Kaloríur eru lofthræddar og hoppa úr súkkulaðinu til að forða sér.

VIII. Ef þú borðar jafn mikið af hvítu súkkulaði og dökku súkkulaði þá jafnast það út og þú fitnar ekki neitt.

IX. Það er mikið af rotvarnarefni í súkkulaði en rotvarnarefni láta þig líta unglega út.

X. Af hverju eru ekki til nein samtök fyrir fólk sem vill hætta að borða súkkulaði? Tja, það vill enginn hætta!

XI. Ef súkkulaði væri ekki til þá væru ekki til neinar aðhaldssokkabuxur. Við getum ekki hætt að borða súkkulaði því þá eyðileggjum við heilan fataiðnað.

XII. Settu “Borða súkkulaði” efst á listann yfir hluti sem þú þarft að gera yfir daginn. Þannig kemur þú altént einum hlut í verk.

22. mars 2005


Lóan er komin og það viku fyrr en í fyrra. Eitthvað tjáði ég mig nefnilega um það þann 29. mars 2004 að Lóan væri komin. Hef ekki séð hana ennþá samt en treysti fullkomlega nærsýnum úfnum köllum með hýjung og í köflóttri skyrtu með kíki sem segja að Lóan sé komin. Þeir gera jú lítið annað en að litast um eftir Lóum, Fálkum og Geirfuglum. Þá hafa báðir vorboðarnir gert vart við sig: ég búin að lýsa á mér hárið og Lóan komin. Boðar gott sumar!

17. mars 2005


Er að hugsa að skipta út léttmjólk fyrir undanrennu í heimilisinnkaupunum! Alveg viss um að þessar einkar upplífgandi umbúðir í ísskápnum manns hafi svipuð áhrif og prósak í lyfjaskápnum manns...
Ef ég væri ekki á leiðinni í velmegunar-legusárahvetjandi-sundfitamyndandi-átraskandi-bústað um páskana norðaustur í Úthlíð mundi ég svei mér þá skella mér með mína fjölskyldu og mitt hafurtask norðvestur, næstum hánorður á Ísafjörð á þessa sérdeilis hressandi rokkhátíð sótsvarts almúgans!



Maður hefði til dæmis getað heimtað gistingu hjá Árnýju, Súna og Jóni Darra litla spökk að því gefnu að hún léti það vera að skella hurðinni á nefið á okkur eins og síðast þegar við birtumst, reyndar öllum að óvörum. Þá þótti henni nefnilega rökrétt að álykta sem svo að við værum jú svo mikið sem Vottar Jehóva! Segir nokkuð um það hvernig er að búa úti á landi; ef þú bankar eða hringir bjöllu ertu Votti Jehóva eða þásjaldanþaðgerist utanbæjarmaður, en ef þú veður bara inn á skítugum skónum án þess að gera grein fyrir þér áður á nokkurn hátt ertu sannkallaður heimamaður og margfaldlega velkominn! Látum hana baaaaara bíða aðeins eftir þeim heiðri að fá okkur í heimsókn aftur... og þá skulum við passa okkur á því að vaða bara inn! Hjálmar skemmta þá í slorinu og Árný ruggar sér í reggíinu meðan við Píp-fjölskyldan látum fara vel um okkur í Píp-bústaðnum!

16. mars 2005


Það er ekki að spyrja að greindarfari þessarar ágætu fjölskyldu...

14. mars 2005


Ætlar þessi sápuópera engan endi að taka???
Það besta er að fréttamönnunum stekkur aldrei bros þegar þeir flytja graffyndnar og drepalvarlegar fréttir af málinu. Ef þetta væri heimsins mesta eymd væri heimurinn ljúfur staður!

Hins vegar er þessari sápuóp... eemmm.. sápukarókí lokið og það farsællega! Finnst mér allavega... En hvað á maður nú að gera á föstudagskvöldum? Bingó í Vinabæ...!?!?! Eða skrá sig á fluguhnýtinga- og/eða bútasaumsnámskeið.

Hmmmm.... eða fjárfesta í playstation 2 + sing star á fermingartilboði = konungleg skemmtun, hvenær sem er, hvar sem er!

Talandi um hvarsemer, trítlaði mér upp í Kauphöll í dag (18 tröppur) og skráði hvarsemer til leiks. Hvarsemer skal hér eftir nefnast hvarsemer Group ehf. (HSE Group) og annast félagið margvísleg tilfallandi ritstörf á netinu, þar sem leitast verður við að tryggja fagleg vinnubrögð í hvívetna, ná stjórn á meinsemd sem hefur sótt að hvarsemer og kallast innihaldslaust bull, draga úr misbeitingu íslenskrar tungu sem og að fækka stafsetningarvillum svo eftir verði tekið, auk reglulegrar uppfærslu og viðhalds dótturfélagsins (sonarfélagsins) olibjarki.tk Group. Við sama tilefni var nýtt og betrumbætt "logo" hvarsemer kynnt og mun það líta svona út:



Megi þetta verða gæfuspor hið mesta og fyrirbyggir vonandi ritstíflu og hugmyndaskort auk þess sem þetta veitir aukið tilfinningalegt svigrúm á þessum ört harðnandi markaði sem vef-röfl-heimurinn er orðinn og gerir hvarsemer samkeppnishæfari hvarsemer á litið.

Jæja farin að sofa.......

7. mars 2005


Dvaldist í paradís um helgina. Er að hugsa um að fytja lögheimilið mitt þangað. Jafnvel biðja um pólitískt hæli og fá útbúið vegabréf og hugsanlega fá sendinefnd til að aðstoða mig við þetta.

Á þeim forsendum að ég sé margfaldur Trivial Pursuit-vinningshafi....

Talandi um spil, skíttapaði ásamt mínum ektamaka fyrir öðrum pörum í Mr. & Mrs. Held það sé bara góðs viti, er það ekki annars? Er það ekki alveg eðlilegt og jákvætt að vita ekkert of mikið um salernissiði makans eða hvaða líkamshluti frægrar manneskju höfðar til makans.
Skiptir engu, ef þetta þýðir að sambandið sé dauðadæmt erum við jú á leið til USA og þar er alltaf hægt að finna eliddsjibúl baddsjelor og giftast honum í bílalúgu.

4. mars 2005


Hið háæruverðuga Suzuki-drasl hans Píps er úr sögunni!

yyyyYEEEEESSSSSSSSS!

Hér má sjá hvernig það atvikaðist:




Endilega smellið á myndina fyrir stærra eintak af þessari tjónaskýrslusnilld.

3. mars 2005


Halló, er alveg sprellalive þó ekki hafi verið mikið um að vera hér í nokkra daga. Vegna mikilla anna í höfuðstöðvum hvarsemer hefur ekki alveg gefist tími til að tjá sig enda ársuppgjör hvarsemer í vinnslu og fyrstu tölur sýna að gríðarlegt tap er á rekstrinum, hið minnsta 3,5 tonn. Enginn kaupauki í ár.

Samkvæmt Þorgerði Pípsystur eru Velvet Revolver á leið til Íslands! Ekki er það nú enn farið að spyrjast út á klakanum enda virðist fólk aðallega vera í því að missa sig yfir þeim sögusögnum að Iron Maiden, AC/DC og Black Sabath og álíka leðurblökupoppsveitir frá áttunda og níunda áratugnum séu að hópast til landsins. Held að Iron Maiden sé eina staðfesta samt. Jibbí.... eða eitthvað.
Söngvarinn í Iron Maiden hann Bruce Dickinson er í dag orðinn settlegur þotuflugmaður og hann ku einmitt ætla að fljúga með æsta aðdáendur á fimmtugsaldri yfir hafið og á tónleikana í Reykjavík. Alveg hissa á að Iceland Express sé ekki farið að bjóða ginkeyptum Íslendingum upp á "hringpakkaferð", þ.e.a.s. að láta fólk fljúga með Iceland Express á Stanstead og hanga þar í nokkra tíma til að geta svo flogið með Bruce sjálfum heim (að sjálfsögðu er innifalin eiginhandaráritun frá Brúsa og skoðunarferð í flugstjórnunarklefann) og svo beint á tónleikana. Það má selja Íslendingum allt...

Já við vorum að tala um Velvet Revolver á Íslandi... Tékkaði á síðunni þeirra og engin er enn dagsetningin komin þar á fyrirhugaða Íslandstónleika en fróðlegt verður að sjá hvað verður. Það var þá kominn tími til að Slash kíkti á landann og tæki nokkur sóló og sýndi af sér kæti. Skemmtileg staðreynd um Slash: Hann á konu sem heitir Perla! Já þeir píp eiga greinilega fleira sameiginlegt en bara hárgreiðsluna og gítarkunnáttuna.

22. febrúar 2005


Loksins virðist þessi þoka vera á undanhaldi. Óþolandi fyrirbæri alveg að sjá ekki til fjalla eða himins sérstaklega þegar maður býr í rúmlega 50 fermetrum og veitir ekkert af því að hafa vítt til veggja og hátt til lofts utandyra í það minnsta. Manni hefur liðið eins og maður sé fastur í Zorb-kúlu síðustu 3 daga, hafandi þetta skyggni upp á 4 metra +/- 3 metra.

Þá er það orðið opinbert að við skötuhjúin ásamt Litla Píp og þeim hluta Píp-fjölskyldunnar sem hefur aðsetur hér á landi ætlum að bregða undir okkur betri fótunum og skella okkur til LA að heimsækja Toggu Pípsystur og skoða okkur um í Kaliforníu!!!! Hef ekki viljað tjá mig um þetta á alnetinu fyrr en hægt væri að slá þessu nokkuð föstu, til að tala bara ekki tóma vitleysu ef svo ekkert yrði af. Fyrsta skipti á ævinni sem maður hefur haft sumarfríið sitt nánast ákveðið upp úr miðjum janúar.

Sem sagt bókað og klárt: flogið til San Fransisco 13. júní og heim 11. júlí, með þeim fyrirvara að vísu sem Píp hefur sett, að við verðum að öllum líkindum uppgötvuð við götusöng og spil á Sunset Boulevard og sláum í gegn (Píp - gítar og söngur, Litli Píp - bakraddir og hristur, undirrituð - kynningarstarf og auglýsingar) kyrjandi einhvern af fjölmörgum slögurum Píps (sjá færslu dags. 20. nóvember sl.).
Þá værum við aldeilis ekki á leið heim í bráð þar sem við, ég sjálf og litli Píp (eftir því sem undirritaða grunar frekar) þyrftum að vinna við uppvask og margvísleg þrif á kreólskum veitingastað í LA til að vinna inn aura fyrir tryggingunni til að fá Píp lausan úr klefa 8 eftir að hann hefur verið fundinn sekur um óspektir á almannafæri og fyrir að eiga upptökin að því að misbjóða viðkvæmum eyrum vegfarenda sem seint munu bíða þess bætur og koma til með að leggja fram kröfur um miskabætur í mörgum liðum. Við Litli Píp sleppum á skilorði og megum ekki yfirgefa fylkið í ár og þar með fer ferill Píp af stað, sérstaklega eftir að hann kemur fram hjá Conan O'Brien og Dr. Phil segjandi sögu sína. Hann kemur fram með ýmsum þekktum tónlistarmönnum, þ.á.m. William Hung sem Píp tekur dúett með á styrktartónleikum fyrir síþreytta ketti. Já Bandaríki Norður-Ameríku - hér komum við!

20. febrúar 2005


Þessum manni mættu Tóta og Hafsteinn við Flúðir um síðustu helgi og ætluðu, eftir því sem mér skilst, að bjóðast til að lina þjáningar hans á einhvern hátt... Ja þá hefði hann sennilega ekki náð að verða heimsfrægur á öllu suð-austanverðu Íslandi. Geri aðrir betur!
Hann hlýtur samt að láta þetta sér að kenningu verða. Ísland + hjólreiðar + febrúar = Tóm tjara.

Hvarsemer varð 1 árs á laugardaginn og var því fagnað með 80 manna teiti í Borgartúninu, að vísu ekki hvarsemer til heiðurs en að sjálfsögðu tók hvarsemer þetta pínulítið til sín og varð klökkt yfir öllu saman. Hamingjuóskir mótteknar hér að neðan:

14. febrúar 2005


Skyldi hitt húsið hafa sloppið?

Óska þessum kumpánum innilega til hamingju með daginn!
Að öðru leyti stendur dagurinn mestmegnis fyrir innflutt sorp!

9. febrúar 2005



(Mynd: Tómas Þorgeir Hafsteinsson)

Hefur einhver rekist á þennan mann?

Síðast þegar til hans sást var hann klæddur í gráan samfesting með hnépúðum og eldingavörn, merktur með nafni og styrktaraðilum í bak og fyrir og með glott á vör. Óttast er að hann komi til með að falla vel í fjöldann í dag þar sem í dag er Öskudagur sem gerir, eins og gefur að skilja, alla eftirgrennslan erfiðari. Á venjulegum degi mundi hann nefnilega skera sig verulega úr. Hann á afmæli í dag en heldur greinilega að hann geti falið sig fyrir elli kerlingu...

Í guðanna bænum látið sjerriffnum STRAX í té allar upplýsingar sem þið kunnið að hafa um ferðir hans jafnvel þó þið hafið engar!

8. febrúar 2005


GLEÐILEGA HÁTÍÐ!


Upp er runninn bjartur og fagur dagur unaðslegs fæðis. Sprengidagur kemst mjög nálægt jólunum í tilhlökkun þar sem saltjöt og baunir eru svo frámunalega ljúffengur matur og dásamlega þungur í maga. Ætla mætti á myndinni fyrir neðan að ég hefði í hyggju að bjóða fólki í mat en eigi er það svo gott heldur fer ég til tengdafjölskyldunnar í mat sem kemur sér jú ágætlega þar sem sú fjölskylda er meira og minna í átaki eða búsett erlendis eða á leiðinni á fretandi fótboltaæfingu í kvöld eða barn að aldri sem borðar lítið þannig að það ætti að verða nóg fæði fyrir fíkilinn! Treysti á þig Eyba... :)



Býð sjálfa mig velkomna í mat og verði mér að góðu!

7. febrúar 2005


Hver man ekki hinu heimsfræga lagi: "Mahna Mahna/Lullaby Of Birdland" - flutt af "Mahna Mahna & The Two Snowths"???
Jú hvert mannsbarn barasta hlýtur að muna eftir þessum slagara, hafandi sungið með og trallað á sokkaleistunum í denn.
Vísbending: ...mahna mahna dudurururu...!
Önnur vísbending hér. Sjaldgæf og sjaldheyrð snilld!

6. febrúar 2005


Það er ekki þverfótandi í fréttunum þessa dagana fyrir; annars vegar fótboltabullum (knattspyrnuáhugamönnum) sem vilja fá ódöbbaðar (óíslenzkutalsettar) fótboltalýsingar; og hins vegar framsóknarmönnum (tegund í útrýmingarhættu) sem eru gasprandi endalaust um ég veit ekki hvað og löngu hætt að nenna að hlusta.
Talandi um litla hópa með lága greindarvísitölu sem geta búið til mikinn hávaða...!

1. febrúar 2005


Þó að nú sé liðið tæpt ár frá því að ég byrjaði að láta móðan mása á þessum 17-19" skjá (fer eftir hverjum og einum) hef ég aldrei minnst einu orði á viðhaldið mitt! Kannski er það vegna þess að tengdafjölskylda mín er jú um það bil 76% af lesendum síðunnar og þar af leiðandi hefur maður verið svolítið ragur við að tala beint út um svoleiðis hluti. Gæti hugsanlega komið einhverjum fjölskyldumeðlimum í uppnám.
En nú er kominn tími til að leysa frá skjóðunni og tala blygðunarlaust út um viðhaldið sem ég hitti sem sagt án undantekninga 5 daga vikunnar en þó aldrei um helgar af því að þá eyðir maður tíma með fjölskyldunni sinni! Já fjölskyldugildin ávallt í heiðri höfð. Strax í bítið á mánudögum er söknuðurinn hins vegar orðinn það mikill að eitt af fyrstu verkum dagsins er að drífa sig til viðhaldsins og þá verða heldur betur fagnaðarfundir og svo leitar maður til þess nokkrum sinnum yfir daginn til að leyfa því að gleðja sig, til þess að maður hreinlega funkeri eðlilega! Sönn ást held ég...
Alla vikuna heldur maður svo sambandinu áfram án þess að skammast sín og stundum eru hughrifin svo mögnuð að maður hefur á tilfinningunni að löggan taki mann fyrir ölvunarakstur í sendiferðunum af því að viðhaldið hefur heldur betur komið hjartslættinum af stað og maður hugsar varla heila hugsun. Í lok dagsins fer maður heim til sín og lætur eins og ekkert sé! Svo rennur upp nýr og fallegur dagur og enn er manns fyrsta verk að heilsa upp á viðhaldið!

Viðhaldið er ítalskt eins og öllum sönnum viðhöldum ber að vera og ber hið ástríðufulla nafn; IMPRESSA S90. Hér er mynd af því í sparifötunum.

28. janúar 2005


Hvernig getur himinn verið svona blár?

Allt mest og best og stærst og flottast í Ammríku augljóslega... Bluest sky in the woooorld!!!
Þeir setja hormóna í matinn og litarefni í náttúruna.

26. janúar 2005


Í hinu ágæta sorpriti DV í dag var viðtal við kött og eiganda hans um daginn og veginn held ég bara, og rak ég augun í að þær báðar, þ.e. kötturinn og eigandinn, báru sama ættarnafn!
Þá fór ég að spá í honum Bjarti mínum og hans nafni. Almennt séð heitir hann "bara" Bjartur þó strangt tiltekið sé hann Músarson. Mamma hans sáluga hét semsagt Mús. Einhverra hluta vegna hef á tilfinningunni að það sé alveg á hreinu að köttur með stoltið í lagi og snefil af sjálfsvirðingu geti ekki hugsað sér að vera Músarson!!!
Því hef ég í fullu samráði við Bjart og af fullri virðingu við móður hans tekið ákvörðun um að héðan í frá skal hann heita Bjartur Perill Guðmundsson. Hmmm... nema maður sleppi Guðmundsson þar sem Píp þolir kvikindið (stundum) ekki þrátt fyrir að kötturinn geri sér dælt við hann í tíma og ótíma, sem endar oft og iðulega með flugferð fyrir Bjart ofan úr rúmi eða sófa og niður á gólf. Litli Píp ber líka nafn Píps þannig að mér finnst að Bjartur megi bera mitt. Ef ég hefði fæðst með XY-litninga en ekki XX, hefði ég væntanlega hlotið nafnið Perill, allavega var það stundum notað á undirritaða á yngri árum til skemmtunar foreldranna, þannig að hér með skal Bjartur bera stælda útgáfu af því; Bjartur Perilz I!



Þess má geta að minnstu munaði að putti hefði slasast við gerð þessarar myndar.

24. janúar 2005


Vá hvað útgáfa hinnar feiknafrábæru hljómsveitar The White Stripes á Dolly-slagaranum Jolene er frámunalega skemmtileg. Takk Fiddi bró fyrir að hafa kynnt mig fyrir þessari snilld þar sem þefskyn mitt fyrir snilld virðist eitthvað hafa dofnað með árunum. Allt í lagi svosem, svo lengi sem ég fer ekki að sætta mig við tónlist Brimklóaks og þess háttar sorp!
Merkilegt annars hvað maður er farinn að hlusta óbeint og án þess að skammast sín á Dolly Parton. Baggalútur lék sér náttúrulega með Islands in the stream sem hún Dolly tók í denn með honum Kenny og nú er þessi útgáfa (tekin upp "lifandi" í Empress Ballroominu í Blackpool í janúar 2004) af hinum fræga slagara frá 1974; Jolene alveg að gera mig vitlausa. Jæja, þetta allvega kennir manni að sleppa aðeins fordómunum og opna augun fyrir því að það er sko greinilega eitthvað meira í hana Dolly spunnið heldur en 950 ml af silikoni hvoru megin.

21. janúar 2005


Kvenmannsnafnið Aldey er til...! Aldrei hefði mig grunað það.

19. janúar 2005


Fólk á það til að halda því fram að kötturinn minn sé eitthvað vanstilltur og eigi ef til vill við einhverskonar hegðunarvandamál að stríða. En ég verð nú bara að segja að hann er sannkallaður ljúflingur og vingjarnleg kelirófa í samanburði við þennan. Sem sannfærir mig enn frekar í því að þessar skoðanir fólks á Hr. Bjarti eru ekkert annað en kynþáttafordómar! Bjartur sem mjálmar alltaf mmmmmjjjjáá*æmblakk&æmprád*mmjjjááá

13. janúar 2005


Píp hvolfdi bílnum sínum í dag með sjálfan sig innanborðs. Hann slapp heill en þetta atvik hefur gert það að verkum að ofnæmið sem var smám saman að myndast hjá undirritaðri gagnvart þessari miðstöðvarlausu jafnvægislausu dós er orðið að bráðaofnæmi.

.....

Á morgun fer í loftið ný útvarpsstöð sem hlotið hefir nafnið X fm 919. Hljómar kannski helst til líkt kiss fm eða fm 957 en það verður bara að hafa það. Spurning með að skrifa það þá bara X-FM 91,9... lítur þetta eitthvað betur út? Og vona svo að eitthvað verði spilað af viti á þessari nýju stöð. Og play-listar útilokaðir.
Hvernig tilfinning ætli það sé núna að vera útvarpsstjóri og stjórna bara 3 útvarpsstöðvum sem þarfnast engrar heilastarfsemi hlustenda, því síður stjórnenda?!? Örugglega þægileg innivinna.

Jæja best að hætta að missa sig yfir þessum útvarpssmálum og fara að safna fyrir ipod.
Er í sykursjokki og súkkulaðimóki. Pizza Hut er orðinn alvöru veitingastaður sem hefur á matseðlinum Heitt súkkulaði-soufflé! Hjálpi mér allir heilagir! Ramba þarna inn og belgi mig útaf hádegishlaðborði þegar allt í einu röltir eitt stykki Heitt súkkulaði-soufflé! fram hjá mér og ekki getur maður látið það fram hjá sér fara heldur dregur maður bara upp veiðigræjurnar og klófestir bráðina og treður í sig Heitu súkkulaði-soufflé! Og sér svo eftir því afvelta alveg hreint....

12. janúar 2005


Á ekki til orð yfir þessu. Heyrði í morgun Tvíhöfða tilkynna andlát sitt sem átti að eiga sér stað á allra næstu dögum en það er sko ekkert verið að tvínóna við hlutina heldur er bara búið að loka apparatinu. Mæjonesan heldur betur orðin gul greinilega! Datt engum markaðs-auglýsinga-markhópa-sölu-bavíananum hjá Íslenska Útvarpsfélaginu í hug að hreinlega steypa þessum tveimur stöðvum (x-inu og skonrokki) saman í eina öfluga allsherjar rokkstöð fyrst það gengur svona illa að reka tvær? Nei það má sko ekki láta reyna á það - en í staðinn skulum við efla 957 og bylgjuna! Jibbý þá getur maður sko aldeilis misst sig með málhöltu fáráðlingunum á 957 og fallið í trans yfir ógeðis eitís&næntís lágklassafroðunni á bylgjunni. GARG!

Æji þetta er svosem enginn heimsendir, það taka örugglega einhverjir snillingar sig til og opna alvöru útvarpsstöð fyrir okkur þyrsta fólkið og gera margfaldlega betur en þessir ÍÚ-bjálfar hefðu nokkurn tímann getað gert. Eða þá að maður leggur allt sitt traust á Óla Palla. Ef hann hættir að spila þetta Keane/britpop-sorp sitt endalaust...

.....

Litli píp tilkynnti mér hróðugur að á leikskólann í dag hefði komið maður til að strá sykri yfir klakann svo krakkarnir detti síður og meiði sig...

Finndu 5 villur!

11. janúar 2005


Get svo svarið að það er byrjað að vora! Eins og dagsetningin 11. janúar eða 11.1 er hrikalega kaldranaleg dagsetning. Hrolllrrr. Í dag var hlýrra, bjartara og mildara utandyra og þar að auki veðrið mannúðlegra heldur en undanfarnar vikur leyfi ég mér að segja. Þannig einmitt lýsir vorið sér og það hlýtur þá að vera, eins og ónefndur veiðimaður á suðurlandi mundi orða það við keppendur á harðaspani í Amazing Race, "straight away"! Vorið er rétt handan við hornið.



Pollýanna þegiðu!

10. janúar 2005


Fór um helgina að fjárfesta í skrifara í tölvuna mína til að árið 2004 í myndum og máli glatist ekki ef tölvunni fer að leiðast þófið og ákveður að segja skilið við þennan heim. Kom heim með nýja hátalara og músarmottu með geli en engan skrifara. Það var sossem auðvitað... Og það er þessi líka vonda lykt af músarmottunni. Gæti helst trúað að músinni hafi orðið svo mikið um nýju mottuna, að hún hafi í geðshræringu sinni misst nokkur músarspörð á mottuna. Nei þetta er alveg út í hött hvað nýttplastogþaraðaukigeloggúmmísveimérþáefetterekkilíkasilikon-lykt er vond. Bjakk. Viðra hana aðeins í 15 metrum og -5 gráðum.

Merkilegt hvað stjörnur í Hollywood fá alltaf æði fyrir einhverju. Svo sem eins og Vísindakirkjunni, Pilates, Kabbalah, ósýnilegum fötum, Íslandi og mörgu fleiru. Nú er það nýjasta sem umboðsmönnum og PR-trúðum margra þessara selebritía hefur dottið í hug til að bæta orðspor og ímynd viðkomandi stjörnu er að láta þær gefa eins og um það bil 0,06% af árslaunum sínum í hjálparstarfið í SA-Asíu. Já, svona er hún/hann góð og umhyggjusöm manneskja en ekki óstýrlát fyllibytta illa haldin af strípihneigð og vímugjafafíkn og það vill alls ekki svo til að hún/hann sé akkúrat um þessar mundir að fara að gefa út plötu/mynd. Nei nei ekkert svoleiðis. Hrein hjartagæska á ferðinni. Þá léttir stjarnan á samviskunni og kemst í dýrlingatölu í vísindakirkjunni og getur farið að snúa sér að því sem skiptir máli, að gráta sig í svefn yfir skilnaði Bra/niston.

Hvar er PR-maður Íslands? Einar Bárðarson. Gæti örugglega selt upp bókina um ævi og störf Nælons og bílfarma af sjónvarpsþáttunum útgefnum á DVD (með aukaefni og alles - rifrildi og hártog) ef hann léti nælurnar gefa milljón (í boði KBbanka) til Rauða krossins. Hann mundi allavega fresta því að þær féllu í gleymsku um eins og tvær vikur.

Get svo svarið það að Kífer Suþþerland hafi fjárfest í íslenska herra-þjóð-hátíðar-búningnum um áramótin! Eða kannski er hann bara í hvítri skyrtu og í vesti... og jakka. Getur allt eins verið.




Vá hvað þetta er sniðugt! Og svínvirkar! Get núna tekið á móti endalausu magni af penisenlargement og diploma gylliboðum og fullt af Nígeríu-póstum líka. Nóg pláss fyrir alla.

3. janúar 2005


Jólunum var stolið af okkur í gær eða fyrrinótt eða allavega gerð tilraun til að stytta þau í annan endann fyrir okkur! Áttum efnivið í nokkrar jólaölsblöndur í okkar ágætu forstofu, enda hitastigið þar á við freðinn ísskáp, en þegar við komum heim úr jeppaferð í gær var jólaölsefnið horfið! Nokkrar maltdósir og eitthvað af appelsíni. Hver gerir svona lagað??? Óforskammaðra gerist það ekki og maður varð bara sár. Þetta var sem betur fer ekki fjárhagslegt tjón heldur var það fekar tilfinningalegt tjón. Maður stelur bara ekki jólaöli frá fólki. Vona helst að einhver jólasveinn á leið til fjalla hafi tekið það með sér þar sem honum hafi þótt nóg um jólaölsdrykkjuna á heimilinu svona þegar janúar er hafinn en hann má sko vita það að á þessu heimili er farið að lögum og jólaölið teygað fram á þrettánda. Vona það sem sagt frekar en að einhver óprúttinn nágranni eða róni af Arnarhóli hafi komið að heimili mínu og látið greipar sópa. Það er ekkert of þægileg tilhugsun.

Jeppaferð í gær. Tímasóun eins og of oft vill verða. Festa sig, affelga, festa sig meira, slíta spotta, enginn með skóflu, affelga, 15 gráðu frost og svo framvegis. Stundum þegar maður er búinn að sitja yfir auglýsingum í bíóhúsunum í hálftíma hugsar maður upp á engilsaxneska tungu: "I wan't my 30 minutes back", en eftir svona ferð sem tekur aldrei undir 10 tímum hugsar maður " I wan't my DAY back"! Hefði alveg getað gert eitthvað annað við þennan annars fallega dag. En sem betur fer eru þessar ferðir stundum skemmtilegar sem gerir þetta þess virði. Er meiri sumarferða manneskja samt, sé meiri skemmtun í að flakka um allt og yfir ár og upp um allt heldur en að fara innan við 30 kílómetra á fleiri fleiri klukkutímum í fannfergi. Það er hins vegar mjög gaman og upplífgandi að fara ekki nema 10 kílómetra á á nokkrum klukkutímum... fótgangandi! Jaá það er gaman og hefur tilgang.


Hvað dettur ykkur fyrst í hug þegar þið heyrið um bónda sem ræktar ferhyrnt fé??


Hmmm, kassalaga kindur já... fæðast hálfur rúmmeri og verða svo um það bil 2 rúmmetrar fullvaxnar!


Nei nei þá var bara verið að tala um bóndadurg sem ræktar rollur með fjögur horn.

Dooh...
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats