24. desember 2008

Fórum í skötu í gær sem er nú alltaf einskær stemming og stuð þrátt fyrir að skatan veki svo sem enga lukku hjá undirritaðri! Smakkaði hana þó eins og alltaf en lét ekki vel af henni. Setning kvöldsins var án vafa þegar Valur vert sagði við útlendinga sem álpuðust inn á staðinn í mesta sakleysi "And here we have the rotten fish if you like the smell of it!"
Þess má geta að vesalings fólkið hrökklaðist ekki út heldur lét vaða og tyllti sér á lítið borð alveg við skötuhlaðborðið, með kræsingarnar steinsnar frá vitum sér þannig að ilmurinn hefur ekki farið fram hjá þeim blessuðum. Þau álíta þessa lífsreynslu sennilega núna sem "nærridauðareynslu" svona eins og þegar fólk rétt sleppur við grjóthrun, að rúta keyri rétt við trýnið á þeim, eða aðrar sambærilegar svaðilfarir.

Nóg um það, við fjölskyldan viljum óska öllum vinum og velunnurum gleðilegra jóla með ósk um yndislega jólahátíð og takmarkalaust ofát.

Takk fyrir liðnar stundir og vonum að nýja árið beri í skauti sér tóma hamingju og góðar stundir.

8. desember 2008


Jesús minn og allir heilagir almáttugir andar! Það sem ég hélt að gæti ekki gerst hefur gerst! Baggalútur hefur toppað áður útgefna snilld með aðventulaginu í ár.
Lagið "Það koma vonandi jól" er hugsanlega best heppnaða aðventulag sem þessir snillingar hafa gert til þessa og hafa þeir nú gert þau nokkur undanfarin ár.
Að velja svo "Woman in love" sem er jú eitthvað það dramatískasta lag sem samið hefur verið er svo algerlega rúsínan í pulsuendanum. Hver hefur ekki misst sig einhvern tíman og hrópað með því lagi í örvæntingarfullu tilfinningarússi í einrúmi og sagt engum frá og virkilega fundið sig?
Ekki ég, en nú hef ég ástæðu til þess!
Og þessi söngvari - almáttugur hvaðan kemur þessi rödd? Það fer ekki hvaða karlmaður sem er í skóna hennar Barböru og kemst klakklaust frá því.

Hér má nálgast lagið.

Njut.

28. nóvember 2008


Já ég átti víst afmæli um daginn. Ómerkilegt afmæli að vísu en með snilldarplotti sem heppnaðist fullkomlega áskotnuðust mér margar góðar gjafir að milljónavirði - á núverandi gengi hvenær svo sem núið er eða hvert sem gengið er hverju sinni eða eitthvað. Þar sem allir voru svona góðir við mig og sérstaklega þeir sem afhentu mér óútfylltan tékka eða svo gott sem, ber mér skylda til að upplýsa í hvað andvirðið fór! Enda gerði maður sitt besta í því að spandera því STRAX áður en gjaldmiðill yrði krullaður $ eða tvístrikaður € eða mjólkurpotturinn færi upp í milljónogfimmtíu.

Altso, kulsækna afmælisbarnið vantaði hlýja og staðgóða úlpu ríka af fiðurfénaði (dúnn 95% fjaðrir 5%) og eldfimum pólíestri (100%) og fyrir valinu varð 200% Cintamani dúnúlpa að nafninu Eygló og sjá má hér í litnum Moss Khaki (sú aftasta). Já ekki amaleg gjöf frá tengdafjölskyldunni það og kann ég þeim margar þakkir fyrir hlýhug (í orðsins fyllstu) í minn garð. Já það má vel vera að lánadrottnar hrifsi hús fólks á næstunni en þá hjúfra ég mig bara í Eyglóinni minni með Lalla J. og hinum vinum mínum í Hljómskálagarðinum og enginn kuldaboli bítur mig.

Svo var það þessi í ameríkunni hún Togga sem þarf að skera sig úr og gefa manni upp á sitt einsdæmi skrilljónir til þess að maður geti misst sig í Egg og Blómaval og Húsó. Þar sem það ævintýri er að verða úti eins og hin íslensku ævintýrin (að undanteknum Íslendingasögunum (sögur og ævintýri er tvennt ólíkt) sem voru jú hverju orði sannara; innyflin úti og allt það) þá leyfði ég mér þann munað að kaupa sett sem mig hefur dreymt um en dytti ekki í hug að spandera í sjálf - en þegar manni er nota bene afhent kort til að kaupa eitthvað sem maður mundi annars ekki kaupa sér, þá keypti ég mér þetta undurfagra sett hér. Svo þegar allt fer á versta veg má finna mig á Austurvelli í Eygló úlpunni minn rótandi í blómabeði með fallega Eva Solo sleifasettinu mínu :) og það sem meira er, ég á ennþá rúma hálfa skrilljón af þessu korti til að spandera í eitthvað sem mér dettur í hug, húsbúnað, jólatré eða gullfisk ef út í það færi!

Og ekki má gleyma jarðinum (Yard = 3 fet = 0,9144 m) af súkkulaði sem mér áskotnaðist og ætla að spara mér í svona eins og smástund í viðbót.


Eins og segir á umbúðunum ; Seven days without chocolate makes one weak! Mikill sannleikur þar.
Á umbúðunum er líka sagt; Why was choco-late? Because he missed the bus!
Einnig er fullyrt að inn í umbúðunum leynist 36" (91,44 cm) af himnaríki og einnig bent á að 1,760 lengjur lagðar saman geri eina mílu af súkkulaði og bætt við "Þvílík sóun!".

Svo má ekki gleyma að ég fékk bókina Herra Pip sem gefin er út af Bjarti! Þó ekki um minn Herra Píp og ekki heldur gefin út af kettinum Bjarti. Sem minnir mig óneitanlega á sjálfhverfa daginn, sjá hér.

Allavega, til að gera langa sögu styttri; TAKK FYRIR MIG!

19. nóvember 2008


Rosalega er nú skemmtilegt þegar bjána stjórnmálaflokkar sjá bara alveg um það sjálfir að útrýma sér. Frammararnir týna tölunni einn af öðrum og er vel. Ekki það að ég vilji fara út í það hversu óþarfir, óhæfir og ekki geðslegir stjórnmálamenn eru svona almennt nú sem endranær. Manni finnst þeir reyndar alveg extra ónýtir þessa dagana en staðreyndin er sú að þeir hafa alltaf verið það, þess vegna erum við jú stödd þar sem við erum í dag - í norðanverðu atlantshafi útifyrir Svalbarða. Núna þegar þeir þurfa að vinna ("oooohhhhh.... vúhú jólafrí eftir viku" heyrt á salerni Alþingis í vikunni) kristallast bara svo fyrir augum okkar hve óhæfir þeir eru og hafa verið.

En aftur að flokknum sem mér finnst svo sérstaklega skemmtilegt að leggja í einelti (sjá hér og hér og hér og hér og hér og hér og hér) Fremmmmbleblebleflokknum. Við lestur á ákveðinni grein á mbl sá ég að auðveldlega má koma í veg fyrir að framsóbleblemenn fæðist framar eða í það minnsta má fækka þeim um 75%! Og hver skyldi töfralausnin vera???

Nú, við lestur ofantengdrar greinar eru taldar upp 6 manneskjur. 4 af þeim manneskjum eru börn Harðar. Þá gef ég mér það að ef, með stjórnarskrárbreytingu eða álíka skipun, nafnið Hörður verði bannað megi koma í veg fyrir frekari vitleysingavæðingu í þjóðfélaginu um ókomna tíð. Að Nýja Ísland verði laust við þessa þess háttar trúða er kenna sig við framsókbleble. Svo mega hinir flokkarnir farga sér líka hver af öðrum, sjónvarpið mitt gæti nú kennt þeim eitt og annað um sjálfsíkveikju sem dæmi. Vá hvað það verður ljúft að búa á Nýja Íslandi.

5. nóvember 2008


Vei, heimur bestnandi fer!


Það kom til allrar lukku ekki til þess að túberuð kvensnift yrði næsthæstráðandi í júessoffei enda hringdi sjötti áratugurinn í hana og skipaði henni að koma heim til sín og vera ekki með þetta vesen!

14. október 2008

Buhu, það virðast allir bankarnir eiga bágt núna. Nema í þessu tilfelli getur litli maðurinn farið og hjálpað bankanum að byggja upp forða. Vúbbídúúúú....

Nenni svo sem ekki að væla með yfir ástandinu í þjóðfélaginu enda er maður svo sjálfhverfur að hvað getur maður sagt annað en; hvað er að ef ekkert er að?!?
Heilbrigð börn, frábær kall, þak yfir höfuð! Og tiltölulega örugg atvinna þó ekkert sé öruggt nú orðið...

Anyways, setti myndir úr sumarbústaðaferðinni inn á síðuna hans Kára svona fyrst netið er orðið þetta líka ægilega virkt aftur (routerinn var altso dáinn og lát tölvunnar sjálfrar var því orðum aukið). Þar má sjá hvernig hinn almenni Íslendingur leikur sér í kreppunni.

Eitt af því góða við kreppuna er gróskan á síðunni hans Dr. Gunna. Hver langa færslan á eftir annarri og alltaf er maður jafn sammála honum, enda hittir hann Gunnar Lárus naglann alltaf á höfuðið.

Þar með segi ég kreppuskrifum mínum lokið og lofa að skrifa ekki aftur fyrr en ég hef um eitthvað skemmtilegt að skrifa.

7. október 2008


Hér má sjá ótrúlega hresst leikskólabarn


að leika sér í snjónum á Brákarborg


í nýja fína gallanum frá Toggu frænku!


Svakalega ánægður með þetta allt saman!

5. október 2008


Mikið ofsalega er ég fegin og ánægð fyrir hönd heimila og fjölskyldna þessa lands að það er loksins aftur horfandi á Stundina okkar!
Það verður þá vonandi eitthvað minna um það þennan veturinn að frústreraðir foreldrar gangi í skrokk á selum eða öðrum hrútleiðinlegum fígúrum sem eiga sér einskis ills von.
Lifi Þórður húsvörður!

Þá er bara næsta missjon að koma Íþróttaálfinum fyrir kattarnef...

24. september 2008


Lokað vegna bilunar!

Nettengingin á tölvunni minni er látin. Ég get nú ekki sagt að hún hafi verið bráðkvödd því síðan í lok júlí hefur hún legið lasin og mikill dagamunur verið á henni. Suma daga var hún það hress að mér tókst að setja jafnvel heilar 5 myndir á heilu kvöldi inn á síðuna hans Kára og stundum var hún það slöpp að hún gafst upp á því krefjandi verkefni að fletta eins og einni Morgunblaðssíðu. Þegar hún var orðin svona mikið máttfarin grunaði okkur að endalokin nálguðust.

Píp hringdi í sérfræðinga um daginn sem framkvæmdu einhversskonar ip-mergskipti eða hvað það nú var og þá endanlega gafst hún upp og hefur legið örend síðan.
Þar af leiðandi verður fátt um fín skrif því í vinnunni er maður jú að vinna svona að mestu leyti. Aldrei að vita nema maður nái þó endrum og eins að setja inn vísidóm ef hann dettur fyrir fæturnar á manni. Vísidómurinn það er.

Fyrir þá sem eru ekki búnir að kíkja á síðuna hans Kára nýlega eru þó komnar myndir frá sumrinu þangað inn, Tenerife t.d. Það tók mig ekki nema eins og einn ágúst-mánuð að setja þær inn með lösnu tengingunni. Enda hefur maður jú ekkert þarfara að gera…. Ekki!

Kári talar að vísu ekkert á síðunni frekar en fyrri daginn enda talar barnið ekki enn. Hann smellir í góm. Og er kallaður Smellur á leikskólanum fyrir vikið. Þögli einræðisherrann er hann kallaður af mömmu sinni.

Bloggfærsla á síðunni hans gæti hljómað einhvern veginn svona: Click Click…. *Bank!!!* (ber viðkomandi bylmingshöggi til að ná athygli) Click *bendir* Click HAAAAAAÆÆÆÆÆÆ!!! Click Click *kinkar kollli*.
Svo gæti kauði líka sungið fyrir mann lagstúf á táknmáli sem er svona: Stingur vísifingrum í eyru og snýr fram og til baka, leggur saman lófa og vaggar þeim til og frá, baðar út öngum og KLAPP!!! Þetta lag ku vera apalagið; 5 litlir apar…. O.s.frv. Þó heyrist ekki múkk frá barninu meðan á þessum hreyfingum stendur.

Jæja, meðan maður á ónothæfa tölvuómynd getur maður leyft sér að dreyma um nýja. Ætla sko að fá mér Apple-lappara þegar ég hef efni á (vonandi fyrir árslok 2011). Og svo ætla ég líka að láta mig dreyma um chromatic-nanóinn sem er svooo fínn: (gettu hvaða lit ég mundi fá mér!?!?)


Og svo dreymir mig líka iPhoninn. Svona er þetta þegar maður vinnur hjá grænmetisfyrirtæki; mann dreymir bara epli!

10. september 2008




Meðfylgjandi drengur er orðinn 2 ára! Hann telst því ekki til lögformlegs ungabarns lengur en vill þakka öllum sem hafa stutt hann og hvatt á þessum erfiðu tímamótum...

Hér eftir flokkast fjölskyldan samkvæmt eftirfarandi skilgreiningu: 2 fullorðnir með 2 börn (2-11).

Hann hélt farsællega upp á afmælið sitt um daginn og naut þess í fyrsta skipti á ævinni að rífa upp pakka af miklum móð. Óli bró fékk ekki að sjá um það eins og í fyrra. Það verður miiiiikið gaman á jólunum á þessu heimili.

Með barninu á myndinni er uppskera dagsins hjá mömmunni sem er byrjuð að vinna hjá grænmetisfyrirtæki. Ægilega fínt! Og búin að bæta kakóbaunum á innkaupalistann hjá innkaupadeildinni.

P.s. Óli fékk að skreyta afmælisköku bróður síns og hún er/var hreint listaverk eins og við var að búast:



ATH. Þessi síða er knúin af öreindahraðli í Sviss ®

24. ágúst 2008


Ég óttast að yngri sonur minn verði aldrei handboltastjarna!















Held hann verði körfuboltakappi!
Hann er búinn að vera með þennan bolta í fanginu í um það bil 27 klukkutíma +/- ½.

23. ágúst 2008


Hvað er Obama að spá? Að velja sér gamlan hvítan frethólk (white old fart) sem varaforsetaefni. Hann gæti verið afabróðir McCains!
Slagorðið "Obama/Biden" á líka alveg eftir að kveða niður múslima-orðróminn um Obama eða þannig; að framboðið hans hljómi eins og nafnið á óvini Bush numero uno, næst á eftir ljóta kallinum undir rúminu hans. Hann Barack minn sem kom sem ferskur fyrirboði breytinga inn í umræðuna fyrir kannski rúmlega ári síðan er á góðri leið með að verða sami klumpurinn og hinir og verður sennilega bara til þess að WWIII byrjar bara pínu seinna en ef McCain vinnur.

Spái því að McCain velji sér konu eða hörunsdökkan einstakling sem varaforsetaefni og rúlli þessu svo upp í nóvember.

Segi svona, hvað veit ég...

---

Maður þarf að passa sig fyrst gæsaveiðitímabilið er byrjað því gæsahúðin hefur ekki farið síðan í hádeginu í gær. Þvílíkur leikur.
Vona að Alexander færi þjóðinni gullverðlaunin á silfurfati í fyrramálið... Svona klæddur!


ÁÁÁÁÁFFFFFRRRRAAAAAMMMMÍÍÍÍÍÍÍSSSLLLAAAAAAAAAAAAANNNNNDDDD!!!!!!!

20. ágúst 2008


Voruð þið búin að átta ykkur á að í dag er 20/08/2008 eða 20082008! Og það sem meira er, klukkan er líka 20:08.

20082008 kl. 2008!

Reyndar er þetta með klukkuna bara lygi því hún er núna 17.27 hjá mér en það er bara svo miklu flottara að hún sé líka 2008 þar sem bloggerinn býður upp á alls konar stillingar og tímasetningar fram í tímann... Sem segir okkur aftur að allt sem þú lest á internetinu er lygi.

Talandi um tölur, heppni mín á sér engin takmörk - ég var með þrjá rétta í lottóinu á laugardaginn! Ásamt 7.690 manns öðrum þannig að þegar ég var búin að deila heildarvinningnum með hinum 7.690 var minn hlutur 880 Kr. Sem gerir alveg -120 kall í gróða þar sem ég eyddi þúsund kalli í snepilinn.

Og enn talandi um tölur, af öllum 7 stafa talnarunum í heiminum - hverjar ætli líkurnar séu á að fá akkúrat þessa runu upp á auðkennislyklinum sínum?


Sennilega jafn líklegt og að fá hverja aðra runu...

15. ágúst 2008


Hér má sjá mitt verðandi hús; Laxamýri á Dalvík! Hvort sem það verður mitt fyrr eða síðar skal ég eignast það einn góðan veðurdag enda allir veðurdagar góðir á Dalvík. Hef girnst það síðan ég man eftir mér og alveg til að trylla óstöðuga, kom í ljós um síðustu helgi að Laxamýri er föl:


Ægilega huggulegt og fallegt hús í miðbæ Dalvíkur.

Það sem meira er: í gær ákvað tengdafjölskyldan að kaupa húsið með mér þannig að það yrði þá eitt allsherjar ættarafdrep við minni Svarfaðardals, náttúruperlan sem hann nú er.

Viðstaddir á fjölskyldufundinum þar sem þetta var ákveðið var mikill meirihluti fjölskyldunnar, þ.e. Eyba og Óli sem hafa þrefaldan atkvæðisrétt vegna virðuleika, Tobba og Halldór sem hafa atkvæðisrétt fyrir sig og sín ófæddu 3 börn, Ég sjálf og drengirnir mínir tveir og ég með umboð frá Guðmundi, þannig að mér telst til að þessi kaup hafi verið samþykkt með miklum meirihluta, alls með 15 atkvæðum gegn 7 atkvæðum fjarstaddra (já Togga - Tóta hundur er líka með atkvæðisrétt) sem eiga án efa eftir að samþykkja kaupin um leið og þau sjá ofangreindar myndir.
Biðst afsökunar á slökum gæðum myndanna en þar sem tölvan mín er gengin í barndóm og þykist ekki komast hraðar en á mesta lagi 56k hraða, þurfti ég að smækka myndirnar helling til að það tækist nú að koma þeim inn yfirleitt.

Húsið er á tveim hæðum eins og sjá má, með stórri stofu, eldhúsi, baðherbergi og einu herbergi niðri, og 3 herbergjum auk hols uppi. Bakvið húsið er pallur sem hreinlega bíður eftir að á hann verði settur pottur, og á suð-vestur hliðinni er kominn sökkull fyrir ja hverju sem manni dettur í hug, garðhýsi eða einhverju svoleiðis. Húsið fæst fyrir litlar 24 millur sem er foxdýrt en þessi fjölskylda verður ekki lengi að skrapa saman fyrir því, sei sei nei.

Bakvið húsið er risastór leikvöllur fyrir börnin, við hliðina apótek, ská á móti aðal barinn á Dalvík (þó það mikið á ská að ónæði yrði ekkert), kaupfélagið 2 mínútur í burtu, banki og menningarhúsið enn styttra, Halla amma er svo á númer 17 (Laxamýri er númer 6) og skólinn bara út götuna, Sundlaugin og Viggi frændi þar fyrir ofan og svona gæti ég haldið endalaust áfram. Og ekki má gleyma veitingastaðnum Tommunni, þar sem maður fær bestu pizzur norðan Fagurhólsmýrar.
Svo trítlar maður sér bara upp í fjall á vetrum og breggður sér um stundarsakir á skíði, endalausar gönguleiðir og berjamóar og ég veit ekki hvað og hvað. Mitt fyrsta verk yrði reyndar að loka lúgunni útí Ólafsfjörð, þaðan sleppur stundum einhver óþjóðalýður sem ætti frekar að sitja heima hjá sér. Ef eitthvað neikvætt gerist á Dalvík er nefnilega í 104% tilvika Ólafsfirðingi um að kenna.

Fjölskyldan mundi svo fara á Dalvízku-námskeið til að komast inn í málfar heimamanna sem er um margt merkilegt. Þessi færsla mundi hljóma nokkurn veginn svona á Dalvísku:

Róólega húsið sem sææti kallinn ætlar að selja fyrir litlu peningana! Litl slaka pizzan.
Fína ruglið!

13. ágúst 2008


Þessi hugmynd er nokkuð skemmtileg:


Maður missir alltaf af hommsuhátíðinni miklu af því að maður er einhversstaðar að éta fisk. Skella saman í eitt partí næst takk! Þá þarf Frómas heldur ekki að engjast inní sér lengur þar sem hann er jú Dalvíkingur og hommsa... (Yfirleitt floginn suður á hádegi eftir að hafa sungið Fiskidagslagið, til að fagna með hinum hommsunum).

Ekki grunaði mig það þegar ég gleypti í mig 3 skálar af kjötsúpu á Brú fyrir 3 sólarhringum síðan að sjoppunni yrði lokað í kjölfarið. Nú veit ég ekki alveg hvar ég á að stoppa á leiðinni norður fyrst kjötsúpan mín er búið spil. Borgarnesbændur kunna ekki lengur að gera kjötsúpu eins og hún á að vera heldur bjóða manni upp á eitthvað grænmetisseyðissull og frekar snæði ég gras út í haga með hinum rollunum en að stoppa á þeirri ógeðisbúllu sem Staðarskáli er!

12. ágúst 2008


Enn einu sinni eru börn þessa heims í nauðum stödd. Ég hreinlega orka ekki meira af ógeðis stríðsrekstri og barnaníð! Skítt með krónuhrun, kvótastuld, olíuverð, heimsendaspár, fótboltaúrslit eða slúður af ómerkilegum sorplýð en hörmungum sem ganga yfir börn án þess að þau fái nokkru um ráðið og geta ekki með nokkru móti flúið eða komið sér undan - er ég bara búin að fá nóg af.

Fer bráðum að frábiðja mér fréttaflutning af nokkru tagi þar sem ég orka engan veginn fleiri fréttir af skelfingum heimsins.

Held ég þufi bara að finna mér eitthvað áhugmál, fara í kór eða eitthvað þannig að ég hætti að glápa á þessar fréttir endalaust! Hef ekki taugarnar í þetta.

31. júlí 2008


Smella fyrir stærri!
Samansaumuð mynd af sólarlagi á Tenerife.
Þessi er samansett úr 5 myndum en því miður kann ég ekkert á Photoshop til að nudda út skilin sem eru eilítið sjáanleg. Fallega góða myndavélin mín er það góð og falleg að í henni er sérstök "Stitch" stilling sem aðstoðar mann við að taka svona framhaldsmyndir og svo er sér hnappur í myndaforritinu sem saumar þær saman fyrir mann. Allt innbyggt!

Veit ekkert hvenær ég næ að deila myndum með ykkur þar sem netið eða tölvan nema hvort tveggja sé er að gera mig vitlausa. Næ ekki að setja neitt inn vegna hægagangs og að gera eitthvað með þessa einu mynd kostaði mikla yfirsetu, pirring og ítrekaðar tilraunir.

---

Ég get ekki annað en tekið undir þennan dóm. Þessir tónleikar eru óvænt komnir á topp 3 yfir tónleika sem ég hef farið á um ævina. Óvænt segi ég því aldrei bjóst ég við að þessi melankólíski snillingur gæti verið svona skemmtilegur og gert stólpagrín að sér og sínum og melankólísku tónsmíðum... "..do I have any happy songs...???" (hló svo sjálfur eins og stunginn grís.) Fyrir utan hvað hann er magnaður flytjandi.
Sú sem hitaði upp fyrir hann var til dæmis búin að tralla og syngja í smá stund án þess að hreyfa mikið við manni þannig lagað en svo mætti kappinn á svæðið og gjörsamlega sló mann í rot. Það er nú samt illa vegið að stelpugreyjinu að líkja henni við Katie Kahlua eða hvað hún heitir sú leiðindasnót. Og ekki fannst mér hún heldur lík Noruh Jones. Dæmið fyrir ykkur sjálf.

Þetta klukkugláp og mínútutalning á gagnrýnandanum er pínu spes, hann hefði bara átt að slaka á og fá sér einn kaldan að dönskum hætti enda væntanlega heimavanur í Danmörku fyrst hann er með þennan stundvísisfetish. Án þess að ég sé eitthvað að gagnrýna gagnrýnandann. Hann hefði kannski átt að horfa á tónleikana á pinnahælum eins og undirrituð (hei, bjóst við sitjandi tónleikum - borðum og stólum og fíneríi...)

26. júlí 2008


Sá mikli snillingur; kötturinn hans Símonar, er kominn með nýja stuttmynd sem er ekki síðri en hinar, þessi hér og þessi hér.



---

Jú við erum lent á skerinu, því miður liggur mér við að segja. Virðist vanta í mig þetta gottaðkomaheim-gen. En líður aftur á móti eins og heima hjá mér í útlöndum. Held að þetta heilkenni heiti transclimate, eða loftslagsskiptingur, það er ég fæddist í vitlausu loftslagi og eina lækningin við því er að skipta um loftslag í systeminu á mér. Hélt að píparinn gæti lagað þetta en hann kann víst ekkert á svona kerfi. Þessar stuttu utanlandsferðir eru í raun frestun á vandamálinu því ég sé fyrir mér að þegar fram í sækir þurfi ég varanlega læknun á ástandinu sem mundi þá þýða flutning suður á bóg.

En jæja, það er nú svo sem voða heitt hérna núna, hitamet ársins í gær og ég sem flúði af svölunum mínum sökum kulda. Svona er maður skrýtinn.

Tenerife var ægilega fín og ég set inn myndir eða eitthvað síðar.

27. júní 2008


Var að henda myndum frá göngunni inn á Flickr-ið.

Þá get ég sett þessa hráslagalegu göngu aftur fyrir mig og farið að einbeita mér að fjársjóðseyjunni í suðri sem ég ætla að heimsækja aftur eftir 97 klukkustundir. Og vera þar í ca. 504 klukkustundir eða 30.240 mínútur.

Veitir ekkert af þeim tíma, enda eigum við ærið verkefni fyrir höndum þar sem fjársjóðurinn er enn ófundinn. Síðast keyrðum við einungis um austanverða eyjuna, en ætlum nú að skoða hana allan hringinn og gera okkur líkleg til að nálgast eldfjallið í miðjunni ef drekinn leyfir.

Vorum síðast á Adeje ströndinni en verðum nú á Americas ströndinni (sem er rétt hjá) á að mér skilst gasalega lekkeru hóteli.

Morgunmaturinn á eftir að samanstanda af hráskinku og rauðvínsdreytli annan hvern dag og eggjum, beikoni og nýkreistum appelsínusafa hina dagana. Dagarnir fara í almennt chill og ævintýri inn á milli, víðs fjarri heimsendafréttamennskunni á Íslandi þessa dagana.
Krææææst hvað þetta verður ljúft líf. Get ekki beðið mikið lengur!!!!!

24. júní 2008


Mörkin í steríó.


Tekið yfir Mörkina og nánasta umhverfi kl. hálf þrjú að nóttu þegar við vorum nýstigin útúr þokunni uppi á hálsi. Morinsheiði heitir pönnukakan hægra megin við miðju og einnig má sjá glitta í Heljarkamb.

Þessi mynd er í rauninni saumuð saman úr fjórum þannig að úr verður löng ræma. Ef þú smellir á myndina sérðu hana betur en þarft þá reyndar að renna neðri stikunni til að sjá hana alla.

Ægilega gaman að sauma saman víðóma myndir.

Fullorðnu meðlimir hópsins voða kátir:


Ekkert barn var á þessum tímapunkti farið að lýsa því yfir að það vildi deyja því þetta væri svo fruktansvert allt saman, það kom síðar. Þær dauðahugsanir viku þó frá börnunum þegar rifjaðist upp fyrir þeim hvað þau ættu marga tölvuleiki heima hjá sér.

Voðalega fínir fossar upp eftir allri ánni, bið þennan afsökunar á að hafa troðið mér inn á hann.

20. júní 2008


Farin á röltið yfir Fimmvörðuháls. Hvur veit nema maður rekist á ísbjörn. Vona að það komi ekki til þess að ég þurfi að stúta honum í einhverri nauðvörn.

Þið sem ég er búin að koma upp á lagið með daglegum kroppasýningum verðið bara að fara að kaupa ykkur Playgirl eða eitthvað.

Adios!

19. júní 2008


Samantekt dagsins er stutt og hnitmiðuð:

Hverju er svo sem við þetta að bæta?

17. júní 2008


Þetta er engin keppni lengur! Á mínu myndaflakki í leit að efniviði í samantektir er ég búin að sjá það að eitt liðið er gjörsamlega búið að rústa keppninni. Króatar eru langflottastir og í langsamlega flottustu búningunum, að teknu tilliti til efnis, sniðs, hvernig hann fellur að líkamanum og ýmissa fleiri atriða sem reiknuð eru út frá sérstökum þokkastuðli!
Til dæmis fann ég enga mannsæmandi mynd af Þjóðverjum, Svíum, Frökkum (Ribéry var alltaf að þvælast fyrir) né nokkrum öðrum liðum. Þegar ég sá myndir af Króötunum missti ég mig hins vegar alveg og Króatar eru hér með úrskurðaðir HEIMSmeistarar!

Sönnunargagn A - Krrrææææææssssssttt!!!! Skrokkur í lagi.
I'm bringing sexy back - Ég mæti með æsandi bakið mitt:


Þennan á að reka útaf fyrir treyjutog - að toga í treyjuna án þess að fara úr henni!


Afturendi til eftirbreytni!


Eru ekki allir í samstuði:


Fallegir búningar á fallegum líkömum...


Oooo svo fínir þessir Króatar:


Hei ef þetta er ekki rangstaða hjá Pólverjanum þá veit ég ekki hvað rangstaða er! Passaðu þig maður!


Brottrekstrarsök!!! Hvað er þessi bolur að gera þarna???


Spánverjarnir kunna þetta - engir bolir á þeim bænum:


Hver vöðvi krepptur til hins ýtrasta...


Skemmtileg nánd alltaf í boltanum:


Sprauta honom með hestasterum kannski?!?!?!


Króatar eru búnir að vinna þetta í mínum augum. Portúgalirnir voru ágætir en Króatar eru alvöru.

ÁFRAM KRÓATÍAAAAAAA!!!!!!!!!

16. júní 2008


Verð að segja að mér finnast samantektirnar frá leikjum dagsins á EM snúast helst til mikið um rangstöður, aukaspyrnur, allavega lit spjöld, mörk og allskonar óþarfa þannig að ég ákvað að búa til mína eigin samantekt.
Í þeirri samantekt verður ekki stagglast á nöfnum, þjóðerni, leikfléttum eða öðrum atriðum sem ekki þjóna tilgangi í umfjölluninni sem slíkri.

Hér má sjá EM 2008 með mínum linsum, það sem mér hefur þótt standa uppúr í undanförnum leikjum.

Þessi mynd á nú ekki að þurfa neinn skýringartexta, ægilega fínir alveg hreint:


Voðalega er maður einmanalegur og snotur:


Með góðri einbeitingu og fullri athygli í leiknum má alltaf sjá glytta í mallakút:


Gott að hafa læri til að styðja sig við:


Kjöraðstæður til að horfa á fótbolta eru þegar rignir á vellinum, eða 52° hiti og treyjurnar límast...:


Ebony og Ivory:


Líffræði 101 - svona skulu læri líta út, ávallt! Fullkomin beiting á fótleggjum:


Já sæll!!! Ballettstökk bara:


Og svo sprikla:


Já! Hvað er maðurinn að gera þarna uppi:


Dans sumarsins:


Sérstaklega aðlaðandi knúsaðstæður er hafa myndast þarna:


Þetta ku allt snúast um þar til gerðan hringlaga hlut er nefnist bolti, sjá hér:



Samantekt dagsins lokið.

15. júní 2008


Finn mig knúna til að halda með Portúgal þetta árið:


Þegar ég átti eitt barn hélt ég með Ítalíu (sjá hér) en þegar ég er orðin tveggja barna móðir er fágunin orðin öllu meiri og kann ég betur að meta faglega unnin saumaskap en vel á borna olíu. Ákaflega skelfilega vel saumuð föt á hörmulega vel hönnuðum líkömum og punkturinn yfir i-ið eru hugguleg sólgleraugun...

Hræðilega vel heppnuð útkoma alveg hreint.

En hvaða vanviti fékk þá hugmynd að klæða hollenska liðið í smábarnabláa sokka við skærappelsínugular treyjurnar. Sumt fólk er bara ekki alveg með fulle femm...
Litapallíettan í mér bara fær flog og ég næ ekki alveg að einbeita mér að því sem ég er jú að reyna að fókusa á, þ.e. svæðið á milli buxna og sokka. Reka hönnuðuðinn núna takk!


P.s.
ÓBG vill meina að grísir og svín hafi háð viðureign í síðustu viku samanber þetta hér:


11. júní 2008


Þetta augnablik algjörlega bjargaði kvöldinu á mínu heimili í gær.
Dagurinn sem Svarthöfði mætti á prestastefnu.
ÓBG ærðist af kátínu þegar hann sá þetta í fréttunum í gær.
Óborganlegt.

8. júní 2008


Vei, fjölæru grænu gardínurnar mínar eru loksins komnar upp aftur!

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats