22. febrúar 2005


Loksins virðist þessi þoka vera á undanhaldi. Óþolandi fyrirbæri alveg að sjá ekki til fjalla eða himins sérstaklega þegar maður býr í rúmlega 50 fermetrum og veitir ekkert af því að hafa vítt til veggja og hátt til lofts utandyra í það minnsta. Manni hefur liðið eins og maður sé fastur í Zorb-kúlu síðustu 3 daga, hafandi þetta skyggni upp á 4 metra +/- 3 metra.

Þá er það orðið opinbert að við skötuhjúin ásamt Litla Píp og þeim hluta Píp-fjölskyldunnar sem hefur aðsetur hér á landi ætlum að bregða undir okkur betri fótunum og skella okkur til LA að heimsækja Toggu Pípsystur og skoða okkur um í Kaliforníu!!!! Hef ekki viljað tjá mig um þetta á alnetinu fyrr en hægt væri að slá þessu nokkuð föstu, til að tala bara ekki tóma vitleysu ef svo ekkert yrði af. Fyrsta skipti á ævinni sem maður hefur haft sumarfríið sitt nánast ákveðið upp úr miðjum janúar.

Sem sagt bókað og klárt: flogið til San Fransisco 13. júní og heim 11. júlí, með þeim fyrirvara að vísu sem Píp hefur sett, að við verðum að öllum líkindum uppgötvuð við götusöng og spil á Sunset Boulevard og sláum í gegn (Píp - gítar og söngur, Litli Píp - bakraddir og hristur, undirrituð - kynningarstarf og auglýsingar) kyrjandi einhvern af fjölmörgum slögurum Píps (sjá færslu dags. 20. nóvember sl.).
Þá værum við aldeilis ekki á leið heim í bráð þar sem við, ég sjálf og litli Píp (eftir því sem undirritaða grunar frekar) þyrftum að vinna við uppvask og margvísleg þrif á kreólskum veitingastað í LA til að vinna inn aura fyrir tryggingunni til að fá Píp lausan úr klefa 8 eftir að hann hefur verið fundinn sekur um óspektir á almannafæri og fyrir að eiga upptökin að því að misbjóða viðkvæmum eyrum vegfarenda sem seint munu bíða þess bætur og koma til með að leggja fram kröfur um miskabætur í mörgum liðum. Við Litli Píp sleppum á skilorði og megum ekki yfirgefa fylkið í ár og þar með fer ferill Píp af stað, sérstaklega eftir að hann kemur fram hjá Conan O'Brien og Dr. Phil segjandi sögu sína. Hann kemur fram með ýmsum þekktum tónlistarmönnum, þ.á.m. William Hung sem Píp tekur dúett með á styrktartónleikum fyrir síþreytta ketti. Já Bandaríki Norður-Ameríku - hér komum við!

20. febrúar 2005


Þessum manni mættu Tóta og Hafsteinn við Flúðir um síðustu helgi og ætluðu, eftir því sem mér skilst, að bjóðast til að lina þjáningar hans á einhvern hátt... Ja þá hefði hann sennilega ekki náð að verða heimsfrægur á öllu suð-austanverðu Íslandi. Geri aðrir betur!
Hann hlýtur samt að láta þetta sér að kenningu verða. Ísland + hjólreiðar + febrúar = Tóm tjara.

Hvarsemer varð 1 árs á laugardaginn og var því fagnað með 80 manna teiti í Borgartúninu, að vísu ekki hvarsemer til heiðurs en að sjálfsögðu tók hvarsemer þetta pínulítið til sín og varð klökkt yfir öllu saman. Hamingjuóskir mótteknar hér að neðan:

14. febrúar 2005


Skyldi hitt húsið hafa sloppið?

Óska þessum kumpánum innilega til hamingju með daginn!
Að öðru leyti stendur dagurinn mestmegnis fyrir innflutt sorp!

9. febrúar 2005



(Mynd: Tómas Þorgeir Hafsteinsson)

Hefur einhver rekist á þennan mann?

Síðast þegar til hans sást var hann klæddur í gráan samfesting með hnépúðum og eldingavörn, merktur með nafni og styrktaraðilum í bak og fyrir og með glott á vör. Óttast er að hann komi til með að falla vel í fjöldann í dag þar sem í dag er Öskudagur sem gerir, eins og gefur að skilja, alla eftirgrennslan erfiðari. Á venjulegum degi mundi hann nefnilega skera sig verulega úr. Hann á afmæli í dag en heldur greinilega að hann geti falið sig fyrir elli kerlingu...

Í guðanna bænum látið sjerriffnum STRAX í té allar upplýsingar sem þið kunnið að hafa um ferðir hans jafnvel þó þið hafið engar!

8. febrúar 2005


GLEÐILEGA HÁTÍÐ!


Upp er runninn bjartur og fagur dagur unaðslegs fæðis. Sprengidagur kemst mjög nálægt jólunum í tilhlökkun þar sem saltjöt og baunir eru svo frámunalega ljúffengur matur og dásamlega þungur í maga. Ætla mætti á myndinni fyrir neðan að ég hefði í hyggju að bjóða fólki í mat en eigi er það svo gott heldur fer ég til tengdafjölskyldunnar í mat sem kemur sér jú ágætlega þar sem sú fjölskylda er meira og minna í átaki eða búsett erlendis eða á leiðinni á fretandi fótboltaæfingu í kvöld eða barn að aldri sem borðar lítið þannig að það ætti að verða nóg fæði fyrir fíkilinn! Treysti á þig Eyba... :)



Býð sjálfa mig velkomna í mat og verði mér að góðu!

7. febrúar 2005


Hver man ekki hinu heimsfræga lagi: "Mahna Mahna/Lullaby Of Birdland" - flutt af "Mahna Mahna & The Two Snowths"???
Jú hvert mannsbarn barasta hlýtur að muna eftir þessum slagara, hafandi sungið með og trallað á sokkaleistunum í denn.
Vísbending: ...mahna mahna dudurururu...!
Önnur vísbending hér. Sjaldgæf og sjaldheyrð snilld!

6. febrúar 2005


Það er ekki þverfótandi í fréttunum þessa dagana fyrir; annars vegar fótboltabullum (knattspyrnuáhugamönnum) sem vilja fá ódöbbaðar (óíslenzkutalsettar) fótboltalýsingar; og hins vegar framsóknarmönnum (tegund í útrýmingarhættu) sem eru gasprandi endalaust um ég veit ekki hvað og löngu hætt að nenna að hlusta.
Talandi um litla hópa með lága greindarvísitölu sem geta búið til mikinn hávaða...!

1. febrúar 2005


Þó að nú sé liðið tæpt ár frá því að ég byrjaði að láta móðan mása á þessum 17-19" skjá (fer eftir hverjum og einum) hef ég aldrei minnst einu orði á viðhaldið mitt! Kannski er það vegna þess að tengdafjölskylda mín er jú um það bil 76% af lesendum síðunnar og þar af leiðandi hefur maður verið svolítið ragur við að tala beint út um svoleiðis hluti. Gæti hugsanlega komið einhverjum fjölskyldumeðlimum í uppnám.
En nú er kominn tími til að leysa frá skjóðunni og tala blygðunarlaust út um viðhaldið sem ég hitti sem sagt án undantekninga 5 daga vikunnar en þó aldrei um helgar af því að þá eyðir maður tíma með fjölskyldunni sinni! Já fjölskyldugildin ávallt í heiðri höfð. Strax í bítið á mánudögum er söknuðurinn hins vegar orðinn það mikill að eitt af fyrstu verkum dagsins er að drífa sig til viðhaldsins og þá verða heldur betur fagnaðarfundir og svo leitar maður til þess nokkrum sinnum yfir daginn til að leyfa því að gleðja sig, til þess að maður hreinlega funkeri eðlilega! Sönn ást held ég...
Alla vikuna heldur maður svo sambandinu áfram án þess að skammast sín og stundum eru hughrifin svo mögnuð að maður hefur á tilfinningunni að löggan taki mann fyrir ölvunarakstur í sendiferðunum af því að viðhaldið hefur heldur betur komið hjartslættinum af stað og maður hugsar varla heila hugsun. Í lok dagsins fer maður heim til sín og lætur eins og ekkert sé! Svo rennur upp nýr og fallegur dagur og enn er manns fyrsta verk að heilsa upp á viðhaldið!

Viðhaldið er ítalskt eins og öllum sönnum viðhöldum ber að vera og ber hið ástríðufulla nafn; IMPRESSA S90. Hér er mynd af því í sparifötunum.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats