24. desember 2008

Fórum í skötu í gær sem er nú alltaf einskær stemming og stuð þrátt fyrir að skatan veki svo sem enga lukku hjá undirritaðri! Smakkaði hana þó eins og alltaf en lét ekki vel af henni. Setning kvöldsins var án vafa þegar Valur vert sagði við útlendinga sem álpuðust inn á staðinn í mesta sakleysi "And here we have the rotten fish if you like the smell of it!"
Þess má geta að vesalings fólkið hrökklaðist ekki út heldur lét vaða og tyllti sér á lítið borð alveg við skötuhlaðborðið, með kræsingarnar steinsnar frá vitum sér þannig að ilmurinn hefur ekki farið fram hjá þeim blessuðum. Þau álíta þessa lífsreynslu sennilega núna sem "nærridauðareynslu" svona eins og þegar fólk rétt sleppur við grjóthrun, að rúta keyri rétt við trýnið á þeim, eða aðrar sambærilegar svaðilfarir.

Nóg um það, við fjölskyldan viljum óska öllum vinum og velunnurum gleðilegra jóla með ósk um yndislega jólahátíð og takmarkalaust ofát.

Takk fyrir liðnar stundir og vonum að nýja árið beri í skauti sér tóma hamingju og góðar stundir.

8. desember 2008


Jesús minn og allir heilagir almáttugir andar! Það sem ég hélt að gæti ekki gerst hefur gerst! Baggalútur hefur toppað áður útgefna snilld með aðventulaginu í ár.
Lagið "Það koma vonandi jól" er hugsanlega best heppnaða aðventulag sem þessir snillingar hafa gert til þessa og hafa þeir nú gert þau nokkur undanfarin ár.
Að velja svo "Woman in love" sem er jú eitthvað það dramatískasta lag sem samið hefur verið er svo algerlega rúsínan í pulsuendanum. Hver hefur ekki misst sig einhvern tíman og hrópað með því lagi í örvæntingarfullu tilfinningarússi í einrúmi og sagt engum frá og virkilega fundið sig?
Ekki ég, en nú hef ég ástæðu til þess!
Og þessi söngvari - almáttugur hvaðan kemur þessi rödd? Það fer ekki hvaða karlmaður sem er í skóna hennar Barböru og kemst klakklaust frá því.

Hér má nálgast lagið.

Njut.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats