28. júlí 2005


Furðulegt að þessir framtakssömu aðilar skuli ekki líka hafa látið prenta á dúnúlpur, kraftgalla, alpahúfur og eyrnaskjól, svona rétt til að hinir ágætu mótmælendur fari nú ekki að verða úti þarna fyrir austan... svona um hásumarið.

Einhverjir leggja sitt að mörkum til að stuðla að friði in dis wicked world we live in. Heimur bestnandi fer... vonandi, sennilega ekki samt...

Hef staðgóðar heimildir fyrir því að White Stripes komi til Íslands í nóvember! Hvílík fölskvalaus gleði. Vona bara að það verði ekkert aldurstakamark því að sjálfsögðu verður maður maður að taka li'l pip með sér, enda er hann jú einhver sá mesti White Stripes aðdáandi sem sögur fara af í öllum 2000-árgangnum á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Hann getur horft á "Fell in love with a girl"- myndbandið korterunum saman, enda eru Lego-kubbar megin uppistaðan í því, og dansað með og sönglar svo aðallínuna úr "Seven Nation Army" sí og æ, fyrir utan það að hann hefur sérstakt dálæti á "Jolene" í flutningi Hvítu Randanna. Ef við hjúin förum á tónleikana án hans verðum við allavega að fara með fleipur við barnið og segja honum að við séum að fara á Michael Bolton tónleikana eða eitthvað til að hann fatti ekki neitt. Afsakið rétt á meðan mér varð bumbult...

Nú virðist þessi brakandi þerrir sem geysað hefur í nokkra daga vera liðinn hjá. Vonandi að það viðri þá loksins vel til innimálunar!

Síðar...

26. júlí 2005


Já við erum komin heim!
Já við erum búin að fá íbúðina okkar afhenta!
Já ég er byrjuð aftur að vinna eftir fríið!

Þar hafiði það! Hef hvorki haft tölvu né tíma til að skrifa undanfarið en við skulum bara vona að það lagist á næstu dögum. Stöndum á haus við að koma íbúðinni í stand um þessar mundir þannig að nú líta dagarnir ca. svona út: vinna frá kl. 9.00-17.00, málað og vesenast í íbúð frá kl. 17.04-1.30! Fengum kalla til að slípa upp gólfið þannig að það fór frá því að vera vel lifuð drungaleg og sjúskuð fura í að vera náttúruleg og frámunalega fögur fura! Erum búin að mála hjónaálmuna og stofan var kláruð um helgina. Þær álmur orðnar alveg geysilega fagrar á að líta. Næsta verkefni verður svo stórt og krefjandi.... björgunaraðgerðir á eldhúsinu, athuga hvort það eigi sér viðreisnar von, hvort einhver leið sé að bjarga því frá þessu litaslysi sem átti sér stað fyrr á árum, senda það í endurhæfingu og sjá hvort hægt sé að bæta sjálfstraustið hjá því eftir niðurlægingartímabilið mikla!

Best að klára Ameríkuferðina, ferðasaga á hraðferð! Allir koma bara í heimsókn og skoða myndir fyrir nánari upplýsingar. Brunuðum frá LA í beinustu átt að Sequoia þjóðgarðinum með stoppi í Bakersfield, heimabæ þeirra Korn-meðlima. Engin furða að þeir sé reiðir og pirraðir ungir menn með allt á hornum sér komandi frá þessum rauðhálsabæ í miðri auðn þar sem hitastigið fer sennilega sjaldnast niður fyrir 40 gráður. Menn hljóta bara að semja tónlist "fyrir djöfulinn" (vitnað í Heilagan Amenson á Omega 24. september 2004) verandi frá næsta bæ við helvíti. Snæddum þar og brunuðum upp í Visilia, lítinn bæ rétt við Sequoia þar sem við eyddum nóttinni og héldum svo áleiðis að skoða voða stór tré og fullt af laufblöðum. General Sherman stóð sína vakt eins og hann hefur gert í mörgmörgmörg ár. Næsti ákvörðunarstaður var Oakhurst, hvar við höfðum afdrep í tvær nætur. Sá bær er nefnilega rétt við Yosemite National Park, sem við eyddum næstu tveimur dögum í að skoða. Náttúrufegurðin þar er svo gjörsamlega yfirþyrmandi að það eina sem maður getur gert er að flissa og glápa. Ásbyrgi lítur út eins og hvert annað lambasparð í samanburðinum. Með fullri virðingu...

Brunuðum þaðan á stað sem heitir Mammoth Lake, skíðabæ með meiru. Lögðum af stað daginn eftir í átt að Lake Tahoe með viðkomu hjá Mono Lake, sem er svona mini Dimmuborgir í vatni. Fórum svo yfir "landa"mærin inn í Nevada og að sjálfsögðu beið eitt stykki Casino þar eftir okkur 53 metra frá fylkjamörkunum. Létum þó alveg vera að kasta teningum en fengum okkur hins vegar að snæða þar. Karlmennirnir í hópnum, sem nota bene valhopppuðu og leiddust mest alla ferðina ásamt því að vera ávallt klæddir í stíl, fengu sér 12 oz. steik og egg í morgunmat/hádegismat enda ekkert seríos á boðstólnum.

Þá heldur sagan áfram og nú erum við komin til Lake Tahoe, sem er eins og stór leikvöllur allt árið. Á veturna er hægt að leika sér í ýmiskonar vetraríþróttum og svo á sumrin verður svæðið strandparadís með ýmis konar vatnasporti! Og hvenær sem er ársins getur maður klárað daginn í Casínói. Hversu áhugavert sem það nú er. Leigðum hús þar og gistum þar í tvær nætur, strönduðumst og nutum lífsins.

Þá var kominn 4. júlí og af því tilefni brunuðum við niður í Napa Valley, vínhérað með meiru. Sáum um kvöldið flugeldasýningu sem Íslendingar hefðu skammast sín fyrir undir drynjandi þjóðernisvælssorpmúsik einhverri. Ljómandi hressandi. Daginn eftir urðum við svo að sjálfsögðu að kynna okkur víngerð og víniðnaðinn sem slíkan og aðstoðuðum bændurna við að smakka til vínin þeirra þó okkur hafi ekki boðist í þetta skiptið að trampa á táslunum í tunnu á berjum. Ætli maður þurfi ekki að koma í október til þess. Fórum á 3 búgarða, þar af einn sem var lítið krúttlegt fjölskyldufyrirtæki og 2 "verksmiðjur" í samanburði við hitt, Beringer og Stags Leap.

Jæja, þá var heldur betur farið að styttast í þessari ágætu ferð okkar og þann 6. brunuðum við til San Francisco og skiluðum af okkur bílnum sem hafði svo hratt og örugglega flutt okkur á milli staða, þó ekki höfum við verið svo heppin að fá bílinn sem við pöntuðum tveim mánuðum fyrir ferð. Það er greinilega ekki nægur fyrirvari fyrir kjánana hjá Avis. Skohhh ókeypis auglýsing. Dögunum í SF var svo eitt í helst til mikið verslunarráp ásamt hinum og þessum skoðunarferðum. Löbbuðum fram og til baka yfir Golden Gate og svona allskonar. Þokan ásótti okkur aðeins þessa daga sem við eyddum í SF enda er svo mikið af henni þarna að þeir tappa henni á dósir og selja ferðamönnum sem minjagripi. Að sjálfsögðu fengu foreldrar mínir eina slíka enda er það orðinn siður hjá undirritaðri að finna hallærislegasta minjagrip á svæðinu og færa þeim. Þoka í dós var það í þetta skiptið. Já og þá var þessari frábærlega meiriháttar geggjuðu stuðferð lokið og þessi mánuður sem hún tók leið eins og tvær vikur eða eitthvað, svo mikið var fjörið. Vorum allt of löt við að kaupa í búið þarna úti vegna hræðslu við yfirvigt sem kom svo í ljós að var engin nema á okkur sjálfum, búin að borða á okkur ófá kílóin... úpps.
Hér er kort af Kaliforníu og þeir sem vilja geta dundað sér við að finna þessa staði sem ég er búin að telja upp á þessu flakki okkar. Einnig mæli ég með að fólk prenti kortið út og tengi á milli punktanna og geri sér þannig greinargóða mynd af þessu ferðalagi okkar. Þetta á aðallega við um þá sem eru í sumarfríi og leiðist eða eru í vinnunni og leiðist.

Hvað var svo það fyrsta sem við gerðum þegar við lentum á íslenskri grundu? Jú hringdum í fólkið sem seldi okkur íbúðina og fengum afhenta lyklana. Þar með var okkar heimilislausa flækingstímabili lokið. Meira seinna....

P.s. Hér má sjá myndirnar hennar Toggu úr ferðinni, þeim hluta sem hún var viðstödd, 17. júní - 4. júlí.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats