26. janúar 2009

Frá örófi alda hefur íslenska þjóðin þráð heitar en allt annað - að verða fræg! Útlendingar hafa ekki mátt segja ice og land í sömu setningunni án þessa að þjóðin gangi af göflunum og eflist í þeirri trú að Ísland sé best og merkilegast! Þess vegna er pínu skondið að nú er þjóðin orðin fræg; af endemum. Þegar slúðurbloggarinn Perez Hilton sér ástæðu til að skrifa um stjórnmálaástandið á Íslandi erum við einhverskonar fræg, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Einn sem commentar á þessa færslu hans Perezar kemur reyndar með hugmynd sem ég er alvarlega að hugsa um að leggja fyrir forseta vorn alráðan; það er sú hugmynd að sennilega erum við best sett ef svanakjóllinn hennar Bjarkar tekur völdin!
Já, hann er svo sem ekki verri en hver annar...

25. janúar 2009

Þrátt fyrir ógnarástand í þjóðfélaginu er ekki hægt að segja annað en að lífið gangi sinn vanagang í Efstasundinu; eldri drengurinn teiknar hugljúfar myndir af því sem honum dettur í hug og kötturinn hress sem vant er og etur hvað sem að tungu kemur. Sjá mynddæmi hér að neðan (mæli með að myndin hans Óla sé stækkuð upp til að sjáist sem best steinar er svífa í loftinu og egg sem splundrast á Alþingishúsinu):


Svangur kreppuköttur:


Nema honum finnist bara vanta upp á hreinlætið hjá húsbóndanum...


Spurt er hvort nýja talvan sé of góð fyrir BLOGG og svarið er já! Hún er nefnilega svo agalega hæf til að setja inn MYNDIR að ég hef aðallega verið að henda myndum inn á síðuna hans Kára og Flickr-ið (sjá tengla til hægri). Eins og ég tók skýrt fram í síðustu færslu bætir nýjan græjan nefnilega engu við hugmyndaflugið til bloggskrifa þannig að bloggara með ritstíflu gerir hún lítinn greiða. En að hanga á facebook, það er það sem hún getur! Þegar ég verð spurð eftir á að giska 30 ár af skuldsettum barnabörnunum hvar ég hafi verið í appelsínugulu búsáhaldabyltingunni 2009 verður svarið "ha, ég var nú bara á facebook.... en ég gekk í foreldrafélag IceSlave-barna-grúppuna! Það var mitt framlag!"

10. janúar 2009

Rússneska lýsingin í svefnherberginu okkar er allt í einu orðin að rússneskukeisarahallar lýsingu! Ó svo fín nýja peran mín sem býr til svona ægilega huggulega skugga á loftið:

 

Já ég veit, þetta er hámark andleysis að blogga um ljósaperu!
Best að geta þess þá til gamans að þessi færsla er skrifuð á nýju fínu Toshiba fartölvuna sem við skötuhjúin fjárfestum í í vikunni. Sú gamla hefur sýnt það að hún á álíka mörg líf og meðal köttur en miðað við það hlýtur hún að vera á síðasta lífinu sínu þessa dagana.

Ég lofa ekki að færslurnar verði fleiri eða betri því betri og flottari græjur bæta víst ekkert heilabúið í undirritaðri, til þess þyrfti áður nefndur heili að fá uppfærslu, fara allavega upp í hugmyndaauðgi úfgáfu 2.0 eða ritsnilld 3.0.

Hei, ég er ekki búin að blogga ennþá um eða í gegnum nýja fínafínafínasætafrákína APPLE IPHONE-inn minn, jú ég get nefnilega bloggað í gegnum hann, ég get sett myndirnar mínar inn á hann, geymt fullt af lögum í honum og svo get ég að mér skilst líka hringt úr honum og móttekið símtöl og jafnvel sent SMS.
Svo get ég hlaðið inn á hann alls konar viðbótum svo sem eins og leikjum, hljóðfærum sem ég spilað á, keypt mér tónlist, hangið á facebook og gert nánast hvað sem mér dettur í hug þó ég hafi ekki enn fundið viðbót til að úthluta Ísraelsríki skika á plánetunni Mars eða bjarga börnunum í Gaza. Því er nú verr.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats