29. nóvember 2007


Ég átti alveg eftir að sýna afmælisgjöfina frá Píp:

Hér má sjá afmælisbarnið skála við sig sjálft og einnig sést þessi áður tilgreinda afmælisgjöf á myndinni. Nei, þó það líti út fyrir á myndinni að ég hafi fengið 65" Canon flatskjá í afmælisgjöf þá er það eigi svo, heldur er þetta massafína splunkunýja myndavélin mín. Skjárinn er ca. 10" eða kannski svona 3" og nota bene ekkert gægjugat á henni! Maður bara horfir á stóra stóra skjáinn enda gægjugötin svo síðasta öld. Allavega, þessi vél er BARA fín og sæt.

Sko það borgar sig að brjóta odd af feimni sinni og hafa samband við bara einhvern ef manni sýnist svo.

Jú, forsaga málsins er sú að mér fannst áður umtalaður flutningur Daníels Ágústs á Tom Waits laginu "Earth died screaming" svo magnaður að ég varð að koma því til leiðar að myndbandið yrði sett inn á You Tube til að maður gæti notið þess um aldur og ævi vegna þess að inni á ruv .is er allt horfið tveim vikum eftir útsendingu hvort sem um er að ræða viðtal við Bjarna Harðarson eða snilldaratburð í tónlistarsögunni.

Ég semsagt tók mig til og leitaði að einhverjum Kastljós-klippum inni á You Tube til að finna þar notanda sem væri hugsanlegur kandidat í að gera myndbandið ódauðlegt fyrir mig og koma því inn á vefinn. Viti menn, sendi einum beiskum fyrirspurn um hvort hann gæti með sinni snilldargáfu sett það inn á YT og hann svaraði um hæl að hann skildi sjá hvað hann gæti gert.

Og nú tæpum 3 mánuðum seinna sendir mér hann skilaboð um að myndbandið sé komið inn og þar með er þetta myndband orðið aðgengilegt um alla tíð, þökk sé beiskum og hvarsemer.

Takk ég (og beiski).

26. nóvember 2007


Hvernig er það, var eitthvað búið að kanna ólögmætt verðsamráð og almenna samræmingu á úrvali í ferðaskrifstofugeiranum??


Og allir með sama verðið 49.900 kr. fyrir tvær vikur. Já ekkert við það að athuga, enda sömu eigendurnir af þessum companíum. Þá er þetta allt saman voða eðlilegt, eller hur?

23. nóvember 2007


Þessi síða er fyndin! Nafnið á henni segir allt sem segja þarf ef það á annað borð þarf að segja eitthvað.
Talandi um að segja hluti þá er þessi hérna algjör snilld. Þar er allur heimsins sannleikur sagður í aðeins sex orðum per færslu. Magnað hvað 6 orða setningar/sögur geta orðið hnitmiðaðar og hitt beint í mark. Annað en mínar setningar, 20 orð að meðaltali og oftar en ekki orðagjálfursvaðall.

Til að ég fari nú ekki að setningafræðigreina sjálfa mig eitthvað frekar með óhóflegri notkun á afturbeygðum fornöfum í boðhætti og sögnum í viðtengingarhætti er best að horfa bara á svenska kokken búa til súkkulaðimús:

21. nóvember 2007


Ef ég heyri eitt orð í viðbót um Geysi Green gýs ég grænu!

18. nóvember 2007


Fyrst þegar ég las fyrirsögnina hér að neðan rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds og ég var viss um að það hefði lekið út að Píp hleypti mér út á lífið um daginn:


En svo við nánar athugun sá ég að svo var sem betur fer ekki. Píp þarf ekki að afsaka það við alla að hafa hleypt konunni framfyrir eldavélina og alla leið út úr húsinu því sem betur var það ekki ég sem varð húsbónda mínum til minnkunnar heldur hefur einhver nafna mín verið að skandalisera.

12. nóvember 2007


Komin heim frá London árinu eldri og hvað haldiði að yngsti sonur minn hafi gefið mér í afmælisgjöf??? Fyrstu skrefin sín! Hann tók á móti mér labbandi í dag. Hér fyrir neðan má sjá Kára labba og eru skrefin tekin upp á Canon IXUS75 sem þeir feðgarnir gáfu mér í afmælisgjöf. Hljómar pínu eins og samantekin ráð; "pssst pabbi, gefum kellu myndavél og svo byrja ég að labba til að fyrsta vídeóið verði af mér að labba".



Nú fyrst er fjandinn laus....! :)

P.s. Takk kærlega fyrir allar kveðjurnar og hughreystinguna í tilefni þeirra tímamóta í lífi mínu sem urðu síðastliðinn föstudag. Teiti verður haldið síðar og verða kransar og borðar afþakkaðir.

Ferðasaga síðar.

6. nóvember 2007


Togga var einmitt að ræða það um daginn hvað nýjir hlutir á heimilum veiti mikla ánægju. Get ekki annað en verið sammála því hér má sjá ástæðuna fyrir því að ég hef ekki bloggað í háa herrans tíð (var næstum búin að gleyma skrípans lykilorðinu):

TAAADAAAAAA!!!!!!


Má ég kynna nýju eldþvottavélina mína! Gashelluborð/rafmagnsofn/UPPÞVOTTAVÉL!!!!!!!!!!!!!
Dásamleg uppfinning. Uppþvottavélin hans Píps verður nefnilega 30 ára á föstudaginn þannig að það var ekki seinna vænna að kaupa nýja.

Hafandi vaskað upp frá því ég gat staðið á stól við vaskinn var kominn tími á að þessum kafla í mínu lífi lyki! Ekki neitt er jafn ömurlega hundleiðinlegt og að vaska upp! Af öllum húsverkum í heimi er uppvask það alleiðinlegasta. Í mínum húsakynnum verða framvegis uppþvottavélar, í nútíð sem framtíð!

Í leiðinni erum við aðeins að gera eldhúsið sætara þannig að þegar ekki er verið að vinna, elda, skutla á æfingar og siða handóðan einsáring til, þá hef ég verið að brasa í eldhúsinu en ekki blogga. Sem útskýrir þessa þögn undanfarið...

Kári notaði samt tækifærið á meðan tölvan var laus og skrifaði smá pistil, sjá hér.


2 dagar í LONDRES!!! Vúbbídú...
Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats