28. mars 2008


Þú bara verður að smella hér: Smelltu strax! Ef þú smellir ekki geturðu sleppt því að lesa áfram því þá veistu ekkert hvað ég er að tala um og missir af þessari dásemd í sögu fréttaflutnings í lýðveldinu Íslandi. Smelltu!
Fáheyrð snilld á ferð í kvöldfréttatíma Sjónvarps. Ef Bogi hefði ekki kynnt þetta inn hefði ég umsvifalaust ákveðið að þetta væri "skets" í fóstbræðrum eða eitthvað. Úff, beintengd Vúlkan sem er á bakvið sólina sko og allt að gerast. Svört listaverk en þeir sem eru "ættaðir" frá Vúlkan sjá liti. Og þetta sagði manneskjan bara sí svona við alþjóð og Boga eins og ekkert væri sjálfsagðara og án þess að blikna.

Vona hennar vegna að viðtalið hafi verið tekið í lok opnunarinnar og hún búin með aðeins of mikið af veitingum og ofhlaðin lofi. Spurning hvort hún sé með háloftaveiki verandi flugfreyjan sem hún er. Hún ætti nú að geta misnotað aðstöðu sína og beðið flugstjórann í næsta flugi, til dæmis á leið heim frá London, um að setja sig út á Vúlkan og halda sig svo bara heima hjá sér í litadýrðinni. Þið vitið, þarna á bak við sólina.

Og viti menn, frænka hennar er búin að gefa sig fram hér.

Ógeðslega get ég alltaf verið þröngsýn eitthvað... Ég er bara týnd í sortanum.

27. mars 2008


Þessi sjálfmjólkandi kýr minnir mig á eineygðu kýrnar sem við Píp rákumst einu sinni á, á leið okkar yfir Öxnadalsheiðina undir miðnætti ágústnótt eina í hitteðfyrra. Vorum að keyra í mesta sakleysi áleiðis til Dalvíkur þegar á heiðinni við sáum skilti sem á stóð "5 eineygðar kýr framundan".

Að sjálfsögðu hafði næturgalsinn tekið yfirhöndina því á skiltunum stóð "5 einbreiðar brýr framundan". En þetta varð til þess að við görguðum af hlátri yfir alla heiðina og minnstu munaði að Kári hefði komið í heiminn þá og þegar, allavega mæli ég ekki með að vera kasólétt upp á heiði, hossandi um í bílskrjóði, hlæjandi eins og grís að eigin vitleysu og ekki einu sinni í gsm-sambandi.

26. mars 2008


Kötturinn hans Símonar er kominn með nýtt myndband. Fyrir ykkur sem ekki munið þá setti ég síðast inn myndband með kettinum hans Símonar þann 18. jan. síðastliðinn.
Enn minnir hann mig að einhverju leyti á hann Kára minn. Ætli það sé ekki þessi ofbeldisfulla yfirvegun sem stafar af báðum...



Sölumanneskja hringdi og bauð mér áskrift að tímariti í gær. Meðal efnis í nýjasta tölublaðinu átti að vera ”heimilisofbeldi, krónan og svona umfjall sem er búið að vera í gangi.....” svo vitnað sé orðrétt í manneskjuna.

Skyldu vera framleidd stoðtæki fyrir málhalta?

17. mars 2008


Elsku afi Jens var borinn til grafar í dag. Hann dó fyrir 10 dögum síðan á alhvítum vetrardegi og við kvöddum hann í dag á fallegum vordegi. Alls ekki átti ég von á því að þurfa að kveðja afa svona snemma, kornungan manninn. Hann var 78 og hálfs eins og Óli mundi segja og manni fannst hann það hress og hraustur að hann ætti þó nokkuð eftir. En 9 dögum fyrir andlátið var hann lagður inn kominn með krabbamein í lungun. Aldrei hafði hann reykt þó hann hafi reyndar byrjað að bjóða mér í nefið um það leyti sem ég byrjaði að labba. Því miður, en um leið sem betur fer, var stríðið stutt enda ójafnt og ósanngjarnt í meira lagi. Nú hvílir hann við hlið ömmu minnar sem hann missti daginn sem þau eignuðust frumburð sinn, hann pabba minn. Þær verða meira að segja tvær sem taka á móti honum, amma Guðríður og amma Perla. Ekki amalegt það.

Hérna er lítil grein sem birtist fyrir u.þ.b. 2-3 árum í DV þar sem blaðamaðurinn rakst á hann afa á förnum vegi og akkúrat svona vil ég muna eftir honum, í bláu úlpunni sinni, með húfuna og á röltinu. Og það sem hann segir er líka lýsandi, "ussumfussumsvei" og svo prakkaralegt glott.

Hvíldu í friði elsku afi minn og takk fyrir allt.

14. mars 2008


Í dag, þann 14. mars er Pí-dagurinn! Mars er þriðji mánuður ársins og í dag er 14. dagur þess mánaðar (3.14 upp á engilsaxneskt tímatal) og eins og við vitum öll er byrjunin á Pí einmitt ca. svona: 3.141592653589793238462643383279502884197169399375105820974944. Að mig minnir.

Þess vegna þykir mér fullmikil einföldun að vísa bara í daginn og mánuðinn með Pí-deginum - auðvitað á Pí-stundin að vera í dag kl. 1.59 og tuttuguog sex sekúndum og 53 sekúndubrotum betur; samanber 3.14 1.59 26 53!

Hér er svo upphafsmaður þessa Pí-dags, að vonum kátur og hamingjusamur með að hafa komið í kring þessum degi sem við öll höldum uppá. Hann heitir Larry Shaw og átti einmitt óvenju góðan hárdag þegar þessi mynd var tekin á Pí-deginum í hitteðfyrra.


Skyrtuna fékk hann fyrir merkilega tilhögun örlaganna á akkúrat 3 dollara og 14 sent í Rauðakross-búðinni í San Francisco fyrr þann sama dag. Og talandi um úfið fólk í flottum fötum, 14. mars er líka fæðingardagur Alberts Einsteins.

Að vera með úfið hár er augljóslega ávísun á gáfur, næst þegar einhver ætlar að hlæja að mér fyrir að slétta hárið í gríð og erg og jafnvel af engu tilefni, þá er þetta bara mín afsökun: "get ekkert að þessu gert, er bara svo gáfuð að ég hef enga stjórn á hárinu á mér....!"

Það er gott að vera nörd!

4. mars 2008


Nú þarf ekkert að ræða það neitt frekar hver er líkur hverjum á þessu heimili! Tókum ægilega menntað upprunapróf á netinu og þetta er útkoman:


Við erum öll eins og spýtt út úr nefi hvors annars.

Hmmmm hugguleg samlíking.

Allavega við erum voða lík.

Sagði dauði maðurinn við dauðu konuna...
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats