28. desember 2007


Það er búið að endurútgefa biblíuna og ég fékk eintak í jólagjöf.

Nýja útgáfan lítur svona út:

Hún er full af heimalagaðri siðfræðilegri speki um lífið, textinn aðgengilegur þannig að hann höfðar vel til nútímafólks og einnig er talað um í þessari uppfærðu útgáfu að súkkulaðifíkn sé eingetin einkadóttir sælgætisfíknar og háheilög í meira lagi. Einnig kveður þessi nýja útgáfa á um að Ben & Jerry séu Þéraðir sem Guðir væru.

En eins og allar bækur hefur hún veikan punkt og það er kaflinn um ávexti. Við skulum hafa það á hreinu að ávextir eru forboðnir. Þið vitið aldingarðurinn og allt það! Mjallhvít líka. Maður dettur niður dauður af ávöxtum og grænnmeti endalaust! Maður hefur ekkert upp úr grænmetisáti nema stöku höggorma og annars konar misyndis-skordýr.

Boðorðunum var svo fækkað niður í tvö til að koma í veg fyrir misskilning, rangtúlkanir og almennan þvætting sem hin 10 gátu skapað enda hljóðuðu þau svo sem upp á það sama mest megnis.


P.s. Togga þú merktir Guðmundi pakkann líka... eitthvað slegið saman hjá þér sennilega. En það er allt í lagi, hann er ennþá að reyna að beygja rörin úr steinalausa stálinu.

24. desember 2007


Til ykkar sem ekki fenguð kort (ef einhverjir voru).

12. desember 2007

29. nóvember 2007


Ég átti alveg eftir að sýna afmælisgjöfina frá Píp:

Hér má sjá afmælisbarnið skála við sig sjálft og einnig sést þessi áður tilgreinda afmælisgjöf á myndinni. Nei, þó það líti út fyrir á myndinni að ég hafi fengið 65" Canon flatskjá í afmælisgjöf þá er það eigi svo, heldur er þetta massafína splunkunýja myndavélin mín. Skjárinn er ca. 10" eða kannski svona 3" og nota bene ekkert gægjugat á henni! Maður bara horfir á stóra stóra skjáinn enda gægjugötin svo síðasta öld. Allavega, þessi vél er BARA fín og sæt.

Sko það borgar sig að brjóta odd af feimni sinni og hafa samband við bara einhvern ef manni sýnist svo.

Jú, forsaga málsins er sú að mér fannst áður umtalaður flutningur Daníels Ágústs á Tom Waits laginu "Earth died screaming" svo magnaður að ég varð að koma því til leiðar að myndbandið yrði sett inn á You Tube til að maður gæti notið þess um aldur og ævi vegna þess að inni á ruv .is er allt horfið tveim vikum eftir útsendingu hvort sem um er að ræða viðtal við Bjarna Harðarson eða snilldaratburð í tónlistarsögunni.

Ég semsagt tók mig til og leitaði að einhverjum Kastljós-klippum inni á You Tube til að finna þar notanda sem væri hugsanlegur kandidat í að gera myndbandið ódauðlegt fyrir mig og koma því inn á vefinn. Viti menn, sendi einum beiskum fyrirspurn um hvort hann gæti með sinni snilldargáfu sett það inn á YT og hann svaraði um hæl að hann skildi sjá hvað hann gæti gert.

Og nú tæpum 3 mánuðum seinna sendir mér hann skilaboð um að myndbandið sé komið inn og þar með er þetta myndband orðið aðgengilegt um alla tíð, þökk sé beiskum og hvarsemer.

Takk ég (og beiski).

26. nóvember 2007


Hvernig er það, var eitthvað búið að kanna ólögmætt verðsamráð og almenna samræmingu á úrvali í ferðaskrifstofugeiranum??


Og allir með sama verðið 49.900 kr. fyrir tvær vikur. Já ekkert við það að athuga, enda sömu eigendurnir af þessum companíum. Þá er þetta allt saman voða eðlilegt, eller hur?

23. nóvember 2007


Þessi síða er fyndin! Nafnið á henni segir allt sem segja þarf ef það á annað borð þarf að segja eitthvað.
Talandi um að segja hluti þá er þessi hérna algjör snilld. Þar er allur heimsins sannleikur sagður í aðeins sex orðum per færslu. Magnað hvað 6 orða setningar/sögur geta orðið hnitmiðaðar og hitt beint í mark. Annað en mínar setningar, 20 orð að meðaltali og oftar en ekki orðagjálfursvaðall.

Til að ég fari nú ekki að setningafræðigreina sjálfa mig eitthvað frekar með óhóflegri notkun á afturbeygðum fornöfum í boðhætti og sögnum í viðtengingarhætti er best að horfa bara á svenska kokken búa til súkkulaðimús:

21. nóvember 2007


Ef ég heyri eitt orð í viðbót um Geysi Green gýs ég grænu!

18. nóvember 2007


Fyrst þegar ég las fyrirsögnina hér að neðan rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds og ég var viss um að það hefði lekið út að Píp hleypti mér út á lífið um daginn:


En svo við nánar athugun sá ég að svo var sem betur fer ekki. Píp þarf ekki að afsaka það við alla að hafa hleypt konunni framfyrir eldavélina og alla leið út úr húsinu því sem betur var það ekki ég sem varð húsbónda mínum til minnkunnar heldur hefur einhver nafna mín verið að skandalisera.

12. nóvember 2007


Komin heim frá London árinu eldri og hvað haldiði að yngsti sonur minn hafi gefið mér í afmælisgjöf??? Fyrstu skrefin sín! Hann tók á móti mér labbandi í dag. Hér fyrir neðan má sjá Kára labba og eru skrefin tekin upp á Canon IXUS75 sem þeir feðgarnir gáfu mér í afmælisgjöf. Hljómar pínu eins og samantekin ráð; "pssst pabbi, gefum kellu myndavél og svo byrja ég að labba til að fyrsta vídeóið verði af mér að labba".



Nú fyrst er fjandinn laus....! :)

P.s. Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar og hughreystinguna í tilefni þeirra tímamóta í lífi mínu sem urðu síðastliðinn föstudag. Teiti verður haldið síðar og verða kransar og borðar afþakkaðir.

Ferðasaga síðar.

6. nóvember 2007


Togga var einmitt að ræða það um daginn hvað nýjir hlutir á heimilum veiti mikla ánægju. Get ekki annað en verið sammála því hér má sjá ástæðuna fyrir því að ég hef ekki bloggað í háa herrans tíð (var næstum búin að gleyma skrípans lykilorðinu):

TAAADAAAAAA!!!!!!


Má ég kynna nýju eldþvottavélina mína! Gashelluborð/rafmagnsofn/UPPÞVOTTAVÉL!!!!!!!!!!!!!
Dásamleg uppfinning. Uppþvottavélin hans Píps verður nefnilega 30 ára á föstudaginn þannig að það var ekki seinna vænna að kaupa nýja.

Hafandi vaskað upp frá því ég gat staðið á stól við vaskinn var kominn tími á að þessum kafla í mínu lífi lyki! Ekki neitt er jafn ömurlega hundleiðinlegt og að vaska upp! Af öllum húsverkum í heimi er uppvask það alleiðinlegasta. Í mínum húsakynnum verða framvegis uppþvottavélar, í nútíð sem framtíð!

Í leiðinni erum við aðeins að gera eldhúsið sætara þannig að þegar ekki er verið að vinna, elda, skutla á æfingar og siða handóðan einsáring til, þá hef ég verið að brasa í eldhúsinu en ekki blogga. Sem útskýrir þessa þögn undanfarið...

Kári notaði samt tækifærið á meðan tölvan var laus og skrifaði smá pistil, sjá hér.


2 dagar í LONDRES!!! Vúbbídú...

17. október 2007


Það er víst búið að breyta Nordica í Hilton hótel. Nú getur maður gist á Hilton eins og hinar flærnar.

Hef reyndar einu sinni gist á Hilton hóteli og það var í bænum Del Mar í Californiu. Vorum að koma frá San Diego með Toggu, Jökli og hundinum Tótu og náttúrulega hinum 23 fjölskyldumeðlimunum, og ákváðum að staldra við á hóteli á leiðinni til baka. Man ekki af hverju þetta hótel varð fyrir valinu - kannski var það eina hótelið sem samþykkti hunda og flær, með fullri virðingu fyrir hundinum Tótu. Eða kannski leyfðu þeir bara flær, því eitthvað rámar mig í meint smygl á mexíkóskum smáhundi inn fyrir lóðamörk tiltekins hótels. Man þetta ekki svo gjörla.
Það verður nú annars hressandi í framtíðinni að heyra karlmenn í kringum sig hlæja ruddalega þegar þeir segja frá því að þeir hyggist gista á Hilton-hótelinu... "Maður er bara að fara á Hilton í kvöld... ehehehehe...". Og þá svarar viðmælandinn "Nú, París? eheheheheh...". Og svo ehehehehehehe-a allir saman í kór.

Jæja, um daginn kom Viktoría Beckham við sögu í bloggfærslu minni. Í dag Paris Hilton. Hver veit nema á morgun bloggi ég um Britney Spears og daginn þar á eftir um ruslatunnur til að halda þemanu gangandi.

16. október 2007


Litli píp er mjög áhugasamur um friðarsúluna eins og mamma hans. Þegar kveikt var á henni um daginn sátum við mæðginin saman og drengurinn fékk ágrip frá mömmu sinni af ævisögu Lennons og gaumgæfilega var farið yfir með honum hvað friður er. Hann vissi svo sem alveg hvað stríð er eftir að hafa fengið fréttir í beinni með kvöldmatnum alla sína ævi, en hann var hins vegar ekki alveg klár á hugtakinu “friður” enda leggur hann þann skilning í málin að þar sem sé stríð - geti maður ekki farið út að leika, en eins og á Íslandi - geti maður farið út að leika!

Þannig sér hann heiminn. Allavega, eftir að hafa hlustað á ævisöguna í ekki nema tveim bindum sem þykir stutt útgáfa og látinn læra “Imagine” utanbókar, fór hann að velta fyrir sér hvaðan ljósið kæmi. Hann spurði mikið og kom með alls konar tilgátur og var orðinn alveg óður í að vita hvaðan ljósið kæmi. Við sögðum honum að það kæmi úr mörgum kraftmiklum ljóskösturum sem lýstu lengst upp í himinninn en það svar dugði dreng ekki. Eftir að hafa hlustað á spurningar og pælingar í nokkra daga og með samviskubit yfir að geta ekki svarað kauða almennilega með helstu tölulegu staðreyndum, ákváðum við að panta tíma hjá Villa Vill svona rétt áður en hann hætti. Villi er, sem alkunna er, sérstaklega heiðarlegur maður og hefur aldrei verið staðinn að lygi né nokkru misjöfnu og sagði okkur hvers kyns er með þessa ljóssúlu:

Úti í Viðey er rúmlega mannhæðarhár hvítur blómapottur sem á er letrað “Að hugsa sér frið” á hinum ýmsustu tungumálum. Ofan í þessum potti er svo.....



Þessi hér:




Sem hrópar í gríð og erg: "BY THE POWER OF PEACE.....!!!!!

Við gengum sátt af fundi með Villa og erum fegin núna að það sé ekki kveikt meira á súlunni því þótt ljóskastarinn heiti He-man verður hann að fá einhverja hvíld á milli lota. Ofurhetjur eru líka fólk!

15. október 2007


Stjörnuspáin mín og stjörnuspá almennt á það nú til að vera voða af öðrum heimi eitthvað. En þessi spá á mbl í dag slær nú allt út:

Ég á semsagt að vera góð við mitt innra barn! Og það sem meira er, reynast því gott foreldri! Ekki nóg með að í þessari klausu sé hálfpartinn verið að gera mann að geðklofa sem á að babbla við sjálfan sig, vera aaaaaaa við sig í tíma og ótíma, reyna að siða sig til og kenna sér góð gildi heldur er ég þar með orðin 3 barna móðir! Það eru litlipip, minnstipip og innrabarn. Að ég tali nú ekki um fjórða barnið, köttinn hann Bjart.
Svo hlýtur Píp að eiga sitt innra barn líka, þó hann sé ekki sporðdreki, þannig að miðað við þessa skyndilegu stækkun á fjöskyldunni þurfum við eiginlega að fá okkur sjö manna bíl í það minnsta. Ef ekki bara stuttferðabifreið til að koma öllu því hafurtaski sem fylgir 4 börnum fyrir.
Og miðað við hvað ákveðnir aðilar urðu leiðir fyrir Bjarts hönd þegar hans var ekki getið í jólakortinu í fyrra er vissara að maður hafi allt á hreinu þetta árið.

Sé fyrir mér að undirskriftin verði eitthvað á þessa leið:

Gummi, Perla, Óli, Kári og Bjartur ásamt innri börnum, innri fullorðnum og innri kettlingi. Biðjum hlutaðeigandi velvirðingar ef við gleymdum einhverjum.

14. október 2007


Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst friðarsúlan geggjuð!!!


Bara fruntaleg snilld og sérstaklega hugguleg á að horfa. Bý svo vel að geta horft á hana úr rúminu mínu og úr þakglugganum í tölvuálmu heimilisins má sjá hana frá upptökum til enda, þó hún reyndar nái það hátt að stundum veltir maður því fyrir sér hvort hún sé endalaus.
Eina sem ég hef út á hana að setja er að mér finnst hún loga full stutt, á bara að vera frá kl. 20.00 til 24.00 en mundi vilja sjá hana líka frá 07.00-08.30 í nóv. og des. þegar myrkrið verður meira. Viss um að dagarnir, og þá sérstaklega umferðin, verði friðsælli þegar íbúar borgarinnar streyma til vinnu með friðarsúlu vakandi yfir sér. Svo um helgar mætti hún loga lengur (sem hún gerir reyndar núna en kannski af því að þetta er fyrsta helgin) og þá er ég alveg viss um að ófriðaröldur miðbæjarins lægi.
Fyrst ég er að frekjast þetta mundi ég líka vilja sjá hana loga út febrúar ca. Já kannski væri bara frá haustjafndægri fram á vorjafndægur alveg kjörið en þá er reyndar aðeins búið að afbaka hugmyndina með að hún logi frá fæðingardegi Lennons til dánardægurs - en Yoko myrkrið er svo svart á Íslandi!

Já nú er ég búin að koma þessum óskum mínum á framfæri og spurning með að senda þær á Dagga sæta nýja borgarstjóra og sjá hvað hann segir. Verð að segja það að ég er nú bara alveg guðs lifandi fegin að spillti tryllti Villi getur farið að spila meira golf en mikið hefði ég nú viljað að hann tæki that evil bastard Björn Inga með sér. Nei nei, alltaf þarf þessa hel#&%$* framsóknarmenn til að mynda stjórn. Sem sannar hið fornkveðna; það er sama hvað þú kýst, alltaf ertu að kjósa framsókn. Megi þeir fara norður og niður í friði.

Peace out.

7. október 2007


Sko ég fór í bíó um daginn! Á Rattatsjúí eða hvað sú ágæta mynd heitir. Að sjálfsöfðu vinnur vel máli farið fólk í bíóinu sem veit sko ósköp vel að Rattatjúí er skrifað Ratatouille! Enda klárt fólk sem er vel að sér í þessum helstu tungumálum. Sem betur fer fyrir okkur hin sem erum ekkert of vel að okkur í erlendum tungumálum þá var myndin með ýslensku tali! Já annars hefðum við ekki skilið neitt, sérstaklega Ólinn... Já ýslenska talið bjargaði okkur alveg.
En svona í alvöru talað - HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ ÞEGAR FÓLK VEIT EKKI EINU SINNI AÐ TUNGUMÁLIÐ SEM ÞAÐ TALAR SVONA OFTAST ALLAVEGA HEITIR ÍSLENSKA?!?!?!? Íslenzka jafnvel eða íslenska ef þú ert ekki með sk-regluna alveg á hreinu.

Sönnunargagn A:


Þetta er hreinlega þyngra en tárum taki að það séu til einstaklingar þarna úti sem fá svona verkefni í hendurnar að innræta miðaprentunarvél í Sambíóunum með, að maður hefði haldið idiotproof (fíflheldum) grunnupplýsingum sem eru svo gjörsamlega ekki hæfir í verkið. Ég vona að manneklunni sé um að kenna og að þetta hafi allt saman byrjað hjá henni Shtanzchinu frá Lettlandi, sem freistaði gæfunnar og fékk vinnu á Íslandi við að vélrita á bíómiða 12 tíma á dag og hafi gefið sér það að þar sem Ýsa sé borin á borð fyrir landsmenn 2 í viku að þá hljóti landið að heita Ýs(u)land! Ég er tilbúin að kaupa svona afsökun - annars eru þetta bara hálfvitar! Regla númer eitt: Það er lágmark að vita hvað tungumálið sem þú talar heitir! Og hvernig það er skrifað!

29. september 2007


Valur Íslandsmeistarar og Þróttur kominn upp. Gæti þetta orðið eitthvað betra?


Já ef KR fellur!


krossafingurkrossafingurkrossafingurkrossafingurkrossafingurkrossafingurkrossafingurkrossafingurkrossafingur.

28. september 2007


Sjaldan er góð vísa of oft kveðin!



Bara svona af því að það er föstudagur...

26. september 2007



Opperation Ørnen:

vs.

Opperation Miðborg:


Opperation Pólstjarna hvað???

24. september 2007


Í tilefni fyrri færslu og þarfrar umræðu um tal- og skrifhefta einstaklinga og málfar almennt, má ég til með að skylda ykkur til að hlusta á ÞETTA. Það þarf reyndar að spóla á 28. mínútu, nánar tiltekið 27 mín. og 51 sek. og sketsinn varir svo fram á fimmtugustu og þriðju sekúndu þrítugustu og annarrar mínútu. Þarna koma við sögu afturbeygð fornöfn í boðhætti og frásagnir í þáliðinni tíð og ég hélt ég yrði bráðkvödd af hlátri þegar ég heyrði þetta fyrst. Nei án gríns. Hlustaðu á þetta - annars kveiki ég í mér!

23. september 2007


Vissuð þið að Salma Hayek er fertugasta&fyrsta ára og að Marcel Marceau var átttugasta&fjórða ára??? Haaaa hváir einhver núna og veit ekkert hvað ég er að fara!
Málið er að þarna komum við enn einu sinni að fordómum mínum í garð forheimskra, hvort sem þeir eru framsóknarmenn eða málhaltir!
Regla númer eitt - Maður setur ekki punkt á eftir aldri fólks! Það gerir töluna að raðtölu (1. - fyrsti, 23. - Tuttugasti&þriðji). Sjá nánari útlistun hér. Það getur svo sem vel verið að ég sé að fara að halda upp á minn 30. afmælisdag eftir marga mánuði en það veit Guð og ég sjálf að ég verð ekki 30. (þrítugasta) ára heldur 30 (þrjátíu) ára. Ég er meira að segja búin að bíta það í mig að ef ég fæ kort í partíinu mínu þar sem mér er óskað til hamingju með að vera 30. ára hendi ég þeim hinum sama út, eftir að hann hefur afhent mér pakkann minn, því málhelti/skrifhelti ógildir miðann!
Þetta er bara eitthvað sem hefur alltaf gert mig vitlausa, að sjá jafnvel gáfaðasta fólk setja punkt á eftir aldri. GAAAAAARRRRGGGGGÉGGÆTIORÐIÐBRRRJÁLUÐ!!!!!!!

En fyrst við erum byrjuð að tala um svona kvilla hjá fólki og ég orðin svona trekkt; hvað er málið með að SKROLLA?????

(Skrolla(-ði): vera gormæltur, nota úfmælt r í stað tannbergsmælts)

Úffff don't get me started.... Sko skroll hef ég bara aldrei skilið og mun aldrei skilja, af hverju fólk sem hefur jafnvel menntað sig helling og siglt um heimsins höf, staldraði ekki aðeins við til þess að læra að tala!
Í skólanum sem ég var í síðast skrollaði skólastjórinn sjálfur og þú fyrirgefur það var nú bara lífsins ómögulegt að taka þann mann alvarlega skrollandi eins og hann ætti lífið að leysa.
Hef reyndar sæmilega náð að leiða þennan kvilla hjá mér þangað til núna, þegar skrollandi maður var kjörinn á þing. Hafði litla þolinmæði fyrir fréttum af þingi en núna þegar liðið kemur aftur saman 1. (fyrsta sjáiði - raðtala) okt. eftir hálfs árs frí þá mætir ægilega stoltur durgur frá Selfossi, eins og það sé ekki nóg heldur skrollar hann líka, á þing í fyrsta skipti. Úff mér er orðið heitt í hamsi, vatnssopa takk. Já hvert vorum við komin... Já semsagt nú á maður eftir að heyra í þriðja hverjum fréttatíma..."vég fgamsóknagmenn egum kjánag..." Guð minn almáttugur, svo er hann framsóknarmaður líka... málhaltur og framsóknarmaður... mér fallast hendur. Get ekki meir.... fjórtán maríubænir. Ég vona að hann verði umsvifalaust sendur í talkennslu ellegar haldi sig til hlés og láti aðra um ræðuhöld.

Úff til að ég sálgreini sjálfa mig aðeins held ég að upphafið að þessum reiðipistli mínum sé biturleiki yfir að verða 30 ára innan skamms. Gömul með punkti eður ei.

22. september 2007


Ég bara get ekki hætt að dást að forkunnarfagra sandblásna sprautulakkaða pottofninum inn á nýuppgerða baðherberginu mínu.


Það hlýtur að benda til þess að ég sé búin að búa mátulega lengi með pípara!

20. september 2007


Akkúrat á þessari mínútu er þessi herra :-) 25 ára! Setjum á hann stórt glott í tilefni dagsins :-D

17. september 2007


Ef svo bæri undir, hvort mundi ég setja Bjart í PET scan eða CAT scan?

Bara pæling.

14. september 2007


Google á afmæli í dag - liðin eru 10 ár síðan tveir njerðir tóku lénið frá og byrjuðu svo í framhaldinu að smíða leitarvélina í bílskúrnum heima hjá sér sem hefur sennilega ekki verið mjög hávaðasöm vinna.

Þá lá fyrir uppkast að síðunni sem leit nokkurn veginn svona út:

Nafnið á síðunni útskýra þeir svona:

"Lénsheitið er óhefðbundin stafsetning orðsins ‘googol’, sem þýðir tíu í hundraðasta veldi..."
Mjög í anda njarða.

En fyrst maður er búinn að nota Google svona lengi og sögnin að "gúggla" við það að detta inn í orðabækur er kominn tími til að breyta til og verða umhverfisvænn í leiðinni (vei vei kolefnisjafna kannski netvafrið bara líka...).

Síðan Blackle.com er hönnuð með það í huga að eyða minna rafmagni en leitarsíður eins og Google.com. Litir í bakgrunni vefsíðna eyða nefnilega mismunandi miklu rafmagni. Hvít skjámynd eyðir t.d. 74 vöttum á meðan svört skjámynd eyðir 59 vöttum. Það mun þó fara eftir aldri tölvuskjáa, á LCD skjáum er munurinn til að mynda hverfandi. Einhverjir spekingar hafa svo reiknað það út að ef Google-umferðin færi um síður í anda Blackle yrði orkusparnaðurinn sem nemur 750 megavöttum á ári. Nei megavött er víst ekki eitthvað sem maður notar ofan á brauð...
Kárahnjúkavirkjun er t.d. 690 MW er mér sagt og hef ég hvorki vitneskju né nægan áhuga til að reyna að rengja það. Á forsíðunni hjá Blackle er svo hægt að sjá hve mörg W hafa sparast nú þegar.

Annað afmælisbarn dagsins er mamma hvarsemer. Einhvern veginn finnst mér í framhaldi af þessum pistli liggja beinast við að "blakkla" afmælisbarninu! Mamma hvarsemer á Blackle.

12. september 2007


Hip hip húrra! Blogger (forlagið sem gefur út þessa síðu) er byrjað að bjóða upp á möguleikann að setja inn víðjó, altso það er ekki lengur þörf á að ljósrita einhverja youtube-tengla inn í pistlana sína, heldur hleður maður bara myndbandi af eigin vali beint inn í bloggpistilinn sinn. Allt innbyggt!

Við fögnum tækninni mjög og það er því með miklu stolti og gleði í hjarta sem Hvarsemer-samsteypan kynnir nýjustu afurð framleiðanda metsöluplötunnar Pípandi ást sem kom út árið 2004, sællar minningar, og seldist í bílförmum. Hér er hann aftur mættur; hinn eini sanni - óviðjafnanlegi - aðeins þetta eina skipti - einungis fáanlegur á BETA-spólu í takmarkaðan tíma - for your eyes only...

PÍP - Trúðurinn sem hann er!!!!
Heimildamynd



Varúð. Viðkvæm lungu gætu gripið andann á lofti eða í versta falli misst hann þegar um það bil 0:18 eru liðnar af myndbandinu.


Persónur og leikendur:

Trúðurinn Píp: Píp

Leikstjóri: Frú Píp
Myndataka: Frú Píp
Leikmynd: Frú Píp
Búningar: Píp
Tónlist: Píp
Lýsing: Frú Sól
Hljóð: Lil Píp & Mini Píp
Dreifing: Internet

Myndin var tekin on lókeisjon á heimili Pip-family.
Misnotkun varðar við lög, ljóð og munnmælavísur.
Engin Píp voru sköðuð eða slösuð á nokkurn hátt við gerð þessarar myndar, utan eins er hrasaði á voveiflegan hátt og þjáist af ekka af alvarlegum stofni í kjölfarið. Málið er í rannsókn.
Þessi mynd var tekin á Canon PowerShotA520 og er sjáanleg í tölvunni yðar fyrir tilstilli Blogger.com og ADSL tengingarinnar yðar.

Hvarsemer-samsteypan ehf.is

MMVII

11. september 2007


Fyrstu dagarnir í vinnunni fóru að miklu leyti í þetta:


Yfirfara pósthólfið og henda!

Spam vinkona mín og Hinir&þessirklúbbar vinir mínir sendu mér mörg þúsund pósta á meðan ég var í burtu. Gott að einhver saknaði mín...

7. september 2007


Það þurfti sko ekki að tilkynna mér með einhverri sjálfbærri fréttatilkynningu í Fréttablaðinu að Maltesers sé ógeð! Hefði getað sagt ykkur það fyrir að löngu síðan að Maltesers er óætt drasl! Ojbarasta!

Það liggur samt við að vitneskjan um örsmáar gúmmíagnir fái það til að hljóma forvitnilegt í mín eyru.

Sjálfboðin innköllun?!?!?!?! Hvað er það? Aldrei heyrt annað eins bull!

Í kjölfar andláts þess síðarnefnda og misskilnings sem hefur breiðst út í framhaldinu, skal því komið á hreint hér og nú að Ingólfur Guðbrandsson og Luciano Pavarotti eru ekki bræður!

Hið rétta er að þeir eru feðgar.

Ingólfur sem kornungur maður ferðaðist alla leið suður á ítölsku rivíeruna á fjórða áratug síðustu aldar og kynntist þar lystisemdum ítalskrar grundar sem og sprunda. Þar með hófst uppbygging þess ferðamálaveldis sem hefur orðið lífsstarf Ingólfs.

Lúsi eins og Ingólfur kallaði hann ku hafa komið undir í þessari fyrstu reisu hins óharnaða ferðamálafrömuðar og voru þeir feðgarnir í mjög góðu sambandi, þó alltaf megi gera betur og er sonurinn syrgður mjög.

Þeir feðgarnir áttu til dæmis alltaf í viðskiptum við hártoppagerð Sigurjóns á Sundlaugarvegi, síðar London, og voru einnig ónýtir mjög ef Ebba hjá Snyrtistofu Ebbu sá sér ekki fært að lita og lagfæra augabrúnir þeirra þegar mikið lá við.

Foreldri ætti aldrei að þurfa að horfa á bak barni sínu og vottar Hvarsemer hlutaðeigandi virðingu sína.

5. september 2007



Þá og nú... 365 dögum og 8 klst. síðar.


Elsku yndið hann Kári minn á afmæli í dag!

Það er altso ár síðan Magna-manían var í gangi - ár síðan ég sá fram á árs "frí" - ár síðan Óli Bjarki var pínulítið kríli (að mér fannst) að byrja í skóla.

Hve tíminn flýgur!

Hér má sjá nokkrar svipmyndir úr partíinu sem Kári hélt fyrir fjölskylduna í kvöld, hann blés á kerti (með smá hjálp), lék sér með dótið, fann sig knúinn til að svara símhringingu sem hann taldi sem vera að fá úr fjarstýringu, spjallaði við fólkið og át kökur en var samt alltaf með hugann við það að vera flottur í skyrtunni og passa að ekki kæmi svo mikið sem ein krumpa á bindið.


Til hamingju sæti!

30. ágúst 2007


Nýr IKEA-bæklingur kominn í hús og í fljótu bragði sýnist mér hann vera ögn siðsamari en í fyrra...

Samanber blaðsíðu 5 í hefti síðasta árs:

Enlarge for penis

25. ágúst 2007


Það er ekki oft sem sjónvarpið nær að dáleiða undirritaða en það gerðist í fyrrakvöld í nokkrar mínútur. Þetta hérna eru einhver sú mesta snilld sem ég hef séð og heyrt lengi og ber eiginlega að hlusta og horfa á í myrkvuðu herbergi, með heyrnartól á eyrum og stækka upp í Fullscreen! Þarna er Daníel Ágúst og Hljómsveit illa á sig kominna lifra og brostinna hjartna að flytja "Earth Died Screaming" eftir Meistara Tom Waits! Nema hvað að þarna kemur Daníel Ágúst manni gjörsamlega í opna skjöldu og sannar það að hann er einhver sá albesti söngvari sem þessi þjóð hefur alið, ef þú spyrð mig! Hann nær þarna í orðsins fyllstu að bregða sér í allra kvikinda líki og rúllar upp lagi sem maður hefði haldið að enginn gæti tekið betur en höfundurinn sjálfur. Já, segi það og skrifa; hann tekur það nánast betur en Herra Waits sjálfur.
Þetta atriði var sýnt í Kastljósinu í fyrrakvöld til að kynna tribute (lotningar, virðingar)-tónleika sem voru haldnir það sama kvöld og ég segi bara and%&$inn sjálfur að hafa ekki lufsast til að kaupa sér miða og drífa sig í staðinn fyrir að röfla heima: "...issss það nær enginn Tom Waits nema hugsanlega mögulega kannski Tom Waits sjálfur...".

Ef Kastljósið hefði nú líka séð sóma sinn í því að sýna þetta atriði daginn fyrir tónleikana en ekki 20 mínútum áður en þeir hófust hefði maður farið og ekki orð um það meir. Ég meina maður er með börn og svona sem maður hleypur bara ekkert út frá! Ha! Tónleikahaldarar* vinsamlegast athugið: í guðanna bænum kynnið tónleikana ykkar voða mikið dagana áður en þeir eru haldnir en ekki sama kvöld. Takk fyrir.

*Á ekki við um Einar Bárðarson. Hann má vinsamlegast hætta að auglýsa sinn horbjóð og hann mætti náðasamlegast snúa sér að annars konar markaðsmálum en að koma á framfæri slæmum og hæfileikalausum tónlistarmönnum og halda með þeim verulega vonda tónleika. Ef sammála, smelltu hér.

Ég var nýbúin að hella upp á kaffi í morgun þegar rafmagnið fór af. Mitt fyrsta verk var að kíkja í rafmagnstöfluna okkar til að athuga hvort rafmagnið væri nokkuð bara farið hjá mér. Ekki gat ég séð að það væri neitt að í minni töflu, verandi rafmagnsséníið sem ég er. Sem betur fer kom rafmagnið svo fljótlega á aftur og þá gat ég lesið á mbl að rafmagnið fór ekki bara af hjá mér. Það virðist hafa farið af öllum heiminum! Víðtækt rafmagnsleysi í meira lagi.

23. ágúst 2007


Ef þú horfir á þetta vídeo verðurðu sennilega ekki hissa á því að búið er að ákveða að planta olíuhreinsunarstöð á þennan stað þar sem þessi akstur átti sér stað.



Það hlýtur að þurfa minnst eina olíuhreinsunarstöð til þess að hreinsa upp mengunina eftir Píp og Broncoinn hans.

Þetta myndband er sem sagt tekið nú í sumar í Hvestu í Arnarfirði þar sem verður að öllum líkindum reist olíuhreinsunarstöð, sem er þá væntanlega Píp að þakka/kenna (helv... píparinn).
Þangað til í sumar fannst mér það hræðilegt að fólki skyldi svo mikið sem detta í hug að setja upp svoleiðis stöð á Íslandi, hvað þá á Vestfjörðum. Sá nefnilega eitt svona skrímsli í Santa Cruz á Tenerife í mars og það var pent orðað viðbjóðsleg sjón með ógeðslegri lykt og svo ljótt og óhuggulegt fyrirbæri að maður andaði léttar yfir því að fólki hefði þó ekki dottið í hug að reisa svoleiðis fyrirbæri á Íslandi ennþá heldur héldi sig bara við minkabú nútímans, álverin.
En í aðdraganda kosninganna í vor fór þessi hugmynd á loft og þá rak mín upp ramakvein... "fyrirgef þeim, þeir vita ei hvað þeir gjöra"...

Svo fórum við vestur í sumar, hrokagikkir að sunnan vön okkar borgarlífstíl og að hafa allt til alls og komast hvert sem er hvenær sem er og allt eins og blómið eina. Þar settumst við niður með vinum okkar þeim Árnýju og Súna og þá duttum við svolítið inn í raunveruleikann og fengum ástand og horfur beint í æð og allt í einu fór maður að hugsa tvisvar. Og af því að mér þykir svo vænt um Vestfirðinga og Vestfirði er ég næstum því (endurtek næstum því) orðin meðmælt þessari verksmiðju.

Fann meira að segja voða sæta og krúttlega mynd af svona hreinsistöð í ægilega huggulegu sólarlagi og engar eldtungur standandi upp úr súlunum eins og á Tenerife og maður finnur enga lykt heldur:


Á samt mjög erfitt með að viðurkenna að ég sé hlynnt þessu því ég vil trúa að við þurfum ekki svona skrímsli til að halda lífi á landsbyggðinni og ættum eins og fleiri siðmenntaðar þjóðir að geta fókuserað meira á menntun og hátækni og ferðamannaiðnað en það er bara svo einfalt fyrir vitleysing að sunnan að segja það og það er orðið að svo brjálæðislegri klisju. Gott dæmi um ástandið á Vestfjörðum er til dæmis Bíldudalur, þar sem býr fólk sem hefur ekkert að gera meirihlutann af árinu og ástandið er svolítið svoleiðis að karlmenn bæjarins eru annars staðar að vinna en konurnar og börnin eru eftir. Svo á að fara að loka einu búðinni í bænum og líka búðinni í Tálknafirði sem er næsti kaupstaður. Þá þarf fólk að fara á Patró að versla og vá hvað það hlýtur að vera hressandi um hávetur að skjótast þangað yfir heiðarnar eftir tómatsósu og mjólk.

Held það væri annars einfaldast til að leysa vandamálin að afhausa þessa kvótkónga út um allt og láta vestfirðingana fá kvótann sinn aftur þannig að þeir megi alla vega bjarga sér sjálfir en ekki bara horfa á fiskinn svamlandi í sjónum. Já og Vestfirðingar mega líka opna augun aðeins fyrir ferðamannastraumnum sem liggur þangað því þar liggur ónýtt auðlind. Fórum einmitt í Selárdal og að Uppsölum í sumar og þar var hellingur af ferðamönnum en enginn hefur hugsað fyrir því að virkja þann straum, til dæmis með því að koma upp einhvers konar þjónustu, rukka vægan aðgangseyri, gera Uppsalabæinn eins og hann var þegar Gísli var og hét og hafa þar safn og svo framvegis.

Það sem mér huggnast samt verst er að þegar maður fer útí Selárdal eða að Uppsölum kemur maður til með að þurfa að keyra fram hjá þessari olíuhreinsistöð ef af verður. Sem er eiginlega hræðileg tilhugsun :/

Fleiri myndir frá Hvestu.

22. ágúst 2007



Þetta byrjaði allt með því að ég ætlaði að kaupa skáp.....

21. ágúst 2007


Á þessari mynd má finna forkunnarfagran karlmann sem fékk okkur til að detta í gamla gelgjugírinn á menningarnótt. Nei aldrei þessu vant er ég ekki að tala um Píp og ekki heldur svilbróðurinn hann Kristján og ekki heldur mágsoninn hann Tómas sem snýr hnakkanum í myndavélina og heldur ekki soninn ÓBG sem snýr líka hnakkanum að okkur.
Nei, þessi varð þess valdandi að við tókum andköf, rifum upp myndavélina, skipuðum Píp að stilla sér upp þannig að ekki mundu vakna grunsemdir. Þarna náði ég á mynd sjálfum Gael García Bernal sem gerði garðinn frægann í Diarios de motocicleta eða Mótorhjóladagbækurnar og lék í Babel og fleiri ræmum. Þarna stendur hann með rauðan hring um sig miðjan og ekki mikið hávaxnari en meðal hobbiti. (smella til að stækka)

En hann má nú eiga það að hann er ægilega sætur...

17. ágúst 2007


Það var tvennt sem vakti hjá mér kátínu við lestur Fréttablaðsins í morgun.
Annars vegar þessi klausa hérna fyrir neðan um nýjustu lausnina á vandamálum sem fylgja skemmtanahaldi í miðbænum eftir miðnætti um helgar. Þessi hugmynd sem hann BIngi fékk er nottla alger snilld og þessi klausa súmmerara hana eitthvað svo skemmtilega upp:

(smella á myndina fyrir stækkun)


það er rétt, ég þarf minnst kassa af bjór til að kaupa þessa hugmynd.

Og svo er það þessi hér:


Hver þarf óvini þegar maður á svona vini?

13. ágúst 2007


Má ég kynna.....


Mr. Pip Simpson

Móðurbróðurafasysturdótturson Hómers í föðurætt.

9. ágúst 2007


Ég er komin aftur... til að segja ykkur að ég er farin aftur! Í detox í Póllandi eftir sukk og svínarí síðustu 2 vikna. Heyrumst eftir helgi.

En eins og ávallt vil ég ekki að ykkur leiðist á meðan kæru lesendur og ætla að deila með ykkur besta tónlistarmyndbandi sem gert hefur verið norðan Alpafjalla. Það má vel vera að allir hafi séð það áður en þetta myndband er hreinlega þess eðlis að það er ekki hægt að horfa of oft á það, alltaf einhverjir skemmtilegir díteilar sem maður rekur augun í við hvert áhorf.

Það er hrein unun á að horfa hvar sem á er litið; vel útfærðir og þaulæfðir dansar fluttir af færustu dönsum sem völ var á og hvergi feilspor að sjá, tæknibrellur sem hafa slegið allt út á sínum tíma, leikmynd sem hefði hæft flóknustu kvikmyndaafrekum þess tíma, lýsingin óaðfinnanleg og að ég tali nú ekki um örugga sviðsframkomu söngvaranna tveggja og listilega saminn lúnkinn texta í limruformi. Þetta er hreint meistaraverk!

Gjörið svo vel og gerið yður þann greiða að horfa á myndbandið allt til enda. Það er þess virði!



Hver segir svo að það sé leiðinlegt að vinna á leigubílastöð þegar maður fær svona símtöl:



Svo vil ég líka bara láta ykkur vita að það eru komnar nýjar myndir frá sumarferð Rembings inn á Flickrið og myndir úr bústaðnum inn á síðuna hans Kára. Tengla á hvort tveggja má finna ef þér hvarflið augunum eilítið til hægri og ef til vill örlítið upp eftir skjánum.
Já ég er haldin einhverri lotugræðgi á Flickrið núna eftir að ég hófst handa við það aftur, enda búin að kolefnisjafna það; borgaði nokkra peninga og má henda inn eins mörgum myndum og mér sýnist! Vei vei.

27. júlí 2007


Jæja - Taka 2! Sumarfríið hans Píps hefst aftur á morgun þar sem frá var horfið og þá erum við farin í bústað í Úthlíð í viku. Manneldisráð og Heilbrigðisstofnun Suðurlands mundu eflaust innsigla bústaðinn ef þau hefðu einhverja hugmynd um hvernig lífsmáta fólk í sumarbústað stundar og við hyggjumst stunda! Usss, nú skal lifað eins og Rómverjarnir forðum, etið, drukkið, svamlað, legið - og endurtekið eftir þörfum.
Þetta er svipuð staða eins og þegar maður er alveg nýbúinn með jólamatinn, þá segir maður alltaf: "Vild'ég væri lögst á koddann, sofnuð, vöknuð aftur og byrjuð að borða aftur."

Á meðan mín er í burtu getið þið dúllurnar mínar orðið vinir mínir á Mæ speis síðunni minni, sem ég reyndar stofnaði fyrir löngu en hef ekkert verið að koma á framfæri. Nú er víst komin einhver ný svona síða, Facebook eða hvað hún heitir þannig að þá er tími til kominn að ég sem er ávallt skrefi á eftir komi út úr skápnum með Mæ speisið mitt. Það er eitthvað svo fátt um vini og comment hjá mér þannig að endilega komið og verið vinir mínir. Koma svo!

Nú eða þá er hægt að skoða myndirnar mínar á Flickr því ég er búin að vera svo dugleg að henda inn eldri myndum - auka við Kaliforníualbúmið og búin að setja inn myndir frá Laugavegsgöngunni fyrr á þessari öld, þegar ég labbaði alveg frá Hlemmi og niður í Bankastræti og hélt ég mundi deyja! Fimmvörðuhálsinn er náttúrulega kominn þarna inn líka.

Eða þið gætuð bara haldið áfram að vinna.

26. júlí 2007


Muniði eftir þessu???:

Iss súkkulaðivax hvað? Ég fór í súkkulaðiNUDD í gær!
Já takk fyrir kærlega! Átti inni svokallaða líkamsmeðferð hjá Baðhúsinu síðan Píp gaf mér dekrið þarna um jólin og þegar mín fór á stúfana að kanna hvað væri í boði þvældust bara einhverjar sjávarleir- og saltmeðferðir eða eitthvað álíka ólystugt fyrir mér, þangað til himnarnir opnuðust og þarna var það tadammmmm..... sakleysislegir svartir stafir sem létu ekki mikið yfir sér á hvítum grunni:
Súkkulaðinudd 50 mín.
Ég hugsaði mig um augnablik... nei ég lýg því, hugsaði mig ekki neitt um heldur pantaði tíma! Ég er fíkill og á kafi í neyslu og þar af leiðandi fannst mér hljóma dásamlega að prófa súkkulaðið líka útvortis.

Nuddarinn notar altso 100% súkkulaði sem hún bræðir og setur svo olíur útí til að það þorni ekki of mikið á húðinni á manni og nuddar mann svo upp úr þessari fögru eðalblöndu. Spurði hana aðeins útí hvað það er sem veldur því að það er byrjað að nudda upp úr súkkulaði og hún svaraði því til, að súkkulaðið væri svo gott fyrir sogæðakerfið og væri líka svo agalega gott fyrir þurra húð.
Enda finn ég að sogæðakerfið gengur hikstalaust og húðin er eins og á rassinum á Kára. Mundi heldur ekki trúa Spö-um (spa=heilsulind) þessa lands til að ætla sér að græða á hinni stjórnlausu súkkulaðiást sem þorri kvenfólks er haldinn.

Ég verð að segja að eftir þessa reynslu langar mig enn meir að sækja um hjá Nóa-Siríusi, ekki bara sem smakkari í þetta skiptið heldur taka líka aukavaktir sem færiband, þar sem nú þekki ég af eigin raun hvernig það er að hafa heitt og ilmandi súkkulaði á sér.

23. júlí 2007


Tvífarar vikunnar



Augun, tennurnar, kinnarnar og að ég tali nú ekki um bindið! Ef Svampur er Sveinsson hlýtur Kári að vera Sveinsson líka.

20. júlí 2007


Komin í bæinn og búin að setja myndir inn á flickr. Þarf varla að segja ferðasöguna þar sem myndirnar lýsa því nokkuð vel hvað við gerðum og hvað við sáum. Reyndar náðist ekki á mynd þegar píp var næstum búinn að keyra á Fálka og svo stuttu seinna á Patrol (næstum sagði ég) og ekki heldur þegar vertinum á Reykjanesi fannst hann þurfa að opna sig aðeins og skellti sér í hlýrabol og leðurbuxur. Þar kom sá settlegi vert á óvart með því að koma svona glæsilega út úr skápnum þrátt fyrir að vera búinn að skanna ættarmótið í árangurslausri leit að einhverjum álíka öfugum enda er enginn hommi í minni ætt. GRÍN.
Talandi um þess háttar fólk, við klikkuðum alveg á að heimsækja TOGITV* á Bíldudal en það er hinn frjálsi Jón Kr. sem rekur hið merka safn: Melódíur minninganna! Gerum það næst.

Hér má sjá leiðina sem við fórum:


*The only gay in the village.

P.s. Ef einhver saknar mynda af fólki þá eru þannig myndir væntanlegar inn á síðuna hans Kára. Flickr er meira svona fyrir stæla.

13. júlí 2007


Píp fjölskyldan er farin í sumarfrí að skoða heiminn*, í krumpugöllum og Crocks-skóm**!

Þar til síðar; adios***!


*vestfirði
**yfir okkar látnu líkama
***sæl að sinni

11. júlí 2007


Sjálfhverfi dagurinn


Dagurinn byrjar á því að ég fer í Efnalaugina Perluna og næ í föt úr hreinsun sem kemur svo í ljós að eru ennþá skítug, þannig að þá er ekkert annað að gera en að fara í Þvottahúsið Perluna og láta þau klára málið. Þau eru hins vegar ekki með hraðþjónustu þannig að þá breyti ég planinu bara aðeins og enda í Versluninni Perlu á Akranesi þar sem ég fæ mér splunkunýtt dress sem er alsett perlum og pallíettum. Að því loknu fer ég og læt mér líða vel á Sólbaðs- og þrekmiðstöðinni Perlu og hugleiði aðeins kaupin á sumarhúsinu á Spáni sem ég er að fara að versla mér í gegnum Perla Investments. Áður en ég fer í klippingu á Hárgreiðslustofunni Perla rétt skýst ég inn á Tannlæknastofuna Perlur þar sem ég átti víst pantaðan tíma. Meðan kallinn klárar að vinna fer ég heim í Perlukór og perla í smá stund og klappa hundinum Perlu og svo liggur leiðin á Veitingahúsið Perluna þar sem snætt er þríréttað. Kvöldinu lýkur svo á leiksýningu hjá leikhópi er kallar sig Perlan. Svo áður en ég sofna les ég Perlur í náttúru Íslands eftir Guðmund Pál Ólafsson með Guðmund Pál Ólafsson mér við hlið.
Þetta var góður dagur!

Öll nafngreind fyrirbæri, fyrirtæki jafnt sem manneskjur, í pistli þessum eru eða hafa verið til í alvörunni og það skal tekið fram að ekkert þeirra var slasað eða farið illa með við gerð þessa pistils.

10. júlí 2007


Veit Togga að hún á sama afmælisdag og Helgi Björns???

Hér má sjá afmælisbörnin gera það sem fer þeim verst...


Fyrir 53 mínútum gerðist það að Togga (eða o?=orgero?= eins og hún heitir í tölvu sem talar ekki íslensku) fyllti 34 ár! Það besta er að þar sem hún er stödd er hún ennþá 33 ára! Njóttu þeirra klukkutíma en samt ennþá meira daganna og áranna sem fylgja í kjölfarið. Til hamingju með afmælið Toggan okkar! Hip hip húrra....


will you still need me will you still feed me
when i'm thirty four....

1. júlí 2007


Ég er handviss um að ef maður borðar heilt baðkar af þessum hérna sé það krabbameinsvaldandi og kólestrólhækkandi í meira lagi. Þess vegna finnst mér rosalega mátulegt að hafa bara borðað einn dunk.

30. júní 2007


Voðalega virðist fólki finnast þessi kolefnisjöfnunar- og kolviðarumræða bara alveg eðlileg og ekkert furðuleg.
Sko þú kaupir bíl og borgar einhverja þúsundkalla í þar til gerðan sjóð til þess að bæta fyrir mengunina af bílnum, það er þú "kolefnisjafnar þig" í eitt ár! Já alveg heilt ár bara! Frábært, þú tætir og tryllir um allt alveg eins og áður af því að þú borgaðir í sjóðinn og mátt það, vei vei... En að breyta hegðuninni og bensíneyðslunni, kaupa kannski metanbíl eða eitthvað; nei kemur ekki til greina!
Þessi sjóður á svo að sjá um að planta birkihríslum víðs vegar og þar með þarftu ekki að leiða hugann meira að mengun næsta árið eða þangað til greiðsluseðillinn fyrir næsta kolefnisjöfnunarárgjaldi dettur inn um lúguna.
Og samviskan orðin svona ægilega fín bara. Og bílaumboðið voða lukkulegt með að bæta ímyndina svona ægilega fínt enda ekkert að missa sig í umhyggju fyrir náttúrunni. Því þá mundu þeir láta hluta sjóðsins renna til skylds átaks, sem væri að borga skógargróðursetjandi skólakrökkum fyrir að strjúka tjöruna, útblástursagnirnar og sorann af laufblöðunum á fínu trjánum sem þeir gróðursettu í fyrra.

Þessi umræða minnir mig á einhvern hátt á aflátsbréfin hans Snorra, syndaaflausn kaþólikkana og fleiri vitleysinga verk.

Og af hverju er ég að skrifa svona leiðinlegan pistil??
Þessi færsla er bara alveg óborganleg!

22. júní 2007

21. júní 2007


Æææææææ.... Honum Eyþóri er ekki meðhjálpandi!

Það sem menn gera ekki til að bæta hriplekt, gott ef ekki ónýtt almenningsálit. Í Jesú nafni...

20. júní 2007


Air voru fínir og settlegir í gærkvöldi. Átti alveg eins von á því að í einn og hálfan tíma mundi maður standa og virða fyrir sér tvo kalla uppi á sviði dunda sér af miklum móð við tölvur, hljóðgervla, míkrafóna með eighties-rafsándi (Kraftwerk-stæl) og fleira en þannig var það nú aldeilis ekki. Þeir mættu með nánast heila hljómsveit, meðal annars trommara, senegalskan á að giska, sem sýndi manni að það er aldeilis meira mál að spila á trommur undir chillaðri raftónlist en maður hefði haldið að forhugsuðu máli.

Air-hausarnir tveir spiluðu líka af fullum krafti, annar hamaðist listilega á ýmis konar bassa og gítara og hinn á orgelum og alls konar græjum sem ég kann ekki að nefna. Prýðistónleikar alveg hreint og metalhausinn hann herra Píp var sáttur þannig að þá voru þeir að standa sig þeir frönsku. Doktor Gunnar Hjálmarsson mætti á staðinn með upptökustaut og hér má heyra snilldarlagsmíðina "La Femme D'argent" sem var lokalokalag, eftir tvö uppklöpp það er. Þetta er ekstra teygð versjón af laginu þar sem einhverrar bilunar varð vart að manni sýndist, ekki það að maður heyrði, heldur virtist eitt orgelið ekki svara pikkinu þegar til var ætlast þannig að lopinn var teygður lítið eitt á meðan orgelið fann sig. Ég veit að doktorinn fyrirgefur mér stuldinn enda er maður ekki að stela þegar maður fær lánað...
Ef hann hins vegar náði upptekinni hinni undursamlegu nútímasinfónísku tónsmíð "Talisman" má hann alveg leyfa mér að fá hana líka.... lánaða það er.

Kynnti til sögunnar hérna um árið æskuheimili Píps í Þykkvabænum. Nú er heimili æsku minnar til sölu. Talsvert breytt þannig að mig langar pínu að skoða. Held maður megi gerast hobbý-skoðari í svona tilfellum.

16. júní 2007


Og hvað gerist þegar hávær pípari fer til Akureyrar?
Nú, það verða læti á Akureyri!

15. júní 2007


Píp farinn til Akureyris yfir helgina og á meðan fyllist borgin af dátum...

Hentugt?

8. júní 2007


Hver er að segja að við getum ekki neitt í fótbolta??? Hér erum við í 1. sæti, 4. sæti og 9. sæti!

7. júní 2007


Tveggja barna faðir í Reykjavík að nafni Dr. Gunni skrifaði færslu á vefsetrið sitt, sem er svo eins og töluð útúr mínum munni að ég tók mér það bessaleyfi að fá hana lánaða með hurðum og gluggum, og áskil mér rétt til þess að birta hana hér. Endurtek; Dr. Gunni® á hana og samdi hana og fær stef-gjöld af henni.

Tilvitnun hefst:

"Eitt hið drephlægilegasta í nútímanum er ofuráhersla og ofuráhugi karla af léttasta skeiði á fótbolta, sérstaklega enskum. Menn kenna sig við lið, og eru fyrst og fremst Liverpool-maður, Chelsea-maður, eða hvað sem það er, frekar en Íslendingur eða faðir. Svo þusa menn um að "við áttum leikinn í gær" eða "þið skituð í ykkur á Anfield". Þetta er bara fallegt finnst mér og ég er löngu hættur að ergja mig að menn hafi svona leiðinleg áhugamál. Svo sem alveg eins gott að menn velkist í þessu þar til þeir hrökkva upp af og er holað niður í kistum í fánalitum Arsenal."

Tilvitnun lokið.

Æ við erum alltaf svo sammála við doktorinn.

6. júní 2007


Eftir katastrófu síðustu aðventu fæ ég lafskás í kvöld!

Eins og þeim er ekki kunnugt um sem ekki þekkja til, er Lafskás matur sem ávallt skal (endursýnt hægt ÁVALLT SKAL) snæddur á aðventunni í beinu framhaldi af laufabrauðs-útskurði. Nánar má lesa um þennan sið í þessari færslu hér.
Sú regla lá eftir mölbrotin á síðustu aðventu þegar fjölskyldan ákvað að skera út laufabrauð helgi eina í sumarbústað í stað tengdóhúss og eins og allir vita er engin hökkuð og soðin lömb að hafa í sveitinni.

En úr því skal bætt í kvöld.

Vegna órjúfanlegra tengsla er mér skapi næst að spyrja, lumar ekki einhver á óútskorinni laufabrauðsköku í frystinum handa mér?

5. júní 2007


Íslenska þjóðin er yndisleg. Í öðru orðinu erum við svo stór og merkileg og best í heimi nottla og áttum að sjálfsögðu að rústa "dvergríkinu" Liechtenstein í fótbolta - og mikið drama í gangi hjá fótboltakverúlöntum þessa lands og uppi háværar kröfur um að þjálfarinn láti sig hverfa hið snarasta, en í hinu þá eigum við fullkomlega erindi á hið merkilega fyrirbæri "Smáþjóðaleikana" til að peppa upp sjálfstraustið með því að vinna voða voða mörg verðlaun og þá þykir allt í einu sjálfsagt að miða okkur við minnstu þjóðirnar.
Stórveldis-dvergríkið Ísland virðist eiga í tilvistarkreppu og í vandræðum með að skilgreina sjálft sig...

Einhvern veginn hélt ég að Ísland væri fjölmennasta þjóðin á þessu blessaða móti, en svona veit maður lítið, enda á heimurinn það til að snúast í kringum manns eigins rass. Við skulum bara útkljá þá umræðu hér og nú og hér má sjá íbúatölur þjóðanna:

Kýpur 766,400( gríski hlutinn) 256,644 (tyrkneski hlutinn),
Svartfjallaland 620,145,
Lúxemborg 455,000,
Malta 404,039,
Ísland 307,261,
Andorra 78,549,
Liechtenstein 35,010,
Mónakó 32,020,
San Maríno 30,368

En ef við sálgreinum þjóðina hérna sem snöggvast held ég að málið sé að innst inni huggnist okkur ekki að vera kölluð dvergríki þar sem við gefum okkur jú út fyrir að vera álfríki!

Uppfært kl. 09.30 þann 06.06.
Svartfjallaland varð aðili að litlulandaíþróttabandalaginu þegar landið öðlaðist sjálfstæði árið 2006 en sendir þrátt fyrir það enga keppendur á mótið í ár. Vefsetrið Hvarsemer biðst afsökunar á þeim leiðu mistökum sem urðu, að hafa bendlað þjóðina við þátttöku á mótinu.

4. júní 2007


Má til að deila með ykkur mjög dónalegri síðu sem ég les gjarnan.
Þessari síðu er haldið úti af lækni í Reykjavík sem af skrifum hans að dæma er lífsnautnamaður hinn mesti, þá sérstaklega hvað varðar mat, þó ég efist ekki um að hann aðhyllist fleiri nautnir þó hann tali ekki um þær hér.
Þetta er síða sem fær hjartað til að slá hraðar, sjáöldrin til þess að þenjast út, munnvatnsframleiðsluna til að ofvirkjast, ásamt fleiri myndrænum frösum úr Freschetta-auglýsingum. Ég á það til að laumast inn í tölvuherbergi eftir miðnætti þegar allir eru sofnaðir og kíkja á hvað læknirinn knái hefur upp á að bjóða það kvöldið og verð öll rjóð og másandi í kjölfarið. Hvernig maðurinn talar um mat og matreiðslu af frámunalegri ástríðu og virðingu fyrir viðfangsefninu er alveg með ólíkindum.

Nýjasta færslan hans slær öllu út! Hélt ég yrði bráðkvödd við lesturinn. Í þessari færslu koma öll eftirfarandi orð fyrir:

Matarorgía, (Hallelúja.... bara kjaftshögg í fyrstu setningu)
350g 70% súkkulaði (það er sagt að myndir jafnist á við 1000 orð en hver þarf myndir þegar þessi orð og tákn eru saman komin)
Béarnaise,
Græðgi,
Toscana,
Chocolate Nemesis,
Súkkulaðidjöfullinn,
Nautainnralæri,
Maldon salt,
Rare,
Súkkulaðikökudeig,
Þeyttur rjómi,
Vanilluís,
Gran Fuedo og Castillo di Diablo rauðvín

og einnig koma við sögu þessir dásamlegu frasar:

"...nema hvað ég tvöfaldaði uppskriftina."
"...og ég er ekkert að grínast með magnið af súkkulaði eða smjöri."

Úff, maður að mínu skapi. Verst að hann er giftur gamalli skólasystur minni. Og ég er í sambandi. Ojæja, það má girnast mat náungans fyrir því.
10 Maríubænir og ég er laus allra mála.

Einhver leiðinda orð eru líka inn á milli, svo sem eins og:

Kaloríur,
Rifsber,
Læknaeiður,
Samviska,
Heilkenni...

...enda væri síðan stranglega bönnuð og stórvarasöm fyrir virka fíkla ef hann hefði ekki ámóta og þvíumlík orð inn á milli!

Nú skil ég hvað hann Steingrímurjoð átti við þegar hann talaði um netlögreglu, svona skrif ættu nefnilega að vera undir eftirliti til að fólk illa haldið af mataræði fari ekki og rústi eldhúsum landsins og örkumli sjálft sig og aðra með óábyrgum og pervertískum matarvenjum!

Nei í alvöru, þetta er náttúrulega bara rugl.

Guð gefi mér æðruleysi.....

29. maí 2007


Hvenær urðu Luke Perry....




....og Georg gírlausi Bush svona líkir?????




Lúki er svo líkur Gogga að hann er næstum líkari Gogga en Goggi sjálfur,
get svo svarið það!

26. maí 2007


Fréttablaðið - föstudaginn 25. maí:


Heyrðu elsku kúturinn minn!
Eigum við ekki bara að byrja á því að passa okkur á LJÓSASTAURUM??? Þú veist þessum háu löngu - oftar en ekki með einhverjum skiltum á, jafnvel er strætóskýli steinsnar í burtu...!
Manstu þarna á Kleppsveginum? Nei þú varst náttúrulega í blakkáti. Ekki það nei?? Já einmitt manstu þetta allt saman... já frelsi einstaklingsins... já einmitt. En passa sig nú, verður að halda þér á beinu brautinni - kjósendurnir eru nú alveg 1 og hálft ár að gleyma! Það er að segja þeir sem eru með alveg svakalega gott minni! Þá er ég að tala um alveg afburðaminni.

Núúúú ertu kominn niðrí 73 kíló???? Frábært, ef þú hefðir verið svo grannur og fínn back then hefðirðu nottla ekki brotið staurinn, heldur hefði hann bara svignað... frábært með þig!!!! Svona rétt eins og þú í mótlætinu - þú brotnar ekki heldur svignar bara!







Æji góði farðu að spila á sellóið aftur bara!

25. maí 2007


Þegar ég kom að syni mínum áðan við þessar aðstæður:


var það fyrsta sem kom upp í hugann þessi mynd:


Sem eiginlega varð til þess að ég mátti til með að búa til aðra mynd í þeim geysivinsæla flokki:

Finndu 5 villur!

24. maí 2007


Sko!
Mér alveg hundleiðist hún Ellý Ármanns. Alveg síðan hún byrjaði að stynja sjónvarpsdagskrána fyrir okkur fyrir nokkrum árum haldandi að hún sé að koma öllum áhorfendum til og ömmu þeirra líka, með sýnar úfnu augabrúnir og tilgerðarlega dræsubros, hef ég ekki þolað hana. En þegar hún skipaði sjálfa sig "íslenska Carrie Bradshaw" og fór að semja einhverjar sögur um ímyndaðar vinkonur sínar og þeirra kynlíf tók nú steininn alveg úr. Hún ætti bara að snúa sér aftur að spádómunum og árulestrinum og augnhimnugreiningunni og DNA-heiluninni eða hvað það var sem hún var viðriðin áður.

Tek það fram að ekki tel ég nú sjálfa mig vera tepru heldur hef ég takmarkaða ánægju af að lesa um örvæntingarfullar tilraunir fráskildra kvenna á fertugsaldri til að lyfta sér aðeins upp eftir erfiða skilnaðinn við leiðinlega manninn og í leit eftir smá breiki frá leiðinlegu börnunum.
Kannski nenni ég því eftir svona 5 ár.

Segi svona.

Annars ku hún hafa verið að unga út barni bara í síðustu viku eða eitthvað en samt virðist hún ekkert hafa að gera annað en að semja þessar sögur sínar. Ætla að vona að hún hafi átt þær á lager og sé bara að pósta einni og einni í senn á milli þess sem hún sinnir þessu nýfædda afkvæmi sínu.

Og af hverju er ég að tjá mig um hana???
Jú það var gaman að lesa Dr. Gunna í morgun. Snillingur er hann.

-----

Rifjaði upp kynnin við hið yndislega fyrirbæri Frappuccino í dag. Hafði ekki fengið mér eitt slíkt síðan í júessoffei bakk in tuttugunúllfimm. Te og kaffi býður upp á svonalagað (eflaust fleiri kaffisjoppur líka) og reyndist drykkurinn hinn besti. Prófaði með karamellu- og heslihnetubragði og það bragðaðist mjög svo vel þó enginn væri rjóminn eins og í henni Ameríku.

Þess vegna verð ég að segja að Mokkakaramellu-frappuccinoið hjá Starbökks eigi enn vinninginn en T&K fær alveg 4 stjörnur af 5 samt. Var það ekki annars Mokkakaramellu-frappuccino sem ég drakk þarna úti... Hmmmmmm man ekki alveg. Jiiii brjóstaþokan enn að plaga mig! Hvernig gat ég gleymt þessu???

23. maí 2007


Þessi frétt er algjörlega mergjuð! Hvernig er svo sem hægt að vera annað en gay þegar maður er bleikur flamingói?

Og fyrst við erum að tala um fréttir þá hélt ég að Píp væri fréttaefnið í þessari frétt. Þetta kom nefnilega fyrir hann um daginn (þ.e.a.s. það sem stendur í fyrirsögninni, ekki allt hitt) en þá var að vísu ekki um að kenna annarlegum efnum heldur flugþreyta. Hann var svo heppinn að vera með mannlegan loftvarnalúður við hliðina á sér sem byrjaði að ýla á hann þegar bíllinn virtist vera við það að renna á næsta bíl fyrir framan. Ef þessi ákveðni loftvarnalúður hefði ekki verið með í för hefði Píp sennilega verið miskilinn sem argasti dópisti og færður á lögreglustöð til yfirheyrslu.
Finndu 5 villur!

14. maí 2007


Ég á tvo syni og fékk ekkert frá þeim á mæðradaginn. Ég skal muna það á næsta sonadegi!

Því hef ég ákveðið að mál sé komið að gera eilítið grín að yngsta meðlimi fjölskyldunnar enda kauði orðinn rúmlega 8 mánaða og þar af leiðandi kominn með nógu harðan skráp og það þróaðan húmor að hann skellir upp úr af minnsta tilefni, og ætti því að geta hlegið að sjálfum sér á eldgamalli mynd síðan hann var lítill.

Þrífarar vikunnar:

3. maí 2007


Til hvers að eyða þúsundum í handfrjálsan???

Og því síður blútúþþ...
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats