25. apríl 2005


Það er ekki seinna vænna að segja frá því hér að íbúðin okkar sé á sölu. Við erum nebbla búin að selja....

22. apríl 2005


Ræð mér vart fyrir kæti! Inn um bréfalúguna í gær datt kynningarrit í dagblaðsformi sem kallaðist: FRÉTTApíp! Hreinlega frábært nafn á blaði! Þvílík snilld! Ég hefði getað fundið það upp! Þetta mun vera kynningarblað pípulagningasýningar sem haldin er þessa helgina og um leið blað Norðurlandamóts í pípulögnum!! Held ég að það sé framtakssemi í píp-samfélaginu um þessar mundir. Hvar skyldi maður fá miða??? Þið sem eigið ekki heimangengt þessa helgina getið smellt hér (sjóndaprir geta smellt hér) og fylgst með dýrðinni. Þá er sko engin afsökun fyrir að missa af öllu saman. Jibbíjei...
Píp og Perla fara semsagt á píp-show í Perlunni um helgina. Alveg á hreinu!

15. apríl 2005


Bakaði upp á míns einsdæmis súkkulaði-souffle um síðustu helgi sem fékk mannskapinn til að steinþegja í korter og ekkert heyrðist nema einstaka stuna og dæs. Frámunalega ljúffengt og gómsætt.
Eftir svoleiðs át er ekkert annað að gera en að tjútta af sér rassinn sem var og gert á 22, við ræflarokk í hæsta gæðaflokki. Þar labbaði ég beint í flasið á þessum! Kannaðist eitthvað við þetta ófríða smetti og eftir 2 sekúndna umhugsum uppgötvaði ég að hann heitir Ron Perlman og ku vera staddur á landinu til að leika í einhverri hryllingsmynd. Man ekki eftir að hafa séð neina af hans myndum en hann leikur sennilega mestmegnis vonda kalla eða hryllingsmyndakaraktera - hann er einhvernvegin þannig, svona rétt eins og sumir eru fæddir til að leika í Star Trek án þess að þurfa nokkurrar förðunar við. Var næstum því búin að segja við hann: "You Perlman - Me Perlwoman...!" ...en sleppti því. Hefði kannski gert það hefði hann búið yfir örlitlum fríðleika.

11. apríl 2005


Þarna kemur skýringin á þreytunni í manni alltaf hreint! Vá hvað mér líður betur núna að vita hvað veldur.

7. apríl 2005


Kæra dagbók.

Fyrirgefðu hvað ég er löt að skrifa þessa dagana en jú svona getur maður orðið latur annað slagið. Allt gott að frétta þó að veturinn hafa lufsast í heimsókn aftur. Ég sem var búin að segja honum að snáfa og láta ekki sjá sig aftur í bráð. Föstudagurinn síðasti var hressandi vinnulega séð þar sem kvenmaður bættist við starfsliðið, hafandi fjölgað mannkyninu um einn og sæmilega búin að koma fóstrinu til barns. Hlutföll kynjana á vinnustaðnum aðeins að jafnast. Vídeókvöld heima um kvöldið og þar sem húsbóndinn var slasaður og algjörlega varnarlaus fór ég út á vídeóleigu og tók mynd sem mig langaði að sjá. Before sunset varð fyrir valinu sem gerði mann álíka ástsjúkan og snilldarforverinn Before sunrise! Höfðum áður misst okkur fyrir framan imbann horfandi á frámunalega hressandi og gamaldags hallæris söngþátt í umsjá Hemma Gunn! Af öllum! Villi naglbítur hefði að sjálfsögðu átt að sjá um þann þátt til að hann hefði orðið jafn sýrður og hann hefur alla burði til að verða, en það er svosem önnur saga.
Brönsj í Kringlunni á laugardaginn og matarklúbbur um kvöldið þar sem eftir-eftirrétturinn var Hjálma-tónleikar á Nasa þar sem svitinn lak af veggjunum og maður gat vart hreyft litlaputta fyrir mannmergðinni. Yngstu kynslóðinni var svo gert til hæfis á sunnudeginum og litla familían skellti sér í bíó á Vémennin. Er svo búin að vinna fyrir heimilinu þessa vikuna meðan Píp sinnir tilfallandi léttum heimilisstörfum og sér um börn og buru og gefur kettinum endrum og eins höfuðbeina- og spjaldhryggsnudd þannig að þessa vikuna hefur heimilið rekist sem aldrei fyrr. Mæli eindregið með svona sixtís-þema í heimilishaldi, annar aðilinn heima og þrífur og eldar og stjanar svo við vinnandi makann! Hiphip húrra!

Jæja kæra dagbók, lofa að skrifa fljótt aftur.
Þangað til næst... hejdå!

1. apríl 2005


Hinn sögufrægi og margumtalaði Píp sá ástæðu til þess í gær að rista sig á hné! Það skal tekið fram að atvikið átti sér stað í gær en ekki í dag 1. apríl. Þannig að þetta er ekkert gabb, eins og þeir sem þekkja til Píps eru kannski ekkert hissa á - það er jú þannig að á hverju ári koma jól, páskar, skattaframtal og Píp fer á slysó! Fastir liðir. Það væri hægt að skrifa langa sögu um um það sem hefur á skrokk Píps drifið og satt best að segja væri hægt að skrifa Hrakfalla-bálk um hrakfallabálkinn. Hann skar á sig u.þ.b. 5 cm skurð með slípurokki og fékk saumuð í nokkur spor og situr nú heima með beina löpp og teiknar landslagsmyndir á sárabindin og getur ekki unnið sér til hnífs og skeiðar næstu vikuna.

Eiður og Ólöf eignuðust dóttur í nótt... Það var svosem eftir bullaranum sjálfum sem bullar bara daginn út og inn þannig að enginn tekur mark á honum - að eignast barn 1. apríl. Trúi því þegar ég sé það (hana)!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats