17. október 2007


Það er víst búið að breyta Nordica í Hilton hótel. Nú getur maður gist á Hilton eins og hinar flærnar.

Hef reyndar einu sinni gist á Hilton hóteli og það var í bænum Del Mar í Californiu. Vorum að koma frá San Diego með Toggu, Jökli og hundinum Tótu og náttúrulega hinum 23 fjölskyldumeðlimunum, og ákváðum að staldra við á hóteli á leiðinni til baka. Man ekki af hverju þetta hótel varð fyrir valinu - kannski var það eina hótelið sem samþykkti hunda og flær, með fullri virðingu fyrir hundinum Tótu. Eða kannski leyfðu þeir bara flær, því eitthvað rámar mig í meint smygl á mexíkóskum smáhundi inn fyrir lóðamörk tiltekins hótels. Man þetta ekki svo gjörla.
Það verður nú annars hressandi í framtíðinni að heyra karlmenn í kringum sig hlæja ruddalega þegar þeir segja frá því að þeir hyggist gista á Hilton-hótelinu... "Maður er bara að fara á Hilton í kvöld... ehehehehe...". Og þá svarar viðmælandinn "Nú, París? eheheheheh...". Og svo ehehehehehehe-a allir saman í kór.

Jæja, um daginn kom Viktoría Beckham við sögu í bloggfærslu minni. Í dag Paris Hilton. Hver veit nema á morgun bloggi ég um Britney Spears og daginn þar á eftir um ruslatunnur til að halda þemanu gangandi.

16. október 2007


Litli píp er mjög áhugasamur um friðarsúluna eins og mamma hans. Þegar kveikt var á henni um daginn sátum við mæðginin saman og drengurinn fékk ágrip frá mömmu sinni af ævisögu Lennons og gaumgæfilega var farið yfir með honum hvað friður er. Hann vissi svo sem alveg hvað stríð er eftir að hafa fengið fréttir í beinni með kvöldmatnum alla sína ævi, en hann var hins vegar ekki alveg klár á hugtakinu “friður” enda leggur hann þann skilning í málin að þar sem sé stríð - geti maður ekki farið út að leika, en eins og á Íslandi - geti maður farið út að leika!

Þannig sér hann heiminn. Allavega, eftir að hafa hlustað á ævisöguna í ekki nema tveim bindum sem þykir stutt útgáfa og látinn læra “Imagine” utanbókar, fór hann að velta fyrir sér hvaðan ljósið kæmi. Hann spurði mikið og kom með alls konar tilgátur og var orðinn alveg óður í að vita hvaðan ljósið kæmi. Við sögðum honum að það kæmi úr mörgum kraftmiklum ljóskösturum sem lýstu lengst upp í himinninn en það svar dugði dreng ekki. Eftir að hafa hlustað á spurningar og pælingar í nokkra daga og með samviskubit yfir að geta ekki svarað kauða almennilega með helstu tölulegu staðreyndum, ákváðum við að panta tíma hjá Villa Vill svona rétt áður en hann hætti. Villi er, sem alkunna er, sérstaklega heiðarlegur maður og hefur aldrei verið staðinn að lygi né nokkru misjöfnu og sagði okkur hvers kyns er með þessa ljóssúlu:

Úti í Viðey er rúmlega mannhæðarhár hvítur blómapottur sem á er letrað “Að hugsa sér frið” á hinum ýmsustu tungumálum. Ofan í þessum potti er svo.....



Þessi hér:




Sem hrópar í gríð og erg: "BY THE POWER OF PEACE.....!!!!!

Við gengum sátt af fundi með Villa og erum fegin núna að það sé ekki kveikt meira á súlunni því þótt ljóskastarinn heiti He-man verður hann að fá einhverja hvíld á milli lota. Ofurhetjur eru líka fólk!

15. október 2007


Stjörnuspáin mín og stjörnuspá almennt á það nú til að vera voða af öðrum heimi eitthvað. En þessi spá á mbl í dag slær nú allt út:

Ég á semsagt að vera góð við mitt innra barn! Og það sem meira er, reynast því gott foreldri! Ekki nóg með að í þessari klausu sé hálfpartinn verið að gera mann að geðklofa sem á að babbla við sjálfan sig, vera aaaaaaa við sig í tíma og ótíma, reyna að siða sig til og kenna sér góð gildi heldur er ég þar með orðin 3 barna móðir! Það eru litlipip, minnstipip og innrabarn. Að ég tali nú ekki um fjórða barnið, köttinn hann Bjart.
Svo hlýtur Píp að eiga sitt innra barn líka, þó hann sé ekki sporðdreki, þannig að miðað við þessa skyndilegu stækkun á fjöskyldunni þurfum við eiginlega að fá okkur sjö manna bíl í það minnsta. Ef ekki bara stuttferðabifreið til að koma öllu því hafurtaski sem fylgir 4 börnum fyrir.
Og miðað við hvað ákveðnir aðilar urðu leiðir fyrir Bjarts hönd þegar hans var ekki getið í jólakortinu í fyrra er vissara að maður hafi allt á hreinu þetta árið.

Sé fyrir mér að undirskriftin verði eitthvað á þessa leið:

Gummi, Perla, Óli, Kári og Bjartur ásamt innri börnum, innri fullorðnum og innri kettlingi. Biðjum hlutaðeigandi velvirðingar ef við gleymdum einhverjum.

14. október 2007


Ég verð að segja fyrir mína parta að mér finnst friðarsúlan geggjuð!!!


Bara fruntaleg snilld og sérstaklega hugguleg á að horfa. Bý svo vel að geta horft á hana úr rúminu mínu og úr þakglugganum í tölvuálmu heimilisins má sjá hana frá upptökum til enda, þó hún reyndar nái það hátt að stundum veltir maður því fyrir sér hvort hún sé endalaus.
Eina sem ég hef út á hana að setja er að mér finnst hún loga full stutt, á bara að vera frá kl. 20.00 til 24.00 en mundi vilja sjá hana líka frá 07.00-08.30 í nóv. og des. þegar myrkrið verður meira. Viss um að dagarnir, og þá sérstaklega umferðin, verði friðsælli þegar íbúar borgarinnar streyma til vinnu með friðarsúlu vakandi yfir sér. Svo um helgar mætti hún loga lengur (sem hún gerir reyndar núna en kannski af því að þetta er fyrsta helgin) og þá er ég alveg viss um að ófriðaröldur miðbæjarins lægi.
Fyrst ég er að frekjast þetta mundi ég líka vilja sjá hana loga út febrúar ca. Já kannski væri bara frá haustjafndægri fram á vorjafndægur alveg kjörið en þá er reyndar aðeins búið að afbaka hugmyndina með að hún logi frá fæðingardegi Lennons til dánardægurs - en Yoko myrkrið er svo svart á Íslandi!

Já nú er ég búin að koma þessum óskum mínum á framfæri og spurning með að senda þær á Dagga sæta nýja borgarstjóra og sjá hvað hann segir. Verð að segja það að ég er nú bara alveg guðs lifandi fegin að spillti tryllti Villi getur farið að spila meira golf en mikið hefði ég nú viljað að hann tæki that evil bastard Björn Inga með sér. Nei nei, alltaf þarf þessa hel#&%$* framsóknarmenn til að mynda stjórn. Sem sannar hið fornkveðna; það er sama hvað þú kýst, alltaf ertu að kjósa framsókn. Megi þeir fara norður og niður í friði.

Peace out.

7. október 2007


Sko ég fór í bíó um daginn! Á Rattatsjúí eða hvað sú ágæta mynd heitir. Að sjálfsöfðu vinnur vel máli farið fólk í bíóinu sem veit sko ósköp vel að Rattatjúí er skrifað Ratatouille! Enda klárt fólk sem er vel að sér í þessum helstu tungumálum. Sem betur fer fyrir okkur hin sem erum ekkert of vel að okkur í erlendum tungumálum þá var myndin með ýslensku tali! Já annars hefðum við ekki skilið neitt, sérstaklega Ólinn... Já ýslenska talið bjargaði okkur alveg.
En svona í alvöru talað - HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ ÞEGAR FÓLK VEIT EKKI EINU SINNI AÐ TUNGUMÁLIÐ SEM ÞAÐ TALAR SVONA OFTAST ALLAVEGA HEITIR ÍSLENSKA?!?!?!? Íslenzka jafnvel eða íslenska ef þú ert ekki með sk-regluna alveg á hreinu.

Sönnunargagn A:


Þetta er hreinlega þyngra en tárum taki að það séu til einstaklingar þarna úti sem fá svona verkefni í hendurnar að innræta miðaprentunarvél í Sambíóunum með, að maður hefði haldið idiotproof (fíflheldum) grunnupplýsingum sem eru svo gjörsamlega ekki hæfir í verkið. Ég vona að manneklunni sé um að kenna og að þetta hafi allt saman byrjað hjá henni Shtanzchinu frá Lettlandi, sem freistaði gæfunnar og fékk vinnu á Íslandi við að vélrita á bíómiða 12 tíma á dag og hafi gefið sér það að þar sem Ýsa sé borin á borð fyrir landsmenn 2 í viku að þá hljóti landið að heita Ýs(u)land! Ég er tilbúin að kaupa svona afsökun - annars eru þetta bara hálfvitar! Regla númer eitt: Það er lágmark að vita hvað tungumálið sem þú talar heitir! Og hvernig það er skrifað!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats