28. janúar 2005


Hvernig getur himinn verið svona blár?

Allt mest og best og stærst og flottast í Ammríku augljóslega... Bluest sky in the woooorld!!!
Þeir setja hormóna í matinn og litarefni í náttúruna.

26. janúar 2005


Í hinu ágæta sorpriti DV í dag var viðtal við kött og eiganda hans um daginn og veginn held ég bara, og rak ég augun í að þær báðar, þ.e. kötturinn og eigandinn, báru sama ættarnafn!
Þá fór ég að spá í honum Bjarti mínum og hans nafni. Almennt séð heitir hann "bara" Bjartur þó strangt tiltekið sé hann Músarson. Mamma hans sáluga hét semsagt Mús. Einhverra hluta vegna hef á tilfinningunni að það sé alveg á hreinu að köttur með stoltið í lagi og snefil af sjálfsvirðingu geti ekki hugsað sér að vera Músarson!!!
Því hef ég í fullu samráði við Bjart og af fullri virðingu við móður hans tekið ákvörðun um að héðan í frá skal hann heita Bjartur Perill Guðmundsson. Hmmm... nema maður sleppi Guðmundsson þar sem Píp þolir kvikindið (stundum) ekki þrátt fyrir að kötturinn geri sér dælt við hann í tíma og ótíma, sem endar oft og iðulega með flugferð fyrir Bjart ofan úr rúmi eða sófa og niður á gólf. Litli Píp ber líka nafn Píps þannig að mér finnst að Bjartur megi bera mitt. Ef ég hefði fæðst með XY-litninga en ekki XX, hefði ég væntanlega hlotið nafnið Perill, allavega var það stundum notað á undirritaða á yngri árum til skemmtunar foreldranna, þannig að hér með skal Bjartur bera stælda útgáfu af því; Bjartur Perilz I!



Þess má geta að minnstu munaði að putti hefði slasast við gerð þessarar myndar.

24. janúar 2005


Vá hvað útgáfa hinnar feiknafrábæru hljómsveitar The White Stripes á Dolly-slagaranum Jolene er frámunalega skemmtileg. Takk Fiddi bró fyrir að hafa kynnt mig fyrir þessari snilld þar sem þefskyn mitt fyrir snilld virðist eitthvað hafa dofnað með árunum. Allt í lagi svosem, svo lengi sem ég fer ekki að sætta mig við tónlist Brimklóaks og þess háttar sorp!
Merkilegt annars hvað maður er farinn að hlusta óbeint og án þess að skammast sín á Dolly Parton. Baggalútur lék sér náttúrulega með Islands in the stream sem hún Dolly tók í denn með honum Kenny og nú er þessi útgáfa (tekin upp "lifandi" í Empress Ballroominu í Blackpool í janúar 2004) af hinum fræga slagara frá 1974; Jolene alveg að gera mig vitlausa. Jæja, þetta allvega kennir manni að sleppa aðeins fordómunum og opna augun fyrir því að það er sko greinilega eitthvað meira í hana Dolly spunnið heldur en 950 ml af silikoni hvoru megin.

21. janúar 2005


Kvenmannsnafnið Aldey er til...! Aldrei hefði mig grunað það.

19. janúar 2005


Fólk á það til að halda því fram að kötturinn minn sé eitthvað vanstilltur og eigi ef til vill við einhverskonar hegðunarvandamál að stríða. En ég verð nú bara að segja að hann er sannkallaður ljúflingur og vingjarnleg kelirófa í samanburði við þennan. Sem sannfærir mig enn frekar í því að þessar skoðanir fólks á Hr. Bjarti eru ekkert annað en kynþáttafordómar! Bjartur sem mjálmar alltaf mmmmmjjjjáá*æmblakk&æmprád*mmjjjááá

13. janúar 2005


Píp hvolfdi bílnum sínum í dag með sjálfan sig innanborðs. Hann slapp heill en þetta atvik hefur gert það að verkum að ofnæmið sem var smám saman að myndast hjá undirritaðri gagnvart þessari miðstöðvarlausu jafnvægislausu dós er orðið að bráðaofnæmi.

.....

Á morgun fer í loftið ný útvarpsstöð sem hlotið hefir nafnið X fm 919. Hljómar kannski helst til líkt kiss fm eða fm 957 en það verður bara að hafa það. Spurning með að skrifa það þá bara X-FM 91,9... lítur þetta eitthvað betur út? Og vona svo að eitthvað verði spilað af viti á þessari nýju stöð. Og play-listar útilokaðir.
Hvernig tilfinning ætli það sé núna að vera útvarpsstjóri og stjórna bara 3 útvarpsstöðvum sem þarfnast engrar heilastarfsemi hlustenda, því síður stjórnenda?!? Örugglega þægileg innivinna.

Jæja best að hætta að missa sig yfir þessum útvarpssmálum og fara að safna fyrir ipod.
Er í sykursjokki og súkkulaðimóki. Pizza Hut er orðinn alvöru veitingastaður sem hefur á matseðlinum Heitt súkkulaði-soufflé! Hjálpi mér allir heilagir! Ramba þarna inn og belgi mig útaf hádegishlaðborði þegar allt í einu röltir eitt stykki Heitt súkkulaði-soufflé! fram hjá mér og ekki getur maður látið það fram hjá sér fara heldur dregur maður bara upp veiðigræjurnar og klófestir bráðina og treður í sig Heitu súkkulaði-soufflé! Og sér svo eftir því afvelta alveg hreint....

12. janúar 2005


Á ekki til orð yfir þessu. Heyrði í morgun Tvíhöfða tilkynna andlát sitt sem átti að eiga sér stað á allra næstu dögum en það er sko ekkert verið að tvínóna við hlutina heldur er bara búið að loka apparatinu. Mæjonesan heldur betur orðin gul greinilega! Datt engum markaðs-auglýsinga-markhópa-sölu-bavíananum hjá Íslenska Útvarpsfélaginu í hug að hreinlega steypa þessum tveimur stöðvum (x-inu og skonrokki) saman í eina öfluga allsherjar rokkstöð fyrst það gengur svona illa að reka tvær? Nei það má sko ekki láta reyna á það - en í staðinn skulum við efla 957 og bylgjuna! Jibbý þá getur maður sko aldeilis misst sig með málhöltu fáráðlingunum á 957 og fallið í trans yfir ógeðis eitís&næntís lágklassafroðunni á bylgjunni. GARG!

Æji þetta er svosem enginn heimsendir, það taka örugglega einhverjir snillingar sig til og opna alvöru útvarpsstöð fyrir okkur þyrsta fólkið og gera margfaldlega betur en þessir ÍÚ-bjálfar hefðu nokkurn tímann getað gert. Eða þá að maður leggur allt sitt traust á Óla Palla. Ef hann hættir að spila þetta Keane/britpop-sorp sitt endalaust...

.....

Litli píp tilkynnti mér hróðugur að á leikskólann í dag hefði komið maður til að strá sykri yfir klakann svo krakkarnir detti síður og meiði sig...

Finndu 5 villur!

11. janúar 2005


Get svo svarið að það er byrjað að vora! Eins og dagsetningin 11. janúar eða 11.1 er hrikalega kaldranaleg dagsetning. Hrolllrrr. Í dag var hlýrra, bjartara og mildara utandyra og þar að auki veðrið mannúðlegra heldur en undanfarnar vikur leyfi ég mér að segja. Þannig einmitt lýsir vorið sér og það hlýtur þá að vera, eins og ónefndur veiðimaður á suðurlandi mundi orða það við keppendur á harðaspani í Amazing Race, "straight away"! Vorið er rétt handan við hornið.



Pollýanna þegiðu!

10. janúar 2005


Fór um helgina að fjárfesta í skrifara í tölvuna mína til að árið 2004 í myndum og máli glatist ekki ef tölvunni fer að leiðast þófið og ákveður að segja skilið við þennan heim. Kom heim með nýja hátalara og músarmottu með geli en engan skrifara. Það var sossem auðvitað... Og það er þessi líka vonda lykt af músarmottunni. Gæti helst trúað að músinni hafi orðið svo mikið um nýju mottuna, að hún hafi í geðshræringu sinni misst nokkur músarspörð á mottuna. Nei þetta er alveg út í hött hvað nýttplastogþaraðaukigeloggúmmísveimérþáefetterekkilíkasilikon-lykt er vond. Bjakk. Viðra hana aðeins í 15 metrum og -5 gráðum.

Merkilegt hvað stjörnur í Hollywood fá alltaf æði fyrir einhverju. Svo sem eins og Vísindakirkjunni, Pilates, Kabbalah, ósýnilegum fötum, Íslandi og mörgu fleiru. Nú er það nýjasta sem umboðsmönnum og PR-trúðum margra þessara selebritía hefur dottið í hug til að bæta orðspor og ímynd viðkomandi stjörnu er að láta þær gefa eins og um það bil 0,06% af árslaunum sínum í hjálparstarfið í SA-Asíu. Já, svona er hún/hann góð og umhyggjusöm manneskja en ekki óstýrlát fyllibytta illa haldin af strípihneigð og vímugjafafíkn og það vill alls ekki svo til að hún/hann sé akkúrat um þessar mundir að fara að gefa út plötu/mynd. Nei nei ekkert svoleiðis. Hrein hjartagæska á ferðinni. Þá léttir stjarnan á samviskunni og kemst í dýrlingatölu í vísindakirkjunni og getur farið að snúa sér að því sem skiptir máli, að gráta sig í svefn yfir skilnaði Bra/niston.

Hvar er PR-maður Íslands? Einar Bárðarson. Gæti örugglega selt upp bókina um ævi og störf Nælons og bílfarma af sjónvarpsþáttunum útgefnum á DVD (með aukaefni og alles - rifrildi og hártog) ef hann léti nælurnar gefa milljón (í boði KBbanka) til Rauða krossins. Hann mundi allavega fresta því að þær féllu í gleymsku um eins og tvær vikur.

Get svo svarið það að Kífer Suþþerland hafi fjárfest í íslenska herra-þjóð-hátíðar-búningnum um áramótin! Eða kannski er hann bara í hvítri skyrtu og í vesti... og jakka. Getur allt eins verið.




Vá hvað þetta er sniðugt! Og svínvirkar! Get núna tekið á móti endalausu magni af penisenlargement og diploma gylliboðum og fullt af Nígeríu-póstum líka. Nóg pláss fyrir alla.

3. janúar 2005


Jólunum var stolið af okkur í gær eða fyrrinótt eða allavega gerð tilraun til að stytta þau í annan endann fyrir okkur! Áttum efnivið í nokkrar jólaölsblöndur í okkar ágætu forstofu, enda hitastigið þar á við freðinn ísskáp, en þegar við komum heim úr jeppaferð í gær var jólaölsefnið horfið! Nokkrar maltdósir og eitthvað af appelsíni. Hver gerir svona lagað??? Óforskammaðra gerist það ekki og maður varð bara sár. Þetta var sem betur fer ekki fjárhagslegt tjón heldur var það fekar tilfinningalegt tjón. Maður stelur bara ekki jólaöli frá fólki. Vona helst að einhver jólasveinn á leið til fjalla hafi tekið það með sér þar sem honum hafi þótt nóg um jólaölsdrykkjuna á heimilinu svona þegar janúar er hafinn en hann má sko vita það að á þessu heimili er farið að lögum og jólaölið teygað fram á þrettánda. Vona það sem sagt frekar en að einhver óprúttinn nágranni eða róni af Arnarhóli hafi komið að heimili mínu og látið greipar sópa. Það er ekkert of þægileg tilhugsun.

Jeppaferð í gær. Tímasóun eins og of oft vill verða. Festa sig, affelga, festa sig meira, slíta spotta, enginn með skóflu, affelga, 15 gráðu frost og svo framvegis. Stundum þegar maður er búinn að sitja yfir auglýsingum í bíóhúsunum í hálftíma hugsar maður upp á engilsaxneska tungu: "I wan't my 30 minutes back", en eftir svona ferð sem tekur aldrei undir 10 tímum hugsar maður " I wan't my DAY back"! Hefði alveg getað gert eitthvað annað við þennan annars fallega dag. En sem betur fer eru þessar ferðir stundum skemmtilegar sem gerir þetta þess virði. Er meiri sumarferða manneskja samt, sé meiri skemmtun í að flakka um allt og yfir ár og upp um allt heldur en að fara innan við 30 kílómetra á fleiri fleiri klukkutímum í fannfergi. Það er hins vegar mjög gaman og upplífgandi að fara ekki nema 10 kílómetra á á nokkrum klukkutímum... fótgangandi! Jaá það er gaman og hefur tilgang.


Hvað dettur ykkur fyrst í hug þegar þið heyrið um bónda sem ræktar ferhyrnt fé??


Hmmm, kassalaga kindur já... fæðast hálfur rúmmeri og verða svo um það bil 2 rúmmetrar fullvaxnar!


Nei nei þá var bara verið að tala um bóndadurg sem ræktar rollur með fjögur horn.

Dooh...
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats