27. júlí 2007


Jæja - Taka 2! Sumarfríið hans Píps hefst aftur á morgun þar sem frá var horfið og þá erum við farin í bústað í Úthlíð í viku. Manneldisráð og Heilbrigðisstofnun Suðurlands mundu eflaust innsigla bústaðinn ef þau hefðu einhverja hugmynd um hvernig lífsmáta fólk í sumarbústað stundar og við hyggjumst stunda! Usss, nú skal lifað eins og Rómverjarnir forðum, etið, drukkið, svamlað, legið - og endurtekið eftir þörfum.
Þetta er svipuð staða eins og þegar maður er alveg nýbúinn með jólamatinn, þá segir maður alltaf: "Vild'ég væri lögst á koddann, sofnuð, vöknuð aftur og byrjuð að borða aftur."

Á meðan mín er í burtu getið þið dúllurnar mínar orðið vinir mínir á Mæ speis síðunni minni, sem ég reyndar stofnaði fyrir löngu en hef ekkert verið að koma á framfæri. Nú er víst komin einhver ný svona síða, Facebook eða hvað hún heitir þannig að þá er tími til kominn að ég sem er ávallt skrefi á eftir komi út úr skápnum með Mæ speisið mitt. Það er eitthvað svo fátt um vini og comment hjá mér þannig að endilega komið og verið vinir mínir. Koma svo!

Nú eða þá er hægt að skoða myndirnar mínar á Flickr því ég er búin að vera svo dugleg að henda inn eldri myndum - auka við Kaliforníualbúmið og búin að setja inn myndir frá Laugavegsgöngunni fyrr á þessari öld, þegar ég labbaði alveg frá Hlemmi og niður í Bankastræti og hélt ég mundi deyja! Fimmvörðuhálsinn er náttúrulega kominn þarna inn líka.

Eða þið gætuð bara haldið áfram að vinna.

26. júlí 2007


Muniði eftir þessu???:

Iss súkkulaðivax hvað? Ég fór í súkkulaðiNUDD í gær!
Já takk fyrir kærlega! Átti inni svokallaða líkamsmeðferð hjá Baðhúsinu síðan Píp gaf mér dekrið þarna um jólin og þegar mín fór á stúfana að kanna hvað væri í boði þvældust bara einhverjar sjávarleir- og saltmeðferðir eða eitthvað álíka ólystugt fyrir mér, þangað til himnarnir opnuðust og þarna var það tadammmmm..... sakleysislegir svartir stafir sem létu ekki mikið yfir sér á hvítum grunni:
Súkkulaðinudd 50 mín.
Ég hugsaði mig um augnablik... nei ég lýg því, hugsaði mig ekki neitt um heldur pantaði tíma! Ég er fíkill og á kafi í neyslu og þar af leiðandi fannst mér hljóma dásamlega að prófa súkkulaðið líka útvortis.

Nuddarinn notar altso 100% súkkulaði sem hún bræðir og setur svo olíur útí til að það þorni ekki of mikið á húðinni á manni og nuddar mann svo upp úr þessari fögru eðalblöndu. Spurði hana aðeins útí hvað það er sem veldur því að það er byrjað að nudda upp úr súkkulaði og hún svaraði því til, að súkkulaðið væri svo gott fyrir sogæðakerfið og væri líka svo agalega gott fyrir þurra húð.
Enda finn ég að sogæðakerfið gengur hikstalaust og húðin er eins og á rassinum á Kára. Mundi heldur ekki trúa Spö-um (spa=heilsulind) þessa lands til að ætla sér að græða á hinni stjórnlausu súkkulaðiást sem þorri kvenfólks er haldinn.

Ég verð að segja að eftir þessa reynslu langar mig enn meir að sækja um hjá Nóa-Siríusi, ekki bara sem smakkari í þetta skiptið heldur taka líka aukavaktir sem færiband, þar sem nú þekki ég af eigin raun hvernig það er að hafa heitt og ilmandi súkkulaði á sér.

23. júlí 2007


Tvífarar vikunnar



Augun, tennurnar, kinnarnar og að ég tali nú ekki um bindið! Ef Svampur er Sveinsson hlýtur Kári að vera Sveinsson líka.

20. júlí 2007


Komin í bæinn og búin að setja myndir inn á flickr. Þarf varla að segja ferðasöguna þar sem myndirnar lýsa því nokkuð vel hvað við gerðum og hvað við sáum. Reyndar náðist ekki á mynd þegar píp var næstum búinn að keyra á Fálka og svo stuttu seinna á Patrol (næstum sagði ég) og ekki heldur þegar vertinum á Reykjanesi fannst hann þurfa að opna sig aðeins og skellti sér í hlýrabol og leðurbuxur. Þar kom sá settlegi vert á óvart með því að koma svona glæsilega út úr skápnum þrátt fyrir að vera búinn að skanna ættarmótið í árangurslausri leit að einhverjum álíka öfugum enda er enginn hommi í minni ætt. GRÍN.
Talandi um þess háttar fólk, við klikkuðum alveg á að heimsækja TOGITV* á Bíldudal en það er hinn frjálsi Jón Kr. sem rekur hið merka safn: Melódíur minninganna! Gerum það næst.

Hér má sjá leiðina sem við fórum:


*The only gay in the village.

P.s. Ef einhver saknar mynda af fólki þá eru þannig myndir væntanlegar inn á síðuna hans Kára. Flickr er meira svona fyrir stæla.

13. júlí 2007


Píp fjölskyldan er farin í sumarfrí að skoða heiminn*, í krumpugöllum og Crocks-skóm**!

Þar til síðar; adios***!


*vestfirði
**yfir okkar látnu líkama
***sæl að sinni

11. júlí 2007


Sjálfhverfi dagurinn


Dagurinn byrjar á því að ég fer í Efnalaugina Perluna og næ í föt úr hreinsun sem kemur svo í ljós að eru ennþá skítug, þannig að þá er ekkert annað að gera en að fara í Þvottahúsið Perluna og láta þau klára málið. Þau eru hins vegar ekki með hraðþjónustu þannig að þá breyti ég planinu bara aðeins og enda í Versluninni Perlu á Akranesi þar sem ég fæ mér splunkunýtt dress sem er alsett perlum og pallíettum. Að því loknu fer ég og læt mér líða vel á Sólbaðs- og þrekmiðstöðinni Perlu og hugleiði aðeins kaupin á sumarhúsinu á Spáni sem ég er að fara að versla mér í gegnum Perla Investments. Áður en ég fer í klippingu á Hárgreiðslustofunni Perla rétt skýst ég inn á Tannlæknastofuna Perlur þar sem ég átti víst pantaðan tíma. Meðan kallinn klárar að vinna fer ég heim í Perlukór og perla í smá stund og klappa hundinum Perlu og svo liggur leiðin á Veitingahúsið Perluna þar sem snætt er þríréttað. Kvöldinu lýkur svo á leiksýningu hjá leikhópi er kallar sig Perlan. Svo áður en ég sofna les ég Perlur í náttúru Íslands eftir Guðmund Pál Ólafsson með Guðmund Pál Ólafsson mér við hlið.
Þetta var góður dagur!

Öll nafngreind fyrirbæri, fyrirtæki jafnt sem manneskjur, í pistli þessum eru eða hafa verið til í alvörunni og það skal tekið fram að ekkert þeirra var slasað eða farið illa með við gerð þessa pistils.

10. júlí 2007


Veit Togga að hún á sama afmælisdag og Helgi Björns???

Hér má sjá afmælisbörnin gera það sem fer þeim verst...


Fyrir 53 mínútum gerðist það að Togga (eða o?=orgero?= eins og hún heitir í tölvu sem talar ekki íslensku) fyllti 34 ár! Það besta er að þar sem hún er stödd er hún ennþá 33 ára! Njóttu þeirra klukkutíma en samt ennþá meira daganna og áranna sem fylgja í kjölfarið. Til hamingju með afmælið Toggan okkar! Hip hip húrra....


will you still need me will you still feed me
when i'm thirty four....

1. júlí 2007


Ég er handviss um að ef maður borðar heilt baðkar af þessum hérna sé það krabbameinsvaldandi og kólestrólhækkandi í meira lagi. Þess vegna finnst mér rosalega mátulegt að hafa bara borðað einn dunk.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats