
Tónleikarnir með Damien Rice sem ég aulaðist til að missa af um daginn, sællar minningar, voru spilaðir núna áðan á Rás 2. Það er aðeins til að lina þjáningarnar að hafa fengið að heyra tónleikana, eftir að hafa heyrt útum allt að magnaðri tónleikar hefðu varla verið haldnir á þessu skeri okkar... þó ekki væri nema hlutfallslega séð - maður og gítar... síðan almáttugur má vita hvenær. Pípin bæði voru úti þannig að ég stillti græjurnar óhóflega hátt, lagðist upp í sófa og naut alls sem fyrir eyrun bar. Ef maður lokaði augunum var maður kominn niður á Nasa, fyrir utan bjórinn (hreinn aumingjaskapur að fá sér ekki eins og hálfan öl...) og sígarettureykinn (hann má sjálfsagt fá á spreybrúsa einhversstaðar en það varðar mig ekkert um).
Ég segi nú ekki annað en að það er eins gott að ég var ekki á staðnum; ég hefði farið upp á svið og beðið Damiens... hvernig er hægt að standast þennan mann? Röddin, krafturinn, næmnin, hlýjan og síðast en ekki síst... hinn ómótstæðilegi írski hreimur og allt hitt.. múzikin nottla... úff. Allavega lengi lifi Rás 2.. ef ekki væri fyrir þá hefði ég aldrei fengið að heyra tónleikana.
Af gefnu tilefni langar mig að taka fram að jafnréttislögin eru ekki barn síns tíma! Björn Bjarnason er barn síns tíma!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli