29. nóvember 2004


Yfirþyrmandi spenna ríkir nú í höfuðstöðvum hvarsemer þar sem von er á í þessari viku "Jólalagi Baggalúts 2004"! Yfir angurværum tónsmíðum Baggalúts ríkir einhver æðri himnesk og friðsæl ró eins og (jóla)glögglega má heyra á meistaraverki síðasta árs. Vonandi er að þeir haldi líka úti jóladagatali eins og í fyrra og þess utan sitja væntanlega höfuðpaurar Baggalúts núna sveittir og rýna inn í framtíðina og útbúa eitt stykki völuspá fyrir árið 2005 en eins og allir hafa tekið eftir hefur spáin fyrir árið 2004 fyllilega gengið eftir fyrir utan að Kristján Jóhannsson hefur ekki ennþá sprungið í loft upp - en við skulum hafa það í huga að það er bara nóvember ennþá... engin ástæða til að örvænta.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að þetta kvikindi á ekkert skylt við þennan snilling nema ef vera skyldi krúttleg eyrun!

27. nóvember 2004


Tvíburaveislan var alveg konungleg eins og við var að búast. Hógvær loforð þeirra um skemmtiatriði og veitingar á heimsmælikvarða stóðust fyllilega og meðal annars tróðu þeir sjálfir upp og fluttu nokkra tvíburaslagara, svo sem "I'm Gonna Be (500 Miles)" upprunalega flutt af tvíbbunum í The Proclaimers og "Tragidy" eftir Bee gees (Robin og Maurice voru tvíburar). Svo að sjálfsögðu fluttu þeir nokkra tvíburaslagara eftir hljómsveitina Suð (sem þeir eru jú meðlimir í).



Varð margs vísari í veislunni, veit núna til dæmis hvað manneskjan heitir sem tekur á móti mér á viðeigandi stofnun þegar ég fer yfir um af fyrirhátíðarspennu! Mjög mikilvægar og gagnlegar upplýsingar þar á ferð. Einnig þótti mér stórmerkilegt að það eru ekki bara tvíburar sem hugsa eins og eru oft eins og skugginn af hvorum öðrum, heldur makar tvíbura líka! Þetta er verðugt rannsóknarefni - að kvenmenn sem hafa átt samrýmda tvíbura fyrir maka í nokkuð langan tíma mæti í eins kjól í afmælið þeirra! Algjörlega óafvitandi. Athyglisvert...

25. nóvember 2004


Þar sem nú er tæpur mánuður til jóla hef ég ákveðið að fara formlega í jólaskap (og hættessari afneitun)! Rökin fyrir því eru:
Fyrir það fyrsta - dimmt úti 17 tíma á sólarhring - veitir ekki af birtu og yl í tilveruna!
Í annan stað - ef maður ætti að fara í jólaskap 3 vikum fyrir jól væri maður bara að auðvelda stressinu að grípa sig heljartökum!
Maður þarf að senda pakka til útlanda og skrifa á fjórða tug jólakorta og kaupa jólagjafir og halda svo þar að auki upp á afmæli einkasonarins korteri fyrir jól. Það er einhver sá best heppnaði grikkur sem sonurinn hefur gert móður sinni að hafa komið í heiminn á þessum tíma þar sem móðirin á tiltölulega auðvelt með framleiða og byggja upp stress í sjálfri sér. Hún átti alveg nóg með bara jólin áður sko...
Þannig að nú ætla ég að fara að huga alvarlega að jólunum og reyna að njóta aðventunnar sem hefst jú á sunnudaginn. Er búin að velja jólakortamyndina og kíkti aðeins í Blómaval í dag til að skoða jóladótið og kertin og fjölæru plönturnar og vínviðinn og páfagaukana....
Jæja nenni ekki að skrifa meira stressblaður upp úr sjálfri mér þannig að hér koma nokkrar tillögur að streituminni jólum fyrir hvarsemer:

- Sonurinn átti samkvæmt nútímatæknimaskínu að fæðast 9. des og við skulum bara halda okkur við þá dagsetningu! Maskínan fór að vísu með fleipur en á tæknina á samt að vera hægt að treysta og hananú!

- Ættingjar og vinir vestanhafs ættu að taka sig til og flytja austanhafs, nánar tiltekið til Rússlands þar sem Rússneska orþódox eða rétttrúnaðarkirkjan heldur ekki jól fyrr en 6. janúar! Enginn að stressa sig á þeim bænum og þá væri maður ekkert undir neinni pressu að senda pakkana fyrr en.... ja á annan í jólum eða eitthvað!

- Geyma það í eitt ár í viðbót að kaupa nýjan ofn til að viðgetumbaraekkibakaðneinarsmákökuríessumofniokkar-þulan eigi enn við rök að styðjast. Framboðið í verksmiðjubökuðum jólasmákökum eykst stöðugt! En gæðin samt kannski ekki í sama hlutfalli :/

Bubbi - jólaboðinn sjálfur - hélt útgáfutónleika í gær eins hann hefur gert fyrir hver jól síðan ég var þriggja ára eða um það bil. Sem væri svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir það að gestasöngvari hjá honum var krumpudýrið Bó Hall! Detta mér allar dauðar... Geri fastlega ráð fyrir að þeir hafi trallað saman "ég er löggiltur hálfviti, hlusta á HLH og Brimkló"!

20. nóvember 2004


Eitthvað hefur borið á því í tónlistarútgáfunni fyrir þessi jólin að myndirnar á albúmunum beinlínis valdi velgju og ónotum, svo sem sjá má hér:



Manni beinlínis sundlar og verkjar þegar sum þeirra ber fyrir augun og maður fer að undrast hvað liggi að baki þessari hönnun eiginlega. Hvort fólk sé að spara sér aurana og fá Jóa félaga (sem á svona nýmóðins stafræna myndavél!!!) til að taka af sér mynd og skella á albúmin:



Þvílíkt er andleysið og ósmekklegheitin á sumum geisladiskum þessa árs og nota bene; þetta eru aðeins 3 dæmi og þau eru sko mörg miklu verri og miklu ljótari skal ég segja ykkur (þó það sé erfitt að slá Helga Pé út, sem sjá má hér að ofan). Og það sorglega er að í öllum tilfellum er tónlistin álíka eða jafnvel meira pínleg en albúmin segja til um.



Skilst að DV hafi gert einhverja úttekt á bestu og verstu albúmunum í blaðinu í gær en einhverra hluta vegna fór það blað alveg framhjá mér, eins og það hefði nú verið feyki fjörug lesning.
Skemmtilegt að segja frá því í þessu samhengi að Píp er orðinn frekar leiður á sinni vinnu og þeirri kvöld- og helgarvinnu sem henni fylgir að hann hefur ákveðið að söðla um og hefja nýjan feril sem tónlistarmaður, enda hefur það ekki farið fram hjá neinum sem í hafa heyrt að þar fer fyrirtaks frábær söngvari! Hann hefur verið að dunda sér við að taka upp nokkur lög og ætlar á næstu vikum að leggjast í ferðalög og halda nokkra tónleika- svokölluð Píp-show - vítt og breitt um landið. Ætlaði nú ekki að uppljóstra leyndarmálinu alveg strax, enda fá allir vinir og ættingjar hljómdiskinn í jólagjöf, en gat svo ekki haldið aftur af mér lengur. Þetta er komið það langt að búið er að hanna fólskulega fallegt plötuhulstur og svona mun það líta út:

Smellið fyrir FLENNISTÓRA og prentvæna mynd :)

Já svona á að gera þetta! Þið getið smellt á myndina til að sjá stóra útgáfu og takið eftir einlægninni í augunum, hún er þvílík! (klökn). Lögin koma úr ýmsum áttum, bæði gömul og ný, og þar má nefna:

"Plummer's lonely heart",
"Neysluvatnsforhitarinn",
"Allt á floti alls staðar",
"Mitt hjarta kremst (þegar þú ferð)"
og slagarinn
"Water in my shoes".

Skiljanlegt er að fólk verði spennt núna, og ekkert annað að gera en að hafa augun og eyrun opin þegar nær dregur útgáfu (áætluð í lok des.)

16. nóvember 2004


GGAAARRRGGG! Er á HOLD hjá ágætu ógeðisfyrirtæki útí bæ og lagið sem spilað er mér til skemmtunar, eða á að vera mér skemmtun er "Jólahjól"! Þar að auki er jólasnjór dauðans að hrapa neðan úr loftinu fyrir utan gluggann! Veit fólk (og almættið) ekki að það er bara nóvember núna? Eða á ég að hætta þessari afneitun og sætta mig við að jólin verða komin og farin áður en maður veit af!

15. nóvember 2004


Við höfum öll heyrt um barnaland.is ekki satt? Þar er fullt af krílum sem maður þekkir með síðu, nærtækasta dæmið er Hr. Óli Bjarki sjálfur. Allt krúttlegt með það en alveg skellti ég uppúr þegar á rambi mínu um rangala alnetsins gekk ég fram á síðu með nákvæmlega sömu uppbyggingu og allt, sem heitir dýraland.is! Og þar eru öll helstu hefðardýr landsins með heimasíðu.
Nú finn ég fyrir geigvænlegri pressu þar sem mér finnst ég vera knúin til að halda úti síðu fyrir einhverfa, einmana, afskiptalausa og sísvanga varðköttinn hann Bjart sem maður hefur varla tekið eftir síðan 19. desember 2000. Áður fyrr voru öll myndaalbúm full af myndum af Bjarti: Bjartur í sófanum, Bjartur að borða pasta, Bjartur að kúra sig... o.s.frv. En eftir áðurnefndan desamberdag finnst varla nokkur mynd af kattarræksninu í albúminu og gott ef maður á ekki árið 2030 eftir að hugsa til baka... "já alveg rétt, við áttum kött þarna áður en ÓBG fæddist.. en hann hvarf sennilega á vit feðranna stuttu eftir að ÓBG fæddist... var það ekki annars... hvernig var hann aftur á litinn??..hmmmm". Æji ég held ég eyði samt tímanum sem færi í að föndra síðu fyrir hann í að leita að blessuðum kettinum og sjá hvort hann vanti ekki smá klapp og svona eitthvað. KISAKIS...
Hversu langt kemst hann?

Ég kom honum langleiðina heim til sín - alveg 56 metra - enda alvön því að halda jafnvægi á ójafnvægu og ósymmetrísku fólki í allskyns ástandi.

12. nóvember 2004




Smellið á borðann. Heyrði óvart (á stöðvaflakki) jólalag á einhverri útvarpsstöðinni í gær og á ekki eftir að bíða þess bætur og heimta bætur! Veit ekki hvað stöðin heitir en hún er á tíðninni FM 94,3! Útvarpsstöð djöf... eee... Grýlu!
Jammmjammmjammm... hvað á maður að gera þegar maður er í vinnunni, úti í bæ í sendiferð og það skellur á fruktansvert haglél einmitt þegar maður ætlar að hlaupa út úr bílnum og inn í eitthvert stofnanaapparatið? Nú, maður bíður bara eftir að haglinu sloti, teygir sig í nýja símann sinn og smellir af eins og einni mynd!

Mér þarf aldrei að leiðast framar! Aldrei dauður tími!


11. nóvember 2004


Veit ekki hversu lengi þetta verður aðgengilegt en hérna má kíkja á "lifandi" tónleika með Eivöru Pálsdóttur. Mæli með þeim.

9. nóvember 2004




Píp gaf mér nýjan gemsa! Nú er ég ekki lengur 4. eigandinn að afdönkuðum píparasímum heldur fékk ég mín eigins beint úr kassanum með myndavél og öllu. Þessi mynd hér að ofan er einmitt tekin á nýja símann. Erfiðleikum bundið að taka mynd af símanum sjálfum þannig að þá lá beinast við að taka mynd af því sem var fest á pakkann. Lítill álfur með köngul á hausnum.... betra að vera köngulhaus en þöngulhaus! HAHAHAHAHAHA Allir hlæja af því að ég á ammæli... ihihi

P.s. Fyrir ykkur sem viljið vita heitir síminn Nokia 6610i eða eins og píp orðaði það; sexhundruðsextíuogeinn-núll-i. Hann lítur svona út.
Finn það á mér að þetta verður sögulegur dagur, eins og níundu nóvemberar vilja oft vera. Skemmst er að minnast þegar Berlínarmúrinn féll þann 9. nóvember 1989 og eins munum við öll eftir Gúttóslagnum 9. nóvember 1932! Það voru nú meiri lætin! Hefði ekki haft hugmynd um atburðinn sem slíkan ef ekki hefði á mínum æskuárum verið til bók á heimilinu sem einmitt bar nafnið "Gúttóslagurinn 9. nóvember 1932"! Ekkert vera að spyrja mig samt nánar út í þann atburð... Talandi um Berlínarmúrsfallið, var stödd í Berlín 5 árum seinna - sumarið 1994 og varð að sjálfsögðu að kaupa brot úr múrnum þó ekki væri nema vegna tengingar og tilfinningabanda okkar múrsins, man nákvæmlega hvar ég var á 12 ára afmælisdaginn þegar ég heyrði að múrinn væri fallinn og ber sterkar taugar til hans síðan þó full seint sé. Allavega, ég keypti þetta brot í plastboxi á nokkur mörk og utan á því stóð "9. nóvember 1989" og mynd af múrnum í boxinu með brotið sjálft í forgrunni. Alveg er ég nú samt viss um að ef öll brotin yrðu sett saman sem hafa verið seld sem brot úr Berlínarmúrnum mundi sá múr, eða öllu heldur veggur, hlykkjast í nokkra hringi í kringum hnöttinn og Kínamúrinn mundi blikkna í samanburðinum. Já heir á endemi!

Nú er ég komin allverulega út fyrir það sem ég byrjaði að tala um í upphafi, þ.e.a.s. að níundi nóvemberinn í dag yrði sögulegur! Jæja, best að setja sig í spámannsstellingarnar og hefja ræðuna:

Fyrir það fyrsta: Borgarstjóra Reykjavíkur verður sagt upp störfum - örugglega í fyrsta skipti í sögunni. Þekki samt sögu borgarinnar ekki það vel að ég þori að hengja mig upp á það. Ætli Siggi G. taki ekki við og verði "svalur borgarstjóri í svalri borg"...!

Í öðru lagi: Arafat á eftir að gefa upp öndina, saddur lífdaga. Búinn að lifa af einhverjar 13 morðtilraunir - bara frá Ísraelum! Gæti haldið að þeim væri illa við hann. Í kjölfarið á eftir að hefjast langt og strembið tímabil í Palestínu og örugglega ekki ró á þeim bænum fyrr en.... aldrei eða þar um bil.

Í þriðja lagi: Dópkallar sem flökkuðu með útlending austur á firði og misstu hann í höfnina og voru svo óheppnir að vera búnir að stinga á hann göt þannig að hann flaut ekki upp aftur verða dæmdir í dag fyrir einhvern fjárann og verða á forsíðu DV í nokkra daga í framhaldinu.

Veit ekkert hvað af þessu gerist eða í hvaða formi en afskaplega sögulegur dagur þetta engu að síður. Ekki á hverjum degi sem maður nær 27 ára aldrinum! Eins gott að ég er ekki rokkstjarna, þá væri þetta kannski síðasti afmælisdagurinn! Morrison, Joplin, Hendrix og Cobain voru öll 27 ára þegar þau kvöddu þennan heim! Eða kannski frekar, eins gott að mér hefur tekist að láta dópið vera... rokkið drepur svo sem engan.

Fyrsta mailið sem beið mín í vinnunni í morgun var frá dining.is og supjectið var: Nýr afmælismatseðill á Argentínu! Ef þetta er ekki hint þá veit ég ekki hvað. Ha píp! Ef maður má einhvern tímann gera vel við sig þá er það á ammælisdaginn sinn! Ekki satt?
Nú er runninn upp hinn eini sanni næn-íleven, sem útleggst einnig níundi ellefti eða bara 9/11. Og þá á aðalritari, stjórnarformaður og yfirræstingastjóri hvarsemer afmæli! Eins og sjá má á ammælisdagateljaranum hér fyrir neðan hægra megin er hann um það bil að fara á límingunum af kátínu en því miður er hann búinn að fagna í nokkra klukkutíma nú þegar, sem er nú alveg til að eyðileggja fyrir manni síðasta daginn sem 26 ára, því eins og máltækið segir: maður er ekki 27 fyrr en maður er 27 og ekki mínútunni fyrr! En nóg um það, ég ætla í minni sjálfhverfu að óska sjálfri mér til hamingju með afmælið og njóti ég vel! Ætla að múta samstarfsfólki mínu með ostum, kexi og vínberjum til að vera gott við mig og ykkur netverjum með hamingjusömu lyklaborði!

Afmælisbarn dagsins: Veraldlegar nautnir höfða svo sannarlega til þín. Það er í góðu lagi. Þú kannt að njóta augnabliksins og fólk laðast stundum sterklega að þér fyrir vikið. Þú veist hvernig maður á að lyfta sér upp og vilt gjarnan vera úti á ystu nöf og uppgötva eitthvað nýtt.

Mogginn lýgur aldrei!

3. nóvember 2004




einmitt......
Þetta er svindl! Einhverjir suð-skandinavar verða meira varir við þetta blessaða eldgos heldur en ég búandi upp á Íslandi í næsta húsi við gosið svona í alheimslegum skilningi. Það væri nú ekki amalegt að sitja hérna í glerhöllinni sinni og kíkja upp annað slagið og fylgjast með gosinu í allri sinni dýrð og velta því aðeins fyrir sér hvernig gosið hegðar sér þá og þá stundina... vindáttin eitthvað að breytast já já sei sei.., og rugga sér spekingslega í stólnum... En nei sitja þá ekki bara einhverjir mölbúar á Skáni í góðum fíling og fá gosið beint í æð. Allavega meira en ég virðist fá af því...

Þetta er samt meira svindl!

Skulum bara bíða og sjá...

2. nóvember 2004


Hvaða húmoristar eru þetta sem eru að skipuleggja kosningavökur frá forsetakosningunum í B.N.A í sjónvarpinu í nótt. Veit þetta fólk ekki að síðast tók fjórar vikur að fá úr því skorið hvor þeirra Gög eða Gokke hefði unnið kosningarnar! Og þó að Gög hafi unnið varð Gokke forseti! Og í þetta skiptið á eftir að taka minnst átta vikur að fá niðurstöðu, strax búið að týna atkvæðaseðlum í tugþúsundatali (óútfylltum að vísu) auk þess sem sem allir lögfræðingar í Ameríku virðast vera í startholunum og reiðubúnir til að kæra allt sem kosningunum viðkemur, allt frá hönnun kjörklefa til veðurspár á kjördag. Það er nú svolítil hætta á að þeir sem ætla sér að horfa á "kosningavökuna" verði orðnir eitthvað vansvefta þegar líða tekur á desember...
Pabbi hvarsemer, einnig þekktur sem faðir allsherjar á afmæli í dag! Karlinn er 48 ára í dag og við hjá hvarsemer viljum óska honum innilega til hamingju með daginn. Án hans værum við ekki hvarsemer heldur bara sumsstaðar!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats