30. apríl 2004


Flutningar

Þó það hafi staðið til að flytja í marga mánuði og ég hafi vitað það frá því ég hóf störf hér í minni ástkæru vinnu, þá er ótrúlega ótrúlegt að maður mæti bara ekki hingað á Suðurlandsbrautina meir. Flytjum að vísu ekki langt en engu að síður, á eftir að keyra pínulítið aðra leið í vinnuna, hreiðra um mig á nýjum stað og venjast nýju vinnuaðstöðunni. Nýja húsnæðið er víst svo fínt að við kvenfólkið óttumst að leggjalangar áferðarfagrar ljóskur í vönduðum fötum verði fengnar í okkar stað, allavega eru miklar líkur á að við þurfum að fá okkur fínni föt til að sæma fínheitunum. Þetta er spennandi allt saman og alltaf gaman að breyta um umhverfi.

Siggeir hefur fengið nýtt nafn hérna á hægri kantinum, í stíl við að hann er farinn til sumardvalar erlendis... nánar tiltekið í Vestmannaeyjum. Hann er í því að fljúga með farþega milli Heimaeyjar og Bakka og loxins komin með starf við hæfi. Húrra fyrir því...

Jæja farin að flytja eins og tvö fyrirtæki...
Togga, þú verður að taka þátt í þessu...
Idolstelpan kuldalega, Ardís eða hvað hún heitir, var að gefa út lag og í því hljómar hún alveg eins og Helga Möller. Já það er einmitt það sem heiminn vantar - aðra Helgu Möller! Okkur er borgið.

29. apríl 2004

Er komin með í hendur ákaflega fagra hvíta og græna pappírssnepla sem á stendur , 25. maí í Kaplakrika... Það vill svo skemmtilega til að miðarnir eru númer 88-91 sem eru einmitt árin sem þau voru upp á sitt bezta, eða svona um það bil! Þess má geta að þá var undirrituð á aldrinum 11- 14 ára... Spurning um að maður ætti að fara að huga að því að þroskast og hlusta á það sem er í gangi í músíkinni í dag og hætta að hlusta á Pixies, Kim Wilde, Geira Sæm og þetta eighties-dót. Nei nei segi nú svona, hlusta ekki mikið á eighties sorp en það efast enginn um að Pixies voru miklir brautryðjendur og áhrifavaldar og algjörlega klassísk, en það er ekki hægt að segja um hana Kim kellinguna. Jú Kim Deal.... hún var gítarleikari í Pixies! Jæja... bull á bull ofan. Allavega nú er mig farið að hlakka til... Gaman að sjá hvort þau hafi þetta ennþá í sér. Ef þau flytja Gouge away skammarlaust verður allt í lagi!

28. apríl 2004


Hið síkáta og sísprellandi fyrrum alvald í Mesópótamíu (einnig þekkt sem Írak), sjálfur Saddam Hussein fagnar því í dag að vera orðinn 67 ára! Sem hefur það jú óhjákvæmilega í för með sér að hann er orðinn löggilt gamalmenni! Þrjú skot uppí loft fyrir því... skál... bang!

Nafnið mitt á kínversku!


珍珠

27. apríl 2004


Í dag eru tíu ár síðan aðskilnaðarstefnan (Apartheid) í Suður-Afríku var afnumin með lögum! Huxa sér, einhvernveginn hélt maður að það væru tugir ára síðan það hefði gerst, en það var víst ekki fyrr en um það leyti sem meistari Mandela var látinn laus og hann svo í framhaldinu kjörinn forseti. Man það að sjálfsögðu og fylgdist með því hafandi sungið "Freeeeee.. Nelson Mandeeeela" með kornflexinu síðan á fimmta aldursári (foreldrar pólitískir réttlætissinnar fram í fingurgóma). Allavega til hamingju með daginn allir saman og við skulum vona að fólk hafi getað losað sig við fordómana með þessari litlu aðgerð sem lagasetningin var, og lifi saman í dag í sátt og samlyndi gulir, rauðir og bláir!

Er málið að skrá sig?
Sést hefur keyrandi um götur borgarinnar og nágrannabyggðir forláta Mitsubishi Lancer sjálfrennireið sem er nú svo sem ekkert merkileg nema fyrir þær sakir að númeraplata hennar er svohljóðandi: NY911! Minjagripir með þessum upphafsstöfum og dagsetningu hafa víst selst eins og heitar lummur hjá ákveðnum hópi ameríkana síðan seinni part árs 2001. Er í raun mjög hissa á að eigandi bílsins sé ekki löngu búinn að setja plötuna á ebay eða reyna að koma henni í verð þar sem þessir stafir hafa jú mikið tilfinningalegt, persónulegt og átakanlegt gildi fyrir litlu grey kanana . Ég spái því að ekki síðar en í sumar, þegar stoltur eigandi þessarar ágætu Mitsubishi bifreiðar er í miðjum sunnudagsrúnt í miðbænum með fjölskylduna, eigi einhver túristinn frá Waterbury í Connecticut eða eitthvað álíka eftir að kasta sér á bílinn, brotna saman, signa sig, segja halelúja og bjóða 400.000$ í númeraplötuna á staðnum!

Bara pæling...

26. apríl 2004


Eins og sjá má hér til hægri á þar til gerðum borða eru ekki lengur á þriðja hundrað dagar í afmælið mitt heldur á annað hundrað! Nægur tími til stefnu...
Nú fer að líða að því að þetta hús verði vinnustaðurinn minn:



Verið að kaupa kassa og farið að huga að flutningum þannig að það er nokkuð ljóst að í vændum er feikna fjörug og gefandi vinnuvika! Já og líka helgi...

Eins gott að það verði svo almennilegt opnunarpartí!

25. apríl 2004


Hef oft sagt það, en aldrei á blogginu mínu, að Fell in love with a girl með White Stripes er hlutfallslega besta lag í heimi!! Aðeins 1 mínúta og 50 sekúndur eða 110 sekúndur; en þvíklík og önnur eins snilld samankomin í jafn litlu lagi, svona á að gera hlutina! Hefði sennilega ekki afborið það ef þau hefðu haft það 3 mínútur, svo mikla snilld er ekki á venjulegt fólk leggjandi.

Bali er það heillin

Árshátíðarferð pípfyrirtækisins sem pípið vinnur hjá verður vikuferð til Benidorm 23. - 30. september næstkomandi. Þeir höfðu talað um Kúbu og mín var sko heldur en ekki sátt og sæl með það en hvað svo... Benidorm!?!? Já já hvaða hvaða - pípin segja að þetta sé alveg sami hluturinn; sól, öl og sandur. Einu sinni áður höfum við farið til Benidorm (nánar um það hér) og vorum í það skipti á Levante-ströndinni en í þetta skiptið verður það Costa Blanca-ströndin. Þær eru nú svo sem ekkert ósvipaðar held ég, 104 hæða hótel á hægri hönd og 128 hæða hótel á vinstri hönd og fullir bretar algengari en moskítóflugur! Bara alveg eins og á Kúbu!! Meðalhitastig í september mánuði ku vera rúm 25 stig og meðalaldur 74 ár. Í þessari Spánarför okkar árið 2000 vorum við nefnilega frædd um það að á vorin og haustin flykkist heldri borgarar í tonnatali á staðinn því þá er ekki jafn auknarlíkuráhjartaáfalli-heitt, semsagt maður verður ekki þarna eins og hundur með tunguna lafandi en fínt samt.

Hótelið sem við verðum á er merkilegt fyrir þær sakir að fararstjórarnir síðast kölluðu það alltaf Mafíu-hótelið! Það mun hafa verið af því að það hafði verið fleiri fleiri ár í byggingu og staðið autt í fjölda ára og stóð autt þegar við vorum þarna, þannig að kenningin var sú að rússneskir mafíósar hefðu verið með einhvernskonar peningaþvott í gangi...
Hér má sjá hvernig það lítur út: (er ekki frá því að það hafi farið með lítið hlutverk í Lord of the rings...)

Hótel í Lord of the rings stíl! :)

Þeim sem sagt tókst að opna það fyrir tveim árum síðan og það ku vera svona ægilega fínt bara, eins og lesa má um hér. Svo heitir það þar auki Bali þannig að ætli ég segi ekki bara að ég sé að fara til Bali... það hljómar miklu meira spennandi.

23. apríl 2004


Kill Brill

Úff hvað veðrið í gær var æðislegt! Við litli píp gengum af okkur herðablöðin þegar við röltum þennan smábæ okkar endanna á milli, kíktum á róló og í bakaríið og svona skemmtilegheit. Og harka í þeim stutta að láta múttu draga sig svona útum allt kerrulausan og allslausan í 3 klukkutíma. Hann neitaði því alltaf að vera orðinn þreyttur eða lúinn en þegar við komum heim var hans annað verk að sofna ofan í kleinuhringinn sinn. Svo fór litli til ömmu og afa á Bergó meðan við skötuhjúin kíktum í bíó á hina makalausu snilld Kill Bill Vol. 2. Get ekki annað sagt en að hún hafi staðið fyllilega undir væntingum og rúmlega það. Þessar tvær ræmur eru með því frábærasta sem varpað hefur verið á hvíta tjaldið fyrr og síðar. punktur. Æðigæði! Svo var ekki verra að ein leikkona í veigamiklu hlutverki í myndinni heitir Perla Haney-Jardine!! Ég hoppaði upp úr sætinu mínu þegar ég rak augun í það í lok myndarinnar. Nógu sjaldgæft að rekast á nöfnu sína í daglega lífinu, en að vita að þetta nafn sé til í útlöndum líka og að kvikmyndastjörnur geti borið það gefur manni alveg nýja von. Svona er maður sjálfhverfur... Allavega myndin var algjört Kill Brill, frábær! Svínvirkar að horfa á Vol. 1 kvöldið áður til að maður sé með hana ferska í minninu.

Eftir nákvæmlega 5 mánuði verð ég á Spáni, meir um það síðar!

Ætla að koma mér heim úr vinnunni og komast í helgargírinn. Talandi um það, þessi dagur var eins og mánudagur og föstudagur í einum degi! Verandi vinnudagur eftir frídag og síðsti dagur fyrir helgi. Merkilegt hvað þessir vinnudagar þurfa að slíta í sundur vikuna fyrir manni.

21. apríl 2004


Átakið mitt er orðið át-tak! Veit ekki alveg hvað er að gerast í hausnum mínum um þessar mundir en það virðist vera þannig að aukin hreyfing gefi mér betri samvisku til að gúffa í mig ennþá meiri óhollustu og þvíumlíku. Það er eins og undirmeðvitundin sé búin að sannfæra sjálfa mig um að: "þú ert að hreyfa þig helling stelpa... borðaðu meiri sykur og sætindi, þú mátt það víst!" Þannig að ef eitthvað er þyngist ég bara! Einfaldast er að gefa sér að það sé vegna þess að vöðvarnir hafi massast svo upp eða eitthvað álíka, jú það er svona einna líklegasta skýringin, segjum það bara. Í dag tók ég til dæmis upp á því að fá alla í vinnunni minni til að panta borgara á Vitabar þannig að núna áðan í hádeginu sátum við öll inní eldhúsi og skófluðum í okkur borgurum (Gleymérei, gráðostur og salsasósa..amminamm) og drukkum gos. Þetta réttlætti ég með því að í dag er síðasti vetrardagur og síðasti séns til að safna á sig vetrarfitu til að manni verði ekki kalt! Frá og með morgundeginum ætla ég svo að taka upp sumarlífstílinn og vera meira úti og borða meira gras!

Opinberlega er semsagt komið sumar á morgun og veturinn er að pakka niður í þessum töluðu... Ef það er ekki tilefni til að fagna þá veit ég ekki hvað! Hmm.. hvað á maður að finna sér að gera...?

Stóri frumsýningardagurinn runninn upp!




Verð samt ekki á frumsýningunni sko... pípið kemst ekki og ég ætla líka að leigja vol. 1 áður til að hafa hana ferska... Spurning með um helgina að leigja myndina að deginum og kikka í bíóið um kvöldið. Já það hljómar eins og áætlun. Annars ættu kvikmyndahúsaeigendur að sjá sóma sinn í því að sýna þær báðar bara, maraþonbíó takk!


Þessi mynd lýsir ágætlega hvernig dagarnir eru hjá mér í vinnunni þessa dagana... ég er semsagt þessi við skrifborðið, skulum hafa það alveg á hreinu... verkefnin hlaaaaðast upp! Eða sko ég er þessi við skrifborðið en er samt með bros hins karlsins... Þýðir ekkert að vera með fýlusvip sko, bara tvennt að gera í stöðunni: hlæja eða gráta og að sjálfsögðu er miklu skemmtilegra að hlæja.

Sjálfshjálpin og heilaþvotturinn alveg að fara með mig...

20. apríl 2004


Nú er ég komin á nýjan dömubíl. Er ekki lengur á ryðgaða, bensíngráðuga, skítuga og illa lyktandi jeppanum heldur er ég komin á hinn yndislega fallega, hreina, vel lyktandi fyrrverandi píp-vinnubíl, Mazda 323 einnig þekkt sem Ída (tilvísun í númerið sem byrjar á ID). Hún er lítil og blá með rauðan rass (afturhlera) og getur, ef maður er í þannig ástandi og þannig þenkjandi, minnt mann á æðstastrump. Allavega minnir hún mig á hann. Tók hana í gegn á sunnudaginn, ryksugaði (pípið sá um það reyndar), skrúbbaði og þreif og hengdi vellyktandi höfrung á spegilinn þannig að nú er hún svo sæt að ég er farin að hljóma hálf síkópatísk hérna í þessari bílahrifningu minni. Bara verst með áhrifin sem þessi netti og léttleikandi bíll hefur á mig... ég er alltaf komin yfir hundrað hlustandi á eitthvað ræflarokk, hann einhvern veginn kemur manni í svona skemmtilega hráa stemmningu, spurning hvenær löggan ákveður að hafa hendur í hári okkar Ídu....

Fengum nýjan barnastól á leigu frá VÍS þannig að litli píp er í góðum málum afturí hjá mér. Reyndar verður hann eitthvað veruleikafyrrtur í nýja stólnum virðist vera, vorum að keyra á leikskólann í morgun og það var maður að labba upp brekkuna heima þar sem við vorum að keyra og heyrðist þá í litla píp að við ættum að keyra yfir manninn og svo þegar við keyrðum fram hjá blessuðum manninum heyrðist í litla: "Æ hittum hann ekki". Ég ætti náttúrulega ekki að segja nokkrum manni frá þessu en fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér þá hefur hann þetta úr föðurættinni, alveg klárt mál! Á mínu heimili var ekki einu sinni til bíll þegar ég var að alast upp, já já verndað umhverfi og aldrei hefði ég sjálf látið mér detta svona nokkuð í hug! Pabbi hans hins vegar... ja við skulum ekki segja að hann dundi sér við að keyra yfir fólk, en allavega... barnið hefur ekki svona hugsanagang frá mömmu sinni!!! Átakanlegt annars að hlusta á þetta úr munni 3 ára barns, spurning með hvort Bubbi byggir sé að aðhafast eitthvað svona sem barnið sé að éta upp. Maður er hvergi óhultur þegar barnauppeldi er annars vegar!

19. apríl 2004


Jæja krakkar... Þó þið nennið ekki að kommenta og skrifa í gestabókina, finnst ykkur örugglega rosalega gaman að syngja og nú skulum við taka lagið saman... kominn tími á smá Karaoke! Smelltu hérna og hækkaðu vel í hátölurunum þínum og gaulaðu svo með eins og þér einni/einum er lagið. Allir saman nú
Mér hefur áskotnast rafknúið, sjálfvirkt, stafrænt og tölvustýrt ranímosk!

Brassarnir sem hafa ekkert annað að gera en að hanga í tölvunum sínum í þessu ógeðisveðri og norðangarra sem í Brasilíu er, eru komnir á teljaralistann minn...
Hópþrýstingur lögfæðinga og forstjóra fékk mig til að setja nafn mitt á undirskriftalista til stuðnings Ólafi Ragnari Grímssyni, til - að mig minnir - gott ef ekki var - forsetakjörs á komandi sumri. Mér finnst Snorri samt eiga miklu flottari jakkaföt...
Atómljóð að handan

Samvizka heimsins logar í þyrnirunni
en þyrnarnir geta ekki brunnið
einungis rósirnar

Þar hafiði það.
Ég er að huxa um að blogga í atómstíl í dag. Spurning um að rifja upp einhver atómljóð svona í leiðinni...
Smelltu hér! Deeem, tölvudrasl!
R.I.P
Nýjasta tækni og vísindi
1967-2004

18. apríl 2004



You're Spain!

You like rain on the plain, as well as interesting architecture and a diverse number of races and religions. You like to explore a lot, but sailing, especially in large groups, never really seems to work out for you. Beware of pirates and dictators bearing bombs.  And for heavens' sake, stop running around bulls!
It's just not safe!


Take the Country Quiz

Barnavæn helgi

Svakalega er maður orðinn fjölskylduvænn! Barnaafmæli í gær, Andri Freyr Sólarsala-snillingur orðinn 1 árs, svo um kvöldið kúrði öll familían sig í sófanum og horfði á Konung ljónanna 3 og hámaði í sig páskaegg og í dag erum við að fara á Línu Langsokk með einkasoninn. Hann ætti ekki að geta kvartað undan sinnuleysi foreldra sinna, blessaður.

Syngur hástöfum núna, og einnig fyrir ömmu og afa um daginn:

Afi minn og amma mín,
voru úti að hjóla.
Afi datt í drullupoll,
og amma fór að spóla.

Vakti mikla kátínu...

16. apríl 2004


Bandaríski klámiðnaðurinn í uppnámi!!!
Tvær kempur komnar með alnæmi. Öllu lokað í tvo mánuði. Tugmilljón dollara tap. Myndatökum frestað svo fylgjast megi með heilsufari og hugsanlegri sýkingu tuga mótleikara hinna sýktu.

Almáttugur! Vírusar, sýkingar og sjúkdómar að fara með mannkynið.

mbl.is: Um 45 leikarar sem komist hafa í snertingu við James og Roxx undanfarnar vikur eru nú í einangrun og verður dráttur á að þeir fái að taka upp við fyrri iðju uns staðfest þykir að þeir séu ekki sýktir.

Skemmtilegt orðalag.

Gláppistill

Talaði ég ekki eitthvað um að gagnrýni á mynd gærkvöldsins kæmi í dag? Látum okkur nú sjá...gengum í salinn við dynjandi tóna snilldarverksins Misirlou úr Pulp Fiction og þar á eftir kom flutningabíll með tengivagni (trailer) úr Kill Bill Vol. 2 undirritaðri til mikillar gleði (frumsýnd 21.4) og ofan á það ræddum við Siggeir um það í hálfleik að láta gamlan draum okkar beggja rætast og kíkja til New Orleans, jafnvel á Mardi Gras Festivalið, svona við tækifæri (næst 8. febrúar 2005)! Prýðileg bíóferð alveg hreint. Myndin sjálf...?!?!? ja hmm.. hlaupið á hana ef þið hafið fetish fyrir réttardrama! Nei nei, allt í lagi ræma alveg, John Cusack hefur nú ekki þótt neitt sorp hingað til þannig að það var alveg á hana horfandi blessaða.

Talandi um gláp... Nú eru einu sitcom-þættirnir sem maður horfir á að syngja sitt síðasta, Sex And The City verður bara horfið frá manni í næsta mánuði *grenjsnít* og kveðja væntanlega með dauða Samönthu (ekki segja mér hvort þetta sé rétt instinct hjá mér Togga!) og Friends einhverntíman fljótlega, gerir minna til... voru orðin þreytt og miðaldra fyrir 4 árum. Office kominn og farinn, en Will & Grace eru vonandi ekki að fara neitt! Hef ekki hugmynd um það en þau mega bara ekki fara neitt! Please take care of my daughter for me. Love, Lucifer (fæðingarvottorð Karenar). Hvað hefði maður þá? 419 "gaman"seríur um vísitölufjölskyldur sem innihalda meðal annars ófríða lata feita bjórþambandi heimilisfeður og þeirra gorgeous heimavinnandi eiginkonur og fjalla um baráttuna þeirra á milli... zzzzzzzzzzzzz úff. Ekki skilja mig eftir með svoleiðis sjónvarpsefni... Simpson's er þó undantekningin frá reglunni. Kannski er þetta spurning um að ég finni mér eitthvað annað við lífið að gera en að eyða fögrum sumarkvöldum fyrir framan imbakassann. Skulum athuga það í sumar... svona þegar styttir upp.

Hvað var svo í sjónvarpinu áðan?!? American Idol með Quentin Tarantino sem gestadómara! Hljómar pínulítið eins og "Maður er nefndur" með Weird Al Yankovic, eða að drekka bjór með kotasælu! Allavega hann stóð sig ágætlega held ég bara... hakkaði ógeðislögin í sig en hefði samt mátt sýna smá meiri hroka svona í bland, það hefði nú verið hressandi. Einhver gella þarna tók Summertime, hún hefur séð það í íslenska ædolinu að það getur ekki annað en boðað gott að taka þá fögru melódíu... ætti að geta fleygt manni í vinningssæti.

Ég spurði barnið mitt áðan hvort ég mætti setja á hann bleyju og klæða hann í samfesting. Hann sagði nei!
Afhverju ertu að ota getnaðarvörnunum svona að mér Píp?


15. apríl 2004

Kviðdæmendur á flótta...


Áðan hringdi kúnni, sem telst svosem ekki til tíðinda, nema hvað, hann átti ekki til orð yfir hvað þetta væri nú einstakur vinnustaður, einu kvenkynsverurnar á svæðinu heita Perla og Fríður! Svo ævintýraleg nöfn að það hálfa væri nóg fannst honum. Var ekki búin að gera mér grein fyrir þessu sjálf...

Bíó í kvöld í boði uppáhaldsins okkar allra, Bylgjunnar , eða réttara sagt í boði Halla sem er jú starfsmaður á Bylgjunni og leigir skrifstofu hjá okkur. Nóg um það... myndin sem um ræðir heitir Runaway Jury og státar af leikurum á borð við John Cusack og Dustin Hoffman og fleira ágætisliði en um það bil fleira veit ég ekki, nema jú hún er gerð eftir sögu John Grisham sem reyndar boðar varla gott er það nokkuð... Jæja, kemur í ljós, frítt í bíó, maður mætir, gagnrýni á morgun!

14. apríl 2004


Í kvöld ætlar uppáhaldssjónvarpscockurinn okkar allra að bjóða
vaxtarræktarvinum sínum í mat. Hvernig skyldi matseðillinn þar hljóma?
Í forrétt verða léttmaríneruð séralin steikt vöðvatröllaeistu ræktuð í Finnlandi, Sterafylltir kálfavöðvar (medium rare) í aðalrétt með aflitaðri sósu og grænmeti, og í eftirrétt verða bekkpressaðir prótínhnakkar með brúnkukremssírópi! Má ekki vera að þessu blaðri, farin að horfa. Verði öllum að góðu...!

Gestabók

Ekki nóg með að fólk eigi að tjá sig í commentunum, heldur er hér líka komin þessi ægilega fína innbyggða gestabók á hægri helminginn. Endilega þið sem rambið inn á þessa síðu og nennið ekki að commenta á bullið, skráið ykkur bara í gestabókina og segið eitthvað sniðugt. Ægilega gagnvirkt og fínt allt saman

My precious PC

Nú er IP: 213.176.135.XXX (einnig þekkt sem lufsuheimilistalvan mín) komin í þetta líka feikna form. Hún var orðin mjög hægfara, hundleiðinleg og fraus í tíma og ótíma. Náði að vírusskanna hana og rúllaði scan disc á báðum drifum og defragment-aði svo allt heila klabbið. Svona til að kóróna þetta allt saman intercut-aði ég supersave-ið þannig að nú er litla píslin mín orðin að algjöru tryllitæki... allavega leyfi henni að halda að það til að hún fari ekki að vera vond við mig. Allt annað að vinna á henni núna, tekur sennilega ekki nema 30 sek. fyrir hana að opna mbl í staðinn fyrir 2 mínútur áður, þvílíkur árangur. Svona er þetta, maður verður að sinna þessum greyjum af alúð til að þau öðlist sjálfstraust og orku í að halda sambandi manns við alheiminn gangandi.

13. apríl 2004

Bölv og ragn


Síðustu færslur hafa verið svo kristilegar að mig langar að blóta rækilega... afgreiði það hér með að hætti Andrésar Andar: and%&$!/*, fja&%$* og he&%$#is.

Takk fyrir.

Hósanna-Hallelúja-Amen... Páskarnir afgreiddir



Til að ljúka páskunum á almennilegan hátt horfðum við skötuhjúin á Ésús Krist Ofurstjörnu í gær okkur til mikillar ánægju, pípið í fyrsta skipti en ég í veitekkihvaða skipti. Á mínum yngri árum þegar ég gekk í hinn fornfræga Austurbæjarskóla, sá ég hana í fyrsta, annað og ef ekki í þriðja skiptið líka, í eðlisfræðitímum takkfyrirkærlega! Ef einhver mundi spyrja mig útí eitthvað er viðkemur eðlisfræði mundi ég sennilega ekki vita neitt (hvort er léttara kíló af fiður eða kíló af múrsteinum...hmmmm....) en hins vegar kann ég áramótaskaupin 1981-1985 utan að þar sem við horfðum vanalega á þau og jú The Man with One Red Shoe horfðum við nokkrum sinnum á í tímunum, nema eins og áður segir, á páskum þá horfðum við á JCS svona upp á hátíðleikann að gera. Örugglega hellings eðlisfræði í upprisunni svosem. Eðlisfræðikennarinn hinn ágæti var sem sagt ekkert of mikið fyrir að kenna okkur í tímunum en þegar maður lítur til baka er þetta algjörlega ómetanlegt að hafa fengið að sjá áramótaskaupin frá þessum árum svona oft! Hvar hefði maður annars haft tækifæri til að sjá þau???

Allavega myndin er alveg stórskemmtileg, fyrst og fremst fyrir þessa snilldarmúsík sem í henni er (segir manneskja sem er annars ekki mikið fyrir söngleiki og hvað þá Andrew Lloyd Webber..) og ekki er lúkkið að skemma fyrir, hermennirnir í fjólubláum hlýrabolum, Júdas er svartur í bleikum hippagalla með diskóívafi, dansatriðin í Fame-stíl og þar fram eftir götunum. En Jesú garmurinn í sínum hvíta kufli, aldrei er hann poppaður upp ræfillinn, hvers eiga heilagir menn að gjalda? En engu að síður, mæli með myndinni fyrir alla, örugglega meira hressandi en pyntingarmyndin sem nú er í bíóunum, sem btw mig langar að sjá... hver vill koma með mér?

Toggita

Nú ætla ég að kynna til sögunnar hérna á hægri kantinum hina óviðjafnanlega frábæru og frámunalega fersku Toggu pípsystur sem búsett er í Kaliforníu hinni hlýju og sólríku og færir okkur sólbrenndar og síkátar fregnir á hverjum degi. Kannið það nánar ef ykkur langar að lesa um svaðilfarir hennar í "landi hinna frjálsu og hugrökku"... HAHH það væri þá!

11. apríl 2004

Hugvekja


Nú er páskadagsmorgunn runnin upp bjartur og fagur og við litla fjölskyldan fögnum upprisu Krists með því að innbyrða 1.335 grömm af eðal súkkulaði, sem undirrituð er nota bene búin að horfa á upp í hillu í 10 daga... og tekist að láta í friði! Súkkulaðifíkill hvað?!?! Guði gefi mér æðruleysi til að... o. s. fr.v...

Málshátturinn minn hljóðaði svo: Allt orkar tvímælis þá er gert er (úr Njáls sögu).

Hátíðarinnar vegna kíkti ég aðeins á Passíusálmana til að þetta sé nú ekki bara súkkulaðihátíð hjá manni. Þeir eru bara nokkuð hressandi:

Þurfamaður ert þú, mín sál,
þiggur af drottni sérhvert mál,
fæðu þína og fóstrið allt.
Fyrir það honum þakka skalt.

Lífið manns hratt fram hleypur,
hafandi öngva bið,
í dauðans grimmar greipur,
gröfin tekur þá við.
Allrar veraldar vegur
víkur að sama punkt,
fetar þann fús sem tregur,
hvort fellur létt eða þungt.

Nú var mikið talað um í sambandi við kvikmyndina The Passion Of The Christ að hún dragi upp neikvæða mynd af gyðingum og ali jafnvel á gyðingahatri. Passíusálmarnir gæti líka verið sakaðir um það sýnist mér:

Gyðinga hörð var heiftin beisk,
hjartans blindleiki og villan treisk.
Þeim kunni ei nægjast kvöl og bann,
sem Kristur fann.
Líka dauðan þeir lasta hann.

og

Gyðingar vildu veita rýrð
vors lausnara upprisu dýrð.

Gæti ekki bara verið að þeir hafi eitthvað á samviskunni greyin...

Jæja ekki missa sig í trúarofstæki, ef það er nóg af einhverju í heiminum þá er það einmitt það!

Látum Súkkulaðiálagabænina fylgja í lokin, hún er að vísu á engilsaxnesku en góð er hún samt:

A Spell for Chocoholics

Milk and Plain and even White
Are Chocolates I love to bite
And as I need an everlasting supply
To this Magical Spell I apply.
Give me an endless flowing stock
Of my favourite bars of choc
And whilst I'm committing this feasting sin
Keep me gorgeous and incredibly thin.

Amen

Abu vinur okkar kominn í hóp lesenda. Teljarinn: 11 April 10:27 India (satyam.net.in)

Gleðilega páska allir saman!



Ég ætla að biðja ykkur um að misskilja þessa mynd ekki. Súkkulaði er ekki skaðlegt! Það skaðar ekki heyrnina á nokkurn hátt! Þessi mynd er bara saklaust spaug!
Ég las í blaðinu í dag að gerð hefur verið vísindaleg könnun sem leiddi í ljós að súkkulaði hefur góð áhrif á fóstur í móðurkviði. Það er talað um að konur sem bryðja súkkulaði daglega eignist hamingjusamari börn en hinar. Efni í súkkulaði vekja vellíðan hjá fóstrinu og það leiðir til þess að eftir fæðingu hlæja börnin og brosa meir en ella. Ég er ekki að skálda þetta, það voru 300 konur og börn þeirra í Helsinki sem tóku þátt í könnuninni. Ég hefði nú alveg viljað vera þátttakandi í þessari könnun fyrir 4 árum eða svo...

Reyndar hefðu þeir ekki þurft að gera þessa könnun í fyrsta lagi... litli píp er lifandi sönnun þess að súkkulaðimötuð fóstur verða að hamingjusömum börnum!



Og ef einhver var að velta fyrir sér hvaðan páskaeggin koma...


10. apríl 2004

Föstudagurinn langi...


...varð langur eins og hann ber jú nafn til. Jeppaklúbburinn Rembingur lét ekki síðustu háskaferð slá sig útaf laginu og brá undir sig betri dekkjunum og hélt í páskaferð upp á Mýrdalsjökul og ferðinni var einnig heitið upp á Eyjafjallajökul. Vöknuðum á mjög ókristilegum tíma á þessum annars mjög svo kristilega degi.. kl. 7! Tek vanalega ekki annað í mál en að fá að sofa til 7.30! Og þá erum við að tala um á vinnudegi. Allavega... litli píp fór til ömmu og afa og söfnuðumst svo saman 10 jeppar, með 24 manneskjur innanborðs og einn hund, við Rauðavatn og brunuðum austur eftir. Bílaflotinn samanstóð af 2 Súkkum, 4 4runnerum, 1 Grand Looser - Land Cruiser, 1 GMC, 1 Nissan Patrol og 1 Rocky - Daihatsu (svona fyrir ykkur nördana að vita). Veðrið frábært og allir í góðum gírkassa. Strax á Selfossi blasti Eyjafjallajökull við og við hugsuðum okkur gott til glóðarinnar. Fórum upp á Mýrdalsjökul frá Sólheimahjáleigu og keyrðum upp að skálanum við jökulröndina. Vorum bara heppin að komast á jökulinn miðað við jeppa- og snjósleðafjöldann sem var þarna samankominn. Hvað þetta ágæta fólk þarf að vera þvælast upp á jökli á svona góðviðrisdegi veit ég ekki...

Spændum aðeins aðeins um jökulinn og nutum blíðunnar og útsýnisins. Ætluðum svo að bruna yfir Fimmvörðuháls og upp á Eyjafjallajökul en á hálsinum var komið leiðinda skyggni og ekkert allt of gott færi þannig að við eiginlega hættum við að fara þar upp í þetta skiptið, enda ber Rembingur nafn með rentu og er bara á 33" og 35" til að þurfa að komast þetta á rembingnum, sem við gerðum sem sagt ekki í þetta skiptið heldur ætluðum að kíkja upp á Hábungu og fleira sniðugt. Skyggnið var þá orðið frekar hvítt á jöklinum þannig að við dóluðum okkur bara niður á við aftur. Gústi affelgaði, karlkyns ferðalöngum til mikillar ánægju... loftkúturinn dreginn fram og öllu reddað á mettíma.

Niðri við skálann affelgaði annar og sprakk hjá einum þannig að testesterónið sauðbullaði þarna á gaurunum meðan kvensurnar borðuðu súkkulaði. Allir ánægðir. Þegar þarna var komið við sögu var klukkan bara 5 og hálfur dagurinn eftir... þannig að við héldum niður á sandana til að tæta aðeins um og já, finna einhverja flugvél sem þarna átti að vera... aha...jájá. Þar vildi svo ægilega vel til að Jökulsá rann eftir sandinum til sjávar og... jú að sjálfsögðu hlaut flugvélin að vera hinumegin! Og fólk, við skulum bara kíkja yfir þessa straumþungu jökulá til að kanna þetta aðeins betur. Og hvað... lentum við í vandræðum? Af og frá, það að festa bíl við árbakkann og þurfa að draga hann upp ekki seinna en áðan til að hann fari ekki í ána er sko ekki vandi fyrir Jeppaklúbbinn Rembing.

En að einn af 4runner-unum dræpi á sér útí miðri á og tæki að berast með straumnum niður eftir gæti jú flokkast undir vanda, kellingunum fannst það allavega. Við sem sagt lukum þessari annars góðu ferð á svolítið dramatískan hátt, þegar pípið þurfti að fórna hárgreiðslunni og fleygja sér í ána til að koma reipi í jeppann áður en mjög illa færi. En allt fór vel að lokum sem betur fer og allir heilir, fyrir utan vélina í umræddum 4runner, þó þetta atvik hefði tekið á taugarnar meðan á því stóð.

8. apríl 2004

D a m i e n R i c e



Tónleikarnir með Damien Rice sem ég aulaðist til að missa af um daginn, sællar minningar, voru spilaðir núna áðan á Rás 2. Það er aðeins til að lina þjáningarnar að hafa fengið að heyra tónleikana, eftir að hafa heyrt útum allt að magnaðri tónleikar hefðu varla verið haldnir á þessu skeri okkar... þó ekki væri nema hlutfallslega séð - maður og gítar... síðan almáttugur má vita hvenær. Pípin bæði voru úti þannig að ég stillti græjurnar óhóflega hátt, lagðist upp í sófa og naut alls sem fyrir eyrun bar. Ef maður lokaði augunum var maður kominn niður á Nasa, fyrir utan bjórinn (hreinn aumingjaskapur að fá sér ekki eins og hálfan öl...) og sígarettureykinn (hann má sjálfsagt fá á spreybrúsa einhversstaðar en það varðar mig ekkert um).

Ég segi nú ekki annað en að það er eins gott að ég var ekki á staðnum; ég hefði farið upp á svið og beðið Damiens... hvernig er hægt að standast þennan mann? Röddin, krafturinn, næmnin, hlýjan og síðast en ekki síst... hinn ómótstæðilegi írski hreimur og allt hitt.. múzikin nottla... úff. Allavega lengi lifi Rás 2.. ef ekki væri fyrir þá hefði ég aldrei fengið að heyra tónleikana.

Af gefnu tilefni langar mig að taka fram að jafnréttislögin eru ekki barn síns tíma! Björn Bjarnason er barn síns tíma!
Alsberi kokkurinn Jamie Oliver brenndi á sér sprellann þegar hann var að elda fyrir konuna sína að morgni Valentínusardagsins. Ef þetta er ekki falleg ástarsaga þá veit ég ekki hvað...!

7. apríl 2004

Frétt af netinu

Blöðruselur heillar vegfarendur.
Skrímsli hefur gert sig heimakomið... rétt norðan við Borgarnes er blöðruselur sem heimamenn og lögregla áætla að sé 200 til 300 kílóa þungur og ekki árennilegur þar sem hann þenur út blöðruna og hvæsir að hverjum þeim sem reynir að nálgast hann.


Fyrir þá sem ekki vita; Blöðruselur er fyrirbæri sem er náskylt öðru kvikindi er nefnist Bjöllusauður!

GLEÐILEGT PÁSKAFRÍ!


Athyglisvert

Vissuð þið að líkt og Dr.scient.ing þýðir Doktor í verkfræði, þá þýðir Dr.Phil - Doktor í sálfræði!

Rosalega er Dr. Phil heppinn að heita Phil. Skyldi þetta vera tilviljun ein? Ætli hann kalli sig ef til vill eftir gráðunni eða er hann kannski það góður að gráðan var nefnd eftir honum?! Efast nú um það en þetta allavega finnst mér rosa sniðugt.

Háskapáskar

Jæja, páskarnir framundan og tóm hamingja. Alveg er unaðsleg tilfinning að eiga núna 5 frídaga framundan sem eru í þokkabót um það bil ekki neitt planaðir, þannig að þeir verða bara spilaðir af fingrum fram eeen fyrst og fremst mun ég einbeita mér að því að hafa það gott með minni fjölskyldu... hvar sem maður endar eða hvað svo sem maður gerir.

Eitt hefur þó fengist staðfest að vér munum gera; á páskadag hefur okkur verið boðið til hátíðarkvöldverðar með tengdafjölskyldunni sem er einmitt hérna samankomin á góðri stundu á Jónsmessunni fyrir 2 árum:

Efri röð frá vinstri: mágur, frænka, svili.  Neðri röð frá vinstri: afi, langamma

Það verður væntanlega ægilega gott og gaman og mikið um kræsingar og það er nokkuð ljóst að maður á eftir að eta sér til óbóta á páskadag... þannig á það jú líka að vera og eigi þykir mér það leiðinlegt. Ég held svei mér þá að páskarnir séu uppáhalds hátíðin mín, jafnvel skemmtilegri en jólin...
Berum þetta aðeins saman:

Jól:

I Myrkur dauðans
II Makkintos með þráabragði
III Jólalagasíbylja
IV Messur án veitinga
V Stress! (gjafir og fleira)
VI Í besta falli 5 frídagar, ef vel hittir á... jafnvel bara 3.

Páskar:

I Birta og fuglasöngur
II Ljúffeng himnesk súkkulaðipáskaegg
III Jesus Christ, Jesus Christ... who are you, what have you sacrificed... lalala (engir páskar án JC Superstar)
IV Fermingar og hlaðborð
V Slööökuuun
VI Alltaf 5 frídagar í röð!

Jamms, páskarnir eru unaðslegir...

6. apríl 2004

Eru ekki allir í stemmingu fyrir páskaeggjaleik :)


Smelltu hér!

Hmmm... kannski er ég að minnka mína möguleika á vinningseggjum... ojæja, ég elska ykkur öll og þið eigið öll páskaegg skilið! Nema Jói!

Nói hlýtur að vera til í að borga mér með eins og 18 páskaeggjum fyrir þessa auglýsingu...

5. apríl 2004

Hugmynd

Mér finnst að Nói Albinói eigi að heita No Alibi erlendis! Þá þurfa þeir svakalega lítið að breyta plakatinu, bara taka nokkra stafi í burtu.

Välkommen till min blogsida - Är den bra eller hur?

Hejsan allihoppa. Jag själf tycker den er jättefin og hoppas ni får en trevlig tid här!
Njut och var glad.

Svíar búnir að uppgötva síðuna mína og það þýðir ekkert annað en að sýna kurteisi og bjóða það ágæta fólk velkomið í hóp lesenda.

Hetjur og himpigimpi

Ofurstrumpur
Eins og ég hef áður nefnt í þessum pælingum mínum, er spennuþáttaröðin tuttuguogfjórir í hávegum höfð á mínu heimili. Þar fer hinn óbilgjarni og frámunalega hrausti ríkisstarfsmaður Jack Bauer á kostum við að bjarga heiminum, þó ekki væri nema BNA, á eins og nokkrum klukkustundum. Karlinn sá er með eindæmum mikið hörkutól og á álíka mörg líf og 12 kettir. Nema hvað... Kiefer Sutherland, a.k.a. Jack Bauer, mætti í Jay Leno í síðustu viku og ég get nú ekki sagt að það hafi verið gaman að horfa upp á það. Þessi nagli og margföld hetja í hugum okkar sat þarna í stólnum hjá Leno eins og feimin skólastelpa! Flissandi og agalega gaman að spjalla við Jay og þar fyrir utan sat maðurinn með krosslagðar lappir!!! Veit ekki með ykkur en í mínum huga sýnir það ekki vott af karlmennsku að sitja með krosslagðar lappir. Finnst það allavega engan veginn karlkyns hetju sæmandi... Þannig að nú er ekki annað að gera en að vinna í því að stroka þessa sýn úr huganum þannig að ég geti horft á þættina sem eftir eru og tekið sæmilega mark á þeim. En ég verð að viðurkenna að það gæti orðið erfitt og Jack Bauer hefur hlotið varanlegan skaða í mínum huga.
Til hamingju með afmælið í gær Fjölnir minn frændi kæri. Ekki amalegt að verða 24 ára þann 04.04 '04. Ægilega fallegt allt saman.

Hlustaði á 2höfða í morges á leið til vinnu og skemmti mér konunglega. Jón Gunnar var alveg brjálaður út í DV fyrir að tala oft og ítrekað um "þátt Sigurjóns Kjartanssonar" og minnast ekki einu orði á Gnarrinn sjálfan. Hann var svo móðgaður að hann hringdi á ritstjórnina á DV og ég veit ekki hvað og hvað og ætlar sér að kalla snepilinn D hér eftir... Meira eigi það ekki skilið þegar aðeins annars 2höfðans er getið. Allavega, það er ágætt og lofar góðu að keyra til vinnu á mánudagsmorgni með bros á vör. Jafnvel þótt það bros hverfi fljótt þegar bylgjan tekur á móti manni í vinnunni með sinni skemmandi, skaðandi og skelfilegu froðu. Er að fara að mana mig upp í að kynna samstarfskonuna fyrir aðeins meira upplífgandi og hressandi múzik... Bælamos ógeðislagið hljómar í þessum töluðu og júsóvisjónandstyggðin var að klárast. Það sem er á mann lagt. Eða kannski er ég ekki nógu umburðarlynd að eðlisfari...

Konungleg fyrirspurn

Þessi fyrirspurn beið eftir mér í póstinum mínum í morgun:

Hæ,

Gæti ég fengið söluyfirlit sent fyrir þessa eign?

Takk,
Davíð Oddsson

Jahá, habbarasona!
Íbúðin sem um ræðir er 4 herbergja, 110 fm. blokkaríbúð í Hlíðunum og púkinn í mér varð alveg ær og dauðlangaði að ríplæja eitthvað í þessa áttina: Nei því miður, þessi íbúð er örugglega langt yfir þinni greiðslugetu kæri herra. Hins vegar erum við með ægilega fína 40 fm. niðurgrafna risíbúð í Skuggahverfinu (stutt í vinnuna) á 7 milljónir sem er sennilega meira við hæfi manns í þinni stöðu!
En ég náði að halda í hestana mína.

Hversu miklu bulli ætli grey maðurinn lendi í á hverjum einasta degi, bara af því að svo óheppilega vill til að hann ber sama nafn og forsetinn.... nei kóngurinn... æji hvað svo sem hann gerir þessi ágæti alnafni sem um ræðir.

3. apríl 2004


Skjaldarmerkið á bleikum grunni :)

Afsakið hléið

Halló ég er lifandi! Miklar annir síðustu daga hafa komið í veg fyrir skrif en nú er allt á réttri leið og ég held ótrauð áfram þar sem frá var horfið. Vinnan er semsagt öll að koma til og fátt framundan nema páskar og slökun. Í fréttum er það helst að á morgun fermist litli bróðir minn og af þeirri ástæðu og af gefnu tilefni hef ég formlega ákveðið að hætta að kalla hann litla bróður!

Drengstaulinn er orðinn hausnum hærri en ég (ekki telst ég nú neitt kríli sko) og verður þar að auki tekinn í fullorðinna manna tölu á morgun þannig að engin rök mæla með því lengur að kalla hann litla bróður. Ég eiginlega þarf að finna eitthvað nýtt nafn á hann.... spurning með “yngri bróðir” en það hljómar nú samt frekar þurrt. "Rauðbirkni sláninn" er ekki nógu þjált og "Fiddi frábæri" er frekar súrt. Jæja ætli ég láti ekki bara "brósi" duga, það segir allt sem segja þarf þar sem hann er jú þegar öllu er á botninn hvolft bróðir minn og þar að auki sá eini...

1. apríl 2004

Úff

Á morgun kl. 15.00 verð ég hamingjusamasta manneskja í heimi! Þessi vika hefur verið sú strembnasta vinnulega séð sem ég hef nokkurn tíma vitað! Það er á svona dögum sem ég óska þess að ég sé að vinna á Subway, ekki það að það sé eitthvað létt að vinna á Subway sko, heldur þar er það bara afgreiðsla fyrir afgreiðslu og hvert korter er óskrifað blað, en hjá mér þessa stundina eru sömu málin; vesenis- og erfiðismálin að hlykkjast um eins og ormar í gegnum alla vikuna og eru gjörsamlega að ganga frá mér... er í veðflutningum og skilyrtum veðleyfum hægri vinstri og fyrir þá sem ekki vissu, skilyrt veðleyfi er ekki eitthvað sem maður notar ofan á brauð (hélt það fyrir 4 mánuðum en svo lærir maður...)!

Allavega á morgun lýkur þessum strembnu samningum og því öllu þannig að þá ætla ég að anda djúpt og í leiðinni þakka fyrir að geta andað djúpt! En nú er bara að lifa af næstu 28 tímana og taka svo flikk flakk heljarstökk seinnipartinn á morgun.

Svo reyndar verður næsta vika létt og löðurmannleg þannig að eins og ég segi, taka næstu klukkutímana á hörkunni og einbeita sér svo bara að páskaeggjunum.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats