30. september 2004

Fyrir sólarhring síðan var ég að spranga um á Spáni og eftir sólarhring spranga ég um allt í Köben. Ljótt að segja það en ekkert hefði ég nú á móti því að eyða frekar helginni með honum syni mínum eftir þessa fjarveru en maður lætur sig hafa þetta og skellir sér með vinnunni til Köben á morgun.

Óþolandi alveg hvað maður er oft ókátur með að vera kominn heim. Á ekki lengri tíma en viku er maður orðinn að algjörri hitakærri örveru og finnst að rétt eins og dýr eru send í einangrun við komuna til landsins, eigi að senda okkur mannfólkið í hitakassa í smá tíma til að aðlaga mann að þessu skítaveðri og kulda sem oft(ast) tekur á móti manni á Sandgerðisflugvelli. Já takið eftir: Sandgerðisflugvelli! Inga vinkona mín sem var úti á Spáni með okkur er Sandgerðingur og fullvissaði okkur hin um að flugvöllurinn væri á Sandgerðislandinu og ætti þar með að kallast Sandgerðisflugvöllur. Hún uppskar lítið annað en háðsglósur en af virðingu við hana og hina 4 Sandgerðisbúana, sem eru jú náfrændur hennar, skal hann hér eftir nefndur sínu rétta nafni á þessari síðu!

Já aftur að hitakassanum; þetta er ekki nokkur hemja að manni sé fleygt úr 30° hita í 8° bara sísvona... vanalega með innifalinni vindkælingu og vökvun þar að auki. Í kassanum yrði maður bara trappaður niður smátt og smátt og meðferðinni mundi meira að segja ljúka þannig að maður væri í norðaustan 19 m/s og 20° frosti því þá yrði maður bara sérdeilis ánægður og hamingjusamur með 8 stigin og slagviðrið sem tæki á móti manni. Þetta mundi líka svínvirka alveg á útlendingana held ég. Það væri meira að segja hægt að nýta húsnæði og aðstöðu hersins undir þessa starfsemi þar sem til stendur jú að hann hverfi af landi brott. Væri hægt að skipta meðferðinni niður í fyrstu, aðrar og þriðju búðir eins og hjá fjallgöngumönnunum til að trappa fólk niður og fullt af suðurnesjamönnum og konum gætu haft atvinnu af þessu! Fyrirséð atvinnukrísa á Suðurnesjum afgreidd hér og nú!

Enduðum Spánarferðina á Duomo, veitingastað sem við tókum ástfóstri við síðast þegar við fórum alveg óvart til Benidorm. Þvílíkur unaðsstaður, enda erum við alveg búin að sjá það að Spánverjar kunna ekkert að elda almennilegan mat! Að vísu held ég að þessi ferðamannaiðnaðarmaskína sem Benidorm er gefi ekki alveg rétta mynd af matargerð Spánverja, en samt mega þeir aðeins vanda sig þarna og kannski krydda matinn með pínulítilli þjónstulund svona inn á milli! Annars var þessi ferð alveg frábær og félagsskapurinn enn betri þannig að nú er maður bara hálf meyr yfir að þessi ferð sem maður beið svo lengi eftir sé bara búin! *snökt* Hún varð allavega eins góð og hún hefði getað orðið þannig að við setjum hana bara í jákvæðuminningabankann og hættum að vera svona dramatísk.
Hei já, nú er ég aldeilis byrjuð að leggja grunninn að léttvínssafni mínu. Maður má kaupa 3 léttvín inn til landsins og við skötuhjúin fullnýttum það (6 flöskur: 3 hvít og 3 rauð) og getum nú tekið tómu flöskurnar úr vínrekkanum og sett innhaldsríkar flöskur í staðinn. Og svo skulu alltaf keyptar tvær nýjar fyrir hverja eina sem opnuð er! Jæja farin að pakka fyrir Köben, hef aldrei vantað að eiga þurrkara fyrr en akkúrat núna! Fötin ná varla að þorna á milli flugferða. Heyrumst síðar!

28. september 2004


Póstkort frá Benidorm


¡Hola!

¡Hér sé stud og stemmiñg! Erum búin ad gera margt skemmtilegt, svo sem ad fara í Terra Mitica, sóla okkur, eta á okkur gat og fara á tvaer kvoldvokur med íslendingunum tar sem sungnir voru íslenskir útilegusongvar og fleira gefandi og skemmtilegt. Aetti ad vera bannad ad gaula "ÓlavíahvarerVigga" og "Stínavarlítilstúlkaísveit" utan íslenskrar landhelgi. Tad sem madur laetur hafa sig útí... Vantadi bara ad fólk kaemi med húsbíl og prímus med sér. Ekki búin ad finna Kúbu-barinn minn aftur og hef svo sem ekki gert neinar stórvaegilegar tilraunir til tess heldur. Hofum verid mjog rafmognud og í studi á dvol okkar hérna tar sem hopurinn sem vid hongum adallega med samanstendur mestmegnis af rafvirkjum og teirra frúm. Vedrid hefur leikid vid okkur og hitinn á kvoldinn er gódur herbergishiti sem er mjog ljúft, enda hélt madur ad á tessum árstíma vaeri eitthvad farid ad kólna undir midnaettid. Sei sei nei aldeilis ekki. Svona á lífid ad vera. ¿Hvad getur madur bedid um meira? Jú lítinn Óla Bjarka kannski. Í kvold er tad svo árshátíd og húllumhae en fyrst er tad strondin! Heyrumst sídar og bidjum ad heilsa.

Bless bless,
PerGulammi

22. september 2004


Í allt sumar hef ég verið gjörsamlega andsetin af lagi sem ég heyrði í útvarpinu í byrjun sumars. Eitthvað við þetta lag heltók mig strax við fyrstu hlustun en því miður vissi ég engin frekari deili á því mestanpart sumars þar sem ég hlusta frekar sjaldan á Rás 2, sem er um það bil eina stöðin með lagið á sínum lagalista. Komst á endanum að því hver hljómsveitin er og nú á haustdögum heyrði ég að þessi tiltekna hljómsveit hyggi á að gefa út disk hvað á hverju, og viti menn; er búin að ná mér í eintak og gjörsamlega er að spila hann í hengla.

Hljómsveitin heitir Hjálmar og kemur frá Keflavík... og er íslensk reggíhljómsveit! Já hljómar kannski ekki ýkja vel en þetta er þessi líka frábæra hljómsveit! Hljóðfæraleikararnir hver öðrum betri, söngvarinn með algjörlega einstaka og sérstaka rödd, lögin frábær og textarnir eru meira að segja líka snilld! Langt síðan allir þessir þættir hafa smollið saman hjá íslenskri hljómsveit, með fullri virðingu STEF, FÍH, FTT og aðrir hagsmunaaðilar. Lagið sem ég er að tala um heitir sem sagt “Bréfið” og til að stytta ykkur stundirnar meðan hvarsemer fer í sólina læt ég textann fylgja hér á eftir þannig að þið getið nú aðeins pælt í honum. Er ekki svo fær að ég geti deilt laginu sjálfu með ykkur í gegnum símaleiðslurnar þannig að textinn verður að duga í bili.
Heyrið svo kannski frá mér ef ég virkilega nenni að sitja inni á hóteli eða á netkaffi á Spáni og pikka á lyklaborð. Ekki búast við því!

Af tilefni kennaraverkfalls eru engir stórir stafir, kommur eða punktar í textanum.

bréfið

ég skrifa bréf þótt skaki vindar hreysi
og skrifta fyrir þér
ég tíunda mitt eigið auðnuleysi
og allt sem miður fer

því hafin yfir hversdagsleikann gráa
ert þú hjartans vina mín
ég ljósið slekk og langt í fjarskann bláa
leitar hugurinn til þín

svo ber ég eld að bréfkorninu mínu
þá batnar vistin hér
því fölur loginn fyllist brosi þínu
sem að fyrirgefur mér

og þannig brúar þessi litla skíma
þagnarinnar hyl
þú huldumey sem handan rúms og tíma
hefðir getað verið til

Einar Georg Einarsson

Spánn, sól, sandur, sangria, sandalar, slökun, skemmtun, stuttbuxur, sundsprettir, strandverðir, stuð, stemming! Svona verður næsta vikan hjá mér - pínulítið fyrirsjáanleg eða hvað...!

Já einu er ég að gleyma, hver haldið þið að komi til með að halda uppi stemmingunni á kvölvökum Íslendinganna? Enginn annar en Eyjólfur Kristjánsson! Vona að hann verði ekki valdur að of mikilli iðrakveisu, uppköstum, hjartaveilu og sólstingi með gauli sínu og skemmtilegheitum. Óttast það samt! Veit sem betur fer um kúbanskan bar á Benidorm og ætla að skrá lögheimilið mitt þar!

21. september 2004


Jæja, nú er rúmur einn og hálfur sólarhringur í að við hjá hvarsemer höldum í vísinda- og menningarferð til Spánar. Alveg er spenningurinn að fara með ritstjórnina þar sem nú eru jú liðin 4 ár síðan síðast var farið út fyrir landssteinana, sem er ekki á nokkra flökkukind leggjandi. Merkilegt að þá fórum við einmitt á sama stað, Benidorm á Spáni. Sorgleg staðreynd að vissu leyti, Kúba var snilldarhugmynd sem hefði mátt fylgja eftir, minn kæri Mótás kostunaraðili! Litli píp kemur að vísu ekki með, hann verður hjá ömmu og afa píp og bróðir hans, kattarræksnið, fer til hinna ömmu og afa.

Lendum aftur á Íslandi 30. september og sólarhring síðar verður undirrituð kominn aftur út á flugvöll og þá skal haldið til Köben! Já svona er þetta, annað hvort fer maður bara ekki neitt til útlanda eða nokkrum sinnum í sömu vikunni! Vinnan ætlar sem sagt að skella sér eina helgi til Köben til að “lesa lög”! Það á að fara yfir ný lög í starfsgreininni og hygge sig eitthvað líka. Vá hvað næstu tólf dagar verða nú yfirmáta hressandi.

Eitt sorglegt fylgir þessu reyndar og það er að með Köben-förinni missi ég af aldarfjórðungsafmæli snillingsins Siggeirs sem er búinn að leigja sumarbústaði undir fagnaðarlætin vegna afmælisins sem eiga að standa í sólarhring. Fy Fan!!! Var farin að hlakka mikið til en maður getur víst ekki fengið allt, því miður, en ég vona að hann finni stað í hjarta sínu til að fyrirgefa mér.... plís... *snökt*

16. september 2004


Tvífarar

Hefur einhver spáð í það hvað Andrea Róberts og Díanna Omel eru líkar? Eða lík... Eða líkir... Eða eitthvað! Hvað veit ég?!?!?



14. september 2004


Á morgun rennur upp bjartur og fagur dagur með nýjum væntingum, nýjum forsætisráðherra og nýrri Ruth Reginalds! Eiginlega erum við að fara úr öskunni í eldinn með þessum nýja forsætisráðherra. Ef DO var kjáni þá er HÁ bjáni! Maðurinn er með álíka mikið fylgi á bak við sig og gáfumannasnillipésinn hann Ástþór Magnússon, gott ef hann (HÁ) fékk ekki 5% eða eitthvað í kjördæminu sínu í síðustu kosningum. Anarkistaflokkurinn eða kristilegi flokkurinn hefði alveg eins getað fengið forsætisráðherrastólinn fyrst það þarf ekki meira fylgi en raun ber vitni. Svo er maðurinn svo freðinn (í kuldalegum skilningi) og leiðinlegur (í venjulegum skilningi þess orðs) að Golf-straumurinn fer sennilega að finna sér einhvern annan farveg heldur en hingað norður eftir. Loksins ber landið nafn með rentu með svona freðýsu við stjórnartaumana.

(Hvarsemer hf. ber enga ábyrgð á þessum skrifum þar sem þau er alfarið skoðun og hugarfóstur aðalritara dótturfélagsins Bull ehf. Allar ásakanir um ærumæðingar eru úr lausi lofti gripnar og verður vísað frá með skömm.)

Og að öðru; oftast drattast undirrituð ekki fram úr rúminu sínu fyrr en klukkan er langt gengin í átta en á morgun skal sko skutlast fram úr mun fyrr til að sjá togaða og teygða, saumaða og samansetta afdankaða söngkonu á fertugsaldri með verri gerðina af sjálfsáliti sýna sitt nýja útlit í sjónvarpinu. Já svona lágt getur maður lagst að fylgjast með þessu en hey... hver er ekki forvitinn? Spennandi að sjá hvernig furðuverkið lítur út eftir breytinguna eða er kannski algjör vitleysa að kveikja?!?!

13. september 2004


Ofsalega er þetta nú hugljúft... að fólk kunni ennþá að vekja athygli á málstaðnum á friðsælan hátt! Og haft pínulítið gaman að öllu saman í leiðinni...

11. september 2004


Svona leit google.com út á sínum sokkabandsárum í byrjun sjöunda áratugarins.

10. september 2004


Þetta er einum of týpískt! Einhvern rámar kannski í mikið harmakvein í undirritaðri í mars síðastliðinn að mig minnir, þegar ég komst ekki á Damien Rice tónleika fyrir einhvern kjánaskap. Málið er að nú hefur hann boðað komu sína aftur og ætlar að taka hana Lisu Hannigan með sér (sem syngur með honum á plötunni) þannig að þessir tónleikar gætu jafnvel orðið betri en hinir! Og hvað haldiði... tónleikarnir verða 23. september! Og hvað með það kann einhver að spyrja sig... jú, þá verðum við hjá hvarsemer tiltölulega nýlent á Spáni!!

Já já ég ætla ekki að vera vanþakklát, það er unaðslegt að vera á leiðinni til Spánar í sólina og ljúfa lífið en það er nottla bara átakanlegt að þetta skuli hitta svona á! Jæja þýðir ekki að svekkja sig á því, þetta er ekki jafn slæmt og hjá pípinu; hann grætur sig í svefn þessa dagana, því vegna Spánarfararinnar missir hann af úrslitaleiknum í utandeildinni og þar að auki missir hann af skúter-tónleikum! Nei nei þetta var illa sagt, hann grætur skúter ekkert voðalega hátt - er bara svolítið niðurdreginn og viðkvæmur. Aðgát skal höfð...

Jæja bíó á eftir og það íslensk mynd: "Dís". Bókin var góð en við skulum alveg róa okkur í væntingunum til íslenskrar kvikmyndagerðar... Kemur bara í ljós!

9. september 2004


Alveg er nú hreint merkilegt hvað sumu fólki leyfist í klæðaburði sem annað fólk gæti ekki á nokkurn hátt borið! Ykkur rámar kannski í færsluna hérna fyrir neðan þar sem ég var að tala um skærbleikar nælonsokkabuxur…?!?! Muniði? Og það var þá í þeirri merkingu að maður ætti nú að klæða sig eins og trúður annað slagið til að hafa pínulítið gaman af hlutunum, en viti menn; á minni daglegu sendiför í dag rakst ég á kvenmann á mínum aldri sem var klædd sem hér segir: Snjóþveginn gallakjóll, bundinn fyrir aftan háls og náði rétt tæplega niður að hnjám, NEONBLEIKAR NÆLONSOKKABUXUR!, ljósbleikt sjal yfir axlir og ljósbleik flatbotna stígvél úr rúskinni eða einhverju álíka.
Jamm gott og vel, fór bara að spá ef ég sjálf væri klædd á þennan hátt yrði nú örugglega hringt á einhverja viðeigandi stofnun og málið meðhöndlað við hæfi, en staðreyndin er sú að manneskjan tók sig bara ekkert illa út í þessari múnderingu en einhver allt önnur manneskja hefði hins vegar eflaust litið út eins og bjáni, með fullri virðingu. Það er kannski þetta sem er verið að tala um þegar verið er að tala um að “skapa sinn eigin stíl”. En það verður að segjast alveg eins og er að hún lífgaði nú annars nokkuð upp á grámygluna hjá Sýslumannsskriffinnskustofnuninni í Reykjavík!

8. september 2004


Kæra dagbók!


Er fyrst núna að komast til lífsins eftir algjöra slúbbertalífsnautna helgi! Byrjuðum laugardaginn hjá Bakarameistaranum og kræsingum þar (aspas-stykki og hrískaka... slef..) og um kvöldið fórum við fjölskyldan á Rossopomodoro og hámuðum í okkur afbragðs góðar pizzur á viðráðanlegu verði og drukkum tiltölulega ódýrt hvítvín með. Þeir eru svolítið sniðugir að selja vín hússins í nokkrum stærðum og ódýrar en gengur og gerist þannig að maður getur til dæmis keypt lítra karöflu (nei ekki kartöflu) á rúman 2.000 kall í staðinn fyrir að borga hátt í 4.000 kall fyrir flöskuna eins og viðgengst á sumum stöðum. Og vín hússins er alls ekkert heimabrugg, það heitir Cato Blanco fyrir ykkur sem þekkið til. Pizzurnar voru eins og áður segir góðar en reyndar urðum við fyrir vonbrigðum í lokin þegar við fengum okkur eftirrétt sem stelpan mælti svo mikið með; heit súkkulaðikaka með blautum kjarna, ís og sósu! Hljómar guðdómlega en kakan var á stærð við meðalpúðurdós með einni ískúlu og kostaði 850 kall! Þar misstu þeir nokkur prik. Svo kíktum við skötuhjú í bíó á Bourne superememememedí sem var alveg allt í lagi bara verst að maður er búin að sjá hana svona cirka 20 sinnum áður. Synd þar sem það eru svo margar myndir í bíó sem mig langar að sjá en þarna fékk pípið að ráða...

Fór svo sjálf og hitti tvær vinkonur og sötraði með þeim vín og bruddi osta og komst að því að önnur þeirra er á góðri leið með að fjölga mannkyninu eins og um það bil, jú önnur hver manneskja í kringum mig. Þær fregnir komu alveg dásamlega skemmtilega á óvart þar sem ég átti svo innilega ekki von á því frá henni þessari! Var til dæmis ekki að ná hintunum sem hún var búin að vera með allt kvöldið þannig að hún þurfti á endanum að stafa það oní mig! Ó-L-É-T-T! Hún heimshornaflakkarinn ólétt! Neeeei datt það ekki í hug!

Hamborgarabúllan hans Tomma sá svo um að matreiða ofan í okkur á sunnudagskvöldið og það er frrrábær staður! Hrá búlla í pínkulitlu húsi rétt hjá slippnum, veggirnir gylltir og angurværir tónar Cesariu Evoru hljómuðu á fullum styrk þannig að hinir guðdómlegu borgarar runnu ljúft ofan í mann. Himnaríki er örugglega nokkurn veginn svona; gylltir veggir, suðræn tónlist og kræsingar! Ekki satt!?! Eða er ég að rugla saman við Rómverjana forðum daga? Gæti verið... Og ekki var þjónustan af verri endanum, höfum vanalega beðið lengur eftir borgaranum á McDonalds heldur en þarna. Svei mér þá ef Vitabars-borgararnir hafi ekki fallið niðrí annað sætið þarna. Með skelli! Svo var það ísbúðin á Hagamel sem setti lokapunktinn aftan við þessa helgi. Fyrir þá sem ekki vita, bezta ízbúðin í bænum! mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm.........

Þar hafiði það! Svona var 15.000 kaloríu helgin mín! Og ég á leiðinni til Spánar... O well... Get huggað mig við að spikið kemur bara til af góðu! Það var alveg þess virði.

1. september 2004


Kæru ættingjar og vinir nær og fjær! Ég vil óska ykkur gleðilegs árs og takk fyrir þau gömlu með von um að hið nýja verði jafn gæfuríkt og afladrjúgt. Nýtt fiskveiðiár er hafið!

Nýji Mbl finnst mér ljótur! Nú nota þeir 23% af skjánum á hægri kantinum undir auglýsingar að ógleymdum öllum hinum auglýsingunum vítt og breitt um allan skjá. Munur annars að vera með adsl-ið okkar kæra, nú horfir maður bara á fréttirnar í tölvunni þegar manni sýnist ef svo óheppilega vill til að maður hafi misst af blóðsúthellingum dagsins.
Á því sviði er samkeppnisaðilinn Vísir orðinn sterkari, en þeir hjá Mbl fundu sig einmitt knúna til að koma með svar við breytingunum á Vísi og breyttu breytinganna vegna og sendu fréttasvæðið í megrun og blésu auglýsingarnar upp! Góður díll. Annars þurfa svona fréttafíklar eins og ég að fara í meðferð held ég. Alveg viss um að þessar ógeðishryllingsljótufréttir sem dynja sífellt á manni séu alveg jafn óhollar sálinni og reykingar og ljósaböð líkamanum.

Mikið er þetta nú sorglegt að hafa ekkert annað að tala um annars, væri munur að geta talað um alla spennandi og skemmtilegu hlutina sem eru að gerast hjá manni eins og hjá sumum, en jú svona er nú bara manns bitri raunveruleiki og Ólympíuleikarnir búnir og Snæland hætt að selja súkkulaðiísinn úr vél og haustið nálgast og allt í volli...

(Andvarp og dæs)

Spurning með að fara bara og kaupa sér skærbleikar nælonsokkabuxur og jafnvel labba afturábak um vinnustaðinn á morgun! Brjóta munstrið aðeins upp!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats