30. ágúst 2006


Get svo svarið það... held að sæstrengurinn hafi barasta slitnað við álagið þegar heil þjóð tók sig saman og missti sig í að kjósa Magna. Jæja, náði allavega að kjósa þó nokkuð oft en svo fór netið að segja: Server Error in '/' Application og fleira gáfulegt.

Ætli þessi litla geðveika þjóð verði í heimsfréttunum á morgun fyrir að hafa tekið sig til og crash-að Rockstar síðunni og öllu tiheyrandi?

27. ágúst 2006


Eins og staðan er núna er líklegra að við Píp förum upp á spítala með hann sjálfan í ársfjórðungslega heimsókn/viðgerð vegna einhverskonar hrakfalla heldur en að litli stubbur sé að fara að láta sjá sig...

24. ágúst 2006


Smellið til að heyra Óla tjá sig um skólann:



Lagaði aðeins til í bloggara-tenglunum hérna á hægri kantinum. Ákvað að jarðsetja þá aðila sem ekki hafa skrifað neitt í eitt ár eða lengur. Vona að mér verði fyrirgefið og að ég hafi nú ekki kviksett neinn. Setti inn í staðinn hina og þessa selebrití- og slúðurbloggara og á svo eflaust eitthvað eftir að yfirfara þetta betur. ÓBG er enn efstur á blaði enda ekki nema 10 mánuðir síðan hann bloggaði síðast og ætla ég að biðja ykkur um að afskrifa hann ekki þar sem hver veit nema hann heltaki málæði og hann eigi eftir að tjá sig í gríð og erg um skólann og Litla Kjúlla í vetur. Fylgist með.

Alveg getur manni sárnað þegar alltaf er verið að gera atlögu nú orðið að honum Meegníj í Rockstar. Í fyrrinótt taldi ég það borgaralega skyldu mína að vaka til þrjú um nóttina til að kjósa hann þó nokkuð mjög oft enda þurfti ég ekki að vakna til skóla eða vinnu eins og flestir aðrir Íslendingar. Þá er nú lágmark að maður leggi sitt af mörkum til að halda drengnum inni. Og það kom á daginn að hann þurfti að garga fyrir lífi sínu annað skiptið í röð en reddaði sér með glæsibrag. Einhverjir segja að það sé ekkert eftirsóknarvert að lenda með þessum durgum í Supernova í bandi, en er hann eitthvað betur settur með "Á móti sól"??? Á móti Who??? Neei held ekki. Björgum honum frá sveitaballavælinu og gerum stjörnu úr honum. Stjarnan á meira að segja stjörnukort.

23. ágúst 2006


Til að stytta mér stundirnar þangað til Litli Kjúlli kemur í heiminn ákvað ég að ættleiða lítinn fjólubleikan kjúlla. Enda er fullt af kjúllum útum allan heim sem eiga bágt og vantar gott heimili.



adopt your own virtual pet!


Það er voða skemmtilegt að leika við hann með músinni. Svo er hann mjög hlýðinn og viðráðanlegur.
Svo í byrjun september ef ég verð enn að "bíða" getur vel verið að ég ættleiði þjóðveg eins og var mikið auglýst á erlendum vegum sem við keyrðum um síðasta sumar.

22. ágúst 2006


Jæja, var að skila mér úr maraþoninu núna rétt í þessu. Tvisvar heilmaraþon búið á mettíma, aðeins 72 tímum, en án árangurs. Líkar vel orðið við þennan einstakling sem ætlar að byrja ævina á að drita svolítið yfir fjölskylduna sem vonaðist til að hann yrði hlýðinn og góður og kæmi í heiminn á þeim tíma sem óskað var eftir. Ágætt að vita að þarna er lítill stríðnispúki á ferð. Nú spái ég að hann láti ekki sjá sig fyrr en þann fagra dag 4. september!

ÓBG er orðinn nemandi í 1.MB í Langholtsskóla.

Hann sem var svona lítill í fyrradag!

Var annars einhver að velta fyrir sér hvar hennar hátign Leoncie sé í dag? Daddaradamm...hér!

8. ágúst 2006


Er að fara norður á morgun. Tek með mér allt hafurtask er ófæddi einstaklingurinn gæti þarfnast þar sem hann gæti jú tekið upp á því að vilja fæðast á Norðurlandinu. Það er allavega nokkuð ljóst að þegar hann heyrir í öllum skemmtilegu ættingjunum og drunurnar í tröllafrændunum á hann annað hvort eftir að drífa sig í heiminn hið snarasta eða hringa sig bara betur í bumbunni og fara ekki fet...
Ef hann mundi annars velja að verða Norðlendingur yrði það svo sem ekki verra en hvað annað og sterkur leikur fyrir hann að hafa tvöfalt ríkisfang! Gæti fengið forgang í Háskólann á Akureyri og V.I.P kort í Brynju-ísbúðina.

Annars hafa fleiri úrræði bæst í sarpinn í sambandi við að koma stubbi í heiminn þann 19. ágúst. Áður var búið að nefna Reykjavíkurmaraþonið sem verður haldið þann daginn en þá er alltaf sú hætta fyrir hendi að hann mundi ekki fæðast fyrr en 20., tala nú ekki um ef hann mundi ekki láta sér segjast fyrr en móðirin væri langt komin með 42 kílómetrana sem tæki í þessu ástandi hátt á annan sólarhring.
Hins vegar þann 18. ágúst, að kvöldi, verður haldin sýning á karlmönnum á Broadway sem ætti auðveldlega að geta komið af stað fæðingu, hvort sem það yrði vegna hláturs eða geðshræringar annars konar svo sem viðbjóðs, blygðunar, hneykslunar, skyndilegrar blóðþrýstingshækkunar o.s.frv. Tímasetning þessarar sýningar hentar allavega alveg prýðilega, segjum sem svo að eftir sýninguna færi eitthvað að gerast og þá mundi stubbur fæðast þann 19. nema honum lægi þeim mun meira á.
Svo er einn atburður í viðbót og það er barbarabússss; Landsþing framsóknarmanna! Hjálpi okkur allir heilagir. Það hefst þann 18. og við gætum farið þangað og bókstaflega misst legvatnið og fengið hríðir af einskærum leiðindum. Og ef stubburinn er rétt genaður gæti hann mjög líklega fengið algjörlega nóg sjálfur og ákveðið þar og þá að komast af þessari samkundu strax, þó svo að hann þyrfti þá að fórna heita pottinum sínum sem er jú hvort sem er orðinn helst til lítill. Þyrftum bara að koma okkur úr húsi í tæka tíð til að nýji einstaklingurinn yrði ekki innlimaður í flokkinn þar sem hann einn og sér mundi lækka meðalaldur flokksmeðlima um á að giska 46 ár og meðlimunum mundi líka fjölga um 17% með tilkomu hans.

Jæja best að byrja allavega bara á norðurferðinni...

3. ágúst 2006


Er komin í sumarfrí og fæðingarorlof og hin ýmsustu frí. Frekar skrýtið en venst vel. Byrjaði sumarfríið á mánudaginn kl. 16.50 með því að stíga inn í bílinn minn og frá útvarpinu ómuðu akkúrat upphafstónar Space Oddity með David Bowie sem ég hækkaði vel í og hlustaði á alla leiðina heim. Leið mín frá vinnu og heim er semsagt mælanleg í SpeisOddití-i. Ágætt að vita það núna svona þegar ég á ekki eftir að keyra þessa leið í einhverja 13 mánuði, nema þá í öðrum erindagjörðum. Eðal byrjun á fríi samt.

Miklir fagnaðarfundir urðu á internetinu áðan þegar ég á flakki mínu og róti á ruslahaugum netsins rakst á 56 Línu-þætti í heilu lagi. Hver man ekki eftir Línunni - La Linea: bajúmbadúmm bajúmbadúmm bajúmbadúmm mmmmmmmmmmm daaaaaaaaa! Varð svo mikið um að nú er ég að hugsa um að búa mér til eina rútínu í rútínulausu (þannig séð) líferni mínu næsta árið og það er að einu sinni í viku t.d. á miðvikudögum kl. 16.00 horfum við litli Píp á einn Línuþátt sem verður svo eins og á öllum alvöru sjónvarpsstöðvum endurtekinn 4 sinnum hið minnsta. Sýnist nefnilega að ef við horfum á einn þátt á viku eiga þættirnir eftir að endast allt orlofið. Gaman gaman!

Yfir og út!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats