30. janúar 2008


Óli byrjar í dag á frístundaheimili eftir skóla (áður þekkt sem skóladagheimili). Við sóttum um í febrúar á síðasta ári. Hann hefði með réttu átt að komast inn í lok ágúst þegar skólinn hófst.

Ef einhver þessara borgarstjórnarmeirihluta hefði nú sinnt borgarmálunum...

27. janúar 2008


Sonur minn eldri er frelsarinn endurfæddur! Í jeppaferð um síðustu helgi spurði hann:
"Er snjór ekki vatn?"
"Jú" fékk hann í svar.
"Þá geng ég á vatni!" sagði hann hróðugur og hélt áfram eftir skaflinum.

25. janúar 2008


Kötturinn Fritz snillingur mikill! Hann heldur úti heimasíðu hvar hann sýnir myndir frá flakki sínu um heimahagana. Hann er með myndavél um hálsinn sem smellir af á 15 sekúndna fresti og afraksturinn má sjá hér.

Minn köttur er inniköttur þannig að ég geri kannski ekki mikið meira við hann en að festa á hann iRobot-ryksugu þannig að hann sjá til þess að heimilið verði ryksugað á u.þ.b. 15 klukkustunda fresti. Afraksturinn yrði hreint heimili. Hann gæti meira að segja fengið eigin heimasíðu út á það.

23. janúar 2008


Hann Heath Ledger er dáinn.

Ekki er ég vön svona í seinni tíð, eða síðan River Phoenix safnaðist til feðra sinna, að missa mig yfir andláti sjálfseyðandi dópbryðjandi Hollywoodgimpa en þarna fór góður drengur! Enda ekki Hollywoodískur að uppruna heldur Ástrali eins og Frú Sigríður benti réttilega á.
Þessa mynd hér að neðan tók ég á símann minn af sjónvarpsskjánum þegar ég á sínum tíma sat alein heima að horfa á Brokeback Mountain. Málið var að Píp hafði svo mikla andstyggð á myndinni óséðri, vegna meintra aðróttana í garð kúreka eins og hans sjálfs, að hann kaus að yfirgefa heimilið þegar ég fór og leigði hana. Enda hómófóbísk tepra að upplagi. En ég fann mig engu að síður knúna til að senda honum þessa mynd af Jake Gyllinæð og Heath Legend (núna) að aðhafast þennan koss enda huggulegur koss í meira lagi.

Skemmtilegt frá að segja að til baka fékk ég senda mynd af Píp og ákveðnum æskuvini karlkyns í álíka atlotum en það er sossem leyndó sem við skulum alveg láta kjurt liggja.


Allavega, hefði viljað hafa hann Heath meðal vor lengur því hann átti mikið inni vil ég meina.

Britney hins vegar virðist eiga fjárans 50 líf, sorpið sem hún er.

22. janúar 2008


Nú er spurning hvort Ólafur tapi heilsunni, verði borinn útaf með slitinn stokk og settur í mislæg gatnamót. Og þar með búið spil.

Þú mátt ráða hvort ég er að tala um handbolta eða pólitík.

18. janúar 2008


Halló halló halló halló halló ... (bergmál) Er einhver lesandi eftir þarna??? Eru allir kannski löngu búnir að gefast upp á mér og farnir að lesa Ellý?

Nei adnsktoinn ykkur leiðist ekki svo mikið er það?

GLEÐILEGT ÁR OG TAKK FYRIR HIN FYRRI!

2008 mætt á svæðið og lofar góðu af því að 2+0+0+8 gera 10 og 1+0 gera 1 sem hlýtur að þýða að þetta verður ár númer uno, fyrsta flokks ár! Takk fyrir það kærlega.

Þó síðan hafi legið niðri vegna framkvæmdaleysis þá "örvæntið ekki því það gerum við" eins og segir í auglýsingunni. Vona að ég komi til baka tvíelfd og gefi mér tíma í eitthvað bull og raus á næstunni.

Glöggir lesendur sem eru búnir að lesa síðuna upp til agna í pásunni hafa væntanlega rekið augun í að ég er þó búin að setja myndir frá Londres inn á Flickrið, en ef það hefur farið fram hjá ykkur má sjá þær hér. Þetta eru reyndar mest megnis myndir af Lundúnaborg sem slíkri þar sem ég var á ferð með frekar myndavélafóbísku fólki sem sneri sér listilega undan þegar ég tók upp mína ofurhægu digitalísku myndavél. Þessa myndavél gaf fólki að vísu á að giska 21 sekúndu til að koma sér undan því yfirleitt tók við 22 sekúndna bið eftir að myndin yrði rist í kortið frá því maður ýtti á hnappinn. En það er önnur saga. Ég náði þó nokkrum afturhlutum þannig að ég get þó sannað það að einhverju leyti að ég hafi ekki bara verið í einkaerindum að stúdera arkitektúr Lundúna.

Hér er svo ákaflega skemmtilegt myndskeið sem ég hvet alla til að skoða. Í því sé ég bæði hann Bjart eðalfress og undir lok myndbandsins kemur hann Kári minn líka upp í hugann einhverra hluta vegna...

=^._.^=

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats