20. mars 2009

Játning!

Ég er að rækta gras!

Það virðist vera mikil tískubylgja í gangi núna og bókstaflega allir eru að rækta gras! Mitt heitir að vísu ekki Kannabis heldur Koriander. Að sjálfsögðu er ég líka að rækta sólblóm því ég stenst jú aldrei sólblómafræin þegar ég fer að skoða fræ á annað borð, samanber síðustu tilraun.

Svo er ég líka með graslauk - og að gera tilraun með Avocadostein og ætla mér að fá út úr honum eitt stykki tré, þó svo að ólíklegt sé að það gefi nokkuð af sér. Það sem er svo sprettharðast er svokallað kattagras (já ég sagði að ég væri að rækta gras!), en nú þegar sléttir 7 sólarhringar eru síðan ég sáði fræjunum er sprottið upp gras sem mælist heilir 8 cm. Maður bókstaflega sér það vaxa, það er ef maður hefði ekkert annað að gera en að horfa á það. Hið svokallaða Kattagras er altso ætlað kettinum og mun vera vítamínríkt og fínt og sérlega hentugt fyrir inniketti að kjamsa á. Það yrði nú sérdeilis skemmtilegt að hafa skakkan og hressan kött af grasi á heimilinu, þó mig gruni frekar að grasið eigi bara eftir að stingast upp í nefið á honum og gera hann þar með afhuga því strax.


Mest hlakka ég til þegar ég get farið að nýta Korianderið því stórkostlegri kryddjurt hef ég ekki vitað, hún er gjörsamlega guðdómleg á bragðið (mestmegnis notuð í matargerð austurlanda nær og suður-Evrópu) og það hrifin er ég af henni að Píp bíður bara eftir að henni verði hrært saman við skyrið, allt annað hefur borðið korianderkeim undanfarið.

Þegar öllu er á botninn hvolft veit ég ekki hvort ég eigi að hafa meiri áhyggjur af því að löggan banki upp á hjá mér með dóphund og geri Korianderið upptækt eða að ofvirka kattagrasið verði búið að éta okkur eina nóttina (eftir svona tvær vikur kannski) miðað við hvurslags ógurleg spretta er á því.

Engin ummæli:

Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
--> Free counter and web stats