29. febrúar 2004

Árhlaup

Hef ekkert merkilegt að segja en mátti til með að skrifa nokkrar línur með dagsetningunni 29. febrúar. Sjaldséð dagsetning það. Bústaðurinn var ægilega fínn nema ég var svikin um grilluðu lærin... En í staðinn var á borðum þessi fína ungverska gúllassúpa sem var búin að krauma í pottinum meira og minna allan daginn þannig að kjötið var orðið svo mjúkt að það var hægt að tyggja það með augnlokunum.

Það er ótrúlega skemmtilegt að hafa þennan teljara sem ég var að setja inn hjá mér og geta fylgst með umferðinni um síðuna, nú veit ég til dæmis að síðan hefur verið skoðuð í Japan
Það hefði ég sko aldrei fengið að vita nema útaf mínum ástkæra teljara. En það sem teljarasíðan segir mér líka er að það eru ekkert mikið fleiri en ég og Japaninn vinur minn sem skoðum þessa síðu mína... ekki nógu gott það. Þarf greinilega að grípa til einhverra sniðugra kynningarbrellna...

P.s. Hann hafði ekki efni á því...

27. febrúar 2004

Gat ekki orðið mikið svalari mynd..

Brad sætur með sápuna sína
Fight Club!
What movie Do you Belong in?

Veit nú samt ekki alveg með þessa lýsingu á mér... hmmm!

þeink god its frædeij!

Nú er míns að verða svona líka as#%$i sátt við útlitið á síðunni, litirnir nákvæmlega eins og ég vil hafa þá og allt í góðum gír.
Kræsileg helgi fram undan; leikhús í kvöld, bústaður á morgun með allri stór-tengdafjölskyldunni og það verður sko bústaðaferð eins og bústaðaferðir eiga að vera, enda var það jú hann tengdafaðir minn sem fann það fyrirbæri upp! Pottur, bjór, grilluð NOKKUR læri, spil, slökun og tóm hamingja. Svo er aldrei að vita hvað sunnudagurinn ber í skauti sér *dulóduló*

Skemmtilega heppilegt annars að hlaupársdagur sé á sunnudegi, annars mundi manni finnast maður vera að vinna auka vinnudag.... skiljiði, aukadagur á árinu og hann færi í vinnu... það væri ekki gaman! Þannig að nú eyðir maður aukadeginum í að gera það sem manni sýnist og þannig á það líka að vera! Lengi lifi letin... húrra húrra!

P.s. internetið er bara bóla!

26. febrúar 2004




Skyldi einhver hafa lagt það á sig að búa til teljara yfir mannslífin sem stríðið hefur kostað?

25. febrúar 2004

Skemmtilegt hvað ég virðist hafa byrjað í Svíþjóð og farið svo bara beint niðrúr...

Eina landið sem ég hef komið til utan Evrópu er Kenýa og reyndar millilenti ég þá í Egyptalandi. Þar hafiði það! Evrópukortið leit miklu betur út hjá mér heldur en heimskortið...

The day after Explotion day!

Jæja, það verður að segjast eins og er að heilsan er bara nokkuð góð þrátt fyrir misþyrmingar gærkvöldsins á mallakút, þó allt kapp hafi verið lagt á að fara að settum reglum um að sprengja sig. Kalla mig góða bara...
Skondin sjón á leikskólanum hjá minime í morgun... Húsið var fullt af litlum Michelin köllum, þ.e.a.s. allir (margir) voru í einhverjum ofur Batman og Spiderman búningum sem gerði það að verkum að þeir voru um það bil 100 x 100 cm á lengd og breidd með sixpack og brjálaða upphandleggsvöðva og ég veit ekki hvað og hvað. Og það sem maður gat ekki annað en hlegið...

Svo fór mín að spá; þetta er nú svolítið skondið á þessum tímum þegar alltaf er verið að tala um ímyndir fyrir börnin og þá aðallega stelpur; hvað megi og hvað ekki, sérstaklega í sambandi við að litlu stelpurnar fái ekki ranga mynd af því hvernig kvenfólk almennt á að vera og allur sá pakki. Það sem mín fór að velta fyrir sér, í gamni og glensi að sjálfsögðu, var hmmm... hvað ef þessir búningar væri með öfugum formerkjum, það er að segja stelpurnar væru allar í ægilega línufögrum og "íturvöxnum" bombubúningum líkt og strákarnir eru þessi agalega mössuðu vöðvatröll. Ég held að þá mundi heyrast hljóð úr horni... að það væri verið að gefa stelpunum þau skilaboð að svona eigi þær að líta út þegar þær verða stórar með tilheyrandi fegrunaraðgerðum og blablabla meðan engum dettur í hug að halda fram að með öllum þessum vöðvum sé verið að setja strákana í eitthvað égætlaaðverðasteratröll-mót!

Allavega maður sæi það ekki alveg ganga hljóðalaust fyrir sig. Annars er skondið hvernig kvenfólk bregst oft við og er í raun viðkvæmt í sambandi við útlitið og fyrirmyndir og allt það... það hefði til dæmis engum fundist það gefa karlmönnum röng skilaboð ef Megas hefði skellt sér í smá yfirhalningu að hætti Ruthar...
Beer with my name on it!

Þennan ætla ég að fara að flytja inn núna takk fyrir! SKÁL!!!

Veit einhver hvað maður þarf að gera til að fá innflutningsleyfi fyrir bjór...?
Sérmerkt garðslanga.. :/

Svona líka ægilega fín græja...

Býð commenta-kerfið velkomið aftur til starfa, öflugra en nokkru sinni fyrr!
OMG! Hvar er commenta-kerfið mitt?

24. febrúar 2004

Leiðrétting

Ég vil af gefnu tilefni taka fram að Colin Farrel er ekki rútubílstjóri dauðans eins og skilja mætti hér að neðan! Hann er bara fagur írskur drengur sem væri reyndar alveg jafn fagur þótt hann væri rútubílstjóri dauðans! Hann þyrfti ekki að segja annað en Garún og ég mundi fylgja honum...

Jibbí.... Sprengidagur!

Einn af mínum uppáhaldsdögum mundi jú vera þessi yndislegi dagur sem er í dag, sprengidagur! Saltkjöt og baunir eru það besta, eða með því betra sem ég fæ, og ég get ekki beðið eftir því að fara í kvöld og éta tengdaforeldra mína gjörsamlega út á gaddinn. Þau eru jú af þeirri kynslóð sem finnst það segja mest um mannkosti einstaklings, hversu mikið hann borðar... Þeim finnst sem sagt ofsalega gaman að fá mig í mat og horfa á mig belgja mig út. Þannig að seinna í kvöld verð ég svona pattaraleg og kát...

Saltkjöt og baunir... túkall :)

23. febrúar 2004

Rútubílstjóri dauðans!

Colin er flottastur ;) Fullkomið útlit á síðunni núna mar, Colin og sólblóm... Hvað getur maður mögulega þurft meira til að lífga upp á tilveruna?!?!
Jæja, það er alveg brjálað að gera í afmælum þessa dagana... til hamingju með afmælið í dag brósi og til hamingju með afmælið í dag Árný bumbukona :)

Svo var það nottla óvissuferðin og afmælið hennar Ólafar um helgina. Aðra eins ÓVISSUferð hef ég ekki vitað þar sem á tímabili var algjör óvissa um hvort við færum eitthvað lengra en á Select við Vesturlandsveg vegna "phsyco" rútubílsstjóra. Grey karlinn var svoleiðis fúll og leiðinlegur að það hálfa hefði verið hellingur og þó það hafi verið búið að semja um það við rútubílastöðina að við mættum sötra bjór í rútubílnum, þá tók hann það sko ekki í mál (varla gos heldur) og hann svoleiðis tuðaði og röflaði til skiptis og sakaði okkur svo um ókurteisi og dónaskap, þannig að á endanum fengum við bara nóg þó við værum ekki komin lengra enn uppí Select.

Þá var hringt í rútubílastöðvareigandann og hann brást skjótt við og sendi okkur ungan og hressan bílstjóra enda hafði sá gamli á því stigi lýst því yfir að hann færi ekki lengra með okkur!!! Og hananú. Hann var sko búinn að keyra rútu síðan 1976 og hafði aldrei kynnst öðru eins!!! Ég þarf vart að taka fram að við höfðum verið ægilega kurteis og fín og reynt að spjalla hann til en ekkert gekk! Bossinn á rútubílastöðinni var svo fúll útí gamla að hann lét kallgreyið bara koma sér sjálfur heim og það síðasta sem sáum af honum var á röltinu á vesturlandsveginum að reyna að fá far niðreftir...

Þá var drama dagsins búið og fjörið gat loksins byrjað eftir klukkutíma töf. Gítarinn var dreginn upp og búin til þessi ekta rútubílastemming á meðan við héldum áfram sem leið lá uppí Indriðastaði í Skorradal þar sem við tættum og trylltum um allt á fjórhjólum með leiðsögumönnum. Tókum klukkutíma rúnt, yfir ár, útí vatn og allskonar. Svo fórum við í hlöðuna á bænum þar sem slegið var upp partíi, músikin tjúnuð upp og grillaðir borgarar á allt liðið. Fórum svo í sund í Hreppslaug og brunuðum eftir það í bæinn syngjandi við gítarundirspil og héldum í partí í nýju íbúðinni þeirra Eiðs og Ólafar. Þar hélt gítarsönglið og tjúttið áfram fram á rauða nótt. Fórum svo bara heim til okkar kl. 4, nenntum ómögulega að fara á bæjarrölt í kuldanum...

21. febrúar 2004

Ekki lengi að redda þessu!

Skoh, allt orðið eins og það á að vera, letrið mátlegt, litirnir betri og sólblómin eru algjörlega punkturinn yfir i-ið. Svo kann'ún líka að setja inn myndir... Þá er hægt að fara að snúa sér að því sem skiptir máli, að fara að sofa og sofa út takk fyrir! Góða nótt.

20. febrúar 2004

Allt að gerast...

Jæja eitthvað lítur hún öðruvísi út núna síðan mín; komnir þessir ægilega sætu og nett væmnu litir og eitthvað náði ég að hemja letrið þótt stórt sé ennþá. Fjörug helgi í vændum annars og eins og alltaf þegar mikið stendur til eru fleiri en einn hlutir að gerast þannig að maður þyrfti að klóna sig þó ekki væri nema rétt yfir morgundaginn. Ofvirka Sólarsala-mamman á 25 ára afmæli á sunnudaginn og í stað þess að halda þreytt og sveitt partý fékk hún bara alla vini sína til að borga ákveðna upphæð, og fyrir þá aura er hún búin að skipuleggja óvissuferð fyrir allt liðið allan laugardaginn með dagskrá sem stendur langt fram á nótt, veitingar í fljótandi formi innifaldar og alles. Þar sem fólk þurfti að borga fyrir ferðina ætlar hún að afþakka allar gjafir, henni finnst það vera gjöfin sín að allir séu til í að lufsast í óvissuferð með henni...:) En ég held nú samt að hún sleppi ekki gjafalaus út úr þessu dæmi.

Hitt dæmið sem klónið mitt fer að öllum líkindum á, er atburður sem Lotningarmeistarinn og vinur hans og vinkona eru búin að skipuleggja. Þau ætla að halda eitt stórt matarboð í Hafnarfirðinum og hvert þeirra hefur boðið ákveðnum fjölda fólks þannig að úr verður stórt blandað matarboð þar sem gestir eiga einmitt að greiða lítilræði fyrir þríréttaða máltíð sem göldruð verður fram og fleira fínerí í þessu áður nefnda fljótandi formi. Það hefði verið afskaplega gaman að geta mætt þangað líka til að bæði kynnast vinum vinar síns og vinum vina vinar síns og eiga skemmtilega kvöldstund. En það verður að bíða betri tíma þar sem þau ætla að halda svona boð aftur ef vel tekst til, þannig að það er óþarfi að örvænta og ekki um annað að velja en að bíða bara spennt eftir því.

19. febrúar 2004

Klassískir byrjunarörðuleikar ;)

Ég er ekki alveg að átta mig á ógnarstærð letursins á þessari síðu. Einhver gæti hugsað sem svo að þetta hafi ég stillt svona til að auðvelda illa sjónskertum og öldruðum foreldrum mínum að lesa skrif mín en svo er eigi; í fyrsta lagi eru þau hvorki mjög öldruð né alvarlega sjónskert þó sjónskert séu eins og öll mín familía mun jú meira og minna vera, sem er allt önnur saga sem ekki verður sögð hér, og í öðru lagi held ég að þau komi ekki til með að vera fastagestir á þessari síðu þar sem þau eru fyrir löngu búin að fá leið á röflinu í afkvæminu, lái þeim hver sem vill.

Vandamálið er sem sagt að ég einfaldlega hef ekki hugmynd um hvernig ég get stillt letrinu í hóf. En maður þarf kannski að gefa sér smá tíma til að sjá hvernig þetta blogspot-dæmi funkerar allt saman og sjá hvernig maður bætir inn commenta-kerfi og fleira skemmtilegt. Þangað til þá; gangið á guðs vegum.

Opnun bloggsins míns!

Í upphafi var orðið og orðið var.... já, hverjum hefði nú dottið í hug að undirrituð færi að stofna bloggsíðu? Þessi sem þykir sjaldnast hafa nokkuð til málanna að leggja, og þó! Það var nú svo sem aldrei planið að byrja að blogga en svo fór ég að hugsa; hví ekki? Hinir og þessir virðast þurfa að opna sig fyrir öðru fólki og hripa niður hugleiðingar sínar, skoðanir og annað sjálfum sér og öðrum til fróðleiks og skemmtunar og því ekki ég...? Er það furða að maður spyrji sig? Ég vil bjóða sjálfa mig velkomna í þennan vefheim og vona að skrif mín verði einhverjum til yndisauka og ánægju.
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats