31. október 2004

30. október 2004


Þetta er maðurinn sem var ábyrgur - eða allavega gerður ábyrgur - fyrir bungunni aftan á jakka Bússa presidenta um daginn. Það er ekki furða að þessi bunga hafi farið fram hjá honum þar sem bungan var fyrir það fyrsta staðsett langt fyrir ofan hans sjónsvæði. Við höfum ekki fengið spurnir af því hvort Bússi hafi skipt um klæðskera svona á síðustu metrunum, en ef svo er þá þarf klæðskerinn ekki að hafa nokkrar áhyggjur af atvinnuleysi á næstunni þar sem nú fer einmitt í hönd háannatími fyrir aðstoðarmenn Jólasveinsins! Svo sem ekki mikill munur á að vera klæðskeri #%&lvaðs jólasveins eða að vera aðstoðarmaður Jólasveinsins. Mun meiri virðingarstaða þó að vinna með þessum á Norðurpólnum.

29. október 2004


SimmiogJói voru fyndnir í kvöld! Ja og þó, skulum ekki alveg missa okkur í lofi... Það kom þarna eitt atriði sem var hreinlega drep! Þeir voru ótrúlega lítið pínlegir í þessu ákveðna atriði og hvarsemer átti í mestu erfiðleikum með að hemja sig. Þetta var atriðið þar sem þeir létu sem hljóð og mynd pössuðu ekki saman og á endanum brast ek í hlátr. Hefði ekki trúað því að óreyndu að maður ætti eftir að hlæja hjartanlega og innilega að þeim, en þetta gátu þeir. Húrra fyrir því! NAAAMIIBÍÍAA
Þeir sem voru með missed call frá mér í símanum sínum í gær misstu af frírri bíóferð í félagsskap undirritaðrar! Myndin sem var í boði heitir Ladder 49 og var alfarið skrifuð, leikstýrð, styrkt og framleidd af slökkviliðsmálaráðuneyti Bandaríkja Norður-Ameríku. Við skulum bara segja að poppið stendur alltaf fyrir sínu...

26. október 2004


Mikið væri gaman ef fólk færi nú að heimsækja gestabókina mína í umvörpum og og rita jafnvel lítilræði eða heilræði í hana ef því sýndist sem svo. Ekki sniðugt að á hennar hálfs árs líftíma hafi einungis fimm hræður tjáð sig á rúðustrikuðum síðum hennar. Ef þér eigið í vandkvæðum með að finna gestabókina, þá er hún fyrir neðan bloggaratenglalistann og þér smellið á mynd af lítilli ákveðinni bók með álfaeyru hvar hjá stendur ritað: "Párið í gestabók vora og yður mun verða langra lífdaga auðið"!

Frétt daxins: Einn álitlegasti, eftirsóttasti og best klæddi piparsveinn Breiðholthverfis vestra er genginn út. Siggeir sjálfur er búinn að hrekja eða hnekkja - segjum bara hneggja - eigin kenningum um að kvenfólk sé skaðræðisdýr upp til hópa og hefur sem sagt tekið upp á því að ná sér sjálfur í eitt slíkt skaðræðisdýr til eignar. Í það minnsta láns. Styttist þá væntanlega í að ófæddur Siggeirsson verði ekki lengur ófæddur og geti farið að njóta virkilega fríðindanna sem fylgja því að vera í Krakkaklúbbnum (þeir skilja þetta sem skilja það). Þó viljum við hjá hvarsemer alls ekki setja pressu á unga parið varðandi barneignir, skárra væri það nú að fólkið hefði þekkst í á að giska tvo mánuði áður farið væri út í slík stórræði.

23. október 2004


Píp kominn heim mörgum dögum á eftir áætlun. Yfirheyrslur bíða betri tíma.

Ekki fyrr búin að skipta út passamynd í öllu kerfinu (debetkort, visa, ökuskírteini o.fl.) að ég fæ flugu í höfuðið sem skilur mig eftir með kastaníubrúnt hár! Var farin að fá athugasemdir með gömlu myndina á kortunum, sem var tekin '99 rétt fyrir Kenya-ferð, um að ég ætti kannski að fara að huga að því að fá mér nýja mynd þar sem ég sé nú ekki lengur dökkhærð, stutthærð og búlduleit. Brást skjótt við og vippaði mér inn í myndasjálfsala og skilaði inn nýrri mynd samviskusamlega - en viti menn, núna 5 dögum seinna bara hreinlega varð ég að gera eitthvað við hárið á mér og keypti mér skol í Hagkaup og bara skellti því í hausinn á mér, nokk sama um áhættuna sem því fylgir - hefði getað endað uppi með fjólublátt hár með appelsínugulum strípum en er bara nokkuð fín verð ég að segja, þó sjálf sé ég nú vart dómbær á það!
Held nú samt að þetta sé ekki það stórvægileg breyting að ég þurfi að skipta um mynd aftur, eina breytingin er liturinn, er ennþá með sömu sídd og jafn heimskuleg í framan.

21. október 2004


My very British name is Amelia Garside.

Take The Very British Name Generator today!


Það þurfa allir að eiga eitt útlenskt nafn hið minnsta. Þetta er mitt brezka nafn - eða "my terribly british name" eins og þeir orða það! Það vill svo skemmtilega til að ég á einmitt litla frænku sem heitir Amelía sem þýðir að barnið er auðsjáanlega skírt í höfuðið á mér! Heiðurinn er yfirþyrmandi!

19. október 2004


chocosjókósúkkulade

You're chocolate. You're the old soul type, people feel that they have known you their entire life. Many often open up to you for they view you as thoughtful and trustworthy. Although people trust you, you have a hard time trusting them. You prefer to keep your feelings bottled up inside, or display them very quietly. It is alright to open up every once in a while.

Which kind of candy are you?

Nú er ég svo aldeilis... Tek það fram að það var ekkert í spurningunum sem beinlínis leiddi til þess að útkoman yrði súkkulaði þannig að þessi niðurstaða er ekki á nokkurn hátt skálduð.

Can't help it, it's in my nature!

18. október 2004


Er í svo miklum vafa með þessa nýju vinnudragt (eða er það drakt?) að ég verð að koma með smá skoðanakönnun. Litli píp segir bara jájá, Bjartur bara mjámjá og enginn Píp til að dæma (hann mundi reyndar bara segja jájá) þannig að ég verð að fá hjálp ykkar, Togga, Tobba, Tóta, Sigga og allar og allir... Hvað finnst ykkur? Á ég að skipta henni eður ei?
Smella til að stækka:

Ef þér sjáið ekki myndina þjáist þér sennilega af járnskorti í augnhimnu þar sem augun ná auðsjáanlega ekki að greina myndina sem slíka. Út í apótek með þig að kaupa vítamín. Í hvelli!
Það er ekki seinna vænna að hafa eitt almennilegt sumarhret svona í lokin. Fyrsti vetrardagur eftir 5 daga.

Er loksins orðin húsum hæf á Laugaveginum og fer örugglega svakalega vel við innréttingarnar núna. Vinnuveitendunum ofbauð hreinlega útgangurinn á okkur kvenkyns starfskröftunum og sendi okkur í verslunarleiðangur. Svart og tweed er greinilega inn núna og er einmitt mátulega hlutlaust og klassískt. Þarf samt að skipta gráu tweed-pils-dragtinni, ekki frá því að hún sé helst til of...


Gaman að sjá að RÚV er búið að taka hina klassísku og sískemmtilegu - en þó ekki síbreytilegu - stillimynd upp aftur. Hún er miklu meira spennandi heldur en nokkurntíma skjáleiksómyndin sem einhverju gáfumenninu datt í hug að setja á skjáinn svona rétt til að mergsjúga öryrkja og eldriborgara þessa lands. Vona að Línan verði svo næst tekin upp og í framhaldinu hinir dásamlegu tékknesku Klaufabárðar!

Talandi um þá...

17. október 2004


Píp er á Egilsstöðum og er búinn að vera þar í einhverja 2 sólarhringa og verður eflaust í 3 sólarhringa í viðbót. Við litli píp erum nokkuð sátt við það bara, höfum það gott og leikum okkur og breiðum úr okkur í king size rúminu (aðallega litli píp samt) og vitum ekki betur en að Píp sé að vinna á Egilsstöðum til að við getum átt góð jól og borgað vísareikninga og greiðsluþjónustur og sent litla píp í háskóla... en hvað les maður svo á netinu! Þá er hann að viðhafast þetta!

Tapað - fundið


Hvar er Togga??? Spurðist til hennar síðast á weraldarwefnum 5. október! Orðin dularfull þögn. Baulaðu nú Búkolla mín...

deo..

15. október 2004


Alveg er ég búin að fá nóg af þessum móðursjúku fótboltaáhugamönnum/íþróttafréttamönnum/alvitru borgurum sem geta ekki hætt að gnísta tönnum og gráta útaf þessum blessaða fólboltaleik og jú öllum hinum töpuðu leikjunum líka. Nenni ekki að hlusta á þetta röfl lengur, sérstaklega þar sem ég hélt að Baggalútur hefði opnað augu okkar fyrir óbærilegum léttleika íþróttarinnar með þessu lagi! En nei við skulum taka þessu grafalvarlega og vera í fýlu næstu 2 vikur. Eigum við kannski ekki bara að hafa þjóðarsorg og einnar mínútu þögn á mánudaginn? Jú gerum það! Ætla að redda mér svörtu fyrirliðabandi - sorgarbandi! Og skera lauk allan daginn, þá verður maður ógurlega sorgmæddur og rauðeygður eins og hæfir tilefninu!

[Viðauki] Ansvítans linkurinn með laginu hérna að ofan virkar ekki alveg þannig að þið getið bara smellt hér í staðinn. [Viðauka lýkur]

14. október 2004


Það ku vera hafið gos í St. Helenu. Og það jafnvel sprengigos. Var einu sinni að vinna með einni nöfnu hennar sem maður gat ekki annað en tiplað á tánum í kringum þar sem sífellt var hætta á sprengingu... og gosi jafnvel. Enda var hún engin St.

Nýji bílinn minn er yndislegur. Það er svo gaman að keyra hann, að á morgnana er ég alveg: "jibbí best að keyra í vinnuna á yndislega bílnum mínum… og njóta þess meðan það varir" og svo er ég nokkrum tímum seinna farin að huxa: "ooo hvað það verður gaman þegar vinnan er búin…" ekki af gömlu ástæðunni sem var að það er svo gaman að eyða kvöldinu með fjölskyldunni minni heldur: "ooo hvað það verður gaman að keyra heim á nýja bílnum mínum…".

Er alveg búin að sjá það að þessi bíll er Spa-meðferð á hjólum! Áður fyrr fór ég út í bíl eftir streitumikinn dag í vinnunni og hélt áfram að vera stressuð þar sem ég var jú keyrandi um á streituvaldandi traktor; hávaðinn, óttinn við að löggann stoppaði mig vegna brotsins að vera á óskoðuðum bíl, druslulegt útlitið og ónýta púströrið. En nú sest ég inn í hljóðlátan mjúkan bíl sem meira segja gaman er að gefa stefnuljós á, hljóðið er svo pent... ekki TTIIKK TTIIKK TTIIKK heldur tik tik tik. Maður gjörsamlega róast niður og það besta er að það er örugglega allt önnur mamma sem kemur að sækja litla píp þessa dagana heldur en fyrir viku síðan. Svakalega afslöppuð alveg, reyndar er bíllinn það afslappandi að píp litli sem áður sofnaði á 5 mínútum í bíl, sofnar jafnvel núna á einni og hálfri!

Svo spilar þessi bíll á eina geðveiluna í mér sem er keppninsandinn eða hvað ég á að kalla það. Mælaborðið sýnir nefnilega einhverja meðaltalstölu á hversu miklu bíllinn er að eyða á hundraðið og nú er ég brjálæðislega upptekin alltaf við að lækka þá tölu! Sem þýðir það væntanlega að ég er á góðri leið með að verða fáránlega vistvænn og meðvitaður bílstjóri. Síðan ég fékk bílinn í hendurnar hefur bensíneyðslan á hundraðið minnkað um 3,3 lítra og er enn á niðurleið. Nú skiljið þið hvað ég meina með geðveila…

Píp er nú samt sennilega ánægður með þessa nýju aksturstækni þar sem hann var sífellt að skamma mig fyrir að hægja ekki á mér í hringtorgum eða hvað hann var alltaf að tuða…

12. október 2004


Smella fyrir stærri mynd!

Nú getur hvarsemer sko heldur betur farið hvertsemer á nýja bílnum sínum! Jeppabíllinn var settur upp í nýja eðalkerru enda orðinn hálf krambúleraður allur, það er að segja þarfnaðist mikillar alúðar og velvildar einhvers góðhjartaðs aðila sem hefði nægan tíma til að sinna honum. Nýji bílinn býr yfir miklu carisma rétt eins og eigandinn (píp er skráður fyrir honum) og heitir orðrétt MITSUBISHI CARISMA GDI 1.8. Þið getið smellt á myndina hér fyrir ofan til að sjá stærri mynd af drossíunni, þessi er að vísu blá en okkar eintak er grænt. Hann er sjálfskiptur með öllum helstu nútímaþægindum svo sem vatnssalerni, loftræstingu og vírusvörn... eða hvað þetta heitir allt saman sem er í þessum bílum, hefur eitthvað með stafrófið að gera allavega; ABS, SRS, AT og fleiri skemmtilegar bókstafaraðanir.

Við skötuhjú höfum aldrei átt þetta nýlegan bíl og með þessu áframhaldi verðum við komin á bíl framleiddan á þessari öld eftir ca. 5 ár! Vonandi verðum við áþreifanlega vör við lægri bensínkostnað á okkar nýja fjölskyldubíl enda heldur Aftonbladet sænska því fram að þessi eðal bifreið eyði tiltölulega litlu: "Mitsubishi Carisma 1.8 GDI - familjebil som drar bara 6,7 liter/100 km". Þar hafiði það! Nú þurfa semsagt bensínkóngar þessa lands eitthvað að halda að sér höndum og samdráttur fyrirsjáanlegur þegar family-píp er kominn á þennan eyðslugranna bíl! Að keyra bílinn er svo alveg yndislegt, ekkert hökt, engin aukahljóð og ekkert skalla-loftið-yfir-hraðahindranir vesen. Bara eins og þetta á að vera! Hamingjuóskir mótteknar hér að neðan!

11. október 2004


Rainy days and Mondays always get me down...

Af hverju þarf að vera bæði í dag??

Bara mánudagur væri fínt!
Bara rigning væri allt í lagi...

En jæja, þetta er svosem ágætis dagur. Í fyrsta skipti síðan fyrir sumarfrí er rólegt að gera í vinnunni! Sem er ánægjulegt! Það meira að segja jaðrar við að undirritaðri leiðist, allavega er eitthvað eirðarleysi í gangi. Helgin flokkaðist undir algjöra slökun! Mæðginin tóku því rólega og lögðu sitt af mörkum til þess að fríhafnarnammið mundi nú ekki skemmast. Þetta með að undirrituð hafi farið tvisvar með stuttu millibili í fríhöfnina, algjörlega tilneydd að sjálfsögðu, er svipað og að henda alkóhólista inn á Kaffi Austurstræti og læsa hurðinni á eftir honum og henda lyklinum... Eða svoleiðis. Keypti náttúrulega ógrynni af súkkulaði og allskyns ósóma og eiturbrasi og er svo í fullri aukavinnu við að gera mitt besta til að ná að vinna á þessum birgðum... Ef einhver hafði núna hugsað sér að gerast miskunnsami samverjinn og bjóðast til að ættleiða eitthvað af þessu nammi er það nánast of seint þar sem flestar umbúðir eru opnaðar og helmingur búinn... sveiattan og svei mér þá! Alveg ljóst að sumar komast ekki í kjólinn fyrir jólin!

Talandi um jólaeitthvað - þið sem hafið andstyggð á fyrirburajólum, vinsamlegast forðist Rúmfatalagerinn. Álpaðist þangað inn í síðustu viku og þar var starfsfólkið í óða önn við að taka jólavörur upp úr kössum. Eins og Mikki refur orðaði það þá er þetta - mesta bull sem ég hef nokkurntíman heyrt (tilvitnun lýkur)! Held ég haldi mig bara frá öllum búðum fram yfir afmælið mitt, sem nálgast jú eins og óð fluga eins og sjá má hér að neðan hægra megin... Eða kannski fram yfir afmæli litla píp! Þá má maður allavega pottþétt jólast sem mest maður má, enda kominn 19. desember þá!

P.s. Ég veit það Togga mín að nú ert þú öll útötuð í jólunum en þú ert jú líka í Ameríku! Þetta á bara ekki að vera svona á skerinu finnst mér allavega...

9. október 2004


When I'm 64...




John Lennon hefði orðið 64 ára í dag en hann var sem kunnugt er skotinn í New York 8. desember 1980. Það stóð jafnvel til í síðustu viku að láta morðingja hans lausan en hann fær að dúsa inni eitthvað lengur enda murkaði hann lífið úr einhverjum mesta hugsjónamanni síðustu aldar. Segi það og skrifa! Hugsjónar/draumóra Lennons er sárt saknað á þessum síðustu og verstu þar sem "barnalegar" friðarpælingar eru einmitt það sem fólk þarf að heyra...! John var einstaklega orðheppinn og var líka mjög beittur í hverskyns gagnrýni. Klassískt er þegar Bítlarnir, sællar minningar, komu fram í upphafi ferils síns á konunglegum tónleikum að Betu drollu og mömmu hennar viðstöddum og John bað um aðstoð áhorfenda í síðasta laginu. Hann bað áhorfendurna í ódýru sætunum um að klappa saman höndunum en hinir áttu að að láta hringla í skartgripunum sínum! - og uppskar mikið fliss og klapp fyrir.... og hringl.

Eftirlifandi spúsan hún Yoko Ono var einmitt í fréttunum í síðustu viku og vildi fá að koma fyrir friðarsúlu "on the top of the world" - í Reykjavík. Þóró tók vel í það og vildi koma henni fyrir þar sem hún hefði nóg pláss...!?! Ætli það sé ekki verið að finna góðan punkt á Kjalarnesi eða jafnvel í nágrenni Nesjavalla. Erfitt er að geta sér til um hvað John væri að gera í dag en eitt er víst að það væri ekkert í líkingu við það sem sýndarfígúran hann McCartney er að gera. Ætli hann væri ekki einhversstaðar búinn að finna sannleikann í tilverunni og léti í sér heyra reglulega og lifði á Bítlaauðnum, sem hann væri að vísu búinn að gefa frá sér að mestu leyti til góðgerðarmála, og vinningsfénu sem fylgdi Nóbelsverðlaununum í friði...

8. október 2004


Hei, gleymdi að segja frá merkilegri staðreynd varðandi burtlandaferðir mínar. Í flugvélinni á heimleið frá Alicante sat ég í sæti númer 33F! Þegar ég svo flaug til Copenhagen sólarhring síðar sat ég í sæti 33F! Ég hefði sem sagt alls ekki þurft að hafa fyrir því að fara heim til mín á milli fluga og því síður inn í flugstöðina og hefði satt best að segja bara átt að sitja sem fastast í mínu sæti í þennan sólarhring! Hva mismunandi flugvélar og mismunandi flugfélög... hver spáir í því... Hefði endað á skemmtilegum stað hvort sem er.

7. október 2004


Íslendingar kærir nær og fjær! Okkur hjá hvarsemer þykir ekki annað hæft en að óska þjóðinni til hamingju með fyrsta lestarslys Íslandssögunnar. Við skulum samt byrja á að taka það fram að enginn er alvarlega slasaður og þessir aðilar sem í þessu lentu verða örugglega sem nýjir innan nokkurra daga og koma vonandi ekki til með að bera nokkurn skaða af. "Verst" er að um borð í lestinni var enginn íslendingur sem hefði þá orðið þessa heiðurs aðnjótandi - að lenda í fysta lestarslysi Íslendinga - og hefði verið í blöðunum á 3 ára fresti að tjá sig um eftirköst og afleiðingar lestarslyssins og yrði þekktur sem "þessi sem lenti í lestaslysinu"! Þetta voru Kínverjar og Portúgali sem lentu í ósköpunum og eru örugglega bara nokkuð góðir og telja sig eflaust ekki hafa lent í neinu lestarslysi heldur lítilsháttar-pínusporvagns-óhappi.

4. október 2004


Köben var æði eins og alltaf. Þetta er ekki í lagi hvað manni líður alltaf eins og heima hjá sér þegar maður er í Köben. Kannski er það af því að maður heyrir íslensku allsstaðar og kippir sér ekkert upp við það. Íslenskan bergmálaði um allt Strik og í H&M og í Magasíninu. Sennilega eru Íslendingarnir bara svona fyrirsjáanlegir, gera örugglega allir nákvæmlega þessa sömu hluti. Og fara á Hvids vinstue og í Nýhöfn, sem undirrituð hafði því miður engan tíma til að kíkja á. Þetta var alltof stuttur tími til að gera eitthvað af viti í borginni en maður kippir því bara í liðinn seinna og fer með pípin í ferðalag til þessarar guðdómlegu borgar þar sem hvert einasta hús er Bygging! Með stóru B-i.

Talandi um arkitektúr, hótelið sem við gistum á var ekki af verri endanum - sjálft Radison SAS Royal hótelið sem var opnað árið 1960 og hannað af Arne Jacobsen að öllu leyti, að utan sem innan, frá ljósakrónum niðrí öskubakka og allt þar á milli og allt hitt líka. Hótelið var fyrsti skýjakljúfurinn í Skandinavíu með sínar 22 hæðir. Arne Jacobsen er sennilega best þekktur fyrir stólana sína, eggið, maurinn, svaninn og sjöuna. Að vísu hefur hótelið ekki fengið að halda sér alveg óbreytt í þessi rúm 40 ár sem það hefur verið opið þar sem einhverjar smávægilegar breytingar hafa verið gerðar en eitt herbergi er þó algjörlega óbreytt og það er númer 606 og aðeins þeir sem eru fyrirmenni eða sérvitringar eða bæði fá það til leigu. Eða kannski er nóg að eiga bara nóg af pening.

Við fengum öll eins manns herbergi sem var mjög einmannalegt en tveir lögfræðingarnir, sem hljóta þá að uppfylla það að vera fyrirmenni og sérvitringar, fengu sér svítu. Hún var samansett af 3 baðherbergjum, 1 saunu, litlu fundarherbergi, setustofu, stórri stofu, stóru svefnherbergi, flottustu Bang & Olfsen græjum og ég veit ekki hvað og hvað, en það merkilega var að þessi svíta innihélt bara 1 rúm! Hihihihihihihi... Í þessari svítu var að sjálfsögðu haldið partí og stofan lítur svona út.

Fórum út að borða bæði kvöldin á ægilega hipp og kúl staði og maður þurfti varla að draga upp veskið alla ferðina þannig að þetta var pínu ævintýralegt allt saman. Var það ekki í Pretty Woman sem JuRo var dregin af götunni inn á ægilega fínt hótel og kunni náttúrulega ekkert að haga sér? Maður upplifði sig pínulítið þannig. Vinnufundurinn sem haldinn var á laugardeginum var bara fínn þar sem hann var brotinn upp með miðdegisverði sem samanstóð af andalifrarpatè og nautasteik! Og að sjálfsögðu einum Carlsberg. Fínt að halda fundi með þessu fyrirkomulagi. Déskoti er nú annars andalifrarpatè vont! Þarf að fara á flottræfla-námskeið áður en ég fer í næstu svona ferð til að kunna "gott" að meta!
Á ferðum mínum um heiminn undanfarið hef ég tekið eftir því að flugið FRÁ Íslandi virðist alltaf taka styttri tíma en flugið TIL Íslands. Samanber flug til Spánar: 4 klst. og 15 mín. Flug frá Spáni: 4 klst og 45 mínútur. Skyldi þetta hafa eitthvað með það að gera að þegar maður flýgur til Íslands flýgur maður upp í móti?
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats