22. júní 2006


Fór í mæðraskoðun í dag og ljósmóðirin sagði við mig að ég ætti beinlínis að fara að gúffa í mig rjómaís og þvíumlíku. Eða réttara sagt að mér sé óhætt að missa mig í smá óhóf til að eiga smá mjólkunarforða þegar þar að kemur þar sem þyngdaraukningin hefur ekki verið það mikil á meðgöngunni hingað til.
Skyldi manneskjan gera sér grein fyrir því hvað hún var að segja við mig...? Svona eins meðferðarfulltrúinn segði bara við alkann sisvona að fá sér viskíflösku... og aðra til!
Ís samkvæmt læknisráði, cheers!

---

Takk fyrir mig!

SMELLA FYRIR STÆRRI MYND AF DÝRÐINNI

Liðið mitt dottið út í bili en ég hlýt að geta fundið eitthvað annað sem uppfyllir útlitskröfur mínar, þó ekkert lið komist með tærnar þar sem Fílabeinin höfðu hælana í blautbolakúnstinni. England er þó klárlega á botninum í þeirri kosningu því þeir Crouch og Rooney hafa valdið mér martröðum undanfarið, því ekkert óttast ég meira en að þeir rífi sig úr að ofan eftir einhvern leikinn og bólugröfnu bökin þeirra æpi á mann sjálflýsandi og flekkótt. Hrollllrrr!
Ætla að finna mér nýtt uppáhald hið snarasta!

21. júní 2006


Ef einhverjum fannst ég tala á neikvæðan og fýlupúkískan hátt um ammælistónleikana hans Bubba þá bara lesið þetta hér.

16. júní 2006


Er farin beint heim eftir vinnu að horfa á fótbolta!!! Ætla að hlunka mér í sófann og stara á skjáinn sem dáleidd sé í þessar 45 mínútur sem seinni hálfleikurinn stendur yfir og horfa á lið Fílabeinsstrandarinnar rúlla yfir Niðurlendinga. Ég kem ekki til með að fylgjast með færum, aukaspyrnum, sendingum, tæklingum; hvað þá mörkum eða vítum eða hvað þetta heitir allt. Ekki spyrja mig eftir leik hvernig hann hafi farið því ég horfi á leikinn út frá allt öðru sjónarmiði heldur en til dæmis Píp gerir. Það er sambland af fagurfræðilegum og hönnunarfræðilegum sjónarmiðum sem vaka fyrir mér.

Leikmenn Fílabeinsstrandarinnar eru nefnilega svo skemmtilega af Guði gerðir að vera ákaflega vel samansettir og stæltir og þar að auki á hönnuður búningana þeirra margar og innilegar þakkir skyldar fyrir að hafa saumað búningana úr svona ótrúlega heillandi og athyglisverðu efni eins og raun ber vitni. Missti nefnilega kjálkann niðrí gólf (eða niðrá bumbu, komst víst ekki legngra) yfir síðasta leik þegar ég horfði á blautbolaboltann sem þeir spila. Hver skora á líkamanum og 12-packið blasti við manni og augun bara límdust. Ætla sko ekki að missa af leik með þeim og vona að það verði aftur kjöraðstæður fyrir blautbolabolta eins og síðast, það er að segja vel heitt, þó nokkur raki og líkamar að púla. Úfffff...
Óttast þó eitt, Niðurlendingarnir og Fílabeinin spila bæði í appelsínugulum búningum þannig að ég er að vona að Niðurlendingarnir verði látnir fara í varabúninginn sinn, þar sem ég er ekki viss hvort varabúningar Fílabeinanna búi yfir þessum sömu eiginleikum... Nema hönnuðurinn sé kona, þá má treysta á að hún hafi séð fyrir því.



Já segi það með þér Drogba, heilög Guðsmóðir! Eða á máli sem hann skilur, holy cow!!!

Áfram um fótbolta og hönnun, enda náskyld fyrirbæri. Nú er aldeilis gamli góði netabolurinn búinn að fá uppreisn æru! Eiður Smári lét sjá sig í þessum í vikunni og þarna er heldur betur búið að bæta við óvæntu tvisti í fyrirbærið sem slíkt. Hlýrarnir hafa mjókkað svo um munar og möskvarnir svona einstaklega nettir svo eftir er tekið. Verð endilega að finna svona handa Píp!


14. júní 2006


Í gær var slétt ár síðan við lögðum af stað í stóra Kaliforníu-túrinn okkar! Þann sama dag afhentum við íbúðina okkar í Álafossi þannig að 13. júní 2005 var dagur í stærri og skemmtilegri kantinum. Er með þeim ósköpum gerð að ég á það til að fara að hugsa til baka með væminn svip á andlitinu eða verða hálf meir og nostalgísk þegar ár eða x mörg ár eru liðin frá hinu og þessu. Einhver tegund af geðveilu sennilega.
Dett stundum í það að hugsa, já þetta var ég að gera fyrir ári síðan, og held svo til dæmis upp á ótrúlegustu hluti, svona eins og afmæli kattarins 2. maí ár hvert. Þá pota í hann og segi honum hvað hann var nú einu sinni lítill og sætur... Nýjasta ákvörðunin mín tengd svona dögum og afmælum er sú að ganga 10 daga framyfir aftur og ala barn á 10 ára afmæli okkar skötuhjúa, 4. september nk. Viðeigandi mjög þykir mér.
Jæja nóg um geðveilur í bili... Í tilefni af 1 árs afmæli ferðarinnar ætla ég að rifja upp alveg hreint skemmtilegt atriði úr ferðinni. Smellið hér. Klassískt alveg hreint og eldist jafn vel ef ekki betur en besti Baywatch þáttur. Ef einhver vill rifja ferðina upp í tilefni tímamótana (heyriði geðveiluna...?) má lesa ferðasöguna hér: giugno 2005 og luglio 2005

6. júní 2006


666 að kveldi kominn og enginn hefur orðið heimsendirinn og ekki fæddi ég heldur lítinn djöful í mannsmynd í dag. Framleiði aðeins engla og næsti verður tilbúinn í ágúst.

Annars er nú alveg djöfulegt að fylgjast með tónleikunum með ammælisbarninu honum Bubba og allri auglýsinga-skrum-mennskunni þar í kring. Ekki nóg með að ákveðin bankastofnun og ákveðið símafyrirtæki auglýsi villt og galið í hverri pásu og hvar sem er og eigi tónleikana og manninn nánast, og hvert fyrirtækið á fætur öðru keppist við að birta heilsíðu "tilhamingjumeðammiliðlitlapeningamaskínanokkar"-auglýsingar í blöðunum, heldur eru líka á staðnum bara ömurlegir idolkynnar með bara ömurlega brandara inn á milli laga og idol stjörnuhröp og aðrir leiðindapésar stíga á svið til að heiðra hálfrar aldar gamlan popparann, ef heiðrun má kalla.
Og svona fyrst áðurónefnd bankastofnun keypti popparann með tóneyra og raddböndum í fyrra gat hann ekki annað en byrjað tónleikana á laginu "hamingjan er krítarkort". Ætli hann endi þá ekki á "fjöllin hafa vakað" í boði Landsvirkjunar eða eitthvað álíka. Bíð svo spennt eftir að ónefnt bílaumboð keyri bíl inn á sviðið til að gefa ammælisbarninu í ammælisgjöf.

Ætli ég sé ekki aðallega bitur yfir að hafa ekki fengið miða á tónleikana?!
hmpfr!

Ætlaði að hætta að tala um blóm og pólitík en ein tilkynning fyrst:

Framsóknarflokkurinn er látinn. Útförin nánar auglýst síðar. Blóm og kransar afþakkaðir.

Jæja þá getum við farið að tala um eitthvað annað...

1. júní 2006


Í dag kom fólk og gerði tilboð í íbúð hjá okkur í vinnunni sem væri svo sem ekki í frásögufærandi nema fyrir það að tilboðið innihélt mjög skemmtilega klausu. Sú klausa hljómaði sem hér segir:

"Kötturinn Bjartur hefur heimild til búsetu áfram í eigninni."

Það er reyndar algjör tilviljun að þessi háæruverðugi íbúi íbúðarinnar heitir sama nafni og okkar ágæta kattardýr.
Málið er nefnilega það að seljendur eignarinnar geta ekki tekið köttinn með sér og tilvonandi kaupandi er meira en til í að yfirtaka hann og vildi setja það inn í tilboðið.

Þetta minnir mig svolítið á okkar eigin sölu sem fram fór fyrir ári síðan, þar sem til greina kom, að ósk Píps sem fann þá kettinum flest til foráttu, að setja inn í söluyfirlitið: "7 vetra köttur getur fylgt". Ekkert varð af því þar sem ég lofaði Píp að hann og kötturinn ættu sér von og að búferlaflutningar mundu bæta samband þeirra ef eitthvað væri, að ég tali nú ekki um bókina sem ég hafði einmitt gefið Píp í þeirri von að þeir færu að hlúa betur að sínu sambandi og "bonda" aðeins betur. Það er þessi bók:



Og það náttúrulega þarf ekki að spyrja að því að ég hafði rétt fyrir mér, Píp og kettinum hefur aldrei komið betur saman og varla má á milli sjá hver er að kúra hjá hverjum! Fyrstu 3 vikurnar í Efstasundi vorum við Bjartslaus vegna framkvæmda og þá meira að segja viðurkenndi Píp að sakna kvikindisins. Nuddstundirnar þeirra eru svo stundir sem þeir tveir eiga í einrúmi og gera báðum gott. Í dag er ég mikið fegin að við afsöluðum okkur ekki honum Bjarti okkar á sínum tíma.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats