30. júní 2004


Það hlýtur að vera ódýrara að kaupa opnanleg fög á alla gluggana í glerhúsinu mínu heldur en að kaupa 16.000.000 kr. loftræstikerfi sem framleiðir bara þungt loft!

Ótrúlegt fyrirbæri þetta kerfi, maður má ekki opna þessa fáu opnanlegu glugga sem eru á bakhliðinni og fá inn ferskt og gott sumarloftið af því að þá ruglast loftræstikerfið í ríminu og fer í klessu bara. Sniðugt!

Þetta með að vilja kaupa loft er örugglega sama element og fær fólk til að kaupa vatn á Íslandi eða deyja úr þorsta upp á fjöllum við fagran fjallalæk...
Tvíhöfðinn, þeir Jón Kjartansson og Sigurjón Gnarr ætla að lýsa úrslitaleik EM í beinni á Skonrokki á sunnudaginn. Því væri verra að missa af og svei mér þá, ef þetta er ekki ástæða til að íhuga að sleppa tónleikum Litháísku kósakkahljómsveitarinnar, Metallicu, þá veit ég ekki hvað... Og þó, kannski ekki. Veit ekkert hvenær þessir blessuðu tónleikar byrja annars, getur vel verið að maður nái hluta af lýsingunni. Við Tvíhöfði erum sennilega jafn ástríðufullir fótboltaunnendur og miklar vitsmunabrekkur í þeim efnum.

Hef öruggar heimildir fyrir því að Portúgal fari með glæstan sigur af hólmi í einvígi kvöldins gegn Niðurlendingum.



Og vinni svo Tékkana á sunnudaginn en það er önnur saga!
Fyrirgefiði, það var ekki meiningin að eyðileggja fyrir ykkur spennuna...

29. júní 2004


Játning!


Fór ekki að kjósa á laugardaginn! Handónýtur þjóðfélagsþegn sem maður getur verið! Nennti því ekki og dreif mig bara vestur! Slagviðri og viðbjóður gekk yfir landið sem meðal annars lýsti sér í því að einungis 63% landsmanna kusu. Þá einmitt fer maður að spögglera; aldrei hafa jafn fáir kosið í sögu lýðveldisins! Hmmm... Engu að síður er þessi tala ca. 15% hærri en tala þeirra sem gengu til kosninga í USA þegar Bush jr. var kosinn yfir USA og restina af heiminum í kosningunum 2000. Sem er athyglisvert útaf fyrir sig. Tæpur helmingur USA-búa kaus og tæplega helmingur þeirra kaus Bush (kunna ekki að telja í Flórída eða eitthvað) og því sitja þjóðir heimsins uppi með síkópatískt kristilegt alvald sem er einungis með 25% atkvæða landsmanna sinna á bak við sig! Athyglisvert! Held að við séum bara í góðum málum á klakanum þegar á annað borð þessi fjöldi nennir að fara og kjósa sér skreytingu á kökuna.

Ekkert samviskubit núna að hafa ekki farið að kjósa, lofa að fara næst þegar verður kosið um eitthvað sem skiptir máli!
Ekki nema 8 vinnudagar eftir fram að sommerferie, hversu frábært er það..? Helgin var æði eins og við var að búast. Brúðkaupið og veislan algjörlega meiriháttar en senuþjófurinn var sundlaugin í Reykjanesi. Þvílík og önnur eins snilld! Hún er takk fyrir kærlega 50 m og vatnið í henni er í kringum 40 gráðurnar þannig að hún er meira svona heitur pottur! 50 m heitur pottur! Hversu frábært getur það orðið? Og að sjálfsögðu varð maður að kíkja í hana um nóttina þegar brúðhjónin voru farin úr veislunni og allt að leysast upp. Íslenskara gerist það heldur ekki, að fara í 40 gráðu laug um hábjarta sumarnótt vestur á fjörðum! Geðveikt! Það er ekkert betra en íslenska sumarið! Verður bara að segjast eins og er.

Allir gistu semsagt í heimavistarskólanum að Reykjanesi og upp um alla veggi gat að líta fróma ættinga, svo sem eins og afa Jenna, Beggu föðursystur, Didda og Helgu afasystkin og fleiri mæta einstaklinga.
Svolítið skondið að það að vera þarna var pínu eins og að vera staddur í miðri bók eftir Agöthu Christie: afskekkt hótel, fullt af fólki samankomið af sama tilefni, einn og einn týnir tölunni (Sökudólgur: Bakkus!) og fleira skemmtilegt.

Helginni lauk svo með sólarhring í Úthlíð í alveg splunkunýjum píparabústað, agalega huggulegt allt saman.

25. júní 2004


Kjósa forseta já segiði, þyrfti eiginlega að gera það í fyrramálið ef ég verð ekki lögð af stað það er að segja. En hvern skal kjósa spyr maður sig?? Ok veltum aðeins fyrir okkur kostum og göllum frambjóðendanna. Í stafróðsröð að sjálfsögðu! Ítrasta hlutleysis gætt í hvívetna.

Kostir:

Ástþór hefur sýnt vott af geðveilu en ólíkt öðrum geðveilum þjóðhöfðingjum er hann með frið á heilanum en ekki stríð.

Baldur er bumbulíus og pínulítið eins og jólasveinn sem kemur sér vel í baráttunni við Finna og Norðurpólinn um eignarhald á jólasveininum.

Óli er búinn að búa á Bessastöðum í 8 ár og er farinn að rata um allt þar alveg sjálfur og er kominn með yfirgripsmikla reynslu í embættinu.

Gallar:

Ástþór hefur þannig augnaráð að lítil börn fara að skæla og gamlar konur signa sig.

Baldur gæti átt erfitt með að rúmast í þröngum sætum Þjóðleikhússins á hátíðarfrumsýningum.

Ólafur var ekkert voðalega ánægður með mig þegar ég ætlaði að selja honum 54 tannkremstúpur í Hagkaupum árið 1997. Hann var að kaupa 5 túpur (til hvers í ósköpunum???) og fingur mínur runnu mjúklega af 5 yfir á 4 líka þannig að 54 túpur voru slegnar inn í kassann og hann var ekkert voðalega þjóðlegur eða hátíðlegur þá.

Ofan á allt eru þeir allir giftir útlenskum konum! Voru þetta samantekin ráð hjá þeim að reyna brjóta okkur íslensku konurnar niður með því að allir þrír snéru við okkur baki?? Hmpf, það þarf nú meira til... Farið hefur fé betra segi ég nú bara...

Jæja, ég er engu nær svosem en mín lýðræðislega samfélagslega innri rödd segir mér að maður skuli nýta atkvæðisrétt sinn og kjósa þannig að við skulum nú reyna að komast á kjörstað. Er það ekki...?

ÁFRAM VIGDÍS!!!
Frábær helgi framundan. Bruna á ókristilegum tíma í fyrramálið vestur á firði í brúðkaup og húllumhæ sem því fylgir, gistum eina nótt, ryðjumst svo í bústað til tengdó og pottumst og grillumst og lúllumst þar ef við megumst og á frí á mánudaginn þannig að þetta er draumahelgi algjör! *Sælukurr, mal og hrollur*

Óska vinum og velunnurum nær og fjær góðrar helgar.

Hip hip!



24. júní 2004


Litli píp fór í þriggja og hálfs árs skoðun í morgun, eitthvað sem mann hefur kviðið fyrir lengi miðað við sögurnar sem maður hefur heyrt um þá skoðun. Einhver sagði að börnin þyrftu að kunna að telja afturábak og fara með ljóðabálka og allt í þeim dúr en hvað haldiði? Sonur minn er algjör snillingur samkvæmt því sem hjúkkan sagði. Klár á öllu sem hún spurði hann útí og teiknaði geggjaða mynd af mömmu sinni með augabrúnum og alles. Hann var líka settur í sjónpróf og látinn labba eftir línu sem ég veit ekki alveg hvaða tilgangi á að gegna, sonur minn er enginn róni! Allavega hann sér vel og jafnvægisskynið í fínu lagi. Hefði eiginlega átt að nota tækifærið og fá vottorð frá hjúkkunni um það að sonur minn sé löggiltur snillingur, og láta þinglýsa því, þannig að ég þurfi ekkert að rökstyðja það neitt frekar í framtíðinni! Eða kannski er nær að fá vottorð frá henni um að ég sé illa haldin af mömmufasisma á háu stigi. Læknisfræðilega heitið er Hverjumþykirsinnfuglfagur-syndrome...

Fótboltapistill alvitrar



Jæja í kvöld er alvöru leikur á EM: Portúgal-England. Nú skulu mínir menn sko rúlla yfir þessa bretakjána og hana nú. Skil ekki alveg af hverju í ósköpunum annar hver maður heldur með þessum leiðinda Englendingum... fólk er einhvernvegin gegnumsýrt held ég af markaðsdeild Sýnar sem hefur haldið ensku deildinni að fólki sem ægilega merkilegri eða eitthvað álíka, sem gerir það að verkum að sjálft enska liðið er stórlega ofmetið! Við skulum bara hafa í huga að nota bene alvöru leikmennirnir í deildinni eru útlenskir! Maður sér bara til þessara ensku í slúðurblöðunum, þar standa þeir sig alveg konunglega og eru allt í öllu (Rooney er svo ungur að það eru ennþá svona 2 ár í að hann verði slúðurblaðamatur, getur enn einbeitt sér að boltanum). En þar sem allir halda með tjöllunum held ég að ég skreppi bara upp á Kárahnjúka á eftir til að geta samglaðst með einhverjum þegar sigurinn er í höfn!

Skondið annars hvað fólk heldur aðallega með einhverjum gömlum goðsögnum sem eru svo dettandi út hver á fætur annarri, samanber Ítalina (búningarnir hefðu nú alveg mátt vera lengur inni) og Þjóðverjana (almáttugur þvílíkt leiðindalið). Hollendingarnir rétt náðu svo að tolla inni. Málið er bara það að þessi lið voru alveg svaka góð og best í heimi fyrir 20 árum síðan OG HVAÐ MEÐ ÞAÐ? Talandi um að lifa á fornri frægð.
Ætla núna að láta þessum fólboltapistli mínum lokið áður en ég segi eitthvað verulega vitlaust.

Amen.

23. júní 2004



Frétt í dag:
"Í bréfi Bush forseta til Bandaríkjaþings segir að Bandaríkjastjórn hafi verulegar áhyggjur af hvalveiðum Íslendinga og að hún ætli að beita fortölum til þess að fá þá til að hætta hvalveiðum í vísindaskyni."

Svar Heimsmálaráðuneytis Íslendinga sem var sett í póst áðan:

"Hr. Bush jr.
Um leið og þú hættir að drepa fólk í skemmtanaskyni skulum við kannski íhuga að endurskoða málið."
Horfði á alveg fantagóða mynd á DVD í gærkvöldi. "Touching the Void" heitir hún og er heimildamynd um þá kumpána Joe Simpson og Simon Yates sem settu sér það markmið að verða fyrstir fjallageita til að klífa vesturhlið fjallsins Siula Grande (6344 m) í Andesfjallgarðinum í Perú árið 1985. Þeir lentu í hinum ýmsustu hremmingum og þessi ferð þeirra er fyrir löngu orðin að algjörri goðsögn í fjallaklifrarasamfélaginu. Í rauninni er þetta leikin heimildamynd þar sem þeir lýsa ferðinni og eru frásagnirnar svo myndskreyttar með leiknum atriðum sem eru tekin á þessum sömu slóðum. Myndin fannst mér í meira lagi vel heppnuð, vel unnin og áhrifamikil, án þess þó að missa sig út í einhverja hollywood-dellu! Hápunkturinn var nú þegar annar þeirra, í eins miklum ógöngum og þær geta orðið, fékk "Brown Girl In The Ring" með Boney M á heilann heila nótt. Maður getur ályktað sem svo að þá hafi manngreyið verið komið hálfa leið til helvítis! Ef þetta hefði hins vegar verið "On The Radio" með Donnu Summer hefði hann verið hálfnaður til himnaríkis... Á disknum var líka heimildamynd um gerð heimildamyndarinnar sem er eitt og sér athyglisverð staðreynd. Væri líka alveg til í að næla mér í bókina sem hann Joe skrifaði um ferðina, hún ku einnig vera mjög áhrifamikil.



Þegar ég var í kringum 6 ára aldurinn voru tveir staðir sem ég var staðráðin í komast einhverntíman á! Annar þeirra var einmitt Perú, eða nánar tiltekið til týndu borgarinnar Machu-Picchu. Það hefur sem sagt alltaf verið á planinu að labba Inka-slóðann, þó sá draumur verði kannski ekki að veruleika fyrr en í kringum fimmtugsaldurinn! Hér er kort af leiðinni. Skilst að gangan taki um 4 daga (43 km) þannig að segja má að Laugavegurinn hafi verið ágætis upphitun. Spurning um að kynna sér það nánar... Hinn draumastaðurinn var Pompeii en þangað fórum við 1997 þannig að það er best að einbeita sér bara að Inka slóðanum... Líka áður en hann verður endanlega trampaður niður af þessum 25.000 göngumönnum sem fara hann á ári!

22. júní 2004


Algjört vaðandi skrifstofufárviðri í gangi þessa dagana. Til hvers er verið að smíða svona glerhús þegar ekki er hægt að opna neinn af þessum blessuðu gluggum? Finnst að það ætti að vera hægt að renna glerinu eins og það leggur sig einhvernveginn frá... Þá væri maður á stærstu svölum í heimi! Húsið mundi líta pínulítið út eins og nýja golf-unitið í Grafarholti (svona eins og golf-byggingin í There's something about Mary, fyrir þá sem ekki vita). Já einmitt þannig mundi húsið líta út án glers! Fögur sjón sem það yrði.

VANTAR AÐ KOMAST ÚT!!!!!

Búin að spjalla við einn lögfræðinginn og við erum aðeins að plotta hvernig hægt sé að fá lögbann á það að fyrirtækið sé opið á svona degi! Þetta er náttúrulega mannréttindabrot í hæsta máta og aðför að friðhelgi einkalífsins og örugglega eitthvað fleira líka... Erum með þetta í vinnslu núna...

21. júní 2004


Kæra Almætti!

Með þessu bréfkorni ætla ég mannpísl, Perla nr. 4.258.654.753, að fara þess á leit við yður Almáttugt að fá að skipta um orkugjafa. Hef semsagt ákveðið að ég vil hætta að ganga fyrir hvíldarorkugjafanum er kallast svefn og í staðin vil ég fá að ganga fyrir nútímaorkugjafa er nefnist sólarrafhlöður! Tel að aðgerðin sem slík ætti að vera mjög einföld í framkvæmd og sá orkugjafi eigi í raun mun betur við á þessum árstíma, þegar maður fæst ekki til að leggjast til hins svokallaða svefns á kvöldin og er því tilbúin til að leggja hana á mig með þeim vanköntum og aukaverkunum sem hún kann að hafa í för með sér. Rökin fyrir þessari beiðni minni eru þau að þar sem nú er alltaf sól og bjart allan sólarhringinn þykir mér hleðsla í formi svefns í hæsta máta óþörf og barn síns tíma og að auki ætti þessi aðgerð að vera auðframkvæmanleg. Á þeim forsendum sæki ég því um orkugjafabreytingu frá og með deginum í dag og til og með 4. ágúst næstkomandi. Vona að þér takið þessa beiðni mína til greina og getið orðið við henni svo fljótt sem auðið er.

Kærar þakkir,
Perla mannpísl nr. 4.258.654.753
Hann Harry Pottahh er sannkallaður galdrastrákur! Hann leggur alltaf einhver svefnálög á mig nefnilega... Þar sem maður er jú sílesandi þessar bækur (þökk sé 14 ára bróður mínum), verður maður náttúrulega að kíkja í bíó á myndirnar... Á öllum þremur myndunum hefur mér tekist að sofna, þrátt fyrir að vera eins útsofin og hægt er. Í fyrstu myndunum sofnaði ég yfir Quidditch-atriðunum, enda eru þau með eindæmum svefnvænleg, en sem betur fer hafði nýji leikstjórinn mjög minimaliskt Quidditch atriði í þessari mynd sem hefði ekki tekið því að sofna yfir en samt hélt ég þetta ekki út þannig að nú dottaði mín rétt undir lokin þegar allt var að gerast. Fyrir þá sem ekki vita þá sofna ég ekki yfir myndum sem mér finnst leiðinlegar heldur öllum myndum! Það er að segja heima hjá mér næ ég sjaldnast að halda mér vakandi heila mynd en það tekst nú samt vanalega í bíó, nema á Potter! Þannig að það er alveg á hreinu að þetta eru galdrar beint af hvíta tjaldinu með nútíma tækni. Bévítans kukl, maður er hvergi óhultur!

18. júní 2004


Karókístjarna Íslands!




Efast um að Kalla Bjarna ídol-stjörnu, rokkaranum mikla og tónlistarmanninum af "guðs náð" hafi nokkurn tíma dottið í hug að frægðin og framinn sem fælist í því að vinna blessað ídolið, væri að flakka um landið og syngja bæði lögin sem hann kann (og allir kunna) fyrir börn og eldri borgara og vera svo látinn syngja á nokkura mánaða fresti, "glænýtt frumsamið lag, samið af einhverjum allt öðrum fyrir hann sjálfan".... Einhvernveginn er búið að móta hann í eitthvað leiðinda markaðsmót og hann gerður eins og hinir alvitru markaðssetjarar Norðurljósa geta hugsað sér að hafa hann, eða sem ólíkastur sjálfum sér, allavega er ekkert verið að draga fram í honum rokkarann sem hann í upphafi gaf sig út fyrir að vera. Æ datt þetta bara í hug þegar við fjölskyldan fórum að horfa á þessa karókístjörnu syngja áðuráminnst bæði lög sín, og eitt sem hann var að læra (með undirspilið á bandi að sjálfsögðu), hvað þetta er í raun sorglegt fyrirbæri, ídolið.. á litla skerinu okkar. 17. júní skemmtunin er örugglega hápunkturinn á hans ferli hingað til en reyndar vorum við litla familían alls ekki sátt við hann, eða þá sem halda í strengina á strengjabrúðunni, af því að hann tók ekki fjórða lagið sem hann kann, sem er jú uppáhaldslag 3 ára sonar míns (segir margt um hlustendahópinn...). Biðum hálft kvöldið og hann sá ekki einu sinni sóma sinn í að taka það fyrir leikskólabörn landsins.

Usss...

Jæja, ekki meiri neikvæðni, við skulum gefa strákgreyjinu smá séns og sjá hvort ekki rætist úr honum...

Var mest svekkt yfir að missa af Nylon...

HAHAHAHAHAHHAHAHAHAHAHAHHAHHHAHAHMÚHAHAHAHHAHMÚHAHAHHAHAAaaaa....

15. júní 2004


Þar sem samstarfskona mín er hvolpafull og komin 6 og hálfan mánuð á leið er unnið að því að fá aðra frambærilega í staðinn. Ein hóf störf í dag. Líst rosa vel á hana, hún er ægilega fín og er komin rúmlega sex og 1/2 mánuð á leið!

Hvað segiði, hljómar það eitthvað furðulega? Að hvolpafull mannseskja sé rípleisuð með enn hvolpafyllri manneskju? Ja var reyndar að velta því fyrir mér líka, þangað til mér var sagt að þessi verði bara fram í ágúst! Leysir mig af í sumarfrí. Og svo fara þær báðar í gotfrí og hvað þá...?!?! *angist* Allamalla, verð sennilega með fyrirtækið á herðunum frá og með ágúst...
Þorsteinn Joð er snilli sem á heima í og á að vera í sjónvarpi! Hann er með fótboltaþátt núna á hverjum degi á RÚV meðan EM er og mín bara má ekki missa af honum... kommon fótboltaþátt!! Ég!? Hann kemur eins og ferskur andvari á fögrum sumardegi vestur á Ströndum inn í þessa annars heilalausu og andlausu úrsérgengnu íþróttaþáttaflóru. Efnistökin, talsmátinn og sýnin á viðfangsefnið eru þannig að tóm ánægja hlýst af. Ja seisei. Hvernig manninum tekst þetta veit ég ekki en ætli málið sé ekki bara að honum finnst þessir blessuðu leikir ekki vera dauðans alvara eins og sumum!

14. júní 2004


R.I.P. S.A.T.C.



Which Sex and the City Player Are You?


Sé að það er alveg nóg að setjast niður og byrja að horfa á fótboltaleik á 90. mínútu. Ákvað að sýna kallinum samhug og stuðning í verki og sýna honum og hans áhugamálum virðingu og tyllti mér hjá honum síðustu mínúturnar á Frakkland-England og þá bara fór allt að gerast og Frakkland jafnaði og komst síðan yfir þegar þeir skoruðu úr víti, allt á 2 mínútum. Varð svo um og ó við öll lætin að hálfur pringles staukur hvarf oní mig og lítri af gosi. Merkilegt hvað fótbolti getur tekið upp á því að vera spennandi svona 2% af leiknum en laus við að vera spennandi þess á milli. Jahérnahér!
Hahh! Nú get ég loxins sannað að ég hafi labbað Laugaveginn. Átti nebblilega engar myndir þar sem myndavélin mín fína stafræna tók upp á því upp á sitt einsdæmi, að eyða öllum myndunum mínum þegar hún hafði lokið við að gubba þeim í tölvuna hjá fararstjóranum, sem fékk sem sagt myndir hjá okkur öllum ferðalöngunum til að setja saman einn alsherjar Laugavegurinn 2003-disk. Hann er búinn að taka sér 11 mánuði í það verk og þann tíma hef ég ekki haft neina haldbæra sönnun þess að ég hafi labbað þennan blessaða Laugaveg, (iiii... eins og þú getir ekki fengið hrafntinnur annars staðar en á Hrafntinnuskeri, pantaðir hana bara á netinu... góða besta...) og eina vitnið sem ég hafði er að fara að flytja úr landi, þannig að það voru eiginlega síðustu forvöð að fara að fá einhverja sönnun í hendurnar.

Fékk semsagt símtal í lok síðustu viku frá fararstjóranum þar sem hann tilkynnti að diskurinn með myndunum væri klár, þannig að nú er ég með 350 myndir úr ferðinni, og er örugglega búin að renna svona 50 sinnum yfir þær um helgina. Þessi stafræna tækni er sko algjörlega það sem koma skal og þvílíkur munur að geta skoðað þessar stórkostlegu myndir á 17" skjá frekar en að vera með þær á 10x15 og þurfa að rýna í alla náttúrufegurðina. Allavega, áhugasamir velkomnir í myndasýningu anytime.

11. júní 2004


Alltaf gott þegar menn gera sér grein fyrir veikleikum sínum...


Það bar til um þessar mundir að boð barst frá Fótknattleikssamkundu Evrópu að blásið yrði til Evrópumóts í svokallaðri knattspyrnu árið 2004 í Portúgal. Fótboltabullur og bullukollur flykktust til landsins og erfitt varð svefnpláss að fá og urðu einhverjir frá gistihúsum að hverfa og leggjast til hvílu í fjárhúsum og á strætum Lissabon-borgar og nágrannabæja. Vitringarnir þrír höfðu boðað komu sína en fengu ekki inngöngu í landið þar sem á þeim fundust efni með torkennilegri lykt og þóttu þeir vera í helst til annarlegu ástandi og undarlega til fara. Þeir halda fram sakleysi sínu og segjast aðeins hafa ætlað að nota hið svokallaða "reykelsi" til að yfirgnæfa mengunardauninn í Lissabon, en þeirra bíður ákæra fyrir smygl innan Schengen-svæðisins.

Oj hvað mig langar til Portúgals núna á EM og upplifa stemminguna, trítla inn í gamla Alfama hverfið í Lissabon og finna einhvern pöbb fullan af allraþjóðakvikindum og fylgjast með þeim fylgjast með boltanum, og fá sér eins og três cervejas. Liggja svo í sólbaði á milli leikja og njóta lífsins. Besta við þennan blessaða bolta er einmitt stemmingin og ástríðan í kringum hann.. gæti ekki verið meira sama um stoðsendingarnar og fráköstin eða hvað skytturnar eða línumennirnir gera, eða hver á uppgjöf í það og það skiptið... Virkar svipað á mig og veðurfréttirnar, missi einbeitingu eftir 20 sekúndur.

10. júní 2004


Esjan var heldur betur hressandi í gær. Unaðsleg veðurblíða og greinilega margir sem höfðu dottið niður á þessa snilldarhugmynd eins og við að labba á fjall. Geri fastlega ráð fyrir að þetta sé mjög heilsusamleg iðja þar sem við rákumst á heilbrigðisráðherra og forstjóra krabbameinsfélagsins á leiðinni. Var að tala um á blogginu um daginn að við Berglind ætluðum að trítla 5vörðuháls um Jónsmessuhelgina en hún Lisa vinkona mín ætlar á snilldarhátt að koma í veg fyrir það, þar sem hún og heitmaður hennar til nokkurra ára, hann Kjartan, ætla að ganga í hjónaband þá helgina. Brúðkaupið fer fram í Unaðsdal á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp, sem er svaka spennandi og skemmtilegt, að flakka lengst vestur á firði og hafa gaman. Hlakka mikið til!
Svo ætla þau hjónakornin að skella sér í brúðkaupsferð hingað... og vera í tæpan mánuð!
Allt í einu hljómar brúðkaup sem skemmtileg hugmynd...


Húrra! Það á að koma nýr gosbrunnur í tjörnina. Gamli bilaði og síðan þá hefur eitthvað vantað í tjörnina á sólríkum sumardögum. Samkvæmt þessari frétt þurfti bara tvo borgarbúa til að biðja fallega og skrifa bréf, til að koma þessu í gegn. Skohh... svona getur hinn almenni borgari haft áhrif, það er að segja ef hann er að biðja um réttu málin. Ekki viss um að þeir væru til í að grafa upp Lækjargötuna og leyfa læknum að njóta sín frá tjörn og út í sjó eins og mér þætti gaman að yrði gert. Þó ég mundi skrifa bréf og biðja fallega og fá einn eða tvo til liðs við mig. Ætli þeir mundu ekki hafna þeirri hugmynd á þeim forsendum að ég bý í Mosfellsbæ!

9. júní 2004


Andrés Önd 70 ára!

Ég er sjötugur í dag! Þá er þetta búið...
Spurning með að klæða sig í buxur og fara frekar úr að ofan í tilefni dagsins. Það sæmir ekki sjötugum öndum að stripplast endalaust buxnalaus...
Minn þreyttur núna og með bauga niðrá tær! Þessi veðurblíða allan sólarhringinn gerir það að verkum að maður þrjóskast við að fara að sofa og telur sér í trú um að maður þurfi ekkert mikinn svefn svona á sumrin en svo er maður bara eins og kjáni á morgnana og kemst ekki framúr og svo loks þegar maður nær að sparka sér framúr þá er hugurinn kominn hálfa leið upp á Esju þegar maður þarf að fara í glerhúsið sitt og sitja þar allan daginn (lesist á innsoginu). Og þar sem það er eitthvað lítið um opnanlega glugga á húsinu sem er jú ekkert nema gluggar get ég ekki einu sinni dundað mér við að kasta steinum úr glerhúsi. Stefnan er sett á Esjuna í kvöld, búin að vera á leiðinni í margar vikur sko og nú skal það framkvæmt!

Nýja tölvan er alveg að gera sig en 56K módemið heldur betur ekki. Búin að taka fullt af myndum á stafrænu harmrænu myndavélina og hlaða þeim inn á tölvuna eins og ég eigi lífið að leysa og allt í góðu með það, nema hvað... þegar ég ætla að setja þær inn á síðuna hans ÓBG, búin að minnka þær og gera þær vefsíðuhæfar, þá fer módemið í verkfall og eins ef við erum að senda email með myndum eða einhverju öðru en bara texta. Það sem sagt er ekki að höndla meðalstór og stærri skjöl til sendingar... ADSL er semsagt væntanlegt á heimilið hvað á hverju, bíðið spennt!

8. júní 2004


Super Duper Countdown-O-Meter Thingy:
106 dagar til Spánarfarar...
Tíminn gjörsamlega flýgur áfram!
Sonur minn verður algjör hjartaknúsari, og það svalur hörundsdökkur hjartaknúsari þegar hann verður eldri... samkvæmt þessu! Allavega líkjast þessar stjörnur honum hvað mest.
Hér er reyndar nýrri mynd af honum og kannski meira að marka hana...

ATH. Þessar myndir verða bara til staðar í 48 klukkustundir frá og með NÚNA!

7. júní 2004


Smella fyrir stærri útgáfu

Fyrst það er komið DVD á heimilið er alveg málið að næla sér í þessa. Hef leitað að henni útum allt á VHS til kaups, en hér með er þeirri árangurslausu dauðaleit hætt og hún keypt á DVD barasta, hlýtur að vera auðfáanlegri á því formi... kaupi hana þá bara á netinu ef ekki vill betur til!
Vill einhver gjöra svo vel að senda Jennifer Lopez í meðferð! Manneskjan er fíkill í trúlofanir og brúðkaup. Hún er meira að segja svona túramanneskja, dettur í hjónaband sem stendur í svona 13 daga og svo er hún skilin í nokkra mánuði þar til sagan endurtekur sig.
Hef vart undan við að bera til baka orðróm sem sonur minn hefur glaður hrundið af stað. Þetta kríli gengur um allt og tilkynnir flestum sem á vegi hans verða að hann sé að fara til Ítalíu! Ekki vitum við hvaðan hann fær þær hugmyndir en eitt er víst að fjölskyldan er því miður ekki á leið til Ítalíu, alveg í bráð allavega. Ætli einhver félaganna í leikskólanum sé ekki á leið til draumalandsins og þaðan fái hann hugmyndina. Allavega erum við bæði þannig gerð mæðginin að við erum suðræn og seiðandi í okkur og mundum helst vilja hafa siestur og fiestur á hverjum degi og liggja í sólinni í sandölum og ermalausum bol.

Nei við erum ekki löt, bara nautnaseggir!
Maður getur greinilega skráð sig undir starfsheiti að eigin vali í símaskránni! Þessi maður er til dæmis plötusnúður að aðalstarfi en vinnur kannski við starfið sem hann gefur upp í frístundum og á tyllidögum... Hvað ætti maður sjálfur að velja sér...? Mig hefur svosem alltaf langað til að vera fararstjóri eða ekkva álíka, jafnvel farandsali... eða fagurkeri! Það er greinilega bara einu símtali í burtu... var það ekki 8007000?!?!

4. júní 2004


Þetta er nú meiri lufsudagurinn! Við erum svo fámenn á skrifstofunni í dag og yfirmennirnir á "málþingi" (hick..) og síminn rólegur og ekkert mikið að ske þannig að maður hangir hérna í básnum sínum eins og klessa. Búið að fara í bakaríið, búin að fara í ísleiðangur, búin með netið þannig að nú má þessum vinnudegi bara fara að ljúka þannig að ég geti stokkið útí góða veðrið eins og hinar beljurnar og valhoppað um allt...

Gummi fékk páfagauk í afmælisgjöf og komst fljótt að því að sá var með afbrigðum skapvondur og orðljótur. Gummi gerði allt sem honum datt í hug til að venja fuglinn af þessum ósið, hann notaði sjálfur eintóm kurteisisorð, spilaði hugljúfar ballöður fyrir hann og reyndi með því að sýna honum gott fordæmi. Ekkert gekk upp. Hann prófaði að skamma fuglinn sem svaraði honum fullum hálsi. Hann hristi búrið en gaukurinn varð bara enn skapverri og dónalegri við það. Gummi vissi nú ekki sitt rjúkandi ráð og í örvæntingu sinni tók hann fuglinn og setti hann í frystikistuna.

Um stundarsakir heyrðust ógurleg læti úr kistunni, fuglinn sparkaði og öskraði og bölvaði -- en skyndilega datt allt í dúnalogn og ekki eitt einasta hljóð heyrðist í langan tíma. Gummi fór nú að óttast að hann hefði meitt fuglinn og flýtti sér að opna kistuna. Páfagaukurinn var hins vegar hinn rólegasti, steig upp á útrétta hönd Gumma og sagði: "Að undanförnu hefur hegðun mín og orðbragð ekki verið til eftirbreytni og sennilegast orðið til að móðga þig. Ég mun þegar í stað taka mig rækilega á og breyta þessari hegðun minni. Mér þykir verulega leitt hvernig ég hef látið og mig langar til að biðja þig innilega fyrirgefningar." Gummi varð orðlaus af undrun og var um það bil að fara að stama upp spurningu um hvað hefði valdið breytingunni þegar páfagaukurinn hélt áfram: "Bara svona fyrir forvitnis sakir, hvað gerði kjúklingurinn eiginlega?
Píp vill að við fáum okkur bankahólf undir allt sem skiptir okkur máli. Hef vissar efasemdir... er ekkert viss um að litli píp verði neitt of ánægður með það að dúsa í einhverju bankahólfi...

2. júní 2004


Tilkynning!


Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur inn á heimili mitt. Sá gamli var orðinn svo leiðinlegur og gamall og hægfara og sínöldrandi að honum var bara einfaldlega hent! Þessi nýji er svo rosalega fullkominn að maður verður bara feiminn og auðmjúkur. Hann er svartur, hann er 17", öflugur, úthaldsgóður, hljóðlátur og samvinnuþýður. Hann er 20GB, með 400 blabla vinnsluminni (held ég) og heitir DELL! Kostaði bara nokkra 5þúsundkalla, enda notaður en þó ekki misnotaður. Gerist ekki betra. Hitt dótið með sín 3 eða 4 GB fékk að fjúka með það sama. Ef einhvern vantar skjá og lyklaborð og ekkva sona tölvudót má hann tjá sig bara, eða nálgast það hjá mér...

Svona er þetta bara, ekkert grín að vera svín og étinn á jólunum!
Hann neitaði að kvitta karlanginn! Pottþétt kosið um þetta samhliða forsetakosningunum; og fellt, og Óli verður forseti áfram.

Þingræði hvað?!?! Lengi lifi lýðræðið... burtséð frá þessu blessaða leiðinda frumvarpi.
Stjórnin fellur og allt að ske! Hver segir svo að pólitík sé leiðinleg... kannski helst til fyrirsjáanleg samt.. eða ég gædd yfirnáttúrulegum hæfileikum.

Örugglega ekki leiðinlegt að vinna hjá Norðurljósum núna, fréttamennirnir í kvöld verða að öllum líkindum ofurölvi eftir kampavínsþamb og fögn.

Notalegt að sjá hvernig lýðræðislegt þjóðfélag fúnkerar.

1. júní 2004


Flest er nú til...


PPerfect
EEarthy
RRevolutionary
LLight
AAccurate

Name / Username:


Áðan stóð hérna fyrir framan mig, í vinnunni sko, ónefndur hárklippikarl sem var framan á Heyrt & séð fyrir nokkrum misserum undir fyrirsögninni "Lenti í framhjáhaldi". Eftir að hafa hugsað málið í 2 sekúndur ákvað ég að það væri sennilega vissara að taka 2-3 skref afturábak... annars gæti maður nefnilega "lent" í framhjáhaldi. Vissara að taka enga áhættu, þetta hlýtur að vera bráðsmitandi andsk...
Nei nei það var svosem auðvitað... Ekkert Elludjamm á laugardaginn. Þurfti endilega einhver að fá hjartaáfall í flugvélinni hennar þannig að það varð neyðarviðsnúningur og lent í Glasgow og ekki lent á Íslandi fyrr en 3 um nóttina.... Þarf alltaf að vera ekkva svona þá sjaldan maður ætlar að lyfta sér upp... man reyndar ekki eftir neinu dæmi, en samt... Við skulum bara vona að þessi með hjartað sé kominn í lag og við Ella fáum okkar tjútt seinna. Grilluðum þá bara um kvöldið með Gust & Jo og unnum þau í Trivial.

Fermingarveisla dauðans á sunnudaginn í Reykholti og bústaður um kvöldið. Því miður fór nú bróðurparturinn af kvöldinu í að berjast við dúndrandi hausverk og ógleði vegna ofáts og sykursjokks eftir þessa svaðalegu veislu. Lét það samt ekki koma í veg fyrir sykursætan sigur í Trivial og notalegheit og svo fengum líka snefil af útilegufíling þegar við fórum að heimsækja Voga-familíuna í Húsafell, þar sem þau voru með sinn tjaldvagn inn á milli allra hinna tjaldvagnanna og fellihýsanna. Ógeðslega verðum við góð með okkar kúlutjald í sumar, svo lengi sem við verðum ekki keyrð niður af þessum fellivagnahýsalýð. Lengi lifi kúlutjöld! Húrra húrra! Held að þau öðlist uppræsn æru með nýju áðurnefndu símaskránni og verði málið í sumar!
Helginni svo slúttað með grilli hjá tengdó en ekkert Trivial í það skiptið.
Held þau hafi ekki þorað...
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats