30. desember 2006

Ritstjóra síðunnar hafa borist kvartanir vegna 111. meðferðar á þriðja afkvæmi okkar píps varðandi jólakortin í ár. Þykir einhverjum útí hött að einungis tveir yngri bræðurnir hafi verið myndaðir fyrir jólakortin og að í ofanálag sé ekki svo mikið sem minnst á þann elsta í kortinu. Þessi elsti sonur okkar, sem eins og kunnugt er, er af tegundinni halanegri (einnig þekkt sem hottintotti) og býr aðallega í kústaskáp heimilisins (þegar hann er ekki að þræla fyrir okkur hin á heimilinu) og hefur það meðal annars að markmiði að verða leðurblaka uppi á himnum þegar hann klárar lífin sín 9. Vegna þessara kvartana tók hann til sinna ráða og lét mynda sig í bak og fyrir og útbjó þetta fína kort sem hann ætlar bara að birta hérna á netinu þannig að hann er faktískt að óska ykkur öllum ánægjulegra stunda. Heppin þið. Því miður er ekkert til í okkar myndaforritum sem heitir Green Eye Removal þannig að við gátum lítið gert í þessum sjálflýsandi augum en þau virðast fylgja þessum kynþætti.

Gerðu svo vel herra Bjartur Sambó, þínar 15 mínútur af frægð: (það má smella á kortið til að skoða stærri útgáfu af því en það er þó alfarið á lesandans eigin ábyrgð.)


Til að fyrirbyggja allan miskilning viljum við benda á að Bjartur er síður en svo rasistískur að upplagi þó hann noti þessi orð um sjálfan sig og er orðavalið hans en ekki ritstjórnarinnar.

14. desember 2006


Könnun daxins

Hvort er jólagjöfin í ár?
Stiklur (DVD)
Út og suður (DVD/VHS)

  

Nánari upplýsingar hér.

Erfitt val ha? Ef þú getur ómögulega ákveðið þig færðu bara hann Billy.

3. desember 2006


Montmontmonthænumont!

Haldiði að heimavinnandi húsmóðirin í fæðingarorlofinu hafi ekki bara slökkt á you tube eitt augnablik og tekið sig til og BAKAÐ aðventukrans:


Með þessum líka fína árangri þó hún segi sjálf frá! Hann er heilir 30 cm í þvermál og alles. Vantaði einhverja uppskrift til að baka eftir og og fann þessa fínu fléttubrauðsuppskrift sem heitir reyndar Challah og er Sabbatsbrauð (hvíldardagsbrauð) gyðinga sem mér þykir reyndar alveg dæmalaust vel við hæfi.
Er ekki tilgangur jólanna einmitt sá að allir séu vinir og það allt. Þó mér finnist gyðingar oft ekki sérlega merkilegur pappír, allavega þeir sem í Ísrael búa (já ég veit maður má ekki rugla saman trúarbrögðunum sem slíkum og Ísraelsstjórn), þó ég segi það náttúrulega ekki upphátt enda ekki fordómafull manneskja nema gagnvart þeim sem ég fyrirlít, þá er þetta þó viðleitni í áttina að því að blanda trúarbrögðunum saman og láta þau bakast í sátt og samlyndi! Já já bla bla. Ég er allavega ýkt ánægð með fína kransinn minn :) Gleðilega aðventu.

1. desember 2006


You Tube (jútjúp.kom) þykir mér alveg stórkemmtileg uppfinning og þar gæti maður eytt heilu fæðingarorlofi ef manni sýndist sem svo eða ætti barn sem bara svæfi og sæji um sig sjálft (sem ég á ekki! nota bene - án þess að ég sé að halda því fram að hann Kári minn sé einhver vindbelgur). Þar kennir ýmissa grasa og hægt er að rekast á þau ófá gullkornin eins og til dæmis þessa tímalausu snilld úr Wild at heart:



Já það fer ekki hver sem er í bomsurnar hans Elvisar. Ætli Nikki (Nicholas Cage - sá í snákaskinnsjakkanum) hafi ekki einmitt heillað Lísu Maríu Elvisdóttur með nákvæmlega þessum töktum og kannski losnað við hana með einmitt sömu töktum (hver vill giftast kalli sem er með pabba manns á heilanum eins og áðurnefndur Nikki í búri ku vera). Maður spyr sig.
Hér var að fæðast hugmynd... Væri ekki snilld að gefa píp snákaskinnsjakka í jólagjöf??? Kábojastígvél í ammælisgjöf síðast og snákaskinnsjakki núna. Fá Toggu til að vippa sér útí eyðimörkina og snúa einn eða tvo orma af stærri gerðinni úr hálsliðnum og smygla þeim með Íslands! Og sníða fallegt fat úr þeim. Þar með komin ástæða fyrir Toggu að koma heim um jólin!!! Hana vantaði bara þetta, nógu góða ástæðu! Eða kannski væri ráð að sleppa því að gera píp meira áberandi. Það er ekki eins og glókollurinn standi ekki alltaf upp úr í mannþröng. En fá Toggu samt heim! Já hiphiphúrra!

En aftur að You Tube: Hér er stórskemmtilegt íslenskt brot af styttri gerðinni en hlutfallslega drepfyndið (allavega ef maður man eftir myndinni, en fyrir þá sem ekki muna snérist hún að miklu leyti um fjarstýringu og gullfiska) og hér eru breskir endemis snillingar á ferð! Á ekki von á því að þeir sem eru búsettir vinstra megin við Atlantshafið kannist við þessa gaura þar sem þeir þykja eflaust full vondir við "minnihlutahópa" og gætu jafnvel stofnað þjóðaröryggi í hættu með sínum húmor. Frrrrábært atriði alveg hreint.

Gæti bent ykkur á fullt af flottum atriðum öðrum en þá yrði þetta önnur linka-færsla dauðans...

22. nóvember 2006


Hefði verið mikið til í að vera stödd á molasykurs-ammælistónleikunum á föstudaginn síðasta, en komst ekki vegna almennrar heimakærsku og barnaknússtands með smá dashi af skírnarundirbúningi, en get þó huggað mig við sekúndurnar og mínúturnar sem má finna hér og þar á youtube, í mismunandi slæmum gæðum að vísu. Þar ber þetta skemmtilega lag einna hæst. Alltaf þótt þetta með betri sykurkubbalögum ásamt reyndar þessu hér.
Hér er svo fyrra lagið í pínulítið öðruvísi búningi og í flutningi krúttlegu smjattpattahljómsveitarinnar Dimmu. Hvernig getur hljómsveit sem heitir eftir hefðarkettinum Dimmu verið annað en krúttaraleg?!? Þeir líta meira að segja svona dúllulega út. Með svart í hávegum eins og Dimma sjálf. Æ svo fínir!
Það er greinilegt að sumir tónleikagestir af erlendu bergi brotnir fylltust þögulli lotningu yfir þessu hvíta sem hrundi af himnum ofan um helgina til heiðurs honum Kára mínum Fannari. Svona rétt eins og ég fyllist lotningu yfir bláum himni, pálmatrjám og ljósum sandi á mínum ferðalögum.
Misjafn er smekkur Manna (ekki nóg með að Manni muni ekki neitt (sbr. síðustu færslu) heldur er hann líka með misjafnan smekk...).

adobt a sugarcube

20. nóvember 2006


Litli maðurinn hefur hlotið nafn og litli maðurinn heitir Kári Fannar. Nafnið Kári er útí loftið en með Fannars nafninu er verið að vísa í ömmu Fanneyju (ömmu Guðmundar), snilling neð meiru sem á eftir að lúberja okkur foreldrana með stafnum þegar hún hittir okkur næst, þar sem hún sá sér ekki fært að mæta til athafnarinnar.
Og hvað er meira við hæfi á skírnardaginn en að vakna upp við 20 cm jafnfallinn snjó og smá vind þegar barnið á að heita Kári Fannar! Það hefur varla sést snjór það sem af er vetrar en skírnardagurinn rennur upp með mesta fannfergi í Manna minnum (það er margsannað að Manni man ekki lengra aftur en ca. 4 mánuði). Við sem sagt skiptum um skoðun í snarhasti og í staðinn fyrir að láta hann heita Bjartur Sumarliði fékk hann nafnið Kári Fannar. Nei nei, reyndar varð veðrið bara til þess að sannfæra okkur um þetta ætti stráksi að heita og hananú!
Drengurinn er strax kominn með viðurnefni sem tengist nafninu hans og það varð til þannig að föðursystir Kára var að skíra út fyrir sínum enskumælandi manni er Jökull heitir nafngift þessa og sagði honum að Kári og Fannar þýddi vindur og snjór. Og með það sama fæddist viðurnefnið og það er: Skafrenningur! Þetta verður sennilega aðalbrandari fjölskyldunnar þangað til Kári litli fer að bíta frá sér, eða blása frá sér kannski frekar... Reyndar þýðir Kári víst hrokkinhærður maður og Fannar er annars vegar snjór og hins vegar þýðir -ar endingin hermaður. Hrokkinhærður snjóhermaður! Þar hafiði það. Hann hefur sem sagt alla burði í að verða allt sem pabba hans langar að verða: hárfögur fjallageit á upphækkuðum 43" Yaris er berst við náttúruöflin fyrir okkur öll!
Hjúkk, okkur er borgið.

16. nóvember 2006


Nú erum við komin með þessa líka fínu vefmyndavél þannig að nú er hægt að kíkja á okkur hvenær sem er og sjá hvað við erum að bralla:


12. nóvember 2006


Það er til merkis um að við lifum á tímum pólitískrar rétthugsunar þegar sonur minn spilar ekki gamla góða hangman heldur teiknar HÚS strik fyrir strik.
Vona að hann verði ekki skemmdur fyrir vikið að alast upp í svona ofureðlilegu og verndandi samfélagi.

10. nóvember 2006

9. nóvember 2006


A birthday is the date on which a person is born, marking the day a life outside the womb begins. (Wikipedia)

Aha.

Til gamans má geta þess að sú sem þetta skrifar og sá sem þetta skrifar og sá sem skrifað er um eigum öll afmæli í dag. Og er undirrituð áberandi yngst!
Svo fékk ég líka nýjan vísi í afmælisgjöf.

Simple pleasure for simple minds.

29 is the new 19!

23. október 2006


Ætla að byrja á því að bera til baka allar fregnir af ótímabæru andláti þessarar síðu. Við skulum bara orða það þannig að hún er komin í 17. sæti á forgangslistanum. Litli maðurinn á sæti 1-9, ÓBG á sæti 10-13, GPÓ sæti 14 og 15 og heimilið og allt hitt sæti 16. Spurning hvort maður fórni Píp kannski og mjaki síðunni ofar á listann...
Langaði bara að deila með ykkur þessu myndbandi, og laginu líka. Hún Lily Allen er frekar hress bara og myndbandið mjög skemmtilegt, hún labbandi um í sínum litaglaða og hamingjusama heimi þó hann sé kannski ekki alveg jafn upplífgandi í raun...
Ætla að fara að stunda þetta, labba um bæinn með kerruna í calypso-stemmingu og skerpa vel á öllum litum og hækka hitastigið með hugaraflinu einu saman. Það er bara hressandi og gleðiaukandi!
Bætir, hressir og kætir eins og segir í ljóðinu.


9. október 2006


Stoppskilti fyrir þá sem eru ekki alveg að fatta...


8. október 2006


Nýjasti fjölskyldumeðlimurinn er kominn með heimasíðu :) Slóðin er barnanet.is/litli til að byrja með, það kemur svo til með að breytast þegar og ef barnið fær nú nafn... Hún er læst með lykilorði en allir muna hvað kötturinn okkar heitir er það ekki ?!?!?

3. október 2006


Það læðist að mér sá grunur að hár sé ekki í tísku þetta sísonið...

2. október 2006



Þessi kona varð níræð í gær. Henni var fagnað með veglegri veislu þar sem fjöldinn allur af aðdáendum hennar mætti. Þegar einn gesturinn var að kveðja hana sagði hann: "Svo verður næsta veisla eftir 10 ár er það ekki?" Fanney var ekki lengi að svara: "Isss þú verður löngu dauður þá!" Það skal tekið fram að gesturinn var helmingi yngri en hún hið minnsta.
Svo þegar kór var að taka nokkur lög fyrir hana heimtaði hún rokklag og átti svo í mestu vandræðum með að sitja kjur undir því. Ef það væri bara hægt að klóna þessa manneskju... Hún lengi lifi!

29. september 2006


Gleymdist ekki að kveikja á stjörnunum og skökkva á ljósunum í gær?

19. september 2006


Þetta eru litlu strákarnir mínir:



Og þetta er stóri strákurinn minn:



Vá hvað ég er rík!

Þar sem sá stóri er sísvangur er fátt um fínar færslur þessa dagana og bið ég ykkur að afsaka það. Þarf eiginlega að finna upp eitthvað júnit til að geta haft barnið í framan á mér og það drukkið en ég haft báðar hendur lausar á meðan til að pikka á lyklaborð til dæmis. En þangað til næst, eigið góðar stundir og lesið til dæmis hann Zimma á meðan. Maðurinn fer algjörlega á kostum þessa dagana.

7. september 2006


Jæja, menn mættu á svæðið þriðjudaginn 5. semptember kl. 12.54. Þeir bræðurnir eru báðir fæddir í hádeginu á þriðjudegi, fylgja einhverri reglu þó ekki ekki hafi það verið 19. reglan. Hann vó 4.550 grömm (18 merkur) og var 55 sentimetrar. Móður og barni heilsast vel en faðirinn er hins vegar ein taugahrúga...

Nei bara grín.

Hér má sjá hann og heyra:


4. september 2006


Í dag höfum við Píp verið saman í 10 ár...! Úff hve tíminn flýgur.
Og hvað haldiði að hafi dottið inn um bréfalúguna akkúrat í dag?

Þetta:


Hafið mig afsakaða rétt á meðan ég dey úr hlátri..... æjæjæjæj...
Mögnuð tímasetning.

Ósvífna barnið er ekki enn farið að láta sjá sig. Þetta er farið að minna svolítið á "Kæri jóli"-lagið með Glámi og Skrámi. Verð alltaf pínu meira frústreruð yfir þessu öllu saman og er núna komin mjög aftarlega í lagið.... Dagur 10, kæri jóli! Nú er alveg nóg komið... og svo frv. Nýjasta að frétta er að á miðvikudaginn ef ekkert hefur enn gerst verður hreyft við belg þannig að í lok þessarar viku kemur krílið!!!
Jammmmmjammmjammmmjammmm.

1. september 2006


Ágúst Guðmundsson vill greinilega frekar vera September Guðmundsson. Lái honum hver sem vill.

Reyni nú mitt besta til að hnerra hann út en lítið gengur.

Held hann sé að bíða eftir henni Tobbu sinni bara.

30. ágúst 2006


Get svo svarið það... held að sæstrengurinn hafi barasta slitnað við álagið þegar heil þjóð tók sig saman og missti sig í að kjósa Magna. Jæja, náði allavega að kjósa þó nokkuð oft en svo fór netið að segja: Server Error in '/' Application og fleira gáfulegt.

Ætli þessi litla geðveika þjóð verði í heimsfréttunum á morgun fyrir að hafa tekið sig til og crash-að Rockstar síðunni og öllu tiheyrandi?

27. ágúst 2006


Eins og staðan er núna er líklegra að við Píp förum upp á spítala með hann sjálfan í ársfjórðungslega heimsókn/viðgerð vegna einhverskonar hrakfalla heldur en að litli stubbur sé að fara að láta sjá sig...

24. ágúst 2006


Smellið til að heyra Óla tjá sig um skólann:



Lagaði aðeins til í bloggara-tenglunum hérna á hægri kantinum. Ákvað að jarðsetja þá aðila sem ekki hafa skrifað neitt í eitt ár eða lengur. Vona að mér verði fyrirgefið og að ég hafi nú ekki kviksett neinn. Setti inn í staðinn hina og þessa selebrití- og slúðurbloggara og á svo eflaust eitthvað eftir að yfirfara þetta betur. ÓBG er enn efstur á blaði enda ekki nema 10 mánuðir síðan hann bloggaði síðast og ætla ég að biðja ykkur um að afskrifa hann ekki þar sem hver veit nema hann heltaki málæði og hann eigi eftir að tjá sig í gríð og erg um skólann og Litla Kjúlla í vetur. Fylgist með.

Alveg getur manni sárnað þegar alltaf er verið að gera atlögu nú orðið að honum Meegníj í Rockstar. Í fyrrinótt taldi ég það borgaralega skyldu mína að vaka til þrjú um nóttina til að kjósa hann þó nokkuð mjög oft enda þurfti ég ekki að vakna til skóla eða vinnu eins og flestir aðrir Íslendingar. Þá er nú lágmark að maður leggi sitt af mörkum til að halda drengnum inni. Og það kom á daginn að hann þurfti að garga fyrir lífi sínu annað skiptið í röð en reddaði sér með glæsibrag. Einhverjir segja að það sé ekkert eftirsóknarvert að lenda með þessum durgum í Supernova í bandi, en er hann eitthvað betur settur með "Á móti sól"??? Á móti Who??? Neei held ekki. Björgum honum frá sveitaballavælinu og gerum stjörnu úr honum. Stjarnan á meira að segja stjörnukort.

23. ágúst 2006


Til að stytta mér stundirnar þangað til Litli Kjúlli kemur í heiminn ákvað ég að ættleiða lítinn fjólubleikan kjúlla. Enda er fullt af kjúllum útum allan heim sem eiga bágt og vantar gott heimili.



adopt your own virtual pet!


Það er voða skemmtilegt að leika við hann með músinni. Svo er hann mjög hlýðinn og viðráðanlegur.
Svo í byrjun september ef ég verð enn að "bíða" getur vel verið að ég ættleiði þjóðveg eins og var mikið auglýst á erlendum vegum sem við keyrðum um síðasta sumar.

22. ágúst 2006


Jæja, var að skila mér úr maraþoninu núna rétt í þessu. Tvisvar heilmaraþon búið á mettíma, aðeins 72 tímum, en án árangurs. Líkar vel orðið við þennan einstakling sem ætlar að byrja ævina á að drita svolítið yfir fjölskylduna sem vonaðist til að hann yrði hlýðinn og góður og kæmi í heiminn á þeim tíma sem óskað var eftir. Ágætt að vita að þarna er lítill stríðnispúki á ferð. Nú spái ég að hann láti ekki sjá sig fyrr en þann fagra dag 4. september!

ÓBG er orðinn nemandi í 1.MB í Langholtsskóla.

Hann sem var svona lítill í fyrradag!

Var annars einhver að velta fyrir sér hvar hennar hátign Leoncie sé í dag? Daddaradamm...hér!

8. ágúst 2006


Er að fara norður á morgun. Tek með mér allt hafurtask er ófæddi einstaklingurinn gæti þarfnast þar sem hann gæti jú tekið upp á því að vilja fæðast á Norðurlandinu. Það er allavega nokkuð ljóst að þegar hann heyrir í öllum skemmtilegu ættingjunum og drunurnar í tröllafrændunum á hann annað hvort eftir að drífa sig í heiminn hið snarasta eða hringa sig bara betur í bumbunni og fara ekki fet...
Ef hann mundi annars velja að verða Norðlendingur yrði það svo sem ekki verra en hvað annað og sterkur leikur fyrir hann að hafa tvöfalt ríkisfang! Gæti fengið forgang í Háskólann á Akureyri og V.I.P kort í Brynju-ísbúðina.

Annars hafa fleiri úrræði bæst í sarpinn í sambandi við að koma stubbi í heiminn þann 19. ágúst. Áður var búið að nefna Reykjavíkurmaraþonið sem verður haldið þann daginn en þá er alltaf sú hætta fyrir hendi að hann mundi ekki fæðast fyrr en 20., tala nú ekki um ef hann mundi ekki láta sér segjast fyrr en móðirin væri langt komin með 42 kílómetrana sem tæki í þessu ástandi hátt á annan sólarhring.
Hins vegar þann 18. ágúst, að kvöldi, verður haldin sýning á karlmönnum á Broadway sem ætti auðveldlega að geta komið af stað fæðingu, hvort sem það yrði vegna hláturs eða geðshræringar annars konar svo sem viðbjóðs, blygðunar, hneykslunar, skyndilegrar blóðþrýstingshækkunar o.s.frv. Tímasetning þessarar sýningar hentar allavega alveg prýðilega, segjum sem svo að eftir sýninguna færi eitthvað að gerast og þá mundi stubbur fæðast þann 19. nema honum lægi þeim mun meira á.
Svo er einn atburður í viðbót og það er barbarabússss; Landsþing framsóknarmanna! Hjálpi okkur allir heilagir. Það hefst þann 18. og við gætum farið þangað og bókstaflega misst legvatnið og fengið hríðir af einskærum leiðindum. Og ef stubburinn er rétt genaður gæti hann mjög líklega fengið algjörlega nóg sjálfur og ákveðið þar og þá að komast af þessari samkundu strax, þó svo að hann þyrfti þá að fórna heita pottinum sínum sem er jú hvort sem er orðinn helst til lítill. Þyrftum bara að koma okkur úr húsi í tæka tíð til að nýji einstaklingurinn yrði ekki innlimaður í flokkinn þar sem hann einn og sér mundi lækka meðalaldur flokksmeðlima um á að giska 46 ár og meðlimunum mundi líka fjölga um 17% með tilkomu hans.

Jæja best að byrja allavega bara á norðurferðinni...

3. ágúst 2006


Er komin í sumarfrí og fæðingarorlof og hin ýmsustu frí. Frekar skrýtið en venst vel. Byrjaði sumarfríið á mánudaginn kl. 16.50 með því að stíga inn í bílinn minn og frá útvarpinu ómuðu akkúrat upphafstónar Space Oddity með David Bowie sem ég hækkaði vel í og hlustaði á alla leiðina heim. Leið mín frá vinnu og heim er semsagt mælanleg í SpeisOddití-i. Ágætt að vita það núna svona þegar ég á ekki eftir að keyra þessa leið í einhverja 13 mánuði, nema þá í öðrum erindagjörðum. Eðal byrjun á fríi samt.

Miklir fagnaðarfundir urðu á internetinu áðan þegar ég á flakki mínu og róti á ruslahaugum netsins rakst á 56 Línu-þætti í heilu lagi. Hver man ekki eftir Línunni - La Linea: bajúmbadúmm bajúmbadúmm bajúmbadúmm mmmmmmmmmmm daaaaaaaaa! Varð svo mikið um að nú er ég að hugsa um að búa mér til eina rútínu í rútínulausu (þannig séð) líferni mínu næsta árið og það er að einu sinni í viku t.d. á miðvikudögum kl. 16.00 horfum við litli Píp á einn Línuþátt sem verður svo eins og á öllum alvöru sjónvarpsstöðvum endurtekinn 4 sinnum hið minnsta. Sýnist nefnilega að ef við horfum á einn þátt á viku eiga þættirnir eftir að endast allt orlofið. Gaman gaman!

Yfir og út!

21. júlí 2006


"My mother said to me, 'If you become a soldier, you'll be a general; if you become a monk you'll end up as the pope.' Instead I became a painter and wound up as Picasso."

- Pablo Picasso

11. júlí 2006


Já var ekki búin að minnast á það ennþá en sykurpúðarnir mínir unnu og eru vel að því komnir eins og sjá má.



Enginn þeirra brotlegur á nokkurn hátt né rangstæður, ónei þvert á móti!

Þar sannast enn einu sinni það sem ég er búin að halda fram síðan á HM '82, útlitið hefur allt að segja hjá góðu fótboltaliði.

En eins og sagt er og hér sést þá ku staðreyndin vera sú að "Soccer players give the best head!" Frakkarnir unnu þá keppni allavega, eða Zidane öllu heldur upp á sitt einsdæmi. En það er nú að bera í bakkafullan lækinn að ræða það atvik eitthvað frekar.

P.s. Jú berum aðeins í bakkafullan læk. Smellið hér

10. júlí 2006


Í dag er Togga 33 ára. Óskum henni innilega til hamingju með daginn og megi hún margfaldlega njóta hans. Hún getur þó ekki átt von á því í þetta skiptið að bróðir hennar hringi í hana staddur í Kínahverfinu í San Fransisco syngjandi afmælissönginn hástöfum svo allir viðstaddir sjá sér hag í að hlaupa í skjól eins og í fyrra. Hann á eflaust eftir að hringja í hana en það verður sennilega afmælissöngur í hefðbundnari kantinum í þetta skiptið.
Ótrúlegar talnatilviljanir í dag, Togga 33 ára og bumban orðin 33 vikna og 3 daga.
Ég trúi ekki á tilviljanir!

9. júlí 2006


Ég ætla að halda með Ítölum í kvöld! Ætli það sé af því að þeir eru sætari eða í flottari búningum kann einhver að spyrja sig núna. Nei nei, svo grunnhyggin er ég ekki í þetta skiptið; hér liggja mun vísindalegri röksemdafærslur að baki:

Við gerðum jafntefli við Frakka um árið!
Við unnum Ítali um árið!

Þess vegna ætla ég að halda með stanno, tutti og bene því þá getur maður alltaf yljað sér við að við rúlluðum yfir (verðandi) heimsmeistarana á Laugardalsvellinum sællar minningar, fyrir utan að það hlýtur jú sjálfkrafa að gera okkur að alheimsmeisturum að hafa unnið heimsmeistarana! Segir sig sjálft!
Og það var meira að segja á þessari öld sem við unnum þá... held það hafi verið 2004. Það er sko ekki fyrnt ennþá.

Áfram Ísland! Hiphip...

22. júní 2006


Fór í mæðraskoðun í dag og ljósmóðirin sagði við mig að ég ætti beinlínis að fara að gúffa í mig rjómaís og þvíumlíku. Eða réttara sagt að mér sé óhætt að missa mig í smá óhóf til að eiga smá mjólkunarforða þegar þar að kemur þar sem þyngdaraukningin hefur ekki verið það mikil á meðgöngunni hingað til.
Skyldi manneskjan gera sér grein fyrir því hvað hún var að segja við mig...? Svona eins meðferðarfulltrúinn segði bara við alkann sisvona að fá sér viskíflösku... og aðra til!
Ís samkvæmt læknisráði, cheers!

---

Takk fyrir mig!

SMELLA FYRIR STÆRRI MYND AF DÝRÐINNI

Liðið mitt dottið út í bili en ég hlýt að geta fundið eitthvað annað sem uppfyllir útlitskröfur mínar, þó ekkert lið komist með tærnar þar sem Fílabeinin höfðu hælana í blautbolakúnstinni. England er þó klárlega á botninum í þeirri kosningu því þeir Crouch og Rooney hafa valdið mér martröðum undanfarið, því ekkert óttast ég meira en að þeir rífi sig úr að ofan eftir einhvern leikinn og bólugröfnu bökin þeirra æpi á mann sjálflýsandi og flekkótt. Hrollllrrr!
Ætla að finna mér nýtt uppáhald hið snarasta!

21. júní 2006


Ef einhverjum fannst ég tala á neikvæðan og fýlupúkískan hátt um ammælistónleikana hans Bubba þá bara lesið þetta hér.

16. júní 2006


Er farin beint heim eftir vinnu að horfa á fótbolta!!! Ætla að hlunka mér í sófann og stara á skjáinn sem dáleidd sé í þessar 45 mínútur sem seinni hálfleikurinn stendur yfir og horfa á lið Fílabeinsstrandarinnar rúlla yfir Niðurlendinga. Ég kem ekki til með að fylgjast með færum, aukaspyrnum, sendingum, tæklingum; hvað þá mörkum eða vítum eða hvað þetta heitir allt. Ekki spyrja mig eftir leik hvernig hann hafi farið því ég horfi á leikinn út frá allt öðru sjónarmiði heldur en til dæmis Píp gerir. Það er sambland af fagurfræðilegum og hönnunarfræðilegum sjónarmiðum sem vaka fyrir mér.

Leikmenn Fílabeinsstrandarinnar eru nefnilega svo skemmtilega af Guði gerðir að vera ákaflega vel samansettir og stæltir og þar að auki á hönnuður búningana þeirra margar og innilegar þakkir skyldar fyrir að hafa saumað búningana úr svona ótrúlega heillandi og athyglisverðu efni eins og raun ber vitni. Missti nefnilega kjálkann niðrí gólf (eða niðrá bumbu, komst víst ekki legngra) yfir síðasta leik þegar ég horfði á blautbolaboltann sem þeir spila. Hver skora á líkamanum og 12-packið blasti við manni og augun bara límdust. Ætla sko ekki að missa af leik með þeim og vona að það verði aftur kjöraðstæður fyrir blautbolabolta eins og síðast, það er að segja vel heitt, þó nokkur raki og líkamar að púla. Úfffff...
Óttast þó eitt, Niðurlendingarnir og Fílabeinin spila bæði í appelsínugulum búningum þannig að ég er að vona að Niðurlendingarnir verði látnir fara í varabúninginn sinn, þar sem ég er ekki viss hvort varabúningar Fílabeinanna búi yfir þessum sömu eiginleikum... Nema hönnuðurinn sé kona, þá má treysta á að hún hafi séð fyrir því.



Já segi það með þér Drogba, heilög Guðsmóðir! Eða á máli sem hann skilur, holy cow!!!

Áfram um fótbolta og hönnun, enda náskyld fyrirbæri. Nú er aldeilis gamli góði netabolurinn búinn að fá uppreisn æru! Eiður Smári lét sjá sig í þessum í vikunni og þarna er heldur betur búið að bæta við óvæntu tvisti í fyrirbærið sem slíkt. Hlýrarnir hafa mjókkað svo um munar og möskvarnir svona einstaklega nettir svo eftir er tekið. Verð endilega að finna svona handa Píp!


14. júní 2006


Í gær var slétt ár síðan við lögðum af stað í stóra Kaliforníu-túrinn okkar! Þann sama dag afhentum við íbúðina okkar í Álafossi þannig að 13. júní 2005 var dagur í stærri og skemmtilegri kantinum. Er með þeim ósköpum gerð að ég á það til að fara að hugsa til baka með væminn svip á andlitinu eða verða hálf meir og nostalgísk þegar ár eða x mörg ár eru liðin frá hinu og þessu. Einhver tegund af geðveilu sennilega.
Dett stundum í það að hugsa, já þetta var ég að gera fyrir ári síðan, og held svo til dæmis upp á ótrúlegustu hluti, svona eins og afmæli kattarins 2. maí ár hvert. Þá pota í hann og segi honum hvað hann var nú einu sinni lítill og sætur... Nýjasta ákvörðunin mín tengd svona dögum og afmælum er sú að ganga 10 daga framyfir aftur og ala barn á 10 ára afmæli okkar skötuhjúa, 4. september nk. Viðeigandi mjög þykir mér.
Jæja nóg um geðveilur í bili... Í tilefni af 1 árs afmæli ferðarinnar ætla ég að rifja upp alveg hreint skemmtilegt atriði úr ferðinni. Smellið hér. Klassískt alveg hreint og eldist jafn vel ef ekki betur en besti Baywatch þáttur. Ef einhver vill rifja ferðina upp í tilefni tímamótana (heyriði geðveiluna...?) má lesa ferðasöguna hér: giugno 2005 og luglio 2005

6. júní 2006


666 að kveldi kominn og enginn hefur orðið heimsendirinn og ekki fæddi ég heldur lítinn djöful í mannsmynd í dag. Framleiði aðeins engla og næsti verður tilbúinn í ágúst.

Annars er nú alveg djöfulegt að fylgjast með tónleikunum með ammælisbarninu honum Bubba og allri auglýsinga-skrum-mennskunni þar í kring. Ekki nóg með að ákveðin bankastofnun og ákveðið símafyrirtæki auglýsi villt og galið í hverri pásu og hvar sem er og eigi tónleikana og manninn nánast, og hvert fyrirtækið á fætur öðru keppist við að birta heilsíðu "tilhamingjumeðammiliðlitlapeningamaskínanokkar"-auglýsingar í blöðunum, heldur eru líka á staðnum bara ömurlegir idolkynnar með bara ömurlega brandara inn á milli laga og idol stjörnuhröp og aðrir leiðindapésar stíga á svið til að heiðra hálfrar aldar gamlan popparann, ef heiðrun má kalla.
Og svona fyrst áðurónefnd bankastofnun keypti popparann með tóneyra og raddböndum í fyrra gat hann ekki annað en byrjað tónleikana á laginu "hamingjan er krítarkort". Ætli hann endi þá ekki á "fjöllin hafa vakað" í boði Landsvirkjunar eða eitthvað álíka. Bíð svo spennt eftir að ónefnt bílaumboð keyri bíl inn á sviðið til að gefa ammælisbarninu í ammælisgjöf.

Ætli ég sé ekki aðallega bitur yfir að hafa ekki fengið miða á tónleikana?!
hmpfr!

Ætlaði að hætta að tala um blóm og pólitík en ein tilkynning fyrst:

Framsóknarflokkurinn er látinn. Útförin nánar auglýst síðar. Blóm og kransar afþakkaðir.

Jæja þá getum við farið að tala um eitthvað annað...

1. júní 2006


Í dag kom fólk og gerði tilboð í íbúð hjá okkur í vinnunni sem væri svo sem ekki í frásögufærandi nema fyrir það að tilboðið innihélt mjög skemmtilega klausu. Sú klausa hljómaði sem hér segir:

"Kötturinn Bjartur hefur heimild til búsetu áfram í eigninni."

Það er reyndar algjör tilviljun að þessi háæruverðugi íbúi íbúðarinnar heitir sama nafni og okkar ágæta kattardýr.
Málið er nefnilega það að seljendur eignarinnar geta ekki tekið köttinn með sér og tilvonandi kaupandi er meira en til í að yfirtaka hann og vildi setja það inn í tilboðið.

Þetta minnir mig svolítið á okkar eigin sölu sem fram fór fyrir ári síðan, þar sem til greina kom, að ósk Píps sem fann þá kettinum flest til foráttu, að setja inn í söluyfirlitið: "7 vetra köttur getur fylgt". Ekkert varð af því þar sem ég lofaði Píp að hann og kötturinn ættu sér von og að búferlaflutningar mundu bæta samband þeirra ef eitthvað væri, að ég tali nú ekki um bókina sem ég hafði einmitt gefið Píp í þeirri von að þeir færu að hlúa betur að sínu sambandi og "bonda" aðeins betur. Það er þessi bók:



Og það náttúrulega þarf ekki að spyrja að því að ég hafði rétt fyrir mér, Píp og kettinum hefur aldrei komið betur saman og varla má á milli sjá hver er að kúra hjá hverjum! Fyrstu 3 vikurnar í Efstasundi vorum við Bjartslaus vegna framkvæmda og þá meira að segja viðurkenndi Píp að sakna kvikindisins. Nuddstundirnar þeirra eru svo stundir sem þeir tveir eiga í einrúmi og gera báðum gott. Í dag er ég mikið fegin að við afsöluðum okkur ekki honum Bjarti okkar á sínum tíma.

29. maí 2006


"Kosningakvöldið og Júróvisjonkvöldið áttu það sameiginlegt að þeir sem unnu voru meikuð skrímsli með hárkollu!"

Er ennþá með hiksta af hlátri eftir að hafa lesið blogg dr. Gunna þar sem hann einmitt bendir á þessa staðreynd. Jesús minn eini hvað þetta er satt. Úffff... hikst.

Mér finnst einmitt að ef Villi viðutan verður borgarstjóri eigi hans fyrsta embættisverk að vera að taka ofan kolluna og koma til dyranna eins og hann er klæddur þó fyrr hefði verið. Hætta þessari minnimáttarkennd bara. Hann hefur engu að tapa, loksins búinn að landa embættinu sem hann hefur beðið þolinmóður eftir í 73 ár og kominn með kellingu upp á arminn og svona. Niður með kolluna núna! Bara okkar á milli Villi minn, þá sá Ingibjörg Sólrún til dæmis ekki ástæðu til þess að vera með kollu þegar hún var borgarstjóri þó eitthvað væri hárið á henni farið að þynnast. Villi, ekki vera minni maður en Ingibjörg, sýndu okkur þitt rétta andlit!
Held að allar netasokkabuxur í 25 mm möskvastærð séu algjörlega uppseldar í landinu, framsóknarmenn eru búnir að kaupa lagerinn upp og eru í þessum töluðu á götuhornum útum allt land að bjóða sig fala. Það sorglega er að það virðist einhver virkilega líta við þessum grænu portmönnum og taka þá uppí. Bjakkkk....

Er ég farin að tala bara um blóm og pólitík á þessari síðu?
Svei ykkur hormónamormónar!

Þeir (hormónarnir) létu mig líka hlæja að þessu...

22. maí 2006


Ætti maður að selja íbúðina og kaupa á svipaðan pening "reisulegt einbýlishús í sveitasælunni" fyrir ört stækkandi fjölskyldu? Kaupa svo auka land og byrja að rækta upp sólblómaakurinn og vínekruna...
Píp fjölskylda, vissuð þið af þessu?

18. maí 2006


Þessi vika og sú næsta flokkast undir svona "stigmagnandi-spenna"vikur. Það sem af er þessari viku hefur þjóðin smátt og smátt verið að byggja upp stemmingu fyrir júróvisjon og í næstu viku verður ekki þverfótandi fyrir kosningaáróðri vegna borgar-bæjar-sveita-stjórnakosninganna um þarnæstu helgi.

Ég held að þessar vikur verði ekki svo ósvipaðar í meginatriðum þar sem báðar fara þær í að fylgjast með karakterum/fígúrum vekja á sér athygli sem mest þeir/þær mega með hinum ýmsu aðferðum hrópandi "Til hamingju Ísland (eða Fjarðarbyggð eða Borgarnes eða hvað það nú er)" og allir hrópa "É'ttla vinn'edda tremma í hel" og "ég er bestur og fallegastur - kjóstu mig! Hello is it God?". Úff það verður sennilega pínu erfitt að gera upp við sig hvaða fóní stjórnmálamann með loforð upp í ermunum á sér maður á að kjósa, manni finnst nefnilega á köflum karakterinn Silvíu Nótt lausari við tilgerð og yfirborðs-auglýsingamennsku-skrum heldur en Vilhjálmur, Dagur, BIngi og allir hinir photoshopuðu og ritskoðuðu PR-hönnuðu pólitíkusar. Eða svona næstum því...

Anyways.. Svona verður Silvía sennilega í kvöld og vonandi í næstu viku verður komið vídeó sem maður getur póstað af einhverjum frambjóðandanum að gleypa kanil eða að klifra upp Hallgrímskirkjuturn eða að missa niðrum sig buxurnar eða hvað sem þeim dettur í hug... Eða keyrandi á ljósastaura kannski!

15. maí 2006


Fékk sent athyglisvert ljóð í tölvupósti í dag.

Titill þess er:

{Spam?} Re: Your future., swimming pool

shearing punch coal cart barge course
apple-twig beetle squarroso-pinnatisect eye draft
all-drowsy saddle stirrup weasel spider
club wheat pre-enforcement cornstalk pine
Venetian point quasi-duplicate rat-deserted
Non-indian half-questioningly animal cracker
barber bug core wire cut-grass
what-you-may-call-it business life insurance crush zone.

Ljóði lokið.

Hressandi tilbreyting frá nígeríska skáldskapnum.

Skemmtilega knappur stíll á þessu ljóði og ekki laust við að hinn súrrealíski undirtónn í því veiti því aukna dýpt og virki krefjandi á þann sem les án þess þó að það verði of áleitið....

Geisp

...jamm jamm jamm jamm...

8. maí 2006


Æ ðeim er ekki viðbjargand'essum elskum.



Þetta á heldur betur eftir að bæta ímyndina.

Geirfugl & Framsóknarmaður = náskyldir furðufuglar sem voru einu sinni til...

4. maí 2006


Jack White er búinn að stofna nýtt band. Heyrði um daginn að hann hefði ákveðið að taka sér frí frá White Stripes vegna þess að hann og súpermódelseiginkonan hans, sem hann giftist í kanó á Amazonfljóti, séu að verða foreldrar. Svo liðu nokkrar vikur og þá heyrist að hann sé búinn að stofna nýtt band. Þetta gerist sennilega oft með feður í fæðingarorlofi, þeir fara að mála húsið, læra jóga eða stofna hljómsveit.
Nýja hljómsveitin heitir The Raconteurs og svona hljómar frumburðurinn. Hljómar ágætlega og alveg þess legt að hreiðra um sig á heilaberkinum á manni þannig að maður gauli "stedí as sí gós" í tíma og ótíma. Reyndar hefur hann það mikinn tíma aflögu að hann lét plata sig út í að semja fyrir kókauglýsingu... Sennilega til að fjármagna leikskóladvöl afkvæmisins eða eitthvað álíka.

The Stooges og Iggy Poppari voru með tónleika í Reykjavík en við skötuhjúin fórum ekki vegna þess að við vorum í svokölluðum umræðihópi um eðlilega meðgöngu og fæðingu.

Löng þögn!

HVAÐ GERIST EIGINLEGA Í LITLUM HAUS ÞEGAR MAÐUR VERÐUR ÓLÉTTUR???

Það var svosem alveg ágætt að fara í þennan umræðuhóp en Iggy hefði verið fljótur að stimpla samkomuna sem: No fun!
Æ hvað það hebbði nú verið gaman að kíkja á tónleikana.

28. apríl 2006


You Are Barney

You could have been an intellectual leader...

Instead, your whole life is an homage to beer

You will be remembered for: your beautiful singing voice and your burps

Your life philosophy: "There's nothing like beer to give you that inflated sense of self-esteem."

Jahá þarna fékk ég á baukinn. Tek það fram að ég valdi engin svör sem innihéldu orðið bjór!
Píp fékk líka þessa útkomu en það er jú ögn skiljanlegra...

21. apríl 2006


Jæja, nú geta allir byrjað að telja niður í kór. Sjá borðann hér að ofan.

Gleðilegt sumar!

Ooooo það er alveg óþolandi þegar þetta kemur fyrir mann... Kannast svo við þetta. Eins gott að Píp er píp!

19. apríl 2006


Alveg er hann farinn að ganga frá manni, vangefna ógeðisbarnið hann Tom Cruise! Hann mun hafa lýst því yfir að þegar afkvæmið hans kemur í heiminn sem heilaþvegna leigumóðirin Katie Holmes er búin að ganga með undanfarið hyggist hann gera þetta.
Og viti menn, króginn er kominn í heiminn samkvæmt þessu þannig að í dag ætti Tommi að vera alveg pakksaddur og ætti ekki að skorta járn á næstunni. Þetta gefur honum kannski það mikla orku að honum tekst kannski að skríða yfir 160 sentimetrana í framhaldinu. Hver veit.

Spurning með að mana áhrifagjarna sveimhugann hann Píp til að gera það sama þegar þar að kemur....?!?!?


JJJjjjaaaaakkkkkkkkk.

4. apríl 2006


Stærri mynd takk!

Jamm, svona lítur þá ástæðan fyrir súkkulaði-óþolinu, skapsveiflunum (ef sveiflur má kalla, aðallega bara vont skap), takmörkuðu matarplássi, þreytunni, þrengri fötum og öllu hinu út. Jú, þú lesandi sem ekki vissir, fjölgunar er að vænta í fjölskyldunni í lok ágúst!
Áætluð lending er 25. ágúst sem er reyndar ekki nógu góð dagsetning sé litið til þess að öll barnabörn EybÓla eru fædd 19. einhvers mánaðar. Miðað við það að síðast gekk ég 10 daga fram yfir þarf ég að grípa til róttækra aðgerða uppúr miðjum ágúst til að halda mig nú við þessa 19.-reglu. Ein hugmynd er komin upp nú þegar og hún er sú að taka þátt í Reykjavíkur-maraþoninu sem stefnir í að verði einmitt haldið 19. ágúst þetta árið. Hva skvera bara 20 kílómetrana af fyrir hádegi og vona að það ýti við kríli þannig að reglan haldist.
Fórum í sónar í gær og allt lítur ljómandi vel út og hann virðist bara nokkuð sprækur ;) Allt á sínum stað og vel starfhæft sem var afskaplega gott að vita, því einhvern veginn finnst manni sónarinn vera svona fyrsta almennilega sönnun þess að það er jú eitthvað að þróast þarna inni í manni.
Maginn á manni líka svo sem bara búinn að líta út eins og bjórvömb frekar en hýsi fyrir litla veru. Það er þó óðum að breytast núna og vel farið að sjást á ritstjóranum. Allt þetta sem ég taldi upp fremst virðist líka vera á réttri leið, allavega er súkkulaði-óþolið að láta sig hverfa enda ekki seinna vænna, þegar súkkulaðihátíðin mikla er rétt handan við hornið... Fyrst að það er á réttri leið kvarta ég ekki yfir hinum kvillunum á meðan... oooneiii

24. mars 2006


Your 2005 Song Is

Feel Good Inc by Gorillaz

"Love forever love is free.
Let's turn forever you and me."

In 2005, you were loving life and feeling no pain.

Einhvernvegin held ég að Evrópa komi ekki til með að ná þessum brandara frekar en við skrímsla-brandaranum frá Finnum... Hér má sjá þá í sparifötunum sínum.

Á svo að flytja þjóðskránna til útlanda????

19. mars 2006


Dagur 5!
Jeminn eini hvað það hefur verið leiðinlegt síðustu 5 daga að vera fréttafíkill, þar sem 80% hvers fréttatíma hafa farið í að hágrenja úr sér augun yfir því að herinn sé að fara og menn hrína í kór "Et tu, Bush?". Fólk spyr hver á þá að reka flugvöllinn?? Hver á að bjarga okkur ofan af jöklum og af sökkvandi togurum á hafi úti?? Hver á að reka ratsjárstofnun??

Bévítans afætur erum við!
Þykjumst vera stórhuga þjóð með þjóðum en getum ekki einu sinni séð um að reka þetta sjálf, verandi alein útí ballarhafi og þessir þættir skipta okkur þar af leiðandi algjörlega meginmáli! Girðum bara upp um okkur og tæklum þetta sjálf. Og ef fólk hefur ekki tekið eftir því þá er þetta svæði heimsins eflaust það friðsælasta í veröldinni nú um stundir enda ekkert fjör að standa í skotgrafarhernaði í kulda og trekk og ekkert hér sem einhverjir fara að ráðast á okkur útaf, að minnsta kosti ekki þar til styrjöldin um vatnið brýst út. En þangað til, stríðið er búið!
The Cold war is over and the Cod war also!

10. mars 2006


Nýtt lífsmottó???




veit ekki....

Sjóninni minni þarf sennilega að hraka talsvert meir áður en ég get fullkomlega aðhyllst þessa kenningu og þóst ekki sjá ló og ryk og skítuga pípara hér og þar. Góðar líkur á versnandi sjón svo sem, ættmóðir á Dalvík er jú með -30 eða hvað það nú er. Á 26 mínusa eftir í það ennþá.
En eins og kerlingin sagði; "there's more to life than Ajax..."

Frekar kominn tími til að maður læri að elda!

3. mars 2006


Úff þetta sora lag breiðist út um heimsbyggðina á minni hraða heldur en fuglaflensan. Get svo svarið það. Það hlýtur hreinlega að flokkast undir hægan og kvalafullan dauðdaga að þessi óskapnaður skuli ekki ferðast hraðar yfir. Var sem betur fer stödd í USA síðasta sumar þegar lagið gerði strandhögg á Íslandi og var þar af leiðandi alveg klúless langt fram eftir hausti um tilveru þessa lags sem þorri fólks virtist einhverra hluta vegna hrífast óheyrilega af... Svo heyrði ég það, aðeins of oft meira að segja, og þakkaði samstundis mínum sæla fyrir að útvörpin mín finna bara ekki tíðnirnar 989, 957, 967 og fleiri tíðnir sem eru frá djöflinum komnar. Maður verður nefnilega hrokkinhærður af því að hlusta á þessar stöðvar segir frændi minn og ekki lýgur hann. Hætti ekki svoleiðis lagað. Nú þarf hún Togga sennilega að afbera þetta og megi allir heimsins vættir styðja hana í gegnum þær hremmingar...

28. febrúar 2006


Ég held að mitt át sé ekki inni í þessari tölu... Ætli hún væri þá ekki eitthvað hærri. Einn og hálfur skammtur í hádeginu og manymany í kvöld.

P.s. Nei, ekki halda að ég hafi etið píp út á gaddinn og þar af leiðandi fengið einn og hálfan skammt í hádeginu... Nei nei, við keyptum okkur 3 skammta saman :) Allt innbyggt!

24. febrúar 2006


Ritstjórn síðunnar var að gera þá merku uppgötvun að hvarsemer er 2 ára um þessar mundir. Af því tilefni hefur ritstjórnin ákveðið að allir dyggir lesendur fá FRÍA ÁSKRIFT að síðunni næsta mánuðinn!!! Heldur betur hefur hlaupið á snærið hjá þeim...Þvílík gjafmildi!
Verði ykkur að góðu.

22. febrúar 2006


Það er til merkis um að tíminn líður allt allt of hratt á gervihnattaöld, að litli píp; þið vitið þessi litli krúttlegi sem á erfitt með að segja R og er mesta kúrudýr sunnan Sæbrautar, fékk bréf um daginn þar sem honum var tilkynnt að nú getur hann skráð sig til náms í grunnskóla og það með rafrænum hætti! Jedúdda mía! Hvað varð um bleyjubarnið mitt??

Þetta með að barnið eldist ætti svo sem ekki að koma manni á óvart þar sem undanfarna daga hefur hann hagað sér pínulítið eins og gelgja.... jafnvel gelgjustelpa... :/
Leikskólarnir fara náttúrulega ekki varhluta af Silvíu Nótt og því dæmi öllu saman og stubburinn er farinn að söngla "Hey þú, ógisslea töff , ég er að tala við þig..." úr júróvisjon laginu í tíma og ótíma. (Smellið hér Togga og Gaui og aðrir útlendingar sem eru ekki alveg með á nótunum)

16. febrúar 2006


Jæja krakkar mínir. Í dag ætlum við að klæða Jesús í öskudagsgalla! Við byrjum á því að prenta myndina út, klippum út búningana, grímurnar og fylgihlutina og svo má endalaust raða saman átfitti fyrir gaurinn. Haldiði að hann verði ekki krúttlegur í stubba-múnderingunni eða Manson-gallanum?? Þetta er líka hægt að kaupa á 14 dollares sem ísskáps-segul hér. Að gefnu tilefni bið ég trúarofstækisfólk um halda sig á mottunni, slaka á og kveikja ekki í hárinu á sér af bræði yfir þessu...

Gangi ykkur vel.

10. febrúar 2006


Eins og það er óheyrilega leiðinlegt og mannskemmandi að hringja í bankana og fleiri stofnanir og bíða og bíða á Hold þurfandi að afbera ömurlega músík í enn verri útsetningum, sem lyfta með sjálfsvirðingu mundi ekki láta bjóða sér, er alveg yndislegt að vera á hold hjá Landsbankanum. Fæ bara ekki nóg af Getz/Gilberto. Verð alltaf hálf fúl þegar einhver svarar, því þessi dásamlega tónlist er algjör vin í þeirri eyðimörk sem þessar stofnanir geta verið. Go Landsbanki.

Er ekki alveg snilldar hugmynd að fara með kúrekann á Brokeback Mountain um helgina?
Hehe...

9. febrúar 2006


Kábojastígvélin...

Smella fyrir stærri mynd

Og áfram með willta westurz-þemað: kábojaskyrtan frá Tótu og co, jakkinn frá foreldrunum og Pókerspilið frá Tobbu og co!

Smella fyrir stærri mynd

Nú vantar hann bara hestinn!
Stórafmæli á næsta ári...
Mastersneminn og fjörkálfurinn GummiPalliÓlason á afmæli í dag. Hann hyggst fagna ákaft þar sem hér eftir mun hann ekki framar eiga tveirogeitthvað afmæli! Það fer víst eitthvað í hann að verða 3ogeitthvað. Hann veit sennilega ekki að karlmenn eru þeim kostum gæddir að verða bara fýsilegri með aldrinum eftir því sem þroskinn og reynslan gæðir þá margbrotnari áru. Litli píp og lady píp gáfu honum kábojastígvél í afmælisgjöf og þar með er gamall draumur pípsins uppfylltur. Hér eftir verða honum gefnar ritraðir og vindlar og fleira þvíumlíkt sem hæfir aldri hans og virðingu.

Yfir og út.

2. febrúar 2006


Lítill píp lýsti því yfir um daginn, með smá dash af hroka að Múmínálfarnir séu bara flóðhestar! Hana nú! Það má svo sem til sanns vegar færa.

30. janúar 2006


mán. 30.1.2006:
sólarupprás 10:14
og
sólsetur 17:08.

Í fyrsta skipti síðan einhvern tíman á síðasta ári er maður ekki að álpast heim úr vinnunni eftir sólsetur! Þvílíkur munur. Loksins finnst manni þetta allt saman vera á réttri leið, gjörsamlega búin að óverdósa á myrkrinu. Þeir segja að maður geti verið of mikið í sólinni og nú er maður klárlega búinn að fá allt of stóran skammt af myrkri. Óska mér og öðrum 9-5urum til hamingju með að geta hér með gengið út í sólina að vinnu lokinni!

Happdrætti háskólans rænt í dag!

Geri fastlega ráð fyrir að ræninginn hafi verið með þessa grímu:

Nema hann hafi valið að vera með kanínugrímuna, eða batmangrímuna eða.....
Það er svo sem búið að vera nóg úrval af grímum í auglýsingunum frá þeim.

28. janúar 2006


Á þessum síðustu og verstu höfum við skötuhjúin rætt það að reyna að koma einhverjum varningi í okkar eigu í verð! Teljum okkur þó ekki án bíla né húsnæðis geta verið en rákumst á möguleika áðan sem okkur hafði einfaldlega ekki dottið í hug... Sjá hér. Seljann á 5ðús kall bara! Gætum reyndar spunnið upp einhverja hrakfallasögu og sýnt fram á kvittanir fyrir útlögðum kostnaði til að hækka gróðann umtalsvert. Hvað kostar til dæmis útkall hjá slökkviliðinu til að bjarga lofthræddri písl. Eða þyrluútkall ef út í það færi. Kötturinn gæti nú alveg hafa fundist uppi við Hvannadalshnjúk og þá þarf ekkert minna en þyrlu til að ná honum niður. Fixa reikning bara og rétta þeim Bjart. Má vel athuga þetta nánar...

Jæja þá er komið að því, Geir Ólafs ætlar að taka þátt í júróvisjon forkeppninni í kvöld! Ef áfram hann færi væri það eflaust einhver sú jafnbesta hugmynd sem íslenska þjóðin hefur fengið síðan Anna Mjöll var send! Til hvers ættu Evrópubúar svo sem að halda að Íslendingar séu þjóð með öllum mjalla.

9. janúar 2006

2. janúar 2006


Gleðilegt ár kæru velunnarar og vinir nær sem fjær!

Heldur betur hófum við fjölskyldan nýja árið með stæl! Boðin í kaffi og kruðerí á Bessó til ÓRaGríms og Dóru Mus þar sem forseti vor ákvað að sæma píp riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framúrskarandi störf í þágu dulrænna málefna á sviði orkumála.



Nenntum að vísu ekki að mæta fyrr en athöfnin var byrjuð en það var nóg til þess að fá jólaöl og mömmukökur og eina orðu (þeir voru voða akkúrat á fjölda medalía, hefði ekkert verið slæmt að fá eina auka og selja á ebay). Nenntum svo ekki heldur að hlusta á einhverja ræðu og svoleiðis bull eftir afhendinguna þannig að við létum okkur bara hverfa eftir að hafa endurraðað aðeins málverkum í amtsstofunni enda var þeim raðað af einstöku smekkleysi og litblindni.
En svona líka ægilega gaman að þessu!
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats