29. mars 2007


Í gær gerði ég afskaplega merkilega uppgötvun og einnig mjög mikilvæga fyrir íbúa þessarar jarðar trúi ég, sé tekið tillit til þróunar heimsins í alheimsfræðilegum skilningi. Sólin hefur stærra hlutverki að gegna en bara að vera sæt og geislandi. Hún bræðir snjó eins og sjá má á þessari mynd:

Það leynir sér ekki að þar sem sólin skín er ekki snjókorni fyrir að fara en þar sem geislar hennar hafa ekki náð blasir við hjarnið eitt. Hlakka til að geta sýnt þessa þróun með svo afgerandi hætti eins og þessi mynd sýnir á næstu vísindaráðstefnu sem ég ætla á í Las Vegas sumarið 2009. Þangað til verða íbúar heimsins alveg klúless um þessa merku uppgötvun mína.


Haaaa?????


Auglýsing í Fréttablaðinu í dag (nánar tiltekið í aukablaðinu Allt, bls. 5, fyrir ofan miðju hægra megin):


Er verið að gera grín???

28. mars 2007


Jæja er lent og það fyrir viku síðan meira að segja en er búin að vera í afneitun síðan. Regla númer eitt: Aldrei fara úr landi fyrir skemmri tíma en þrjár vikur. Regla númer tvö: Ef fyrir furðulega tilhögun örlaganna þú ferð í skemmri tíma þá a) sofðu yfir þig þegar þú átt að fara í flug heim og/eða b) brenndu flugmiðana og talaðu svo við ferðaskrifstofuna eigi fyrr en tveim vikum síðar (þ.e.a.s. ef þig langar heim) og segðu að flugmiðunum hafi verið rænt. Þeir redda þér þá heim - ef ekki... ertu bara ágætlega settur í hlýju loftslagi og opnar bara bar eða finnur þér eitthvað að gera.

Annars er ég bara voða hress með að vera komin heim... Ræð mér vart fyrir kæti sko... Gott að hitta Óla sinn.

Var miður mín því ég hélt að ég hefði misst af eldhúsdagsumræðunum á Alþigi á meðan við vorum úti, sem ég reyndar gerði, en RÚV bjargaði því alveg í gærkvöldi með því að sýna stórkostlega þætti sem jöfnuðust alveg á við þingkalla.

Dagskráin var svohljóðandi:

20.55 Ómur af Ibsen - Heljarstökk
Norsk þáttaröð þar sem sagðar eru nútímasögur byggðar á verkum Henriks Ibsens.

21.25 Síðasta sígarettan
Finnskur þáttur þar sem fylgst er með hálffimmtugum manni fyrstu dagana eftir að hann hættir að reykja.

Takk RÚV fyrir að bjarga minni döpru sál.

Ein vísindaleg spurning í lokin: Hvernig fer nef út á kinn án þess að vera kýlt út á kinn?

Svarið má finna hér að neðan:













Shakeskin!


P.s. Svo er tónlistarlífið svo blómlegt á Íslandi! Í dag á einum og sama deginum hefði ég getað náð mér í miða á tónleika með Josh Groban (ógeðishorbjóður) og farið á tónleika með Cliff Richards (ógeðishorbjóður from the sixties). Afsakið rétt á meðan ég fæ malaríu af yndisleik þesssa alls saman.
Má ég frekar biðja um hann Jose Manuel, með skemmtarann einn að vopni, sem hélt uppi stuðinu svo mjög á Parque Del Sol á Tenerife að oftar en ekki lá við hjartaáfalli hjá heldri kynslóðinni. Að ég tali nú ekki um fantastíkófantastíkófantastíkó karókí-snillinginn sem hélt uppi fjörinu hin kvöldin. Þeir kunnu sko að skemmta fólki!

14. mars 2007


Ég var ekki búin að núa hótelinu sem við verðum á um nasirnar á ykkur, er það nokkuð? Þetta verður okkar huggulega heimili næstu vikuna og hér eru ítarlegri upplýsingar fyrir áhugasama. Lítur út fyrir að vera paradís og minnir mig satt að segja á Whitesands hótelið í Kenya sem við vorum á í denn, ekki leiðu að líkjast þar. Úff hvað þetta verður notalegt. Ef ég kem ekki heim eftir viku, óttist eigi heldur setjið frímerki á afturendann á ÓBG og sendið hann á þetta heimilisfang:

Parque Del Sol, c/o Perla Thrastar
Playa Fababe
38660 Costa Adeje
Tenerife
Islas Canarias

Við komum svo í heimsókn um jól og áramót... ef við nennum.

Já, það er ljóst að miðað við hvað ég er hátt uppi núna og ánægð með þetta allt saman, að einhver þarf að grípa mig í fallinu þegar ævintýrið verður afstaðið í næstu viku.

En þangað til ætla ég að vakna 7 sinnum og haga morgunmatnum mínum nokkurn veginn á þennan hátt:

8. mars 2007


Jæja nú er slétt vika í ég verði chillandi og svamlandi á eyju undan Afríkuströnd með óáfengan kokteil í annarri og barn í hinni. Þann 15. erum við semsagt að fara til þríhyrndu ævintýraeyjunnar Tenerife. Eyjan er í Kanaríeyjaklasanum og er að mér skilst áberandi skást af þeim eyjum. Meðalaldurinn á túristunum eitthvað lægri en á hinum eyjunum, enginn Íslendingabar og engin Framsókn með framboðsfundi; það ógeðispakk má halda sig á Gran Canaria ef þú spyrð mig. Vika skal það vera og mikið verður það nú ljúft.
Litli Píp fer í óvissu- og ævintýraferð í Norðlingaskóla á meðan þar sem börn sem nærast ekki á foreldrum sínum fara ekki með í þessa ferð. Vinnan hans Píps er nefnilega að bjóða og minnsti Píp er á undanþágu vegna mataræðis. Litli Píp er alveg að fara á límingunum af spenningi yfir að fara í skólann til ömmu sinnar og spyr á hverjum degi hvenær við förum eiginlega til útlanda þannig að hann geti farið til ömmu og afa. Og hann býst við að fá gúllas í kvöldmat öll kvöldin...: (tilvitnun hefst) "af því að ömmu þykir svo vænt um mig" sólskinsbroooos (tilvitnun lýkur).

Tenerife er hér:

Og svona lítur hún út þegar nánar er að gáð:



P.s. Bjartur fer til hinna ömmu og afa og fær þar vonandi eitthvað betra en nóakropp og lakkrís.

4. mars 2007


Opið bréf til ríkisstjórnar Íslands


Reykjavík, 4. mars 2007

Kæra ríkisstjórn.

Í kjölfarið af breytingum ríkisstjórnarinnar á virðisaukaskatti af matvælum um síðastliðin mánaðarmót, finn ég mig knúinn til að óska þess að áðurnefndar breytingar verði endurskoðaðar vegna hagsmuna minna og annarra gæludýra í þessu landi. Húsbændur mínir eru yfir sig hneyksluð vegna þess að fóður til handa mér er enn á sama verði og fyrir lækkun þar sem dýramatur fellur ekki í þá flokka sem lækkaðir voru.
Mikið er rætt um að tími sé kominn til að ég undirritaður fari einn míns liðs út í hinn stóra heim og veiði mér sjálfur til matar og verði með því "sjálfbær" köttur. Þetta huggnast mér eigi þar sem öndunarfæri mín eru veikburða og ég er mjög viðkvæmur fyrir svifryki, fyrir utan að feldurinn minn má síður blotna og ég er mjög kvefsækinn. Ég hef rætt þetta við húsmóður mína og hún hefur komið með þá hugmynd til þess að koma til móts við mig að ég fari á annað og ódýrara fæði og fái nóakropp á morgnana og lakkrís á kvöldin og kók þess á milli, af því að sætindi og gos lækkaði víst svo mikið.

Nú höfða ég til samvisku þinnar kæri fjármálaráðherra, verandi dýralæknirinn sem þú ert; geturðu hugsað þér að gæludýr þessa lands verði annað hvort send út á guð og gaddinn til þess að afla sér fæðis sjálf, eða verði látin borða hitaeiningaríkt sjoppufæði sem kæmi til með að orsaka ómælt hárlos og þónokkurn viðrekstur öllum til ama?
Ég bið þig og félaga þína í ríkisstjórn að hugsa málið betur.

Einnig vil ég koma því á framfæri að vesalings fóstbróðir minn, rétt 6 mánaða gamall, er byrjaður í þjálfun sem á að miða að því að hann verði farinn að nota kopp í lok vikunnar þar sem bleyjur lækkuðu heldur ekki um mánaðarmótin. Mér verður um og ó við tilhugsunina að þetta litla grey verði svift því öryggi sem bleyjan veitir og ábyrgðin á frárennsli hans verði lögð í hans eigin ungu hendur.
Gerið það fyrir mig á kosningaári að fara betur yfir málin svo við sem minnst megum okkar í þessu samfélagi, smábörn og gæludýr, verðum ekki látin líða fyrir ykkar yfirsjón.

Virðingarfyllst,
Bjartur Músarson
Kt. 020598-6669

1. mars 2007


1989 hringdi og vildi fá daginn sinn aftur! 1. mars er og verður "Bjórdagurinn". Þessi blessaði vaskdagur er bara bóla. Held það sé ekki einu sinni hægt að kaupa bjórkippu fyrir vsk-hagnaðinn af vikuinnkaupunum. Kannski svona 4 bjóra.

Nú skulu hendur látnar standa fram úr ermum, spýtt í lófa og allur kraftur lagður í.... að ná sér í nokkrar millur! Er gjörsamlega gagntekin, altekin, heltekin af íbúð í næstu götu sem vill svo skemmtilega til að er hreinlega íbúðin mín! Að því leyti að hún er eins og hönnuð fyrir mig, í mínu fína hverfi og fullkomin að stærð, lögun og stíl. Og meira að segja með white picket fence - eitthvað sem maður sér hvergi núorðið nema í Herrabókunum. Eins og sjá má á myndunum hefur ekki sést svona hugguleg íbúð síðan ég veit ekki hvenær og ég get eiginlega ekki hugsað þá hugsun til enda að hún verði ekki mín. Hef engan veginn efni á henni, en nú skal þessi heppni sem er alltaf verið að tala um að elti mig, gjöra svo vel og ná mér, því nú munu mjólkurpeningar heimilisins fara í Lottómiða, Happaþrennur og einnxtvo. Ætti ekki að koma að sök því ég mjólka jú svo vel... hmmm

Af myndunum að dæma er ekkert í þessari íbúð sem ekki er frábært nema ef vera skyldi portrettið af hestinum á mynd nr. 2 en það er síður en svo óyfirstíganlegt að kippa því í liðinn þegar ég flyt inn. Með mína fjölskyldu að sjálfsögðu. Hvar er ríki frændinn í útlöndum þegar maður þarf á honum að halda? Getur maður ekki sótt um styrk einhversstaðar til að uppfylla drauma sína? Hvernig væri að senda Ópru mail og láta hana pakka húsinu inn í gjafapappír og slaufu og gefa mér í beinni útsendingu? Þá skal ég háskæla af hamingju í beinni af hamingju einni saman.

Nei svona án gríns er ég farinn að plotta vel og mikið og spá og spökulera fram og til baka til að við náum saman, ég og íbúðin mín.

Ef banki verður rændur á morgun, þá var það ekki ég...!
Ég skal allavega gefa þér 100 spírur fyrir að hylma yfir með mér.. blikk blikk.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats