31. júlí 2008


Smella fyrir stærri!
Samansaumuð mynd af sólarlagi á Tenerife.
Þessi er samansett úr 5 myndum en því miður kann ég ekkert á Photoshop til að nudda út skilin sem eru eilítið sjáanleg. Fallega góða myndavélin mín er það góð og falleg að í henni er sérstök "Stitch" stilling sem aðstoðar mann við að taka svona framhaldsmyndir og svo er sér hnappur í myndaforritinu sem saumar þær saman fyrir mann. Allt innbyggt!

Veit ekkert hvenær ég næ að deila myndum með ykkur þar sem netið eða tölvan nema hvort tveggja sé er að gera mig vitlausa. Næ ekki að setja neitt inn vegna hægagangs og að gera eitthvað með þessa einu mynd kostaði mikla yfirsetu, pirring og ítrekaðar tilraunir.

---

Ég get ekki annað en tekið undir þennan dóm. Þessir tónleikar eru óvænt komnir á topp 3 yfir tónleika sem ég hef farið á um ævina. Óvænt segi ég því aldrei bjóst ég við að þessi melankólíski snillingur gæti verið svona skemmtilegur og gert stólpagrín að sér og sínum og melankólísku tónsmíðum... "..do I have any happy songs...???" (hló svo sjálfur eins og stunginn grís.) Fyrir utan hvað hann er magnaður flytjandi.
Sú sem hitaði upp fyrir hann var til dæmis búin að tralla og syngja í smá stund án þess að hreyfa mikið við manni þannig lagað en svo mætti kappinn á svæðið og gjörsamlega sló mann í rot. Það er nú samt illa vegið að stelpugreyjinu að líkja henni við Katie Kahlua eða hvað hún heitir sú leiðindasnót. Og ekki fannst mér hún heldur lík Noruh Jones. Dæmið fyrir ykkur sjálf.

Þetta klukkugláp og mínútutalning á gagnrýnandanum er pínu spes, hann hefði bara átt að slaka á og fá sér einn kaldan að dönskum hætti enda væntanlega heimavanur í Danmörku fyrst hann er með þennan stundvísisfetish. Án þess að ég sé eitthvað að gagnrýna gagnrýnandann. Hann hefði kannski átt að horfa á tónleikana á pinnahælum eins og undirrituð (hei, bjóst við sitjandi tónleikum - borðum og stólum og fíneríi...)

26. júlí 2008


Sá mikli snillingur; kötturinn hans Símonar, er kominn með nýja stuttmynd sem er ekki síðri en hinar, þessi hér og þessi hér.



---

Jú við erum lent á skerinu, því miður liggur mér við að segja. Virðist vanta í mig þetta gottaðkomaheim-gen. En líður aftur á móti eins og heima hjá mér í útlöndum. Held að þetta heilkenni heiti transclimate, eða loftslagsskiptingur, það er ég fæddist í vitlausu loftslagi og eina lækningin við því er að skipta um loftslag í systeminu á mér. Hélt að píparinn gæti lagað þetta en hann kann víst ekkert á svona kerfi. Þessar stuttu utanlandsferðir eru í raun frestun á vandamálinu því ég sé fyrir mér að þegar fram í sækir þurfi ég varanlega læknun á ástandinu sem mundi þá þýða flutning suður á bóg.

En jæja, það er nú svo sem voða heitt hérna núna, hitamet ársins í gær og ég sem flúði af svölunum mínum sökum kulda. Svona er maður skrýtinn.

Tenerife var ægilega fín og ég set inn myndir eða eitthvað síðar.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats